Morgunblaðið - 24.07.2005, Side 14
14 SUNNUDAGUR 24. JÚLÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ
H
inn 13. ágúst hefst
keppni í ensku úrvals-
deildinni í knattspyrnu á
nýjan leik. Íslenskir
áhugamenn um þessa
vinsælustu deildakeppni
í heimi nutu þess á síð-
asta vetri að fylgjast
með fjölda leikja í viku hverri í opinni dag-
skrá á Skjá einum, sem yfirbauð Sýn og náði
til sín útsendingarréttinum. Á nýju stöðinni,
Enska boltanum, verða meira en helmingi
fleiri leikir í boði en síðasta vetur. En nú er
ekki um opna dagskrá að ræða, áhugamenn
um ensku knattspyrnuna þurfa að setja sig
inn í nýja tækni og greiða fyrir herlegheitin.
Magnús Ragnarsson, sjónvarpsstjóri
Skjás eins, sagði að breytingarnar væru
miklar.
„Nú er komið að því að sjónvarp á Íslandi
verður ekki bara stafrænt, heldur líka gagn-
virkt. Það þýðir að nú færðu ekki bara gögn-
in send heim til þín, heldur getur þú svarað
til baka. Það er sem sagt kominn kapall í
báðar áttir. Hin nýja „Myndveita“ Skjás
eins er nánast eins og myndbandaleiga í
heimahúsi. Þú getur valið mynd eða þátt og
skoðað hann þegar þú vilt, stoppað, ýtt á
pásu. Þú ert í raun með spólu á leigu í einn
dag. Enski fótboltinn kemur ekki inn í þetta
á myndveituformi til að byrja með en síðar
meir verður hægt að nýta sér Myndveituna
til að velja sér ákveðna þætti, eldri leiki og
fleira í þeim dúr.“
Hvernig kemur þá enska knattspyrnan
inn í þetta í næsta mánuði?
„Nú er ekki lengur um að ræða takmark-
aða bandbreidd eða rásafjölda og það er
stóra byltingin. Áður þurfti að setja upp sér-
staka senda fyrir hverja rás og fá úthlutað
tíðni en það er úr sögunni. Nú er hægt að
velja um hvaða leik þú vilt sjá þó margir
leikir séu í gangi í einu. Á laugardögum geta
áhugamenn um ensku knattspyrnuna farið
inn á sjónvarpsstöðina Enski boltinn og val-
ið á milli þeirra fimm leikja sem þá eru í
gangi á sama tíma. Þá opnum við einfaldlega
fimm rásir fyrir leikina. Þó um 20 leikir
væru á sama tíma, væri þetta ekkert vanda-
mál, þá myndum við bara búa til 20 rásir
fyrir þá.“
Tvær dreifileiðir, breiðbandið og ADSL
„Enska knattspyrnan verður í boði á
tveimur dreifileiðum. Í ADSL-sjónvarpinu
og á breiðbandinu. Nú þegar eru 40 þúsund
heimili tengd breiðbandinu og um að gera
fyrir fólk að nýta sér það ef það getur. Það
er líka dreifileið með ótakmörkuðum fjölda
rása. En breiðbandið er takmarkað að því
leyti að það er ekki gagnvirkt, það verður
ekki að myndveitu heima í stofu eins og
möguleikinn er með ADSL-sjónvarpið, sem
jafnframt býður uppá alls konar hluti sem
ekki hafa áður þekkst í sjónvarpi. Það verð-
ur svipað og að vera á Netinu, þú getur sent
upplýsingar til baka og það verður til dæmis
ekkert mál að tippa á leiki í gegnum sjón-
varpið.“
Hvað þarf hinn almenni áhugamaður um
ensku knattspyrnuna að gera áður en úr-
valsdeildin hefst hinn 13. ágúst?
„Það fer eftir því hvar hann er staddur í
sjónvarpsvæðingunni í dag. Sumir eru
tengdir og tilbúnir, bæði þeir sem eru á
breiðbandinu og svo þeir sem þegar hafa
fengið ADSL-sjónvarp. Það eru nokkur þús-
und heimili því þegar það kom upp síðasta
vetur að útsendingar Skjás 1 næðust ekki
alls staðar, fórum við af stað með átak og
tengdum mörg bæjarfélög, á Vestfjörðum og
víðar um land, með ADSL.
