Lesbók Morgunblaðsins - 10.09.2005, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 10.09.2005, Blaðsíða 4
4 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 10. september 2005 ingarleysi heimsins, sem í sjálfu sér er að gæða hann merkingu. Að mínu viti rísa fáir samtímahöfundar eins vel og Paul Auster undir því hlutverki bók- menntanna sem ég hef nú lýst, og það jafnvel þótt hann skrifi eftir að módernisminn hafði ráðist á hugmyndina um skáldið sem andlegan leiðtoga. Þá skiptir heldur ekki máli að hann skuli hafa verið flokkaður sem einn af helstu skáldum póst-módernismans, en sú stefna hef- ur verið tengd við afbyggingu höfundarhug- taksins og það að sífellt sé verið að benda les- andanum á að hann sé að lesa skáldverk. Þó vissulega megi finna þessi einkenni að meira eða minna leyti í öllum verkum Austers, þá eru þau langt yfir það hafin að vera marklaust fikt við þessar klisjur sem allir skilja. Þvert á móti getur maður engan veginn opnað bók eftir hann án þess að fá það á tilfinninguna að verið sé að segja manni eitthvað mikilvægt, eitthvað sem skiptir máli. En hvað? Þeirri spurningu er ekki hægt að svara með einföldum hætti, en e.t.v. er hægt að nálgast svarið með því að benda á hina miklu og sterku þörf Austers til að tjá sig, til að binda í skáld- skap reynslu sína af lífinu. En það var ekki tekið út með sældinni að vera heltekinn af þessari þörf. Í Hand to Mouth, frásögn sem Paul Auster birti 1997 þegar hann var orðinn fimmtugur, segir frá basli hans við að láta enda ná saman á fyrstu árum og áratugum rit- höfundarferilsins. Þar til hann var kominn vel á fertugsaldurinn gekk ekkert upp hjá honum fjárhagslega. Reyndar þótti hann liðtækur þýðandi úr frönsku og ein ljóðabók hans hafði komið út á prenti, en það dugði ekki til. Hann var kvæntur og átti lítið barn og þurfti að framfleyta bæði sér og þeim. Því stendur hann frammi fyrir því að þurfa að hætta þeirri iðju sem hefur gefið lífi hans stefnu og merkingu frá unglingsárum. En eins og hann lýsir því svo vel í þessari látlausu en skemmtilegu sjálfsævisögu, hafði hann fram að því ætíð neitað að gefa sig að fullri vinnu, því hann gat ekki hugsað sér að fórna skrifunum. Hvað var það sem var svona mikilvægt við að bogra yfir blaði með penna í hönd dögum, vikum, mánuð- um saman? Hvers vegna gat hann ekki hugsað sér lífið án þess að vera sífellt að skapa eitt- hvað úr orðum, jafnvel þótt enginn vildi lesa það? Hér komum við að einni af þversögnum skáldskaparins. Það er ekki hægt að hugsa sér meiri einstaklingsvinnu en starf rithöfundar- ins. Hann er einn með orðunum og reynir að smíða úr skynjun sinni, hugsun og reynslu veg til eigin sálar. En það merkilega er að leiðin þangað liggur einnig til annarra sálna. Því eins og við vitum öll, talar sú rödd sem kemur frá hjartanu beinast til okkar. Uppfinning einsemdarinnar Nú er Auster orðinn heimsfrægur höfundur og verk hans tala við þúsundir lesenda um gjörvallan heim. En það mátti litlu muna að hann gæfist upp fyrir nauðsyn þess að brauð- fæða sig og sína og legði bókmenntirnar á hill- una. Þótt það hljómi kaldranalega var það dauði föður hans, Samuels Austers, sem bjarg- aði honum frá þessum örlögum. Hann hné nið- ur einn góðan veðurdag og arfurinn sem féll í hlut Pauls dugði honum þar til að hann fór að geta lifað af skrifunum. Það var einmitt bókin sem kviknaði af dauða föður hans sem varð til þess að hann öðlaðist loksins athygli gagnrýnanda og almennings. Hún kom út 1981 og heitir The Invention of Solitude. Þetta er sérkennileg bók, lausamáls- verk en ekki skáldsaga. Fyrri hlutinn heitir Portrait of an Invisible Man, Mynd af ósýni- legum manni, og kom út á íslensku á síðasta ári í þýðingu Jóns Karls