Morgunblaðið - 28.05.2005, Side 18
18 LAUGARDAGUR 28. MAÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ
ERLENT
FRANSKIR fjölmiðlar sögðu í gær
að ákall Jaques Chiracs, forseta
Frakklands, á fimmtudaginn hefði
verið ,„of lítið, of seint“. Flestir kjós-
endur hefðu þegar gert upp hug sinn
varðandi stjórnarskrársáttmála Evr-
ópusambandsins og að þeir myndu
líklega hafna henni í þjóðaratkvæða-
greiðslu morgun.
Í gær var lokadagurinn í kosninga-
baráttunni og naut Chirac fulltingis
Gerhards Schröders, kanslara
Þýskalands, og Jose Luis Rodriguez
Zapatero, forsætisráðherra Spánar,
sem komu til Frakklands í gær til að
reyna í síðasta sinn að sannfæra efa-
semdamenn á vinstri vængnum um
mikilvægi stjórnarskrárinnar. Ætl-
uðu þeir fyrst og fremst að reyna að
hafa áhrif á stuðningsmenn Evrópu-
sinnaðra sósíalista en sósíalistar hafa
verið mjög tvístraðir í afstöðu sinni til
stjórnarskrárinnar.
Efri deild þýska þingsins sam-
þykkti í gærmorgun stjórnarskrár-
sáttmála Evrópusambandsins.
Þýskaland er því níunda ríkið til að
samþykkja stjórnarskrána en öll 25
aðildarríkin þurfa að samþykkja hana
til að hún taki gildi. Talsmaður fram-
kvæmdastjórnar Evrópusambands-
ins segir þýsk stjórnvöld hafa með
þessu sent sterk skilaboð til Frakka
og Hollendinga sem ganga til þjóð-
aratkvæðagreiðslu um stjórnar-
skrána á næstu dögum, Frakkar á
morgun og Hollendingar þremur
dögum síðar. Skoðanakannanir í
löndunum hafa sýnt að möguleiki sé á
að báðar þjóðirnar hafni henni.
Valery Giscard d’Estaing, fyrrver-
andi forseti Frakklands, ávarpaði
þýska þingið áður en gengið var til at-
kvæða en hann er einn höfunda
stjórnarskrárinnar. Sagðist hann
innilega vona að samlandar sínir sam-
þykktu stjórnarskrána á sunnudag-
inn.
Forn frægð, fornir draumar
Eins og fram kemur í nýjasta hefti
The Economist geta Frakkar státað
sig af því að vera sú þjóð sem kom
Evrópusamrunanum af stað. Árið
1950 lagði Robert Schuman, þáver-
andi utanríkisráðherra Frakka, til
samvinnu á sviði kola- og stálfram-
leiðslu. Kola- og stálbandalag Evrópu
varð fyrsti vísirinn að því að efla sam-
starf Evrópuríkja. Markmið þess var
að leitast við að gera ríkin efnahags-
lega háð hvert öðru því þannig yrði
verulega dregið úr líkum á því, að þau
gripu til vopna til að gera út um
ágreiningsmál sín. Síðan þá hafa
Frakkar verið í aðalhlutverki í Evr-
ópusamrunanum og tekið þátt í öllum
verkefnum honum tengdum.
Umræðan í Frakklandi snýst þó
ekki aðeins um væntanlega stjórnar-
skrá, heldur einnig um framtíð
Frakklands.
Eins og segir í fyrrnefndu hefti
The Economist hefur sýn Frakka á
sameinaða Evrópu breyst verulega
frá því sem áður var. Í upphafi sáu
þeir í sameinaðri Evrópu öryggi, full-
vissu og athvarf frá þýskri þjóðern-
ishyggju og fátækt. Nú líta þeir á
hana sem ógn við hin frönsku sér-
kenni. Auk þess er í Frakklandi mikil
andstaða gegn því að Tyrkland fái
inngöngu í Evrópusambandið en
margir Frakkar líta svo á að hin
væntanlega stjórnarskrá greiði Tyrk-
landi leið inn í sambandið. Með inn-
göngu Tyrklands óttast Frakkar að
þeir missi enn frekar þau ítök sem
þeir eitt sinn höfðu í sameinaðri Evr-
ópu.
