Morgunblaðið - 10.10.2005, Síða 18
18 MÁNUDAGUR 10. OKTÓBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ
DAGLEGT LÍF
Hagyrðingurinn ÓskarBjörnsson í Neskaupstaðhefur marga fjöruna sop-ið á þeim áttatíu árum
sem hann hefur lifað. Þrisvar hefur
hann verið við dauðans dyr en æv-
inlega tekist að snúa sig úr heljar-
greipum mannsins með ljáinn.
„Ég hef stundum velt því fyrir mér
hvers vegna ég hef verið svona gæfu-
samur og kannski er það vegna þess
að ég fæddist í sigurkufli. Einhvers
staðar stendur að börn sem fæðast í
órofnum líknarbelg búi við mikið lán í
lífinu,“ segir Óskar og bætir við að
hann sé líka fæddur með þeim ósköp-
um að kunna að setja saman vísur.
„Brageyrað hef ég frá móður minni
sem var ættuð úr Skagafirði og gerði
vísur. Ég velti því stundum fyrir mér
hvers vegna svona fáir fæðist með
brageyra nú orðið. Mér finnst ekki
síður gaman að setja saman vísur á
erlendum tungumálum, því það er
svo ágæt æfing fyrir mig í tungu-
málavafstrinu.“
Vildi ekki deyja
Óskar hefur átt fjölbreytta ævi.
Hann er einn af ellefu systkinum og
hefur siglt um heimsins höf, enda var
hann sjómaður til margra ára. „Ég
bjó í nokkra vetur hjá systur minni í
Færeyjum og var þar til sjós á vertíð-
um. Á einni slíkri árið 1947 þegar ég
var rétt rúmlega tvítugur, féll ég út-
byrðis og það mátti ekki miklu muna
að ég drukknaði. Ég var ósyndur,
sjórinn ískaldur og mikill straumur.
Ég sökk og það dró smám saman af
mér og allt í einu fannst mér eins og
ég sæti í kvikmyndahúsi. Ég sá löngu
liðin atvik fyrir framan mig eins og á
tjaldi. Þá flaug í gegnum kollinn á
mér: Nei, andskotinn, hér skal ég
ekki bera beinin! Og það varð mér til
lífs að spotti var bundinn utan um
einn skipsfélaga minn og hann skellti
sér í sjóinn og náði að lokum taki á
mér. Þeim tókst að koma mér um
borð, en þá var ég orðinn meðvitund-
arlaus.“
Svar við flöskuskeyti
Þegar Óskar sigldi fyrsta sinn til
Færeyja árið 1943 með skútu frá
Eskifirði, þá tók það 82 klukkustund-
ir. „Ég skrifaði að gamni mínu flösku-
skeyti á þessari löngu siglingu og
hafði það bæði á dönsku og ensku.
Þar sagði ég hvar við værum staddir
og gaf upp heimilisfangið mitt. Flösk-
unni fleygði ég síðan fyrir borð. Eftir
að stríðinu lauk og póstsamgöngur
komust aftur í rétt horf, barst mér
bréf frá sjómanni í Noregi, sem sagð-
ist hafa fundið flöskuskeytið mitt við
Noregsstrendur þremur mánuðum
eftir að ég lét það í hafið. Ég geymi
þetta bréf eins og hvert annað gull.“
Biblíur fyrir mánaðarlaunin
Óskar talar og skrifar nokkur
tungumál sem hann er sjálfmennt-
aður í. „Frá því ég var unglingur hef
ég skrifast á við fólk um allan heim til
að æfa mig í tungumálum,“ segir
Óskar sem fjárfesti um miðja síðustu
öld í 112 biblíum á jafnmörgum
tungumálum. Ein þeirra er frá Tíbet,
önnur er skrifuð á swahili og enn önn-
ur á afrikaans, svo eitthvað sé nefnt.
„Ein þeirra er meira að segja á rúss-
nesku, sem er dálítið merkilegt, því á
þessum árum var biblían bönnuð í
Rússlandi, því trú var talin ógna
stjórnarveldinu þar.“
Vinir hans hjá Bókabúð Snæbjarn-
ar pöntuðu biblíurnar fyrir hann frá
enska Biblíufélaginu í London. „Mér
fannst þetta alveg tilvalin aðferð til
þess að kynna mér framandi tungu-
mál. Ég var með 2.000 krónur í laun á
mánuði en biblíurnar kostuðu 1.500
krónur. Og til að borga þessi ósköp
sló ég minn fyrsta víxil hjá Spari-
sjóðsstjóranum Tómasi Zoega. Hann
var svo hrifinn af þessu uppátæki
mínu að hann veitti mér lánið eins og
skot. Í gamla daga fór fólk í banka til
að fá lán en nú virðast mér menn
labba inn í banka til að kaupa banka.“
Týndi úrinu oft á fylliríum
Óskar á marga merkilega hluti í
fórum sínum og þar á meðal er for-
láta mandólín sem hann fékk í ferm-
ingargjöf árið 1938. „Barnsmóðir
bróður míns var þerna á Lagarfossi
og hún keypti þetta mandólín handa
mér í Englandi á eitt pund. Á þessum
tíma var mandólín sjaldséð hljóðfæri
á Íslandi og mér þótti eðlilega mikið
til þessarar fermingargjafar koma.
