Lesbók Morgunblaðsins - 21.05.2005, Blaðsíða 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 21. maí 2005
Ó
neitanlega er sérkennilegt að Íslendingar,
ótrauðir Portúgalsfarar til margra áratuga, skuli
núna vera í þann veginn að uppgötva meira en
aldargamla tónlistarhefð Portúgala, fado-
sönginn, miðað við hve fljótir þeir voru að kom-
ast á bragðið þegar flamenco-tónlistin var ann-
ars vegar, handan landamæranna.
Ef til vill á þetta sér eðlilegar skýringar. Fado-söngurinn hef-
ur aldrei verið hafður í sérstökum hávegum á Algarve-
ströndinni og öðrum ferðamannastöðum í Suður-Portúgal, held-
ur fer flutningur hans fyrst og fremst fram á vesturströndinni, í
Lissabon, Coimbra og Porto, þótt auðvitað hafi
hann dreifst víða með útvarpi, hljómflutnings-
tækjum og kvikmyndum.
Síðan má segja að fado sé tæpast eins ,,túr-
istavænt“ fyrirbæri og flamenco, þar sem áhrifa-
máttur hans liggur að töluverðu leyti í erfiðu tungumálinu og í
hefðum og ritúölum sem hafa lengi verið aðkomumönnum sem
lokuð bók. Loks var fátt gert til að endurnýja fado-sönginn á
tímum einræðisins í Portúgal, örva unga söngvara til að taka
hann til endurskoðunar, heldur varð hann að stöðnuðum tákn-
gervingi tilbúinnar og gamaldags ímyndar landsins. Hins vegar
þótti flamenco alltaf sexí. Og þótt hin mikla söngkona fado-
hefðarinnar, Amalia Rodrigues, sé sannarlega ein af glæsileg-
ustu söngkonum sinnar samtíðar, jafnoki Billie Holiday in
Bandaríkjunum og Edith Piaf í Frakklandi, þá gleymist stund-
um að vinsældir sínar gat hún öðrum þræði þakkað yfirvöldum,
sem notuðu hana óspart til að vinna áðurnefndri ímynd braut-
argengi á erlendum vettvangi.
Það er í rauninni ekki fyrr en með ,,nellikubyltingunni“ og af-
námi einræðis 1974 að nýir straumar fóru smám saman að leika
um portúgalska fado-sönginn. Með andláti Amalíu 1999 má
segja að loksins hafi myndast nauðsynlegt svigrúm fyrir yngri
kynslóð söngvara, kynslóð sem hvorki var þrúguð af sögunni né
tónlistarhefðinni.
Skjótur frami
Á undanförnum fimm árum hafa komið fram í dagsljósið óvenju
margar efnilegar söngkonur í Portúgal sem allar hafa sýnt
áhuga á að færa fado til nútíðar, og þá ýmist með ívafi samtíma
popptónlistar, franska ljóðsöngsins eða brasilískrar ryðma-
tónlistar, að ógleymdum þeim sem gera sér far um að end-
urskapa upprunalega fado-sönginn. Misia, Christina Branco,
Mafalda Arnauth, Ana Sofia Varela og Katia Guerreiro, allt eru
þetta afbragðs söngkonur hverra tónlist er hægt að nálgast á
netinu.
Engin þeirra hefur þó notið viðlíka athygli og hin 28 ára gamla
Mariza, sem er eitt af stóru trompum Listahátíðar í ár. Og er
ekki að undra, því mikil og tjáningarrík rödd hennar og texta-
meðferð minna á Amalíu upp á sitt besta – sýknt og heilagt er
verið að nudda stúlkunni upp úr þeim samanburði – auk þess
sem Mariza heillar áheyrendur sína með útliti sínu og fram-
komu. Söngkonan er hávaxinn og svipmikill kynblendingur,
móðirin frá Mósambík; hún skartar glannalega ljósu hári og stal-
laklippingu. Og í stað svörtu dragtarinnar, sem til skamms tíma
var einkennisbúningur fado-söngkvenna, íklæðist Mariza glæsi-
legum sérsaumuðum kjólum eftir helstu fatahönnuði Portúgala.