Helgasonar. Hún fjallar um ævi föður Austers en hefst á dauða hans. Auster segir föður sinn ósýnilegan en það er ekki vegna þess að hann sá hann aldrei í bernsku. Foreldrar hans skildu ekki fyrr en hann var sautján ára og því bjuggu þeir undir sama þaki meðan hann var að vaxa úr grasi. Ástæðan var sú að Auster náði aldrei sam- bandi við hann. Þrátt fyrir þessi löngu kynni og þótt Auster hafi aldrei hætt að þrá ást föður síns var eitthvað við Auster eldri sem hélt hon- um til baka, eitthvað innra svæði sem engum var hleypt inn á. Hann lifði á yfirborðinu og er Auster á því að það sé vegna þess að hann var sjálfur ekki í sambandi við sjálfan sig. Því leið hann áfram í gegnum lífið, glutraði niður hjónabandinu, gat ekki myndað tengsl við börnin sín, átti bara kunningja og svo bræður sína. Þó allt gengi vel á yfirborðinu var hann tilfinningalegt draugaskip, stefnulaust og líf- laust. Þetta rennur upp fyrir Auster þegar hann kemur heim til föður síns til að ganga frá eig- um hans. Svo lítið var eftir af þessu tómlega lífi að eftir örfáar vikur myndi það vera horfið af yfirborði jarðar. Hann ákveður að hann verði að skrifa um hann. Hann verður að bjarga föður sínum frá glötun. Meðan hann er að fara í gegnum dót hans kemur mynd upp í hendurnar á honum, mynd af föðurömmu hans. Hún situr úti í garði með börnunum sín- um fimm, faðir Austers sem er yngstur situr í kjöltu hennar, nokkurra ára gamall snáði. En það er eitthvað skrýtið við myndina. Hún hefur verið rifin og límd aftur saman en það vantar eitthvað í hana. Það rennur upp fyrir Auster að það sem vantar er sjálfur afi hans. Í ljós kemur að afi Austers, Harry Aust- er, austurrískur innflytjandi og fasteignasali í Kenosha í Wisconsin fylki, hafði farið frá konu sinni, ef til vill vegna annarrar konu. Hann var fluttur burt en ekki var búið að ganga frá skilnaðinum. Eitt kvöld kemur hann í heim- sókn til að færa börnum sínum fatnað og dytta að ýmsu sem er í ólagi á heimilinu. Hjónin fara að rífast og það endar á því að konan tekur upp byssu og skýtur Auster sem fellur dauður til jarðar. Í nokkra daga heldur konan því fram að maður hennar hafi framið sjálfsmorð en verður að lokum að játa glæp sinn. Hún fær góðan lögfræðing sem byggir vörn sína á því að konan hafi ekki verð heil á geðsmunum þeg- ar þetta gerðist, hún hafi brotnað undan álag- inu að þurfa standa ein uppi í ókunnu landi og sjá fyrir fimm litlum börnum. Kviðdómurinn aumkar sig yfir hana, hún sleppur við refs- ingu, flytur með fjölskyldu sína til austur- strandarinnar og gerir sitt besta til að má burt minninguna um eiginmann hennar og hroða- legt dauðsfall hans. Þetta skýrir myndina. Hvorki Auster né frændsystkinum hans er nokkurn tímann sagt frá því hvað gerðist og það er hrein tilviljun sem ræður því að þau komast að þessu löngu síðar. Feður þeirra hafa aldrei andað orði um þetta. Ef til vill er það til að faðir hans verði ekki fyrir sömu ör- lögum og afi hans, þ.e. að minningin um hann máist burt, sem Auster ákveður að skrifa, til að hann geti lifað áfram í minningunni, ef til vill vegna litla sonar síns sem hefur aldrei þekkt afa sinn en mun einhvern tímann þurfa á því að halda að vita hver hann var. Seinni hluti bókarinnar heitir einmitt Book of Memory eða Bók minnisins. Tveimur mán- uðum eftir dauða föður síns fer hjónaband Austers endanlega út um þúfur. Hann flytur frá konu sinni í litla íbúð á Manhattan. Hann saknar sonar síns og óttast að missa sambandi við hann. Tilhugsunin um það er óbærileg. Bók minnisins er að hluta til ferð í gegnum bók- menntir sem fjalla um samband föður og son- ar, feður sem missa syni sína, syni sem missa feður sína, syni sem bjarga föður sínum til að geta lifað sjálfir. Þetta er nokkurs konar hug- leiðing um þýðingu þess að eiga sér forfeður og afkomendur, að vera hlekkur í keðju og hvernig það hefur áhrif á mann sem ein- stakling. Einnig fjallar hún um mátt minnisins og hvernig það getur hjálpað manni að komast yfir sorgina. Það er táknrænt að hún hefst á eftirfarandi orðum: „Það var. Það verður aldrei aftur.