Ég glamraði á það eftir eyranu en
lagði því síðan í mörg ár. Svo tók ég
það fram fyrir nokkrum árum og
gerði við sprungur sem voru komnar
í það og skreytti það með allavega
steinum, því ég er svo glysgjarn eins
og hrafninn,“ segir Óskar sem þó
skreytir sig ekki með armbandsúri
því hann gengur með sitt armbands-
úr í vasanum. Ólin er löngu slitin,
enda gripurinn kominn til ára sinna.
„Ég keypti þetta úr á Akureyri árið
1944, en þá var ég þar á síld. Úrsmið-
urinn í versluninni sagði að ef ég ætti
fyrir úrinu skyldi hann ábyrgjast það
í tíu ár. Ég tók hann á orðinu og það
gengur enn, sextíu árum síðar. Þetta
úr hefur þjónað mér vel og ég er bú-
inn að týna því ótal sinnum, sér-
staklega hér áður þegar ég var á fyll-
iríi og hef meira að segja misst það í
sjóinn,“ segir Óskar sem hætti að
drekka fyrir þrjátíu árum.
Óskar segist hafa verið haldinn
söfnunarþörf alveg frá því hann var
lítill drengur og hann á um það bil níu
þúsund tegundir af erlendri mynt.
„Myntin hjá mér fyllir ellefu albúm
og hvert albúm er fimm kíló. Upphaf-
ið að myntsöfnun minni má rekja til
þess að eitt sinn kom hingað skip frá
Kúbu og ég fór um borð með íslensk
frímerki til að skipta á þeim og smá-
peningum. Ég fékk hvorki meira né
minna en hundrað peninga frá þeim,
því þeir voru svo hrifnir af frímerkj-
unum.“ Einn er sá peningur í safni
Óskars sem er öðrum merkilegri, en
hann er frá Bíafra og var gefinn út á
meðan að stríðið stóð þar. „Svona
peningur verður aldrei gefinn út aft-
ur,“ segir Óskar sem á líka um þrjá-
tíu orðabækur, nokkur þúsund frí-
merki frá öllum heimshornum,
tuttugu stafagerðarbækur og um
2.000 miða af eldspýtustokkum alls
staðar að úr heiminum. „Ég á líka
tuttugu bækur um töfrabrögð, en ég
hef alltaf verið heillaður af þeim og
byrjaði að læra töfrabrögð þegar ég
var unglingur. Í gamla daga gerði ég
heilmikið af því að koma fram á
skemmtunum og sýna töfrabrögð.“
Hundar gelt að einhverju huldu
Óskar er næmur maður, hann finn-
ur á sér óorðna hluti og hann er ber-
dreyminn. „Fátt kemur mér á óvart,
því ég fæ oft hugboð um að eitthvað
sé að og mig dreymir stundum fyrir
atburðum. Mig dreymdi eitt sinn að
tveir selir væru að synda í lítilli laug
sem er hér á sjúkrahúsinu. Tveimur
vikum seinna drukknuðu tveir bræð-
ur sem voru á bát héðan,“ segir Ósk-
ar sem sjálfur var nálægt því að
drukkna fyrir mörgum áratugum
eins og fyrr segir. En í tvö önnur
skipti á ævinni hefur Óskar lent í lífs-
háska. „Einu sinni kviknaði í bát sem
ég var á úti á ballarhafi og tilviljun
ein réð því að við gátum slökkt eldinn.
Öðru sinn brann röntgentæki yfir
sem ég var fastur í. Þetta var gamla
gerðin, þar sem maður var klemmdur
milli tveggja plata og þegar lækn-
irinn losaði mig úr tækinu sagði hann
að litlu hefði munað að þetta hefði
drepið mig.“ Óskar segist ekki vita
hvers vegna hann hafi ævinlega
sloppið svona vel en kannski á hún
einhvern hlut að máli veran sem er í
för með honum. „Þegar ég var ungur
maður kom til mín sjö ára gamall
strákur og sagði mér að einhver vera
fylgdi mér. Hann kom hér fyrir örfá-
um árum og sagði mér að sama veran
fylgdi mér ennþá. Ég er ekki frá því
að þetta sé rétt, alla vega gelta þeir
allkröftuglega að mér sumir hund-
arnir þegar ég geng um bæinn, sér-
staklega einn þeirra. Hundar eru jú
sagðir sjá ýmislegt sem okkur mönn-
unum er hulið.“
SAFNARI | Óskar Björnsson á hundrað biblíur og tvö þúsund eldspýtnabréf
Ég er glysgjarn eins og hrafninn
Óskar Björnsson er
hagmæltur, draum-
spakur og ódrepandi. Í
þrígang hefur dauðinn
reynt að læsa í hann
klónum en hann hefur
ævinlega sloppið naum-
lega. Kristín Heiða
Kristinsdóttir spjallaði
við Óskar sem er mikill
tungumálamaður og
haldinn ólæknandi söfn-
unaráráttu.
khk@mbl.is
Morgunblaðið/Sigurður Aðalsteins
Óskar grípur í mandólínið góða sem hann fékk í fermingargjöf.
Hér má sjá brot af biblíunum 112 sem Óskar á.
Bréfið sem Óskari barst frá Noregi sem svar
við flöskuskeytinu sem hann sendi.
Armbandsúrið sem Óskar keypti
árið 1944 hefur týnst margsinnis en
ævinlega fundist aftur.
Fréttir á SMS