Ferill Marizu hefur verið undur skjótur. Hljómplötuútgefand-
inn Jorge Fernando heyrði hana syngja nokkur lög á veit-
ingastað í eigu foreldra hennar í Mouraria-hverfinu í Lissabon
árið 1999 og bauðst til að gefa þau út. Fyrsti geisladiskur henn-
ar, Fado em Mim kom út árið 2001 og sló í gegn, og síðan hefur
hún gefið út tvo geisladiska, Fado Curvo 2003, sömuleiðis mikið
,,hit“ og nýjasti diskur hennar Transparente var að koma á
markað, en hann er tekinn upp í Brasilíu af Jaques Mor-
elenbaum, upptökustjóra Caetano Veloso sem margir þekkja.
Og nú vilja allir syngja með Marizu, Janet Jackson, Sting,
Lenney Kravitz og einhvern tímann var því líka flíkað í popp-
pressunni að Björk hefði áhuga á að taka lagið með henni.
Kannski gefst tækifæri til þess núna.
Fado og blús
Þótt Mariza fari frjálslega með fado-arfleifðina, er hún óþreyt-
andi að minna áheyrendur sína á uppruna hennar og forvera
sína. En það er með fado eins og bandaríska blúsinn að það er
nokkrum erfiðleikum bundið að skilgreina hann nema út frá
sögu hans og umgjörð, inntakið og tilfinningaleg blæbrigði verða
menn að skynja á eigin skinni. Það er raunar lærdómsríkt að
hafa blúsinn til hliðsjónar í allri umræðu um fado. Bæði tónlist-
arafbrigðin verða sennilega til upp úr söng og danslist undir-
okaðra og heimilislausra þjóða; blúsinn sprettur af tónlist þræla
af afrískum uppruna en fado er að einhverju leyti afsprengi tón-
listarinnar sem barst til Portúgals frá Afríku og Brasilíu á 18.
öld, þegar nýlenduveldi Portúgala stóð í mestum blóma. Morna-
tónlistin á Grænhöfðaeyjum, sem Cesaria Evora er mikilhæfur
fulltrúi fyrir, er annað skemmtilegt afsprengi þessarar blöndu.
Hér skal því ekki haldið fram að blús og fado séu greinar á ná-
kvæmlega sama meiði, en þó er sláandi hversu oft menn grípa til
sömu hugtaka til að lýsa eðli og inntaki þessara tveggja tónlist-
arafbrigða.
Samasemmerki er gjarnan sett á milli blús og trega, í blústón-
list lýsa menn raunum sínum og búksorgum, gjarnan með vísan
til liðinnar hamingjutíðar, sömuleiðis þjást menn af blús, þ.e.
þunglyndi eða raunamæðu. Orðið fado er talið sprottið af lat-
neska orðinu fatum, örlög, og lykilorð flestra fado-söngtexta,
saudade, þýðir allt í senn eftirsjá, ílöngun, tregi og tilfinn-
ingahiti. Að auki verður fado-söngvurum tíðrætt um depurð
sína, tristeza, eða óhamingju, infelicidade, án þess að sorgirnar
séu þeim endilega þungar sem blý. Loks er það með fado eins og
blús og flamenco að hann geta menn hvorki kennt eða lært, held-
ur verður hæfileikinn til að syngja fado að búa innra með söngv-
aranum.
Tónlistarfræðingar eru helst á því að fado nútímans hafi orðið
til þegar áðurnefnd afrísk og suður-amerísk tónlist úr nýlend-
unum runnu saman við alþýðutónlist eða danskvæði, modhinas,
úr uppsveitum Portúgals. Á seinni hluta 19. aldar var þessi tón-
listarblanda orðin firna vinsæl meðal alþýðu í stærri borgum
landsins og fyrir vikið þótti hún lengi vel fremur lágkúruleg í
betri kreðsum, en eftir að útvarp og kvikmyndir komu til sög-
unnar öðlaðist fado viðlíka sess meðal Portúgala og flamenco
meðal nágranna þeirra, tangó í Argentínu og rebetika meðal
Grikkja. Í leiðinni urðu til tvö afbrigði fado-söngs, í Lissabon
réðu söngkonurnar ríkjum en í háskólaborginni Coimbra tóku
karlstúdentar fado upp á arma sér og sungu hann margraddað.
