Fréttablaðið - 24.12.2004, Blaðsíða 22

Fréttablaðið - 24.12.2004, Blaðsíða 22
22 24. desember 2004 FÖSTUDAGUR Tímasetning á þessum dreifðu minningum er ekki nákvæm, en ég er líklega helst að lýsa tíman- um frá því ég var fimm til átta ára, frá árunum 1933-36. Það var í miðri kreppunni. Við vorum tíu systkini á Vaðbrekku og níu okk- ar fædd fyrir 1936. Á Vaðbrekku voru um 250 ær og tvær kýr. Fjögur systkinanna voru eldri en ég og fimm yngri. Langmest af því sem var til matar og fata kom frá búskapn- um. Ég gekk til dæmis í sauð- skinnsskóm þar til ég var um það bil tíu ára. Mikið af fötunum var prjónað úr ull af eigin kindum. Ullin var þvegin heima, send til kembingar og kom aftur í lopa- plötum. Móðir mín og systur spunnu lopann í band og úr band- inu var bæði prjónað á hand- prjóna og prjónavél. Móðir mín safnaði eitt sumarið, snemma í búskap sínum, sauðasmjöri úr ám sem hafðar voru í kvíum og mjólkaðar yfir sumarið. Smjörið seldi hún og keypti prjónavélina fyrir peninginn. Taldi það eina sína bestu fjárfestingu í heimil- ishaldinu. Maturinn var líka að mestu leyti af okkar eigin kúm og kind- um. Af kornmat var keypt rúg- mjöl í brauð og slátur, haframjöl og hrísgrjón í grauta og hveiti í fínni bakstur. Ný jólaföt Mörgu þurfti að koma í verk fyrir jólin. Það þurfti að spinna band og prjóna vettlinga, sokka, húfur og annan prjónafatnað á okkur. Mikið af þessari vinnu kom á móður mína, en eldri syst- ur mínar urðu snemma liðtækar á prjónavél. Auðvitað var þetta fatnaður sem við þurftum hvort sem var, en það var bara svo skemmtilegt að fá ný föt fyrir jólin. Það var líka oft puntað sér- staklega upp á föt sem við feng- um á jólunum, til dæmis með mislitum bekkjum í peysum eða röndum í laskanum á vettlingum og sokkum. Það varð okkur krökkunum líka minnisstætt að fá nýja blá- steinslitaða og bryddaða sauð- skinnsskó á jólunum. Þá vorum við sérstaklega fín. Heimasmíðað jólatré Svo fengum við líka jólatré. Það var víst frekar nýstárlegt í sveitinni fyrir 1940, en mamma hafði unnið í búð á Eskifirði áður en hún giftist og þá bjó hún hjá kaupmannsfjölskyldunni sem kom frá Reykjavík. Þar kynntist hún mörgum nýjungum sem hún notfærði sér eftir að hún giftist. Jólatréð var heimasmíðað. Það gerði móðurbróðir minn. Fyrst sagaði hann til ferkantaða plötu og festi ferkantaða stöng í gatið. Inn í stöngina voru boruð göt og í götin settar greinar sem báru kertin. Þegar greinarnar voru komnar á tréð skreytti frændi minn þær með eini sem hann hafði sótt á stað sem lá svo langt frá bæ að ferðin þangað og heim aftur tók á fjórða klukku- tíma. Einigreinarnar voru bundnar á tréð með tvinna og þá vorum við komin með gullfallegt jólatré. Stundum var það skreytt með lituðum pappírsræmum. Hátíð ljóssins Áður en hátíðin gekk í garð þvoðu allir sér og fóru í spariföt- in. Þar var ekki úr miklu að velja, en allt sem hafði verið prjónað og saumað fyrir jólin var nú tekið í notkun og kom sér vel. Faðir minn og móðurbróðir komu snemma inn frá gegning- um til að þvo sér, raka sig og fara í sparifötin. Mamma og eldri systur mínar skiptust á við matseldina til að geta puntað sig. Rétt áður en hátíðin hófst vor- um við yngstu systkinin látin fara inn í hjónaherbergið sem var í innri enda baðstofunnar. Þar biðum við meðan kertin voru sett á tréð og kveikt á þeim. Svo var hurðin opnuð og við máttum koma fram og horfa á dýrðina. Þar stóð jólatréð á borði í baðstofunni miðri. Á því voru logandi kerti í mörgum röðum og ekkert annað ljós kveikt í bað- stofunni. Mér finnst enn að skín- andi ljósið frá jólatrénu sé fal- legasta ljós sem ég hef séð. Skin- ið frá ljósunum speglaðist í aug- um allra kringum borðið. Við stóðum og dáðumst að þessu