Fréttablaðið - 12.10.2005, Blaðsíða 40
Sveigjanleiki og hreyfanleiki eru
lykilorð í atvinnulífi dagsins í
dag og margar tækninýjungar
eru til þess ætlaðar að gera líf
manns sveigjanlegra. Þessi þró-
un hefur góðar hliðar og slæmar.
Núna til dæmis er aldrei hægt
að fara í frí. Með í för er ávallt
farsíminn ómissandi sem er orð-
inn miklu meira en sími þannig
að maður á helst að geta séð póst-
inn sinn og sinnt erindum hvar-
vetna í heiminum. Það grátbros-
lega við þetta allt saman er að
fjarskiptafyrirtækin selja nýj-
ungarnar einmitt þannig; með
myndum af önnum köfnu jakka-
fataklæddu nútímafólki sem sit-
ur við lítinn læk í grasbrekku í
svissnesku ölpunum og sinnir er-
indum sínum brosandi í gegnum
símann. Það sem gleymist er auð-
vitað af hverju þetta sama fólk
fór í svissnesku alpana ó væntan-
lega til að hlusta á lækinn, draga
andann og hugsa einmitt ekki um
öll erindin.
Í atvinnulífinu er manni hins
vegar talin trú um það að maður
sé ómissandi og maður lætur
auðveldlega hrífast með; er nán-
ast alltaf í vinnunni og þorir
aldrei að slökkva á símanum þó
að staðreyndin sé sú að meiri-
hluti erinda getur beðið og lík-
lega getur einhver annar sinnt
hinum flestum. Þetta á við um
velflesta vinnustaði þótt við vilj-
um ekki trúa því.
En hreyfanleiki og sveigjan-
leiki eru líka af hinu góða. Nýtt
atvinnuumhverfi auðveldar
manni að sinna fjölbreyttari
störfum og nýta hæfileika sína á
fleiri en einn hátt.
BARA EITT NORM LEYFILEGT?
Hins vegar hefur atvinnuum-
hverfi almennt ekki alfarið fylgt
tækninýjungunum. Sveigjanleik-
inn og hreyfanleikinn virðast í
það minnsta flækjast mjög fyrir
opinberum aðilum á borð við
Fæðingarorlofssjóð. Þar á bæ
virðist gert ráð fyrir klassísku
fyrirkomulagi með einum at-
vinnurekanda og einum launþega
og flóknari reikningsdæmi með
nokkrum vinnuveitendum, sjálf-
stæðum atvinnurekstri og hlut-
fallsstörfum hér og þar gera það
að verkum að það tekur nokkra
vinnudaga bara að sækja um úr
sjóðnum þrátt fyrir góðan vilja
starfsmanna sjóðsins til að að-
stoða umsækjendur.
Hingað til virðist aðaláhyggju-
efni manna vegna Fæðingar-
orlofssjóðs vera þakið sem sett
var á fæðingarorlofsgreiðslur en
sem stendur getur enginn fengið
meira en 480 þúsund krónur úr
fæðingarorlofssjóði. Þetta þykir
þeim sem eru með milljón á mán-
uði ansi súrt í broti. Það að ein-
hver fái „bara“ hálfa milljón á
mánuði af opinberu fé tel ég hins
vegar ekki vera aðalgallann á
kerfinu.
GLOPPÓTT LÖG
Í lögunum um fæðingarorlof eru
hins vegar ýmsar gloppur sem
gera mun fleirum erfitt um vik
að taka orlof en forstjórum.
Ung kona sem á von á barni
hefur verið að vinna og í námi
sex mánuði fyrir fæðingu barns-
ins. Eini gallinn er að mánuður
leið á þessum sex mánaða tíma
þar sem hún var hvorki á launa-
skrá né í námi - t.d. að leita sér að
vinnu eftir námslok. Þá býður
fæðingarorlofssjóður upp á heil-
ar 40 þúsund krónur á mánuði.
Þetta hefur líklega þær afleiðing-
ar að viðkomandi tekur ekkert
orlof en heldur áfram í skóla
enda má hún ekki þiggja 40 þús-
und krónurnar nema hún þiggi
engin laun eða lán á meðan. Þessi
staða er algengari en fólk hyggur
og veldur því að hitt foreldrið
þarf að taka á sig aukna ábyrgð.
Þarna þjóna lögin því ekki til-
gangi sínum.
Önnur glufa í lögunum er til
dæmis sú staðreynd að maður
sem hefur lokið námi fyrir ári og
síðan unnið eins og berserkur
fyrir góðum launum fær þau alls
ekki metin inn í fæðingarorlof.
Greiðslur eru metnar út frá
skattframtölum tveggja síðustu
heilu almanaksára þannig að þeir
sem hafa t.d. verið í námi árið
2003 og eignast barn 2005 (þótt
þeir hafi unnið mikið að undan-
förnu) detta niður í sömu laun og
þeir náðu með herkjum að aura
saman með náminu.
