Morgunblaðið - 28.08.2005, Qupperneq 22
22 SUNNUDAGUR 28. ÁGÚST 2005 MORGUNBLAÐIÐ
,,KERTALJÓS í kapellu“ er dagskrárliður sem Gler-
árkirkja bauð upp á um verslunarmannahelgina.
Pétur Björgvin Þorsteinsson djákni í Glerárkirkju
segir að þegar hugmyndin kom upp hafi hann séð að
hún small saman við það sem ungt fólk á þingi ungs
kirkjufólks sem haldið var í Akureyrarkirkju síðast-
liðið vor hafði talað um. „Þau bentu á að kirkjur
landsins væru ekki opnar á unglingavænum tímum
og sum þeirra lýstu því yfir að ef að þau ætluðu að
koma í kirkju til að ræða við einhvern þá væri það
ekki á björtum degi milli níu og fimm heldur að kvöldi
til. Og því gerðum við þessa tilraun að vera til taks,
djákni og prestur, til viðtals að kvöldi til milli tíu og
ellefu, kveiktum á kertum í kapellunni og reyndum að
hafa allt svolítið huggulegt. Þó svo að það væri alls
engin örtröð hjá okkur þá sjáum við þetta sem nýtt
skref okkar í Glerárkirkju sem tákn um það að við
viljum vera til staðar. Við vitum að einmitt þegar
margt er um að vera eins og um verslunarmanna-
helgina þá kemur sú tilfinning upp hjá einstaklingum
að þeir þurfi einhvern til að tala við, þurfi stað þar
sem ,,enginn er að bögga þau“ og geti tjáð sig í friði,“
sagði Pétur Björgvin.
Þá bauð kirkjan einnig upp á gönguferðir, þar sem
gengið var á milli Glerárkirkju og Lögmannshlíð-
arkirkju. Í fyrri ferðinni var fróður Þorpsbúi, Páll H.
Jónsson, fenginn til að fræða göngugarpa um stað-
hætti og sagðist Pétur Björgvin hafa uppgötvað
margt nýtt um Glerárhverfi og byggðina við Lög-
mannshlíð í þeirri ferð. Með í för var einnig harm-
onikkuleikari sem þandi nikkuna af og til og lagið var
tekið. Seinni ferðin var fyrir börn og fjölskyldur og
var þá farið í leiki á leiðinni og allir skemmtu sér kon-
unglega.
„Þessir dagskrárliðir í safnaðarstarfinu lýsa við-
leitni okkar til að fara meira út á meðal fólksins, vera
sýnileg og til staðar fyrir þá sem þiggja vilja okkar
þjónustu. Það er sjálfsagt með okkur í Glerárkirkju
eins og í öðrum Þjóðkirkjusöfnuðum að við erum
sterkust í þjónustunni við upphaf og endi lífsins. En
þar á milli er fjöldi ára sem við viljum sinna líka,“
sagði Pétur Björgvin.
Hann sagði að á komandi vetri mætti vænta fjöl-
breytni í safnaðarstarfinu og væri af kappi unnið við
að efla barna- og unglingastarfið. Meðal þess sem
þar má nefna er námskeiðið „Framtíðarleiðtogar“
fyrir nemendur í 9. og 10. bekk grunnskóla bæjarins
Því er að sögn djákna ætlað að hjálpa nemendum
til að átta sig á eigin hlutverki í uppbyggingu og
myndun hóps. Rætt verður um það hvernig hver og
einn getur tekið virkan þátt í félagsstarfi, aukið eigið
sjálfstraust og félagsfærni.
Þá nefndi hann að í byrjun október yrði opnuð í
kirkjunni sýningin „Kristur um víða veröld“, listaverk
eftir Ayed Arafah frá Palestínu, en þar gæfist fólki
kostur á að kynnast því hvernig listamenn annarra
þjóða sýna Krist og hvernig þeir myndgera frásagnir
guðspjallanna af atburðum í lífi hans.
Tákn um að við viljum vera til taks
Morgunblaðið/Margrét Þóra
Gönguferð á vegum Glerárkirkju. Gengið frá kirkjunni að Lögmannshlíðarkirkju, leikið á harmonikku á leið-
inni, ljóð lesin og miðlað af fróðleik um svæðið sem gengið var um. Pétur Þorsteinsson djákni var svo með
stutta helgistund að göngu lokinni.
