Morgunblaðið - 20.12.2005, Page 38
38 ÞRIÐJUDAGUR 20. DESEMBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ
MENNING
ÞAÐ eru reyndir menn sem standa að baki
sögunnar Uppi í skýjunum og hún ber þess
merki, þó ekki endilega lesendum í vil. Hér
segir af íkornanum Villa sem elst upp í skóg-
inum. Þegar jarðýtur koma til að ryðja landið
missir hann móður sína, flýr til borgarinnar og
lendir þar í ævintýrum sem ekki er þörf á að
rekja hér en söguþráðurinn er spennandi og
atburðarás svo hröð að persónusköpun og ein-
hvers konar eigið andrúm sögunnar virðast
gleymast. Þessi bók minnir mig á nýlegar
Disneybækur þar sem lögð er áhersla á að
koma atburðarás 90 mínútna teiknimyndar
niður á nokkrar blaðsíður og útkoman er hroð-
virknisleg og lítt eftirminnileg.
Flest dramatísk spennuatriði þekktra
barnabóka og -mynda eru notuð í þessari bók
og þau verða klisjukennd og óáhugaverð. Villi
íkorni missir móður sína en lesandinn fær ekk-
ert færi á að syrgja, Villi fær ekki tíma til þess
heldur, svo mikið er að gerast hjá honum. And-
látið og afar ósannfærandi útför móðurinnar
fer enda fram á þremur og hálfri síðu og á
sama tíma eru jarðýturnar að ryðja niður
skóginum. Sú staðreynd gleymist þó þegar út-
förin er myndskreytt. Og þannig er haldið
áfram á 96 síðum, allt til fyrirsjáanlegra far-
sælla endaloka, gerð spennandi m.a. með því
að loka dýr inni og það er fjórði lykillinn á
kippunni sem gengur að skránni þegar fúl-
mennin eru alveg að koma, aðgangsorðið í tölv-
unni er sömuleiðis stór spennuþáttur. Hljómar
kunnuglega, ekki satt? Í upphafi bókar og við
bókarlok er lögð áhersla á ást og vináttu, bókin
er tileinkuð þeim sem höfundar elska, og í lok-
in er boðskapurinn sá að „hið rétta eðli manns“
lýsir sér í því hvernig hann kemur fram við
samferðadýr sín, það veitir ekki af því að taka
boðskapinn sérstaklega fram því erfiðara er að
finna hann í spennutrylling sögunnar, ýktum
frekar með URR! og KRASS! og þar fram eft-
ir götunum. Þýðing Kristínar Thorlacius er
ágæt í heildina en ein yfirferð í viðbót hefði ef
til vill náð út truflandi smáatriðum og þýðing-
arkeim.
Myndskreytingar Geoff Dunbar eru afar vel
gerðar en ná ekki að heilla, þær minna á kyrr-
myndir úr teiknimyndinni sem er kannski búið
að gera eða á eftir að gera, og fígúrurnar gætu
verið hannaðar með það í huga að þegar þær
verða framleiddar í dúkkuformi gætu þær
passað vel í barnapakkann hjá McDonalds.
Íkorninn kæmi með trjástofni sem hann klifr-
ar upp og niður, froskurinn með loftbelg
o.s.frv. Sagan öll hefur á sér klisjukennt yfir-
bragð fjöldaframleiðslu barnaefnis sem svo
mikið er til af og sem skilur svo óskaplega lítið
eftir sig. Án efa munu þó mörg börn hafa gam-
an af henni, hún hefur visst afþreyingargildi
og kröfur þeirra eru ekki miklar. Einmitt þess
vegna skiptir svo miklu máli að bjóða börnum
upp á eitthvað bitastætt, það er svo auðvelt að
láta þau sitja uppi með einskis nýtt dót og inni-
haldslausar formúlur. Það skiptir máli að gera
meiri kröfur en hér eru uppfylltar.
ReutersPaul McCartney með bókina.
Klisjuformúlan
uppfyllt út í
ystu æsar
BÆKUR
Börn
Paul McCartney, Geoff Dunbar og Philip Ardagh. 96
bls. Uppheimar, 2005
Uppi í skýjunum
Ragna Sigurðardóttir
Það hefur frekar hljótt farið um þá stað-reynd að einn fremsti endurreisnarkórheims, The Tallis Scholars kemur
hingað til lands í ársbyrjun og heldur tvenna
tónleika í Langholtskirkju 7. og 8. janúar. Og
þó, – áhugafólk um tónlist þess tíma hefur
ekki látið segja sér tvisvar hvílíkur fengur
það er að fá þennan hóp til landsins, og þegar
er að verða uppselt á seinni tónleikana, en að-
eins um 150 miðar eftir á þá fyrri. Það er
nefninlega þannig, – að þeir sem til þekkja,
vita að hér er á ferðinni stórkostlegur kór,
með margvísleg verðlaun og viðurkenningar í
handraðanum; – síðast var sagt frá því hér í
blaðinu á föstudag, að breska tónlistar-
tímaritið Gramophone hefði valið plötu kórs-
ins með messum eftir Josquin desPréz eina af
100 bestu plötum sem gefnar hafa verið út.
