Fréttablaðið - 12.01.2006, Blaðsíða 28
12. janúar 2006 FIMMTUDAGUR28
Hvert er meinið mikla sem nú á að
bæta með niðurskurði í íslenska
skólakerfinu? Hver eru rökin fyrir
niðurskurði um eitt ár og lengingu
skólaárs þannig að sumarleyfi
styttist og þar með skerðast
óumdeilanlega möguleikar á
sumarvinnu? Rökin eru þau að
skólakerfi séu öðruvísi annars
staðar.
Já, þau eru það og árangurinn
sömuleiðis: „Verndaðir“ einstakl-
ingar, sem aldrei hafa kynnst öðru
en skólabekknum, ungt fólk sem
er ekki eins þroskað og sjálfstætt
og íslensku ungmennin sem við
erum svo vön að umgangast. Ég
er þýsk að uppruna og hef kynnst
því af eigin raun hvernig það er að
alast upp í vernduðu skólaumhverfi
til 19 ára aldurs og kynnast
ekki raunverulegu atvinnulífi á
skólaárunum en þurfa síðan að
taka heljarstökk í fullorðinstilveru.
Aðeins sá sem ekki veit getur
talið það „betri leið“ en íslenska
skólakerfið býður upp á í dag.
Vissulega þarf að endurskoða
íslenska skólakerfið að ýmsu
leyti. En ungmenni landsins hafa
hingað til fengið árin til tvítugs
til að þroskast og undirbúa sig
undir sjálfstætt nám í háskóla.
Stúdentar héðan treysta sér í nám
hvar sem er í heiminum og standa
sig vel. Íslenskt stúdentspróf er
viðurkenndur lykill að háskólum
um víða veröld og íslenskir
stúdentar þurfa ekki að setjast í
fornám. Þeir standa betur að vígi
bæði varðandi persónulegan þroska
og námsundirbúning en aðrir. Mér
finnst sorglegt að horfa upp á það að
stjórnendur menntamála hér á landi
virðast ekki vita hvað við eigum.
Höfundur er framhaldsskóla-
kennari.
Enginn
veit hvað
átt hefur...
UMRÆÐAN
STYTTING
NÁMS TIL
STÚDENTSPRÓFS
MAJA LOEBELL
Það hefur löngum verið erfitt að
sjá skóginn fyrir trjánum. Á sama
hátt er erfitt að sjá nútímann
í víðu samhengi og bera hann
saman við liðna tíð vegna þess
að erfitt er að sjá framhjá þeim
trjám sem næst manni standa.
Það virðist viðtekin skoðun að
lífskjör séu stöðugt að batna og
að í landinu sé meiri hagsæld en
nokkru sinni fyrr. Skoðum þetta
ögn betur. Fyrir hálfri öld síðan
byggði föðursystir mín, sem þá var
einstæð móðir, tvílyft einbýlishús
fyrir kennaralaunin sín. Auk þess
gat hún rekið heimili sitt, fætt
og klætt sig og barnið sitt. Hver
gerði þetta fyrir ein kennaralaun
í dag?
Fyrir hálfri öld var reiknað
með einni fyrirvinnu á heimili.
Fyrir laun þessarar fyrirvinnu
var íbúð keypt, hituð upp, oftast
með dýrri olíu, rafmagn keypt
auk matar og klæða fyrir alla
fjölskylduna sem oftast var
helmingi stærri en nú gerist og
gengur. Auk þess var eldavél,
húsgögn og innréttingar keyptar
og bílaeign var vaxandi þó hún
væri ekki eins almenn og í dag.
Ísskápar og sjónvarpstæki voru
að koma til sögunnar og var
þetta allt borgað með launum
einnar fyrirvinnu. Hve stór hluti
fjölskyldna gæti í dag eignast íbúð
og innbú og jafnframt framfleytt
sér með einni fyrirvinnu?
Þá er eftir að nefna vinnustundir
á bakvið heildartekjur heimilisins.
Vinnudagur var oft lengri fyrir
hálfri öld en þegar heim var
komið var hægt að hvíla lúin
bein. Búið var að þvo þvottinn,
þrífa húsið, kaupa í matinn og
elda hann, hjálpa börnunum með
heimanámið og annað tilfallandi
í dagsins önn. Í dag er þetta allt
eftir þegar heim er komið.
Vissulega er íburðurinn meiri í
dag og gerviþarfirnar fleiri en ef
önnur fyrirvinna heimilisins gæti
keypt íbúð, húsgögn, innréttingar,
eldavél, mat og klæði, eða með
öðrum orðum gæti dekkað allar
grunnþarfir stórrar fjölskyldu,
þá ætti að vera hægt að veita
sér ýmislegt fyrir laun hinnar
fyrirvinnunar, eða hvað?