EINN góðviðrisdag legg ég leið mína inn í Neskirkju,
geng inn í nýja og fallega kaffihúsið þar og spyr hvort
hægt sé að ná tali af presti. Ekki stendur á svari –
„farðu inn ganginn og innst til vinstri er séra Sig-
urður“.
Ég skunda framhjá tertum og ilmandi kaffi og finn
skilti sem á stendur dr. Sigurður Árni Þórðarson.
Hann situr í skrifstofu sinni og á hreint ekki von á
blaðamanni í heimsókn en tekur mér ágæta vel.
Varla erum við farin að spjalla um „opna kirkju“ þeg-
ar Hanna Johannessen kemur í gættina og býður
mér kaffi sem ég þigg með þökkum, hún er varafor-
maður sóknarnefndar og að sögn séra Sigurðar afar
virk í starfi. Það er formaður sóknarnefndar vita-
skuld líka, dr. Guðmundur K. Magnússon prófessor.
Ég fæ mér kaffisopa og önnur kona lítur inn:
„Þetta er Rannveig Stefánsdóttir, hún vinnur í kaffi-
húsinu,“ segir prestur. „Ég geri nú gott betur en það,
ég er kirkjuvörður og sjálfboðaliði – er í öllu mögu-
legu,“ segir Rannveig og hlær. „Við leggjum áherslu á
opna kirkju,“ segir séra Sigurður.
Prestar móta innra kirkjustarf
„Við séra Örn Bárður mótum innra kirkjustarfið og
skiptum með okkur verkum, en sóknarpresturinn
axlar meiri ábyrgð á stjórnunarstörfum. Prestarnir
sjá um að stýra safnaðarlífinu en sóknarnefndin ber
ábyrgð á fjármálum, rekstri kirkjunnar og starfs-
mönnum hennar öðrum en prestunum. Samvinna er
góð á milli allra þessara aðila.
Með opinni kirkju á ég við „kirkjuna í miðju hverf-
isins“ – í miðju þjóðlífsins. Hún á að okkar áliti að vera
þannig opin að fólk viti hvað hún hefur að boða og sé
trú sinni alhliða köllun – að vera fólki stuðningur þeg-
ar á bjátar, skjól þegar það þarf að vera til hlés og
ekki síst á kirkjan að vera merkingarskapandi – þetta
háleita markmið hefur kirkjan sett sér um aldir.
Alla daga er mikið um að vera
Ég hef starfað hér við Neskirkju í rúmt ár, starfaði
áður á Biskupsstofu og úti á landsbyggðinni. Ég varð
undrandi á hve mikið er hér um að vera alla daga vik-
unnar. Á hverjum degi kemur fjöldi fólks hingað í
kirkjuna með margvísleg mál sem því liggja á hjarta
og flest þeirra eru að gerðinni til viðamikil. Þegar fólk
finnur að þröskuldurinn er ekki hár í kirkjunni kemur
það. Auk þess er fjöldi sjálfboðaliða sem hér starfar.
Allt þetta rennir stoðum undir þá skoðun fólks að
þetta sé góður staður sem ástæða er til að sækja.
Margt fólk kemur hingað með erindi sín í framhaldi
af því að taka þátt í safnaðarstarfinu. Þátttaka fólks í
safnaðarstarfinu er með margvíslegu móti, sumir
taka fyrst og fremst þátt í messunum, aðrir í for-
eldramorgnum, barnastarfi, starfi með eldri borg-
urum eða koma hingað til að fá fræðslu af einhverju
tagi. Sumir koma oft, aðrir einu sinni á ári. Þátttakan
er fjölbreytileg.
Neskirkjan er í miðju hverfinu sem hún þjónar og
við erum í þeirri ótrúlegu aðstöðu að grunnskólar
eru sitt hvorum megin við hana og leikskóli við hlið
hennar. Ótrúlega gott samstarf er við skólana í hverf-
inu. Flestir Vesturbæingar eiga mörg sporin við kirkj-
una og hafa jafnvel verið í nágrenni við hana í ára-
tugi, auk þess sem hún er gegnumstreymisstaður.
