Morgunblaðið - 04.12.2005, Blaðsíða 26
26 | 4.12.2005
M eð fyrstu plötunni sinni, Mindscape, varð hann að eins konar „költ-fyrirbæri“ meðal alvarlegra dægurtónlistarmanna og áhangendaþeirra. Sigurður Ármann heitir maðurinn, 32 ára gamall söngvari og
lagahöfundur, sem þjóðin á eftir að kynnast betur. Í vikunni sem leið kom út hjá
Smekkleysu þriðji hljómdiskur Sigurðar, „Music for the addicted“, þar sem hann
syngur og leikur á gítar og nýtur aðstoðar úrvalslistamanna í tólf lögum. Í bígerð eru
útgáfutónleikar í Tjarnarbíói fyrir jól. Annar diskurinn er tónleikaupptaka frá 2003.
Tónlist Sigurðar er róleg, ljúf og lágstemmd og seiðandi og grípandi í senn. Og
ekki má gleyma góðum textunum, sem hann leggur greinilega mikla alúð við. Sjálfur
segir hann að tónlist sín sé róleg og melódísk. „Ef maður reynir að vera einlægur í
sköpun sinni, þá kemur alltaf eitthvað nýtt út úr því,“ segir hann þar sem við erum
búnir að koma okkur fyrir úti í horni á virðulegu kaffihúsi í borginni.
Opinber tónlistarferill Sigurðar hófst á nýrri öld, þegar hann var orðinn 28 ára.
Mindscape kom út árið 2001, en nú hefur hann gert alls þrjá hljómdiska. Sá fyrsti var
gerður í framhaldi af því að leiðir Sigurðar og Sigtryggs Baldurssonar, trymbils, upp-
tökustjóra og Sykurmola, lágu saman. Sigtryggur heyrði lagið Mindbeat með Sigurði
og varð strax hrifinn. Til sögunnar komu aðrir tónlistarmenn, Jóhann Jóhannsson og
Jónsi í Sigur Rós, sem einnig féllu fyrir tónlist Sigurðar. Sjálfur dró Sigurður úr pússi
sínu nokkur lög, sem hann spilaði fyrir þá félaga.
Sýnin er tær og klár | „Mig hafði dreymt alveg frá unglingsárum um að koma tónlist
minni á framfæri á plötu,“ segir Sigurður. „Þegar Sigtryggi leist svona vel á þetta varð
ekki aftur snúið, og það var kýlt á stóran hljómdisk.“ Draumurinn varð að veruleika.
Sigtryggur er helsti velgjörðarmaður Sigurðar, óþreytandi við að hvetja listamann-
inn til dáða, og hann er jafnframt sá sem uppgötvaði hann:
„Það var ákveðin einlægni í tónlist hans, sem greip mig, og það skín í gegn óvenju-
lega mikil og knýjandi þörf til að tjá sig,“ segir Sigtryggur. „Sigurður er í hópi þeirra
listamanna, sem stunda list sína af innri nauðsyn og fremja hana vegna grundvall-
arþarfar en ekki vegna peninga eða frægðar. Sýn hans er tær og klár,“ segir Sigtryggur
og bætir við: „Tjáning Sigurðar snertir mig á mjög hreinan og djúpan hátt.“
Einn góðan veðurdag eftir útkomu Mindscape-plötunnar hafði hljómsveitin Sigur
Rós samband við Sigurð og bað hann að hita upp fyrir hljómsveitina í mánaðarlöng-
um tónleikatúr um Bandaríkin og Kanada. Þeir höfðu heyrt Mindscape-plötuna.
Þetta var árið 2002. Hann tók boðinu, þótt ekki lægi alveg í augum uppi, að hann
ætti að gera það eða hefði tök á því.
Ástæðan er sú að Sigurður hefur átt við að stríða alvarlega geðhvarfasýki, sem get-
ur verið harla illvígur og erfiður sjúkdómur. Hann var formlega greindur með þenn-
an sjúkdóm fyrir 10 árum, en hefur átt við svipuð einkenni að stríða frá unga aldri.
Geðhvarfasýkin hefur verið Sigurði mjög erfið, en hann hefur tekið fast á móti og
segist ætla að hafa sigur. Hann er í fínu stuði þessa dagana og segist vera farinn að
gera sér vonir um bata innan skamms. Hann vísar því á bug að um sé að ræða of
mikla bjartsýni.
Sigurður lét ekkert aftra sér og fór með Sigur Rós í vesturveg árið 2002, stóð sig
með prýði og vakti athygli fyrir skemmtilegan söng og leikni á gítarinn. Þarna tróð
þessi ungi listamaður uppi á sviði fyrir framan þúsundir aðdáenda Sigur Rósar á 19
tónleikum á einum mánuði!