Frakkar óttast einnig að stjórnar-
skráin geri ódýru erlendu vinnuafli,
sérstaklega frá Mið- og Austur Evr-
ópu, auðveldara fyrir að komast inn á
franskan vinnumarkað en atvinnu-
leysi mælist nú 10,2% í landinu. Þessi
ótti er ekki úr lausu lofti gripinn því
franskur iðnaður hefur að einhverju
leyti nú þegar verið fluttur út fyrir
landsteinana þangað sem efni og
vinnuafl er ódýrara.
„Annars konar stjórnarskrá“
Nýleg stækkun Evrópusambands-
ins til austurs hefur einnig áhrif á það
hverjum augum Frakkar líta sam-
runann. Eftir að tíu ný ríki gengu í
sambandið 1. maí 2004 finnst þeim
rödd sín ekki hljóma eins hátt innan
sambandsins og þeim finnst tungu
sinni og framtíð ógnað. Einnig upp-
lifðu margir þeirra höfnun þegar þeir
gátu ekki komið í veg fyrir innrásina í
Írak og sáu að Evrópuþjóðirnar stóðu
síður en svo sameinaðar að baki þeim.
Hafni Frakkar stjórnarskránni
mun það veikja stöðu Jacques Chir-
acs forseta verulega og líklega koma í
veg fyrir að hann geti setið kjörtíma-
bil til viðbótar. Hann hefur þegar lýst
því yfir að hann muni ekki feta í fót-
spor fyrirrennara síns, Charles de
Gaulle og segja af sér, en de Gaulle
beið ósigur í þjóðaratkvæðagreiðslu
árið 1969. Verði stjórnarskránni
hafnað eða hún studd með naumum
meirihluta mun hann þó líklega
skipta út forsætisráðherranum, Jean-
Pierre Raffarin, sem hefur verið
mjög óvinsæll.
Margir Frakkar segjast vilja „ann-
ars konar stjórnarskrá fyrir annars
konar Evrópu“ og telja að hægt verði
að semja nýja, betri stjórnarskrá
verði þessi felld. Leiðtogar annarra
Evrópuþjóða telja það þó ekki raun-
hæfan kost.
Ákall Chiracs
þótti ,,of lítið,
of seint“
55% Frakka eru á móti stjórnarskrár-
sáttmála ESB en 45% styðja hann
Reuters
Fulltrúar á Evrópuþinginu standa fyrir utan þinghúsið í París og hvetja Frakka til að segja „já“ við væntanlegri
stjórnarskrá Evrópusambandsins þegar hún verður lögð til þjóðaratkvæðagreiðslu á sunnudaginn.
Eftir Jóhönnu Sesselju Erludóttur
jse@mbl.is
Islamabad. AP. | Að minnsta kosti 20
manns féllu og tugir til viðbótar særð-
ust í því sem talið er hafa verið sjálfs-
morðsárás í nágrenni Islamabad, höf-
uðborgar Pakistan, í gær.
Sprengingin varð við helgistað sjíta-
múslíma sem voru samankomnir við
bænahald hundruðum saman.
Sjónarvottar segja að sprengingin
hafi verið gríðarlega öflug og því sé
ómögulegt að segja nákvæmlega til
um hversu margir hafi fallið. Aðstæð-
ur á vettvangi voru sagðar „eins og í
helvíti,“ og má búast við að dánartal-
an eigi eftir að hækka þar sem enn á
eftir að koma í ljós um hversu mörg
lík er að ræða auk þess sem margir
hinna slösuðu eru taldir í lífshættu.
Enginn hefur lýst tilræðinu á hend-
ur sér en talið er að það tengist lang-
varandi átökum súnníta og sjíta í
landinu.
20 féllu og tugir særðust
Búkarest. AP.| Rúmenskir saksóknar-
ar fullyrtu í gær að ránið á blaða-
mönnunum þremur, sem leystir voru
úr haldi í vikunni eftir að hafa verið í
haldi í 55 daga í Írak, hafi verið
skipulagt í Rúmeníu. Segja þeir að-
mannránið sé runnið undan rifjum
auðkýfingsins Omars Hayssan, sem
er sýrlenskur að uppruna.
Hayssan, sem er einn af ríkustu
mönnum Rúmeníu, hefur undanfarið
sætt lögreglurannsóknar vegna fjár-
málamisferlis. Talið er að hann hafi
vonast til þess að með því að
„bjarga“ gíslunum fengi hann aukna
samúð og jafnvel mildari dóm.
„Mannráninu og hótunum mann-
ræningjanna í Írak var ætlað að hafa
sterk sálfræðileg áhrif á þjóðina og
láta Hayssan síðan líta út fyrir að
vera bjargvættur blaðamannanna,“
sagði í yfirlýsingu frá rúmenska sak-
sóknaraembættinu í gær.