Í Morgunblaðinu 19. desember,
segir Ari Edwald að kaupmáttur
lágmarkslauna hafi hækkað
um 62,5% frá ársbyrjun 1995
til þriðja ársfjórðungs þessa
árs og vitnar þar í launavísitölu
Hagstofunnar. Ég efast ekki um
að útreikningarnir séu réttir en
spyrja má sig hvort forsendur
útreikninganna séu það, því
samkvæmt þessari staðhæfingu
væru lágmarkstekjur í dag
66.461 kr. ef þessi hækkun hefði
ekki komið til. Þú lesandi góður,
minnist þú slíkra eymdarkjara
frá því fyrir tíu árum?
Þrátt fyrir þessa tilraun
forkólfa atvinnulífsins til að halda
fram tölum um almenna hækkun
launa er staðreyndin sú að á
síðustu árum hefur misskipting
launa aukist ógnvænlega hratt,
fátæku fólki fjölgar og jafnframt
ofsaríku. Auðurinn safnast sem
sagt á fárra hendur og þegar
borgarstjóri Reykjavíkur reynir
að sporna við fótum og leiðrétta
laun láglauna kvennastétta sem
búa við það bág kjör að ekki
næst að ráða í lausar stöður, fara
stórlaxarnir af stað og segja allt
fara til fjandans. Flestir þiggja
þeir örstuttu seinna margfalt
meiri hækkun í krónum talið. Ég
á eftir að sjá að framkvæmanlegt
verði að lækka laun æðstu
ráðamanna með lögum, eins
og ríkisstjórnarmeirihlutinn
hyggst beita sér fyrir. Líklegra
er að verið sé að slá ryki í augu
almennings og launahækkun
Kjaradóms standi. Úti í
samfélaginu grasserar siðleysið
á sama tíma með ofurlaunum
ýmissa stjórnenda fyrirtækja
og ekkert lát er á svimandi
háum starfslokasamningum.
Þeim er ekki haldið niðri með
handvirkum hætti eins og gildir
um kjarasamninga opinberra
starfsmanna sem hafa þurft að
lúta hámarkssamningum þar sem
ekki er hægt að yfirborga þótt
markaðurinn kalli eftir því.
Að lokum þetta. Ég tek ofan
fyrir borgarstjóra Reykjavíkur
að láta verkin tala og þora að
rugga bátnum. Réttlæti er orð
sem dusta má rykið af og græðgi
má í staðinn setja ofan í skúffu.
Leikskólakennarar fagna því að
ófaglært fólk fær kjarabætur,
sem sannarlega mættu vera
meiri, en horfast verður í augu við
þá staðreynd að arðsemi verður
að vera í námi leikskólakennara,
annars menntar sig enginn. Öll
umræða um að leikskólakennarar
geti ekki unnt öðru starfsfólki
kjarabóta og að konur séu konum
verstar er úr lausu lofti gripnar.
Myndi iðnmeistari sætta sig
við að iðnneminn væri með
hærri laun en hann sjálfur?
Fólk áttar sig sjálfsagt ekki á
því að sambærilegt ástand er í
leikskólum borgarinnar núna.
Þetta verður að laga strax,
annars er hætta á ferðum. Ég
trúi því og treysti, að vinnuhópur
sá sem borgarstjóri gerði
tillögu um, leggi fram réttlátar
hugmyndir um leiðréttingu á
launum leikskólakennara og
að þær hugmyndir fái jákvæða
umfjöllun á launamálaráðstefnu
sveitarfélaganna 20. janúar
nk. Sveitarstjórnarmenn hljóta
að sjá að núverandi ástand er
óviðunandi.
Sögufölsun samtímans?
UMRÆÐAN
KJÖR LEIKSKÓLA-
KENNARA
ELÍN ERNA STEINARSDÓTTIR
Auðurinn safnast sem sagt
á fárra hendur og þegar
borgarstjóri Reykjavíkur
reynir að sporna við fótum
og leiðrétta laun láglauna
kvennastétta, sem búa við það
bág kjör að ekki næst að ráða í
lausar stöður, fara stórlaxarnir
af stað og segja allt fara til
fjandans.
Á LEIKSKÓLA ER GAMAN Greinarhöfundur segir leikskólakennara fagna því að ófaglært
fólk fái kjarabætur en horfast verði í augu við að arðsemi verður að vera í námi
leikskólakennara, annars menntar sig enginn.