Nú þegar eru tugir þúsunda Íslendinga
með ADSL-áskrift hjá Símanum og eru þar
með sínar nettengingar. Það sem þeir þurfa
að gera er að hafa samband við Símann og
fá sinn búnað uppfærðan til að geta tekið við
okkar efni. Nettengingin og sjónvarpið fara
í gegnum svokallaðan beini („router“ á
ensku) og það getur þurft að skipta um
hann. Síminn leggur til búnaðinn sem er
innifalinn í áskriftinni, ásamt myndlyklinum
sem fylgir og þarf að tengjast við beininn og
yfir í sjónvarpið. Þetta er því enginn auka-
kostnaður fyrir þá sem eru með ADSL-
áskrift, aðeins mánaðargjald sem er 1.990
krónur á mánuði í 10 mánuði. Það eru ekki
mörg heimili þar sem fótboltaáhugamenn
eru til húsa, sem eru ekki með nettengingu.
Hún er á góðri leið með að verða jafn sjálf-
sögð og kalda vatnið hér á landi.“
Það bætist sem sagt við myndlyklaflóru
landsmanna með þessu.
„Já, það er ekki hægt að komast hjá því,
en Síminn útvegar myndlykilinn og það er
engin fjárfesting, hann er innifalinn í verð-
inu. Þjónustuver Símans sér alfarið um þessi
mál, tæknimaður þaðan mætir á staðinn og
setur tenginguna upp.“
Stóru liðin spila ekki á sama tíma
Á mörgum heimilum eru nokkur sjónvörp.
Getur hver og einn horft á sinn leik í sínu
herbergi þegar margir eru sendir út í einu?
„Nei, það er bara fluttur einn leikur í einu
á þitt heimili. Það verður sama dagskráin í
öllum sjónvarpstækjunum þannig að það
verður að vera sátt um hvaða leik er fylgst
með hverju sinni, þegar valinn er einn leikur
af mörgum sem eru í boði á sama tíma. En í
þessu efni er ekki mikið að óttast, það er
Sky sem raðar niður leikjunum í úrvals-
deildinni og þess er gætt að stærri liðin spili
aldrei á sama tíma. Menn hafa væntanlega
tekið eftir því að leikir Arsenal, Chelsea,
Liverpool og Manchester United eru yf-
irleitt ekki inni í leikjaþvögunni á miðjum
laugardegi. Hættan á árekstrum er því ekki
mikil, helst að stuðningsmenn minni félag-
anna geti lent í vandræðum sín á milli ef t.d.
Wigan og Fulham spila á sama tíma.“
Verða að bregðast snöggt við
Nú eru aðeins þrjár vikur þangað til
keppni hefst í ensku úrvalsdeildinni. Hvað
þurfa áhugamenn um hana langan tíma til
að koma sínum tengingum í lag?
„Það er nefnilega málið sem ég held að
þeir geri sér ekki allir grein fyrir. Álagið er
byrjað, og ég óttast það mest að margar
„boltabullur“ fái áfall þegar 13. ágúst rennur
upp og þær átta sig á því að aðgangurinn er
ekki tilbúinn. Enski fótboltinn fer nefnilega
alfarinn af Skjá einum og yfir á Enska bolt-
ann. Síminn er um þessar mundir að tengja
um eitt þúsund heimili á viku við ADSL-
sjónvarpið en nú þegar eru um þrjú þúsund
á biðlista sem sífellt lengist. Þeir sem hafa
ekkert gert í sínum málum verða að bregð-
ast snöggt við ef þeir ætla að ná að vera
með frá byrjun.“
Árekstrar við dagskrá
á Skjá einum úr sögunni
Magnús segir að því sé ekki að leyna að
það hafi ekki allir verið sáttir við hve fyr-
irferðarmiklir ensku leikirnir voru í dagskrá
Skjás eins síðasta vetur.