“ En lýkur svona: „Það var. Það verður aldrei aftur. Mundu.“ Drepinn úr dróma Það er eins og Auster hafi verið leystur úr læðingi með þessari bók. Næsta áratuginn kemur út hvert afrekið í skáldsöguformi á fæt- ur öðru. Það eru sögurnar þrjár sem mynda New York þríleikinn sem tryggðu honum þann stóra lesendahóp sem hefur ekki yfirgefið hann síðan. Upphaflega voru þetta þrjár sjálf- stæðar skáldsögur, sem allar voru þýddar á ís- lensku á sínum tíma af Braga Ólafssyni og Snæbirni Arngrímssyni. Fyrst kom Gler- borgin sem fjallar um glæpasagnahöfundinn Daniel Quinn sem þykist vera leynilögreglu- maðurinn Paul Auster og er ráðinn af Peter Stillman yngri til að fylgjast með Peter Still- man eldri sem er nýlega laus af geðveikrahæli en hafði misþyrmt syni sínum hrottalega á ár- um áður. Svo komu Draugar, enn furðulegri saga um hr. Bláan sem er ráðinn af hr. Hvítum til að fylgjast með hr. Svörtum sem gerir ekk- ert annað en að skrifa allan daginn. Loks er það magnaðasta sagan af þeim þremur, Lokað herbergi. Hún er að mörgu leyti flóknasta og erfiðasta sagan í Þríleiknum. Andstætt fyrri sögunum tveimur er hér um fyrstu persónu frásögn að ræða, söguhetjan er líka sögumaður. Hún er líka miklu nær þeim raunveruleika sem við eigum að venjast. Sögu- maðurinn, sem við fáum reyndar aldrei að vita hvað heitir, er bókmenntagagnrýnandi í New York. Hann er tæplega þrítugur og hefur gefið frá sér fyrri vonir um að verða rithöfundur, er orðinn sáttur við þau áhrif sem hann getur haft sem bókmenntaskríbent. Einn góðan veð- urdag fær hann bréf frá konu sem hann þekkir ekki en heitir Sophie Fanshawe. Hún er kona Fanshawes sem var æskuvinur sögumanns. Þeir ólust upp hlið við hlið og voru eins nánir og vinir geta orðið þar til leiðir skildu þegar þeir fóru hvor í sinn háskólann. Af einhverjum ástæðum misstu þeir sjónar hvor af öðrum. Fyrir sex mánuðum síðan hvarf Fanshawe. Kona hans var þá komin sex mánuði á leið og full örvæntingar lét hún leita hans, réði meira að segja einkaspæjara en ekkert gekk. Fan- shawe hlaut að vera látinn. Barnið fæddist og átti hug hennar allan fyrstu mánuðina en nú þarf hún að hitta sögumanninn vegna þess að Fanshawe bað hana um að leita til sögumanns- ins af ákveðnum ástæðum ef eitthvað kæmi fyrir hann. Sögumaðurinn hittir hana og heillast undir eins af fegurð hennar og líflegri framkomu og kemst að því hver ástæðan var fyrir því að hún leitaði til hans. Fanshawe, sem hafði alltaf verið sípárandi í bernsku, hafði haldið áfram að skrifa. Hann hafði aldrei haft áhuga á að gefa nokkuð út en sagt við Sophie konu sína að ef eitthvað kæmi fyrir hann skyldi hún biðja sögumanninn um það. Sá síðarnefndi tekur að sér að skoða hand- ritin og brátt rennur upp fyrir honum að bæk- urnar sem æskuvinur hans hefur samið eru slík meistaraverk að þau muni brjóta blað í bókmenntasögunni. Fanshawe er greinilega séní á sviði ritlistarinnar og hann á auðvelt með að fá útgefendur. Bækurnar vekja mikla athygli og sögumaðurinn fær fjórðung ritlauna en það var eitt af því sem Fanshawe hafði sagt við Sophie. Það gleður hann vissulega en það sem skiptir meira máli er að djúp og innileg ást tekst með honum og ekkju Fanshawes. En brátt hrynur þessi fagra veröld sem sögumaðurinn hefur gengið inn í. Fanshawe skrifar sögumanninum til að segja honum að hann sé á lífi en hann eigi að leyna því og halda áfram að