Ef tilgangur laganna er að
tryggja að fólk geti tekið orlof á
80% tekna sinna verður að gera
kerfið sveigjanlegra gagnvart
þeim sem eru að koma úr námi
og út á hinn almenna vinnumark-
að sem og þeim sem eru hreyfan-
legir í starfi og sinna fleiri störf-
um en einu. Það ætti að vera sam-
eiginlegt markmið allra; hins op-
inbera, atvinnurekenda, laun-
þega og sjálfstætt starfandi ein-
staklinga, að tryggja það að sjóð-
urinn þjóni því hlutverki sínu að
allir geti tekið fæðingarorlof. Þá
snýst málið ekki um 480 þúsund
krónur á mánuði heldur þá sem
boðið er upp á 40 þúsund krónur
á mánuði. Þeirra stöðu þarf að
leiðrétta.
MIÐVIKUDAGUR 12. OKTÓBER 2005 MARKAÐURINN16
S K O Ð U N
Þjóðin hefur mikla hagsmuni af framtíðarvali á gjaldmiðli.
Umræða um evruna
er tímabær
Hafliði Helgason
Eitt af því sem gera má ráð fyrir að alþjóðavæðing viðskiptalífsins
hafi í för með sér er að gjaldmiðlum heimsins mun fækka. Hvatinn
að þessari þróun er að með auknum millilandaviðskiptum verða hag-
kerfin líkari hvert öðru.
Sumir ganga svo langt að telja að í náinni framtíð verði þrír til
fjórir gjaldmiðlar í heiminum. Íslendingar muni ekki fara varhluta
af þessari þróun ef rétt reynist. Það er því mikilvægt fyrir okkur að
ræða framtíðarsýn okkar viðskiptaumhverfis og skoða með opnum
huga kosti og galla þess að burðast með eigin gjaldmiðil í jafn litlu
hagkerfi og því íslenska. Formaður Samfylkingarinnar hefur nú stig-
ið fram og kallað eftir slíkri umræðu.
Umræða um hugsanlega upptöku
evru er því fyllilega tímabær og um-
ræða um hugsanlega aðild að ESB er það
einnig. Mikilvægt er að öfgalaus rök-
ræða fari fram í samfélaginu um hvert
við stefnum í opnara samfélagi þjóða.
Það er engin ástæða til að gefa sér fyrir
fram hver niðurstaðan verður af slíkri
rökræðu. Hitt er ljóst að þjóð sem er vel
upplýst um kosti og galla þeirra mögu-
leika sem hún á mun að öllum líkindum
bregðast við þróun umhverfis síns af
meiri skynsemi en sú sem lokar umræð-
una bak við bannhelgi og kreddumúra.
Úrlausnarefni hverfa ekki við það eitt
að tilraun sé gerð til að þegja þau í hel.
Í Markaðnum í dag er ítarleg grein
þar sem skoðaðar eru helstu þættir
varðandi hugsanlega upptöku evru og
þau vandamál sem krónan veldur. Aug-
ljóst er að slík umræða á frekar upp á
pallborðið nú en oft áður. Ástæðan er sú
að útflutnings- og samkeppnisgreinar
eiga undir högg að sækja meðan krónan
heldur núverandi styrk. Opnara sam-
félag og frjálsari vinnumarkaður milli
Íslands og landa Evrópusambandsins
hefur dregið úr sveiflum í hagkerfinu.
Það er vart hægt að hugsa þá hugsun til
enda hverjar afleiðingar hefðu orðið ef
núverandi þensla af völdum stóriðju og
útlánavaxtar væri í því umhverfi þegar
hindranir í innflutningi vinnuafls voru
meiri en raunin er nú.
Innganga í ESB og upptaka evru
myndi hafa jákvæð áhrif á lífskjör hér á landi. Krónan er viðskipta-
hindrun og því meiri sem þátttaka íslenskra fyrirtækja er í alþjóð-
legum viðskiptum, því meiri er hindrunin. Hagsaukinn af upptöku
evru verður einnig meiri eftir því sem fleiri lönd innan ESB taka upp
evruna. Það er því full ástæða til að fylgjast gaumgæfilega með
slíkri þróun.
Við gætum fyrr en okkur grunar staðið frammi fyrir róttækum
spurningum um hvert vægi lífsgæði vegna fullrar þátttöku í samfé-
lagi Evrópu hefur gagnvart heilögum kúm eins og eigin gjaldmiðli og
fullum yfirráðum yfir fiskimiðunum. Verði fórnarkostnaðurinn af
því að standa utan við of mikill er líklegt að þjóðin leggi tilfinningar
sínar til hliðar og greiði atkvæði með buddunni.
Brother DCP-7010
Laserprentari
Stafræn ljósritunarvél
Litaskanni
• Prentar allt að 20 bls. á mínútu
• Upplausn 2400×600 dpi
• 8 MB ram & USB 2.0
• 250 bls. pappírsskúffa
• Windows og MacOS
• Ljósritun (fl atbed)
• Ljósritar allt að 20 bls. á mínútu
• Stækkar/minnkar: 25-400%
• Litaskanni: Allt að 9600 dpi
• Aðeins 25,3 cm á hæð
Verð kr. 26.900
Laserprentarar...
