Morgunblaðið - 04.12.2005, Qupperneq 22
Ég lenti meira að segja einu sinni í því
að geta ekki sjálfur verið með þeim á
aðfangadag því ég var á læknavaktinni
en þá héldu þær jólin saman fyrir því.
Sveinn Rúnar ásamt Evu t.v. og Björk jólin 2002.
Sveinn Rúnar smellti mynd af stórfjölskyldunni á aðfangadags-
kvöld 2002: F.v. Bjarni, Eva, Inga, Guðfinnur, Björk, Kristín,
Haukur, Marcos og Gerður.
því að geta ekki sjálfur verið með þeim á
aðfangadag því ég var á læknavaktinni en
þá héldu þær jólin saman fyrir því.“
Allir saman á aðventutónleikum | Fyrirkomulagið er
með þeim hætti að fjölskyldurnar skiptast á að bjóða
hinni heim til sín á aðfangadagskvöld. Til að byrja með
taldi veislan börnin fimm, Evu, Björk og Svein en fjöl-
skyldunni bættist liðsauki þegar Bjarni, sambýlismað-
ur Evu kom til sögunnar og börn hans taka þátt í jól-
unum með þeim eftir atvikum. Þá eru elstu tvær
dæturnar giftar og því hafa bæst við tengdasynir. „Ég
er viss um það að það hefur skipt miklu máli fyrir
börnin að við séum öll saman,“ segir Sveinn. „Öll þessi
fimm systkin eru mjög samheldinn hópur og hænd
hvert að öðru. Til dæmis hafa yngri börnin sótt mikið í
að fá að gista hjá eldri systrum sínum eftir að þær fóru
að búa, ekki síður en hjá Evu.“
Samheldnin um jólin einskorðast þó ekki bara við
aðfangadagskvöld því hefð er orðin fyrir því í fjöl-
skyldunni að sækja aðventutónleika í Langholtskirkju,
þar sem yngsta dóttir Sveins og Bjarkar syngur með
Gradualekór kirkjunnar. „Þar hefur hún sungið í níu
ár eða allt frá því að hún var fimm ára,“ segir Sveinn.
„Þetta er ein af þeim stundum sem við erum öll saman.
Við Björk mætum að sjálfsögðu en sömuleiðis Eva og
Bjarni, faðir minn og hans kona sem og móðir mín.
Það er enn eitt dæmið um þátttöku Evu og þeirra í lífi
barna okkar Bjarkar.“
Eins og að halda með nýju íþróttafélagi | Jólahald eftir
skilnað þekkir Sveinn úr barnæsku því hans foreldrar
skildu þegar hann var aðeins sjö, átta ára en hann er
elstur þriggja systkina. „Ég er svolítið að æfa mig í því
að láta mig hlakka til jólanna,“ svarar hann inntur eftir
því hvort þetta hafi haft einhver áhrif á jólahald hans
sem barn. „Þetta hljómar kannski einkennilega þegar
ég er sá lukkunnar pamfíll að búa við svona yndislegt
jólahald í dag sem er laust við deilur og togstreitu.
Hins vegar á ég óljósar minningar um að jólin tengdust
ekki endilega einhverju skemmtilegu eða góðu heldur
fylliríi á heimilinu fyrstu æskuárin. Kannski er ég bara
svona öfugsnúinn en ég hef átt frekar erfitt með að
finna tilhlökkun til jólanna. Það er þó ýmislegt sem
verður manni til hjálpar í því og oft verða aðventu-
tónleikarnir í Langholtskirkju einmitt til þess að
kveikja á jólunum í brjóstinu.“ Hann segist þó þurfa að
temja sér þessa tilhlökkun. „Ég hef stundum líkt þessu
við það að vera fæddur Valsari og þurfa að venja sig við
að segja „Áfram Þróttur“ og meina það af því að
krakkarnir eru komnir í það íþróttafélag. Það tekur
nokkur ár að breyta því og kannski breytist það aldrei
alveg.“
Hann segist ekki muna eftir sérstakri togstreitu milli
foreldra sinna varðandi það hvar börnin yrðu um jólin
eftir skilnaðinn. „Í sjálfu sér held ég að það hafi aldrei
komið annað til greina en að vera hjá mömmu á að-
fangadag. Því fyrirkomulagi var strax komið á. Svo fór-
um við til móðurömmu okkar á jóladag og til pabba á
annan í jólum. Hins vegar man ég eftir tilfinningum
sem tengdust þessum aðskilnaði og áhyggjum af því að