James Jolly ritstjóri tímaritsins sagði full-
kominn flutning kórsins hafa orðið til þess að
allir gagnrýnendur blaðsins hafi sammælst
um að veita disknum verðlaunin sem hljóð-
ritun ársins 1987.
Kammerkórinn The Tallis Scholars hefur í
yfir þrjá áratugi verið í fremstu röð kóra sem
sérhæfa sig í tónlist endurreisnartímans, og
nýtur einstakra vinsælda um allan heim fyrir
einstaklega vel samhæfðan og blæbrigðarík-
an söng. Kórinn hefur hljóðritað yfir 50 plöt-
ur sem margar hafa komist á metsölulista.
Það sætti reyndar tíðindum þarna árið 1987
að kórinn fengi Gramophone verðlauninn, því
hann varð um leið fyrsti endurreisnarhóp-
urinn til að vinna þau, em Gramophone verð-
launin þykja bæði heiður og hnoss.
Stjórnandi Tallis Scholars og stofnandi er
Peter Phillips, og hann var bara nítján ára
orgelnemandi við St. John’s College í Oxford,
þegar áhugi hans á því að stofna endurreisn-
arsönghóp kviknaði. „Þetta var bara lítill
hópur námsmanna, og okkur langaði einfald-
lega til að spreyta okkur á þessari tegund tón-
listar. Og nú eru komin 32 ár frá því við héld-
um okkar fyrstu tónleika, í skólanum. Í þá
daga var það mjög sjaldgæft að haldnir væru
heilir tónleikar með endurreisnarsöngtónlist,
og þegar ég lít til baka finnst mér að það hafi
verið það merkasta við fyrstu tónleikana okk-
ar; – við vorum með heila tónleika með verk-
um endurreisnartónleikanna. Ekkert barokk,
engin samtímatónlist – bara þetta. En áheyr-
endur voru heldur ekki vanir þessu og þeir
voru fáir á þessum fyrstu tónleikum. Ég held
samt að við höfum öll skynjað að þetta var
eitthvað nýtt og svolítið merkilegt.“
Peter Phillips segir að á þeim tíma hafi
hann ekkert leitt hugann að því að hugs-
anlega yrði tónlist endurreisnartímans að
ævistarfi hans, – hvað þá að hann yrði frum-
kvöðull á því sviði. Þetta var bara brennandi
áhugmál. „Ég vissi alveg að þetta var eitthvað
sem ég elskaði að gera, en hugsunin náði ekk-
ert lengra inn í framtíðina, og ég man meir að
segja að mamma réð mér frá því að feta þessa
braut. En smám saman byggðist þetta upp og
óx, og þegar maður er 19 ára þá finnst manni
maður geta allt. Maður vílar ekkert fyrir sér.“
Á endurreisnartímanum áttu Bretar mörgafburðatónskáld og Thomas Tallis var
eitt þeirra. En í þessum hópi voru fleiri, Will-
iam Byrd meðal annarra. Og úr því að til var
kór sem bar nafn Byrds, fannst Peter Phillips
kjörið að nefna sinn kór eftir Tallis. „Ég vildi
nefna kórinn eftir bresku tónskáldi og Tallis
var fínt tónskáld. Ég komst reyndar að því
síðar að það hafði verið – og er enn, starf-
ræktur annar kór nefndur eftir honum, Tallis
Society, en það er vegna þess að þau starfa í
Greenwich þar sem Tallis dó, en þau syngja
ekki tónlist hans. Það er fínt fyrir okkur.“
Á fyrri tónleikum hópsins hér, 7. janúar kl.
17, verður efnisskráin öll ensk, meðal annars
með verkum eftir Tallis og Byrd. Um þessar
mundir eru 500 ár síðan Tallis fæddist, og á
tónleikunum verður meðal annars flutt verk
hans, Lamentations of Jeremiah, sem byggist
á harmljóði Jeremía spámanns og þykir sér-
lega áhrifamikið.