Kirkjuhúsið er því að einhverju leyti tengt inn í sál-
argerð fólks sem elst upp á þessu svæði.“
Kaffihús í kirkju er nýjung
– Er þetta ástæða þess að kaffihúsið var sett upp
hér?
„Kirkjukaffi er gömul hefð en kaffihús í kirkju er
nýjung. Að því er ég best veit er þetta eina kirkjan á
landinu sem hefur starfandi kaffihús. Það var sett á
laggirnar til þess að gefa fólki aukin tækifæri til að
hittast og skapa því vettvang. Reynslan sýnir að fólk
notar kaffihúsið og safnaðarheimilið, bæði í daglegu
lífi en einnig fyrir afmæli, ráðstefnur og önnur
mannamót og jafnvel húsfundi. Segjum að það eigi
kannski að gera við blokk í nágrenninu fyrir 100 millj-
ónir – þá er nú gott að geta fengið áfallahjálp,“ segir
séra Sigurður og hlær.
Messusókn er að stóraukast
Hann kveður fólk hafa mikið breytt afstöðu sinni
almennt gagnvart kirkjunni. „Það hefur miklu já-
kvæðari afstöðu til kirkju og kirkjulegs starfs en það
hafði þegar ég var t.d. að alast upp,“ segir hann.
„Nú er kirkja alla daga. Í gamla daga var grínast
með það að presturinn væri ósýnilegur sex daga vik-
unnar og óskiljanlegur sjöunda daginn. Nú er kirkjulíf
alla vikuna, Neskirkja er opin alla daga og messu- og
kirkjusókn er að stóraukast.“
Í bókum fyrri alda kemur víða fram að ungt fólk
gerði sér ferðir til kirkju til að skoða hitt kynið, skyldi
sagan vera að endurtaka sig?
„Fólk kynnist hér án þess þó að kirkjan sé hjúskap-
armiðlunartæki, ég man ekki eftir dæmi í fljótu
bragði um að fólk hafi hafið hjúskap eftir kynni hér
en kirkjan opnar eigi að síður dyr fyrir mannleg sam-
skipti af ýmsu tagi, hvunndagsleg sem hátíðleg.“
Fólk kemur til að létta á sál sinni
– Skyldi hin hvunndagslega nálgun vera á kostnað
sálgæsluhlutverks kirkjunnar?
„Nei, þvert á móti hvetur það fólk til að koma hing-
að með sín innstu mál. Líklega fyrir áhrif kvikmynda
finnst mörgu fólki sjálfsagt að kirkjan sé staður þar
sem hægt er að koma með hið þungbæra í lífinu.
Þetta er að skrifta, kirkjan hefur miklu hlutverki að
gegna í sálgæslu. Hér í Neskirkju er teymi fólks sem
sinnir sálgæslu, það hentar ekki öllum að tala við
þann sama. Fólk kemur þegar því líður illa, því er boð-
ið upp á bænastund í kirkjunni og það fer héðan eftir
að hafa létt á sér.“
– Kæmi til greina að kirkjan hefði opna símatíma
fyrir fólk sem líður illa?
„Norska kirkjan opnaði fyrir þennan þátt í starf-
semi sinni 1973 og ég kynntist þessu þar. Ég bar upp
þessa hugmynd hér og nú er kannski kominn tími til
að vekja hana upp á ný. Við prestarnir erum með op-
inn síma alla virka daga og netföngin okkar virka, þau
eru gefin upp á heimasíðunni www.neskirkja.is. Við
birtum raunar allar predikanir á heimasíðum okkar “
Hvað um afþreyinguna sem kirkjan býður í formi
t.d. ferðalaga?
„Starf kirkjunnar á að vera undursamlegt og
skemmtilegt en það á ekki bara að vera það – starfið
á hafa trúarlega skírskotun – djúpa rótfestu í hinu
trúarlega og þannig viljum við starfa hér.“
Foreldramorgnar
Foreldramorgnar eiga uppruna sinn hér á landi í
Neskirkju og frumkvöðullinn í því starfi er Elínborg
Lárusdóttir félagsráðgjafi.