„Nei, þetta var ekki mjög hamingjusamt
hjónaband og ég þurfti stundum að svara
fyrir árekstra útsendinga frá Englandi við
hina ýmsu þætti okkar. En með nýju stöð-
inni er þetta alfarið úr sögunni. Hvað efnið
sjálft, ensku knattspyrnuna, varðar þá var
upplifun okkar af henni mjög góð. Það höfðu
sumir áhyggjur af þessari þróun mála þegar
við keyptum útsendingarréttinn, menn ótt-
uðust að við næðum ekki að sinna ensku
knattspyrnunni sem skyldi, en við slógum á
þær áhyggjur strax í upphafi. Við sýndum
gríðarlegt magn af leikjum síðasta vetur, um
140 talsins, en við ætlum að toppa það ræki-
lega á komandi tímabili og bjóða upp á um
eða yfir 300 leiki. Í raun gætum við sýnt
hvern einasta leik í deildinni en við ráðum
því ekki algjörlega og Knattspyrnusamband
Íslands getur lokað á suma þeirra ef þeir
rekast á knattspyrnuleiki hér heima.“
Enskir þulir í viðstöðulausu endurvarpi
Í fyrra urðu talsverð læti þegar þið hófuð
að senda út leiki með enskum þulum. Hvern-
ig verða þau mál hjá ykkur í vetur?
„Það mæltist gríðarlega vel fyrir hjá
mörgum að hafa þetta blandað eins og það
var hjá okkur til að byrja með, íslenskir þul-
ir á sumum leikjum og enskir á öðrum. Síð-
an vorum við kærðir af Sýn, eins og frægt
er, og vorum alfarið með íslenska þuli eftir
það. Á aðalrásinni, Enska boltanum, verða
íslenskir þulir en þegar við setjum upp
aukarásir fyrir hliðarleikina, þegar hægt er
að velja um marga í einu, verður viðstöðu-
laust endurvarp og þá getum við notað
ensku þulina án þess að brjóta reglur.“
Enska knattspyrnan var í opinni dagskrá
síðasta vetur í gjaldfrjálsu sjónvarpi. Óttist
þið ekki slæm viðbrögð við því að flytja hana
yfir á þetta form þar sem fólk þarf að greiða
fyrir dagskrána og koma sér upp sérstökum
búnaði?
„Nei, ég held að það sé ekkert vandamál.
Ég tel að við höfum endurvakið mjög áhug-
ann á ensku knattspyrnunni hér á landi,
enda var það tilgangurinn með því að vera
með hana í opinni dagskrá. Yngri kynslóðin
tók sérstaklega við sér. Enska knattspyrnan
var búin að vera lengi í lokaðri dagskrá hjá
Sýn og Stöð 2. Í raun hefur umfjöllunin allt-
af batnað. Menn voru fúlir á sínum tíma
þegar enska knattspyrnan fór af RÚV yfir á
Stöð 2 og Sýn en þá kom í ljós að þar var
henni betur sinnt en gert hafði verið á RÚV.
Menn voru efins um að við gætum gert bet-
ur en Sýn en það tókst og nú erum við að
færa okkur enn lengra,“ sagði Magnús
Ragnarsson.
Nýja sjónvarpsstöðin Enski boltinn fer á fullt 13. ágúst
„Við gætum sýnt hvern
einasta leik í vetur“
Nýtt skeið er runnið upp í íslensk-
um sjónvarpsmálum. Senn geta
áhugamenn um ensku knattspyrn-
una horft á nánast alla leiki og val-
ið á milli leikja sem eru á sama
tíma. Skjár einn hefur opnað sjón-
varpsstöðina Enski boltinn og not-
ar nýja tækni til að skila efninu inn
á heimili landsmanna.
Víðir Sigurðsson ræddi við Magnús
Ragnarsson, sjónvarpsstjóra Skjás
eins, um útsendingar frá ensku
knattspyrnunni og breytingar sem
verða á þeim með tilkomu nýju
stöðvarinnar.
Morgunblaðið/ÞÖK
Magnús Ragnarsson, sjónvarpsstjóri Skjás eins: „Nettenging er á góðri leið með að verða jafn sjálf-
sögð og kalda vatnið hér á landi.“
vs@mbl.is