Á seinni tónleikunum, sem verða 8. janúar
kl. 20, verður meðal annars flutt Missa
Ĺhomme armé eftir Josquin des Préz og hið
margfræga Miserere eftir Gregorio Allegri,
en það er verkið sem Páfagarður leyfði ekki
að væri dreift út fyrir raðir eigin söngvara
fyrr en hinn ungi Mozart skrifaði það upp eft-
ir heyrn. Auk Tallis Scholars kemur íslenski
kammerkórinn Carmina fram á seinni tón-
leikunum, en Carmina sérhæfir sig einnig í
flutningi endurreisnartónlistar. Kórarnir
tveir flytja í sameiningu verk eftir Palestrina,
Clemens og fleiri endurreisnartónskáld, en
Peter Phillips segir að Árni Heimir Ingólfs-
son, stjórnandi Carminu, hafi beðið sér-
staklega um það, að Tallis Scholars syngju
messu Josquins desPréz hér á landi. „Missa
l’homme armé er frábært verk, en níðþungt í
söng; – ég myndi hiklaust kalla það eitt af
snilldarverkum tónbókmenntanna. Verkið
eftir Allegri er það sem við hér köllum crowd-
puller, – það er afskapega vinsælt og fallegt
og á sér þessa sérstöku sögu. Við erum ekki
vön að syngja með öðrum kórum, en í lok
seinni tónleikanna ætlum við að gera það, og
til þess hlökkum við mjög.“
Hér á landi var nýverið hollensk kamm-ersveit, sem sérhæfir sig í flutningi bar-
okktónlistar á eftirgerðir upprunalegra
hljóðfæra og með leikaðferðum sem tíðkuðust
í þá daga. Hljóðfæri frá þeim tímum hafa
varðveist, og af þeim má ráða margt. En skilj-
anlega er engin mannsrödd til frá þeim tíma
og Peter Phillips segir að því sé vitaskuld
ómögulegt að segja til um hvernig kórar
hljómuðu á 16. öld. „Þó eru til nokkrar lýs-
ingar á kórsöng frá þeim tíma, en þær eru nú
ekki beysnar. En það sem við höfum auðvitað
er tónlistin sjálf, og þar hefst leitin að hljómn-
um, stílnum og aðferðunum. Nær er ekki
hægt að komast. En söngur í endurreisn-
armúsík er allt öðru vísi en í margri annarri
tónlist – óperutónlist til dæmis. Fjölrödduð
eða pólýfónísk tónlist endurreisnartímans
krefst þess að allar raddir séu jafnar og
innraddirnar svokölluðu, alt og tenor, þurfa
að heyrast jafnskýrt og sópran og bassi. Það
má ekki gera neitt til að skemma þann grund-
völl hljóðmyndarinnar. Ég vel söngvara í kór-
inn sem hafa ákveðin raddeinkenni, – mér er
sama hvernig fólk lærir það hvort það hefur
farið í sérhæft söngnám í eldri tónlist eða ekki
– ég veit bara hvað það er sem ég vil.“
Spurður um hverju hann leiti að í manns-
röddinni fyrir kórinn sinn, segir Peter Phill-
ips að röddin þurfi að vera tær og sterk – og
sterk þá í merkingunni heilsteypt og þétt –
ekki endilega að raddstyrkurinn sé aðalatriði.
En endurreisnarröddin þarf líka að hafa
ákveðinn sveigjanleika, syngja klingjandi
hreint, og blandast öðrum röddum vel. „Þú
sérð það að einsöngvari úr óperunni passar
ekki inn í þessa skilgreiningu, þar sem áhersl-
an er á hljóm heildarinnar, en ekki ein-
staklingsins. Söngvararnir í kórnum eru þó
allir færir einsöngvarar og syngja til dæmis í
óratoríum – en í kórnum er grundvallaratriði
að raddirnar blandist rétt saman og myndi
einn hljóm.“
Áður en Peter Phillips er kvaddur, segirhann mér frá því, að á árunum þegar
hann var nýbúinn að stofna Tallis Scholars, í
kringum 1975, hafi hann einmitt dreymt um
að komast til Íslands, en að það hafi ekki tek-
ist. Því sé ánægjan mikil nú að fá tækifæri til
að heimsækja landið. Og hann hlær þegar
hann rifjar söguna upp.
„Mér þótti spennandi að ferðast, en hafði þó
ekki ferðast neitt að ráði. Mig langaði til Ís-
lands og reyndi hvað ég gat að fá flugmiða.
Það var bara ekki hægt, vegna þess að þá var
þorskastríðið í hámæli. Það var þarna einhver
smá tími sem ég hafði fyrir þetta ferðalag, en
það bar akkúrat upp á þann tíma sem ferðir
ferðamanna frá Bretlandi voru ómögulegar.
Ég man bara ekki hvort það var þannig að
miðaverðið var skrúfað upp úr öllu valdi, eða
hvort landamærunum var hreinlega lokað um
tíma meðan harðasta deilan stóð yfir. En ég
man það allavega, að um leið og ég þurfti að
fara að sinna öðru, var aftur opnað fyrir al-
mennar ferðir til Íslands, og það þótti mér
skítt.“
Miðar á tónleika The Tallis Scholars eru
seldir í Tólf tónum á Skólavörðustíg.
Við skynjuðum öll að þetta
var eitthvað nýtt og merkilegt
AF LISTUM
Bergþóra Jónsdóttir
The Tallis Scholars.
„Mamma réði mér frá því að feta þessa
braut.“ Peter Phillips, stjórnandi The Tallis
Scholars.
’Mig langaði til Íslands ogreyndi hvað ég gat að fá flug-
miða. Það var bara ekki hægt,
vegna þess að þá var þorska-
stríðið í hámæli.‘
begga@mbl.is