„Það var í lok níunda áratugarins og ég var að aka
framhjá Neskirkju að hugmyndin að mömmu-
morgnum, sem síðan hafa fengið nafnið for-
eldramorgnar, kom upp í hugann á mér,“ segir El-
ínborg.
„Það skipti engum togum að ég fór samstundis
inn í kirkjuna og á fund prestsins sem þar var stadd-
ur og það reyndist vera séra Guðmundur Óskar
Ólafsson, sem nú er látinn. Hann tók hugmyndinni
vel og fóru foreldramorgnarnir af stað í febrúar árið
1987. Ég mætti strax í upphafi mikilli velvild og
stuðningi með þetta starf, innan kirkjunnar sem ut-
an. Ég minntist þess að þegar ég var búsett í Eng-
landi var ég dálítið einmana með lítið barn, því datt
mér í hug að þarna væri kannski leið til að rjúfa ein-
angrun mæðra með því að eiga góðar stundir sam-
an.“
– Hafa margir feður mætt á þessa fundi?
„Á þessum tæplega 20 árum hafa þrír mætt, einn
mætti í þrjá mánuði en hinir tveir skemur. Kona eins
þessara manna hafði verið með barnið í kirkjunni og
hann tók við í feðraorlofi. Það var skemmtileg til-
breyting að fá þá á fundina og mættu koma fleiri.
Einnig hafa ömmur og aðrir ættingjar mætt á þessa
foreldramorgna enda frá upphafi verið stefnan að
allir sem vilja koma séu hjartanlega velkomnir.
Það hefur verið ánægjulegt að sjá konur koma aft-
ur með seinni börn sín og oft líka í kjölfar þess að
börnin hafa verið skírð í kirkjunni. Það er líka gaman
að fylgjast með því að börnin taka síðar oft þátt í
sunnudagaskóla kirkjunnar, sem er afar blómlegur. Í
þessu starfi kynnast foreldrar og börn prestum kirkj-
unnar og öðru starfsfólki hennar.
Foreldramorgnar eru haldnir einu sinni í viku, frá
september fram í maí, og í öll þessi ár hefur Hanna
Johannessen verið stoð mín og stytta í þessu starfi.
Venjan er að vera með fræðslu af einhverju tagi í
annað hvert skipti en kaffi og spjall í hitt skiptið. Í öll
þessi ár hafa hjúkrunarfræðingar á Seltjarnarnesi
verið með fræðslu, sem og Herdís Storgaard hjá Ár-
vekni en hún er að mínu mati fróðust manna á Ís-
landi um slysavarnir barna.
Ein af ástæðum þess að þetta starf hefur gengið
svona vel er að þetta er grasrótarstarf sem mætir
þörf innan samfélagsins og því má segja að kirkjan
hafi „þekkt sinn vitjunartíma“ með rekstri foreldra-
morgna.“
Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Opnar dyr fyrir
mannleg samskipti
Kirkjukaffi er gömul hefð en kaffihús í
kirkju er nýjung. Guðrún Guðlaugsdóttir
leit inn í kaffihús Neskirkju áður en hún
hitti séra Sigurð Árna Þórðarson prest,
sem ásamt sóknarprestinum, séra Erni
Bárði Jónssyni, vinnur að blómlegu
kirkjustarfi.
aratriði kristinnar trúar sem enda
svo á samveru í Skálholti eða ann-
ars staðar úti á landi. „Eftir að
fólk hefur fengið fræðslu, upp-
örvun og gleði með því að taka
þátt í slíkum kirkjulegum nám-
skeiðum, skilar það sér gjarnan
inn í sjálfboðaliðastarf kirkjunnar.
Ekki veitir af þar sem að kirkju-
starfið er rekið að stórum hluta til
í sjálfboðavinnu,“ segir Jón Dalbú.
Kirkjulistsköpun
Á tónlistarsviðinu fer fram fjöl-
breytt menningarstarf fyrir alla
aldurshópa í kirkjunum og nú hef-
ur yfirstjórn kirkjunnar sett sér
það markmið að kalla í auknum
mæli eftir listinni til liðs við sig.