... og ljósritunarvélar!
Brotherlasertæki eruöll með 3ja ára ábyrgð
ÚTGÁFUFÉLAG: 365 – prentmiðlar RITSTJÓRI: Hafliði Helgason RITSTJÓRN: Björgvin Guðmundsson, Eggert Þór Aðalsteinsson, Hjálmar Blöndal, Hólmfríður Helga Sigurðardóttir
AUGLÝSINGASTJÓRI: Jónína Pálsdóttir RITSTJÓRN OG AUGLÝSINGAR: Skaftahlíð 24, 105 Reykjavík AÐALSÍMI: 550 5000 SÍMBRÉF: 550 5006 NETFÖNG: ritstjorn@markadurinn.is og aug-
lysingar@markadurinn.is VEFFANG: visir.is UMBROT: 365 – prentmiðlar PRENTVINNSLA: Ísafoldarprentsmiðja ehf. DREIFING: Pósthúsið ehf. dreifing@posthusid.is Markaðinum er dreift
ókeypis með Fréttablaðinu á heimili á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Akureyri. Einnig er hægt að fá blaðið í völdum verslunum á landsbyggðinni. Markaðurinn áskilur sér rétt til að
birta allt efni blaðsins í stafrænu formi og í gagnabönkum án endurgjalds.
Japan raknar úr rotinu
Economist | Economist gerir japanskt efnahagslíf að
umfjöllunarefni sínu. Loks virðist sjá fyrir endann á
fimmtán ára samfelldri
stöðnun í japönsku hagkerfi.
Nú eru menn farnir að sjá
fjölgun starfa og aukin kaupmátt og hagfræðingar
eru meira að segja farnir að endurskoða spár sínar
um hagvöxt á árinu. Erlendir fjárfestar fylkja liði til
Japans og hlutabréfamarkaðurinn hefur rétt úr
kútnum. Það að Koizumi hafi verið endurkjörinn
sem forsætisráðherra er skýrt merki um það að al-
menningur hafi gefið grænt ljós á þær efnahags-
umbætur sem hann hefur unnið að. Hægfara breyt-
ingar innan fjármála-, hag- og stjórnkerfis eru hægt
og bítandi að skila sér og telur Economist að þær
gefi væntingar um bjarta framtíð.
Enn blasa þó við veikleikar í efnahagskerfinu:
Verðhjöðnun, veikt bankakerfi, skuldsett fyrirtæki
og mikill halli á fjárlögum. Og það sem meira er, Kína
hefur tekið fram úr Japan sem efnahagsveldi Asíu.
Ólígarki í bobba
The Sunday Times | Oleg Deripaska, yngsti milljarða-
mæringur Rússlands og sjötti ríkasti maður
landsins, er á leið í breskan réttarsal eftir að annar
ólígarki, Azav Nazorov, lagði fram ákæru á hendur
Rusal, álfyrirtæki
hans, fyrir fjársvik
og blekkingar.
Krefst Nazorov
þess að fyrirtæki
sitt – Ansol – fái yfir
tuttugu milljarða í skaðabætur vegna samnings-
brots Rusals.
Fyrirtækin gerðu samning um að taka við stjórn
á Tedaz, stærstu álbræðslu Tadsíkistans. Ansol sak-
ar Deripaska og Rusal um að hafa svikið samning-
inn með því að semja persónulega við forseta
Tadsíkistans um að fyrirtækið sæti eitt að stjórnun
álbræðslunnar.
Það er stutt síðan Deripaska náði sátt við við-
skiptafélaga sína Reuben-bræður áður en til mála-
ferla kom.
U M V Í Ð A V E R Ö L D
Mikilvægt er að
öfgalaus rökræða
fari fram í samfélag-
inu um hvert við
stefnum í opnara
samfélagi þjóða. Það
er engin ástæða til
að gefa sér fyrirfram
hver niðurstaðan
verður af slíkri rök-
ræðu. Hitt er ljóst að
þjóð sem er vel upp-
lýst um kosti og galla
þeirra möguleika
sem hún á mun að
öllum líkindum
bregðast við þróun
umhverfis síns af
meiri skynsemi en sú
sem lokar umræðuna
bakvið bannhelgi og
kreddumúra.
bjorgvin@markadurinn.is l hjalmar@markadurinn.is l eggert@markadurinn.is
haflidi@markadurinn.is l holmfridur@markaðurinn.is
Katrín
Jakobsdóttir
Varaformaður
Vinstrihreyfingarinnar –
græns framboðs.
O R Ð Í B E L G
Sögurnar... tölurnar... fólkið...
Sveigjanlegra fæðingarorlof fyrir alla
Hingað til virðist aðaláhyggjuefni manna vegna
Fæðingarorlofssjóðs vera þakið sem sett var á fæð-
ingarorlofsgreiðslur en sem stendur getur enginn
fengið meira en 480 þúsund krónur úr fæðingaror-
lofssjóði. Þetta þykir þeim sem eru með milljón á
mánuði ansi súrt í broti.