pabbi yrði einn um jólin.“
Eigin reynsla hefur þó kennt Sveini að skilnaður
þurfi ekki endilega að þýða togstreitu og leiðindi held-
ur þvert á móti. „Í mínu tilfelli batnaði sambandið við
fyrrverandi konuna eftir að ég giftist aftur og var það
þó gott fyrir. Sömuleiðis fannst mér ég eiga meiri og
betri tíma með börnunum mínum eftir skilnaðinn því
að ég lagði meira upp úr því að nota þann tíma sem ég
hafði með þeim vel. Einhvern veginn varð hver stund
miklu dýrmætari en áður. Í dag gengur samband okkar
Evu fyrst og fremst út á að tala um börnin og úrlausn-
arefni þeim tengd og gera eitthvað saman. Þá verður
allt á jákvæðu nótunum því það er einfaldlega ekkert
annað á dagskrá.“ | ben@mbl.is
AÐ LIFA AF JÓLIN
Tvö aðfangadagskvöld
„Í minni fjölskyldu hefur tíðkast um árabil að tvískipta upptöku
pakka milli aðfangadagskvölds og jóladagskvölds. Ástæðan var
upphaflega sú að börn okkar bræðra voru hjá mæðrum sínum á að-
fangadagskvöld og því stefndi í að börnin misstu alveg af stemmningu
aðfangadagskvölds með okkur feðrunum og fjölskyldu okkar. Þetta
þróaðist fljótlega þannig við systkinin og foreldrar okkar ákváðum að
gera meira úr jóladagskvöldinu með því að við öll og börnin myndu
skiptast á gjöfum til hvers annars og láta okkur nægja að opna pakkana innan
fjölskyldu hvers og eins á aðfangadagskvöld.
Þetta höfum við nú gert í mörg ár og börnin okkar sem síðar hafa komið til sögunnar
hafa vanist þessu frá upphafi og hlakkar ekki síður til jóladagskvölds en aðfangadags-
kvölds. Með þessu tókst okkur að breyta neikvæðri reynslu í jákvæða þó aldrei komi
neitt fyllilega í stað þess að hafa öll börnin hjá sér á sjálft aðfangadagskvöldið.“
Jólapakki og tár
„Við skildum um sumarið. Á aðfangadag, þegar við mæðgur fórum með jólapakk-
ann til pabba hennar rann upp fyrir mér hve þetta var nístandi sár staðreynd fyrir fjöl-
skylduna, og ég gat ekki annað en farið að skæla. Samt höfðu jólin alltaf verið erfiður
tími í hjónabandinu.“
Vill að allir séu saman
„Við skildum fyrir tveimur árum og gerðum með okkur samkomulag um að sonur
okkar sem er 7 ára væri alltaf hjá mér og hálfsystur sinni á aðfangadag, en alltaf hjá
pabba sínum á gamlársdag. Hann virðist eiga mjög erfitt með að aðlagast því að fjöl-
skyldan sé ekki öll saman þessa hátíðisdaga. Hann vill að við mæðgurnar séum með
honum og pabba hans á gamlárskvöld og hann er ósáttur við að pabbi hans sé ekki með
okkur á aðfangadag. Enn grætur hann yfir því að við getum ekki verið öll saman yfir
hátíðirnar, enda á hann góðar minningar frá þeim stundum.“
Hjá fyrrverandi tengdó á jólunum
„Bróðir minn, konan hans og sonur voru alltaf vön að eyða aðfangadagskvöldi hjá
föðurömmu og -afa stráksins og það var orðinn fastur liður í jólahaldi litla mannsins.
Þegar þau svo skildu leystu þau málin í mörg jól á eftir með því að bróðir minn var með
nýju konunni sinni þetta kvöld en strákurinn og mamma hans héldu áfram að borða og
opna pakkana hjá föðurömmu hans og -afa. Ég held að flestir hafi verið nokkuð sáttir
við þessa lausn því þannig fékk litli frændi minn sín jól sem voru honum svo mikilvæg.
Svo breyttist þetta smám saman eftir því sem hann eltist.“
Loksins eigin jól
„Fyrstu jólin eftir skilnaðinn voru erfið. En þegar fram í sótti var ég dauðfegin að
vera laus við allar deilurnar um það hvernig ætti að verja ætti jólunum og hvaða jóla-
boð ætti að fara í. Nú gat ég loksins átt þau jól sem ég þráði sjálf að eiga.“