Dæmi eru um stórar liststofnanir,
sem orðið hafa til í kirkjum, svo
sem hinir árlegu Sumartónleikar í
Skálholti og Kirkjulistahátíð í
Hallgrímskirkju, sem haldin er
annað hvert ár, verður að þessu
sinni sett á Menningarnótt
Reykjavíkur.
„Hagur kirkjunnar er að koma
boðskapnum á framfæri í gegnum
hin ýmsu listform. Það er stefnt
að því leynt og ljóst að auka sam-
starf við allar listgreinar í landinu
svo að lífið í kirkjunni geti orðið
auðugt og skemmtilegt á allan
máta og hægt sé að nýta þau
stóru hús, sem kirkjurnar okkar
eru. Okkur langar til að leggja
sérstaka rækt við leiklistina í ná-
inni framtíð. Upphaf leikhússins
má í raun rekja til helgileikja þar
sem boðskapur kristinnar trúar
var færður fram með leikrænum
hætti og nú viljum við fá leikhúsið
á ný í lið með okkur auk tónlist-
arhópa, listdansskóla og mynd-
listamanna svo dæmi séu tekin.
Í vetur sátu t.d. prestar og leik-
arar saman á málþingi í Skálholti
og ræddu hugsanlegt samstarf
leiklistarinnar og kirkjunnar og
var Neskirkja valin sem tilrauna-
staður.“ Þessi nýja hugsun krist-
allaðist svo m.a. á nýliðnum
Kirkjudögum þar sem inn í kvöld-
vökur mættu trúðar, sem fóru um
á milli kirkjubekkja og töluðu við
gesti um boðskap kirkjunnar með
leikrænum, barnslegum og ein-
lægum hætti. Það hefur sömuleið-
is færst í vöxt að kirkjur hafi ver-
ið opnaðar fyrir myndlist, en í
Hallgrímskirkju eru haldnar fjór-
ar myndlistarsýningar á hverju
ári. Listvinafélag við Hallgríms-
kirkju var stofnað fyrir 23 árum
og nú er, að sögn Jóns Dalbú, alls
staðar verið að vinna að listsköp-
un í kirkjunum. Starfandi er list-
vinafélag við Langholtskirkju og
annað við Seltjarnarneskirkju. Í
félögunum er listaáhugafólk, sem
starfar með sóknarnefndum og
prestum að því að koma mismun-
andi listformum inn í kirkjurnar.
Í Reykjavíkurprófastsdæmun-
um tveimur, sem í eru nítján
kirkjur og tveir kirkjulausir nýir
söfnuðir í Grafarholti og Lindum,
koma að meðaltali um eitt þúsund
manns á viku að frátöldum ferða-
mönnum í leit að fræðslu, upp-
byggingu og afþreyingu undir
merkjum kirkjunnar. „Það má því
með sanni segja að kirkjurnar séu
orðnar að heilmiklum félagsmið-
stöðvum. Kirkjan er að gefa fólki
kost á að iðka trú sína á marg-
víslegan hátt. Hún vill að fólk
finni sér heimili í kirkjunni sinni
þar sem hægt er að koma og finna
sér eitthvað við hæfi frá degi til
dags.“
Fjárhagurinn
Til að halda úti öllu þessu fjöl-
þætta starfi er nú orðið brýnt að
endurskoða sóknargjöldin, segir
Jón Dalbú. Hann telur ekki
óraunhæft að ætla að starf í
kirkjum krefjist allt að helmings
hækkunar sóknargjalda frá því
sem nú er. Þau nema nú 658 krón-
um á hvert sóknarbarn á mánuði.
Fulltrúar Reykjavíkurprófasts-
dæmanna tveggja fóru í vor á
fund ráðamanna og óskuðu eftir
hækkunum á sóknargjöldum. „Við
fengum vinsamlegar móttökur hjá
ráðamönnum sem við vonum að
eigi eftir að skila sér í skilningi
þeirra þegar frá líður því þegar
öllu er á botninn hvolft eru kirkj-
urnar að sinna miklu menningar-,
mannúðar-, félags- og forvarnar-
starfi.“