vera giftur konu hans og ala upp son hans. Sögumaðurinn gengst inn á þetta, svo viss er hann um að Sophie muni hætta að elska sig þegar hún kemst að því að Fanshawe er enn lifandi. Undir óttanum býr minnimáttar- kennd. Hann er hræddur um að hann sé minni maður en Fanshawe í augum Sophie, heyrir ekki það sem hún er alltaf að segja honum, þ.e. að hún elski hann miklu meira en hún elskaði Fanshawe. Í stað þess að trúa henni fyrir því, verður sú staðreynd að Fanshawe er enn á lífi að viðureign sögumannsins við sjálfan sig, eða ef til vill við tvífarann í sjálfum sér. En þessi viðureign fer fram í undirvitundinni því sögu- maðurinn getur ekki horfst í augu við það sem er að koma fyrir hann. Upp hefst hræðileg martröð sem nærri því leggur hjónaband og líf sögumannsins í rúst. New York þríleikurinn er einstakt listaverk. Það er í senn hluti af langri hefð í bókmennt- unum þar sem það byggir á hinu sígilda tví- faraminni en um leið mjög nýstárlegt. Nýstár- leiki þess felst ekki síst í því hvernig Auster vinnur markvisst að því að tengja sögurnar þrjár saman þannig að úr verði heild sem flyt- ur okkur merkingu sem ekki væri hægt að koma til skila á annan hátt. Sögurnar þrjár bergmála hver aðra með ýmsum hætti þar sem minnst er á bækur, eða bæjarhluta eða persónur í einni þeirra sem einnig koma við sögu í annarri. Það sem er ef til vill markverð- ast er þó hvernig Auster hefur komið sjálfum sér fyrir í sögunni. Hann hikar ekki við að setja sjálfan sig á svið í fyrstu bókinni en það er ekki bara það. Persónur heita eftir börnum hans: Daniel Quinn ber sama skírnarnafn og sonur hans. Sophie Fanshawe sama og dóttir hans. Einnig hefst frásögn Drauga á fæðing- ardegi Austers sjálfs, 3. febrúar 1947. Margir helstu æviþættir Fanshawes, vinna á olíu- skipum, dvöl í Frakklandi, vetur í Suður- Frakklandi þar sem hann passar hús fyrir efn- aða Ameríkana, endurspegla æviatriði Aust- ers. Þegar sögumanninum í Lokuðu herbergi tekst loks að losna undan Fanshawe og verða að manni aftur fæðist honum sonur sem fær nafnið Paul, eins og Auster. Þarna er verið að tengja endurfæðingu sögumanns við einhvers konar endurfæðingu Pauls Austers sjálfs, ef til vill fæðingu hans sem skáldsagnahöfundar. Að auki fæðist drengurinn 23. febrúar 1981, en Auster hefur sagt að það sé dagurinn sem hann kynntist konu sinni Siri Hustvedt og hóf nýtt líf. Persónulegur heimur, frjór og víðfeðmur New York þríleikurinn er afskaplega persónu- leg bók. Ganga má svo langt að kalla hana eins konar einkagoðsögn, sem virðist hafa opnað Auster leið að sjálfum sér og einnig losað um skáldsagnaritun hans. Á þeim tuttugu árum sem liðin eru síðan Glerborgin kom út, hafa skáldsögur hans orðið tólf talsins, auk fjölda ritgerða, sjálfsævisögulegra skrifa og kvik- myndahandrita. Auster hefur einnig leikstýrt tveimur kvikmyndum og mun sú þriðja vera í vinnslu. Hver saga er einstök og þótt ævinlega sé hægt að þekkja handbragðið og mörg þemu skjóta upp kollinum aftur og aftur, þá býr Auster yfir miklum endurnýjunarkrafti. Það er alltaf ævintýri að opna nýja bók eftir hann, leggja við hlustir og heyra það sem hann hefur að segja við okkur um heiminn og hvernig það er að vera manneskja í honum. Paul Auster les úr verkum sínum í Iðnó á fimmtudag kl. 20 og ræðir um verk sín við Torfa Tulinius í Norræna húsinu daginn eftir kl. 15. „Bréf frá týndri brúðu“ Morgunblaðið/Halldór Kolbeins Paul Auster „Það er alltaf ævintýri að opna nýja bók eftir hann, leggja við hlustir og heyra það sem hann hefur að segja við okkur um heiminn og hvernig það er að vera manneskja í honum.“ Höfundur er prófessor í frönsku og miðaldafræðum við Háskóla Íslands.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.