Tjáir hug sinn í tónlistinni | Maður skyldi ætla að það vefðist fyrir nánast hverjum sem
er að koma svona fram í fyrsta skipti á ævinni, en Sigurður segir það ekki hafa verið
erfitt. „Nei, það var eiginlega ekkert mál, ég setti mig í stellingar, hugsaði bara um að
ég væri að fara að halda tónleika og ég ætlaði að gera mitt bezta. Öðru gleymdi ég
bara. Ég held nefnilega að þrátt fyrir sjúkdóminn sé ég mjög sterkur andlega,“ segir
Sigurður. „Ég bý yfir töluverðri þrjósku og þrautseigju.“
„Þetta var fín ferð, ég var mjög ánægður með hana, fólk virtist hrifið og strákarnir í
Sigur Rós létu hafa eftir sér í viðtölum, að
þeir væru mjög hrifnir af tónlistinni minni,“
segir Sigurður ennfremur.
Um tónleikaferðina segir Margrét Örn-
ólfsdóttir, stolt móðir Sigurðar: „Hann er mesta hetja, sem ég hef kynnzt.“
„Siggi er maður, sem opnar sig í raun hvergi nema í músíkinni. Hann tjáir hug sinn
eiginlega hvergi nema í tónlistinni og leyfir okkur að skyggnast þar inn. Hann hlífir
ekki sjálfum sér og dregur ekkert undan eða felur í tónlist sinni og textum,“ segir
Árni Matthíasson, sérfræðingur Morgunblaðsins í dægur- og alþýðutónlist, sem er
greinilega hrifinn af listamanninum Sigurði Ármanni.
„Það er lagt miklu meira í þennan nýjasta disk minn, Music for the addicted, en
hina, fleiri tónlistarmenn, meira lagt í útsetningar og mér finnst hann miklu betri en
Mindscape,“ segir Sigurður og bætir við: „Addicted er talsvert öðru vísi en Mind-
scape-diskurinn. Það má segja, að ég hafi verið að vinna í nýju plötunni alveg frá
árinu 2002. Sum lögin eru ný eða nýleg, en önnur mun eldri.“ Sem dæmi um gamalt
lag nefnir Sigurður lagið Dinosores, sem hann samdi fyrir meira en áratug. „Það var
nú pússað til áður en það slapp á plötuna,“ segir hann. Af tólf lögum á diskinum
syngur Sigurður níu en þrjú eru „instrúmental“.
Heimildamynd | Í vetur voru staddir hér þýskir kvikmyndagerðarmenn, sem tóku upp
efni í heimildamynd um nokkra íslenska tónlistarmenn, lagahöfunda sem syngja eig-
ið efni. Sigurður var í hópi fjögurra tónlistarmanna, sem Þjóðverjarnir fylgdust með
og fjalla um í myndinni. „Það var mjög gaman að því,“ segir hann. „Í myndinni á
þetta að verða eins konar umfjöllun um „dæmigerðan“ dag í lífi mínu. Ég spilaði fyrir
þá bæði heima hjá mér og á Þingvöllum. Myndin er væntanleg næsta sumar.“
Sigurður er síspilandi, fer nánast hvergi án gítarsins, því hann getur setið sleitu-
laust stundunum saman og samið tónlist og hefur gert frá því á unglingsárunum: „Ég
hef aldrei gert hlé á spileríinu og ég á fullar skúffur af lögum, sem ég hef samið, hell-
ing af efni, sem hugsanlega er nothæft, fyrsta lagið samdi ég 12 eða 13 ára gamall.“
Sigurður er stoltur af nýja hljómdiskinum sínum, Music for the Addicted, og það
er greinilegt, að diskaútgáfan hefur blásið honum kraft í brjóst og eflt hann til allra
verka. Hann er jákvæður, neitar að segja að veikindin hafi verið alslæm og bendir á
björtu hliðarnar. Til dæmis séu textarnir hans miklu dýpri og betri en annars væri.
Og þótt Sigurður hafi ekki farið hamförum í fjölmiðlum núna fyrir jólin til að kynna
nýja diskinn, þá kveðst hann vera bjartsýnn á að diskurinn seljist vel. Og yfir því seg-
ist hann vera kátur. | halldorjr@centrum.is
MÚSÍKANTINN SEM
SIGUR RÓS FÉLL FYRIR
Sigurður Ármann tónlistar-
maður stríðir við geðhvarfa-
sýki en lítur á björtu hliðarnar
og segir að textar hans séu
dýpri og betri fyrir vikið
L
jó
sm
yn
d:
G
ol
li
Eftir Halldór Halldórsson
Sigurður Ármann: „Ef
maður reynir að vera
einlægur í sköpun sinni,
þá kemur alltaf eitthvað
nýtt úr úr því.“
„Ég bý yfir töluverðri
þrjósku og þrautseigju.“