Og gera enn.
Enn sungið í svörtu
Strax á 19. öld var sjálfur flutningur fado-söngsins kominn í
mjög fastar skorður. Söngkonur íklæddust ævinlega svörtu og
báru svart sjal í minningu fyrstu ,,stóru“ fado-söngkonunnar,
Mariu Severu. Þær sungu um sára lífsreynslu, ástarsorgir eða
horfna tíð við undirleik tveggja tónlistarmanna. Annar þeirra
lék á sex strengja gítar, viola de fado eða viola braguesa með
fimm sinnum tveimur strengjum, hinn lék á það sem heimamenn
nefna guitarra Portuguesa sem er í raun tólf strengja lúta,
sennilega af enskum uppruna. Þetta er enn hið klassíska form á
fado-flutningi, en í seinni tíð hafa menn stundum bætt við
kontrabassa og harmónikku. Á nýjasta geisladiski sínum notar
Mariza að auki selló, ásláttarhljóðfæri, flautu og trompet.
Þrátt fyrir að fado hafi gengið í gegnum ýmsar breytingar og
hremmingar, hefur þessi tónlist hvorki steinrunnið né tapað
tengslum við upprunann, heldur lifir góðu lífi meðal almennings í
stærri borgum Portúgals. Vissulega eru svokölluð fado-hús eins
misjöfn og þau eru mörg; í Lissabon geta menn lent í einskæru
peningaplokki og sjóbisniss, rétt eins og á flamenco uppákomum
á sólarströndum Spánar. En með réttum samböndum má hafa
uppi á litlum stöðum í Alfama-hverfinu sem hvergi eru auglýstir,
þar sem koma saman á laugardagskvöldum verkakonur, bíl-
stjórar og búðarlokur til að syngja burt sút við gítarundirleik og
öflug viðbrögð jafningja sinna. Einnig er hægt að mæla með
Fado-safninu í Lissabon sem er náma alls kyns upplýsinga um
fado í bráð og lengd.
Mariza og fado-hefðin
Portúgalska söngkonan Mariza mun halda tvenna tónleika í
næstu viku, föstudaginn 27. maí og laugardaginn 28. maí.
Tónleikarnir eru liður í Listahátíð í Reykjavík, en eins og svo
oft áður ríður Listahátíð á vaðið með að kynna tónlistarhefð
fyrir landsmönnum, sem ekki hefur hljómað mikið í eyrum al-
mennings fram að þessu. Mariza er þó af mörgum talin meðal
helstu söngkvenna Evrópu. Hér er fjallað um fado-hefðina og
og tengsl hennar við önnur tónlistarafbrigði, til að mynda
blúsinn og morna-tónlistina frá Grænhöfðaeyjum sem Cesaria
Evora hefur kynnt fyrir þjóðum heims.
Fado-söngkonan Mariza Fadó er ekki „eins „túristavænt“ fyrirbæri og flamenco, þar sem áhrifamáttur hans liggur að töluverðu leyti í erf-
iðu tungumálinu og í hefðum og ritúölum sem lengi hafa verið aðkomumönnum lokuð bók, segir greinarhöfundur.
Aðalsteinn
Ingólfsson
adalart@
mmedia.is
’Þrátt fyrir að fado hafi gengið ígegnum ýmsar breytingar og
hremmingar, hefur þessi tónlist
hvorki steinrunnið né tapað
tengslum við upprunann, heldur
lifir góðu lífi meðal almennings í
stærri borgum Portúgals. ‘
Höfundur er deildarstjóri hönnunarsafns við Þjóðminjasafn Íslands.