kraftaverki sem við fengum að sjá í okkar eigin húsi á dimmustu dögum ársins. Okkur hafði verið sagt að jólin væru hátíð ljóssins. Nú sáum við að það var rétt. En við vorum ekki bara undr- andi. Við vorum líka forvitin. Eldri systkinin höfðu fengið um- slög, sem voru límd aftur, og úr þeim voru klippt stykki um fjórðung inn að miðju hvorum megin. Þá voru komnir þar pokar með hanka á. Þeir voru hengdir á greinar á trénu og látnar í þá smákökur og súkkulaðibitar ef þeir voru til. Við vissum að við máttum skoða í pokana seinna Þegar við vorum búin að horfa dálitla stund á jólatréð tókust all- ir í hendur og gengu kringum jólatréð, og þeir sem kunnu jólsálmana sungu þá. Síðan óskuðum við hvert öðru gleði- legra jóla. Að því loknu var sest að borði og tekið til snæðings. Jólamaturinn Það var dálítið breytilegt hvað við fengum í jólamatinn. Oftast var það hangikjöt, en stundum nýtt kindakjöt. Þegar mikið var af rjúpu var hún á borðum á að- fangadag. Með kjötinu voru brúnaðar kartöflur eða kartöflur í hvítri sósu. Stundum munum við hafa haft rófur með kjötinu líka. Með matnum var líka ein kaka af laufabrauði á mann. Það var austfirskt laufabrauð, gert úr svipuðu deigi og kleinur. Kök- urnar voru flattar út og skornar út með kleinuhjóli og síðan steiktar í tólg. Þetta laufabrauð var bæði þykkara og matarmeira en norðlenska laufabrauðið og mér finnst ég enn finna dásam- legan ilm og bragð af því þegar ég hugsa um það. Á eftir aðalréttinum var bor- inn fram hrísgrjónagrautur með rúsínum. Yfir hann var stráð sykri og kanel og höfð mjólk út á. Þegar leið á kvöldið var búið til kakó sem var hellt í bolla og glös og þeyttum rjóma bætt á efst. Með kakóinu fengum við ýmsar kökusortir, bæði smákök- ur og tertur. Þegar kakódrykkj- unni var lokið gátum við ekki komið meiru niður. Kölski í spilin Ekki mátti spila á spil á að- fangadagskvöld, því að þá gat kölski komið í spilin. Var til þjóð- saga um að menn hefðu gert það og lent í hálfgerðum sálarháska fyrir. Yfirleitt áttum við að hafa hægt um okkur á aðfangadags- kvöld, og mig minnir að við höf- um jafnvel farið frekar snemma að sofa. Á jólanóttinni var látið loga ljós á stóra olíulampanum í baðstofunni alla nóttina. Það er ein af jólaminningunum hve há- tíðlegt það var að vakna og sjá að baðstofan var uppljómuð á þess- um lengstu nóttum á stystu dög- um ársins. Á jóladag vorum við vakin með kakói og kökum sem við fengum í rúmið. Það var alveg sérstaklega hátíðlegt og gerðist ekki annars nema við værum veik. Þegar kom fram yfir há- degi fórum við gjarnan út til að fá ferskt loft og fórum jafnvel í fjárhúsin með þeim sem sinnti fénu þar. Þegar leið að kvöldi fóru þeir sem það kunnu að spila á spil, geta gátur eða kveðast á og varð oft gaman af því. Vin- sælasta spilið var Svarti Pétur, því að hann gátu allir spilað sem þekktu spilin. Þegar ég horfi til baka og reyni að rifja upp jólin á Vað- brekku fyrir meira en sjötíu árum finnst mér áberandi hve mikla gleði við krakkarnir höfð- um af þessari stórhátíð. Mér finnst að við höfum jafnvel verið fullt eins sæl með jólin á okkar vísu eins og krakkarnir nú á dög- um eru með sín jól. ■ Jól á Vað- brekku fyrir sjötíu árum Stefán Aðalsteinsson, doktor í búfjárfræðum, bjó á Vaðbrekku í Hrafnkelsdal á Austurlandi sem barn. Þar átti Hrafnkell Freysgoði heima skömmu eftir að land byggðist á Íslandi, en Hrafnkelsdalur er langt inni í landi og heyrir Jök- uldalshreppi til. Stefán minnist hér jóla bernsk- unnar á Vaðbrekku, þar sem kertaljós heimatil- búna jólatrésins, blásteinslitaðir sauðskinnsskór og austfirsk laufabrauðskaka gerðu hjarta hans að eilífu þakklátt og glatt.

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.