Leiðsögumaðurinn
var með í ráðum
Upplýsingar saksóknaranna
byggjast á vitnisburði níu manns
sem handteknir voru í Bagdad og
greindu frá því að Hayssan hefði
ásamt Mohammed Monaf, írask-
bandarískum leiðsögumanni blaða-
mannanna, skipulagt allt mannráns-
ferlið. Monaf var „rænt“ með blaða-
mönnunum þremur og sást hann á
þeim myndböndum sem mannræn-
ingjarnir sendu frá sér af gíslum sín-
um. Stuttu eftir mannránið sagðist
Hayssan svo hafa fengið símtal þar
sem farið var fram á að hann greiddi
mannræningjunum fjórar milljónir
Bandaríkjadollara (sem svarar 260
milljónum króna) gegn því að gísl-
arnir yrðu látnir lausir.
Hayssan neitaði því fyrir rétti að
hafa átt þátt í mannráninu. Hann
sagði að hlutur sinn í málinu hefði
snúið að því að afla fé til lausnar gísl-
unum auk þess sem forseti landsins,
Train Basescu, hefði beðið hann að
nota sambönd sín í Bagdad til að
greiða fyrir lausn þeirra.
Blaðamennirnir, sem komu til síns
heima á mánudag, hafa ekki tjáð sig
um mannránið opinberlega en hafa
boðað blaðamannafund á næstu dög-
um. Í gær var gefin út handtökutil-
skipun á hendur bæði Hayssan og
Monaf vegna ásakana um hryðju-
verkastarfsemi.
Mannránið skipu-
lagt í Rúmeníu
Auðkýfingur lét ræna blaðamönnum
í Írak svo hann gæti „bjargað“ þeim
Washington. AP, AFP. | Bandarískir
embættismenn sögðu í gær, að vitað
væri með vissu um fimm tilfelli þess,
að Kóraninn, hin helga bók múslíma,
hefði verið óvirtur í fangabúðum
Bandaríkjamanna í Guantanamo á
Kúbu. Engin áreiðanleg sönnun
væri þó fyrir því, að honum hefði
verið sturtað niður um salerni.
Ásakana um, að fangaverðir hafi
sturtað niður Kóraninum er getið í
skjölum starfsmanns FBI, banda-
rísku alríkislögreglunnar, árið 2002
og tímaritið Newsweek hélt því
einnig fram í grein, sem það var
neytt til að draga til baka. Olli hún
uppnámi í nokkrum múslímskum
löndum og féllu að minnsta kosti 15
manns í mótmælaaðgerðum. Fór
Bandaríkjastjórn hörðum orðum um
Newsweek og sakaði það um að hafa
„varanlega“ skaðað ímynd Banda-
ríkjanna meðal múslíma.
Ásetningur í þrjú skipti
Jay Hood hershöfðingi sagði á
fréttamannafundi í fyrradag, að
ásakanir um að Kóraninn hefði verið
svívirtur væru 13 en sannanir fyrir
slíku lægju fyrir í fimm tilvikum.
Fjórum sinnum hefðu fangaverðir
átt í hlut en einu sinni maður, sem
annaðist yfirheyrslur. Þrisvar sinn-
um hefði verið um ásetning að ræða
en tvisvar vangá. Vildi Hood ekki
segja frá því í hverju óvirðingin
hefði falist.
Lawrence Di Rita, talsmaður Don-
ald H. Rumsfelds varnarmálaráð-
herra, var á fundinum með Hood og
sagði, að nú ætti að vera ljóst, að í
Guantanamo væri borin mikil virð-
ing fyrir trú fanganna.
Krefst refsingar
Nokkrir breskir ríkisborgarar og
fyrrverandi fangar Bandaríkja-
manna í Afganistan og Guantanamo
ítrekuðu á mánudag, að þeir hefðu
margsinnis orðið vitni að saurgun
Kóransins. Þá hefur Pervez Mush-
arraf, forseti Pakistans, krafist þess,
að Bandaríkjastjórn refsi þeim harð-
lega, sem óvirtu Kóraninn, en ýmsir
íslamskir hópar í Pakistan höfðu
boðað til mótmæla í gær víða um
landið.
Viðurkenna að Kóraninn
hafi verið saurgaður
AP
Þúsundir Pakistana mótmæltu vanhelgun liðsmanna Bandaríkjahers á Kóraninum í Islamabad í gær.