Fréttablaðið - 11.03.2006, Page 64
Alþýðuflokkurinn og Alþýðu-samband Íslands, tvær greinar af sama meiði,
spruttu úr jarðvegi djúpstæðra
átaka í upphafi síðustu aldar. Hið
gamla bændasamfélag sem haldið
hafði eignalausri alþýðu í viðjum
fátæktar var í fjörbrotum. Djarfir
einstaklingar hófust ótrauðir
handa við uppbyggingu verslunar
og iðnaðar og tóku í sína þjónustu
stórvirk atvinnutæki sem veitt
gátu íbúum ört vaxandi þéttbýlis
atvinnu og sköpuðu eigendum
sínum mikinn auð og pólitísk völd.
Kjör hinna vinnandi stétta voru
ákveðin einhliða af atvinnurek-
endum, atvinnuöryggi var ekkert,
vinnutíminn ómanneskjulegur,
vinnuslys tíð og félagslegt öryggi
ekkert. Á þessum umbrotatímum
fór ekki hjá því að mikil átök yrðu
um skiptingu þess auðs sem ný
tækni og atvinnuhættir sköpuðu.
Ferskir vindar hugsjóna frelsis,
jafnréttis og bræðralags léku um
þjóðir Evrópu og bárust hingað
heim með eldhugum sem settu
mark sitt á þróun íslenskra stjórn-
mála og samtaka alþýðu.
Þrjú sjónarhorn
Margt hefur verið skrifað um þetta
tímabil en ég geri ekki ráð fyrir því
að það hafi verið sameiginleg ætlun
þeirra Matthíasar Viðars Sæmunds-
sonar heitins, Guðjóns Friðriksson-
ar og Guðmundar Magnússonar að
lýsa þessum umbrotum frá þremur
afskaplega ólíkum sjónarhornum í
jafnmörgum tiltölulega nýútkomn-
um bókum.
Í ævisögu Thorsaranna sem út
kom fyrir síðustu jól lýsir Guð-
mundur Magnússon á myndrænan
hátt stórframkvæmdum Thorsar-
anna, m.a. á Hjalteyri þar sem
þeir reistu verksmiðju en auk þess
mörg hundruð fermetra hýbýli
undir eigendur sína sem setið gátu
í kvöldkyrrðinni þá mánuði sem
vinnsla stóð yfir og virt fyrir sér
athafnasvæði sitt. Saga þess
verkafólks sem stritaði langan
vinnudag fyrir lítil laun við bágar
aðstæður, slasaðist eða lést í
vinnuslysum í þessari sömu verk-
smiðju er ekki rakin enda ekki
hluti þess verkefnis sem Guð-
mundur tók að sér við ritun þess-
arar ágætu bókar. Hún er saga
stórbrotinna athafnamanna sem
vildu, gátu og svifust einskis til
þess að láta drauma sína og vonir
um framtíð áa sinna rætast og
veitir innsýn í samfélag þar sem
hagsmunir einstaklinga og stjórn-
málaflokka gengu framar hags-
munum almennings.
Högum alþýðu lýsir Matthías
Viðar Sæmundsson hins vegar á
ógleymanlegan hátt í bók sinni
Héðinn, Bríet, Valdimar og Laufey
sem út kom á árinu 2004. Lýsingar
hans eru ofnar úr aragrúa sam-
tímaheimilda. Þar er að finna lýs-
ingar á högum og aðbúnaði þess
daglaunafólks sem bjó við kröpp
kjör og illan aðbúnað í torfkofum
og hreysum þeirrar Reykjavíkur
sem á sama tíma var athafnasvæði
þeirra sem töglum og högldum
náðu í efnahags- og athafnalífi
þjóðarinnar í upphafi síðustu
aldar. Meginviðfangsefni Matthí-
asar er hins vegar Héðinn Valdi-
marsson, samtími hans og fjöl-
skylda og þá ekki síst saga móður
hans, baráttukonunnar Bríetar
Héðinsdóttur. Einnig kynnumst
við ungum hugsjónamönnum sem
síðar settu mark sitt á íslenskt
samfélag m.a. Jónasi frá Hriflu.
Ómetanlegt hlutverk
Söguefni Matthíasar vefst að hluta
saman við ævisögu Hannesar Haf-
stein sem Guðjón Friðriksson
sendi frá sér fyrir síðustu jól en
þar er lýst samfélagi embættis- og
menntamanna í Reykjavík í upp-
hafi 20. aldar auk þess sem
ógleymanleg mynd er dregin upp
af hugsjónamanninum og húman-
istanum Hannesi Hafstein.
Úr þeirri deiglu sem framan-
greindir höfundar lýsa í ritum
sínum urðu með tímanum til þrír
stjórnmálaflokkar. Alþýðuflokkur-
inn sem stjórnmálaarmur Alþýðu-
sambandsins, Framsóknarflokkur-
inn og Sjálfstæðisflokkurinn.
Héðin Valdimarsson og félagar
hans urðu talsmenn Jafnaðarstefn-
unnar, Hannes Hafstein gekk í far-
arbroddi hinna borgaralegu afla og
Jónas frá Hriflu skipaði sér í for-
ystu á miðju íslenskra stjórnmála.
Stofnendur Alþýðusambandsins
sem í senn var heildarsamband
verkalýðsfélaganna á Íslandi og
stjórnmálaflokkur sem bauð fram
undir merkjum Alþýðuflokksins,
hrundu úr vör stærstu og öflugustu
hreyfingu íslenskrar alþýðu. Hreyf-
ingu sem enn lifir góðu lífi og gegn-
ir ómetanlegu hlutverki í samfélagi
nútímans. Það er skylda okkar sem
nú lifum að minnast með virðingu
og þökk þeirra ötulu hugsjóna-
manna sem reistu merki Jafnaðar-
stefnunnar á Íslandi undir merkj-
um Alþýðusambandsins og
Alþýðuflokksins. Þar komu margir
að en þó tel ég að á engan sé hallað
þó fremst verði talin þau Ottó N.
Þorláksson, fyrsti forseti ASÍ, Jón
Baldvinsson prentari, annar forseti
ASÍ og óskoraður leiðtogi íslenskra
Jafnaðarmanna frá 1916 til 1938,
Ólafur Friðriksson, Guðleifur Hjör-
leifsson, Jónas frá Hriflu, Jónína
Jónatansdóttir, Karólína Siemsen,
Þorleifur Gunnarsson, Gísli Guð-
mundsson, Guðjón Einarsson, Jón
Þórðarson og Sveinn Auðunsson.
Lóð á vogarskálarnar
Þegar hvorutveggja stóð traustum
fótum, heildarsamtök launafólks
og sterkur Jafnaðarmannaflokkur
skyldu leiðir milli ASÍ og Alþýðu-
flokksins. Frá þeim slitum, nokkru
fyrir miðja síðustu öld og allt til
þessa dags hafa heildarsamtök
launafólks, hvar í flokki sem
félagsmenn standa, eflst og dafn-
að. Söm urðu ekki örlög stjórn-
málaarmsins. Alþýðuflokkurinn
var áfram til en klofnaði og Jafn-
aðarmenn dreifðu sér eftir það og
allt fram til síðustu aldamóta í
fjölmarga flokka og flokksbrot. Af
þeim ástæðum varð Framsóknar-
flokkurinn meiri gerandi í íslensk-
um stjórnmálum en hann hefur
nokkru sinni haft kjörfylgi til og
Sjálfstæðisflokkurinn náð þeim
tökum á samfélaginu að vart er
ásættanlegt. Taktlausri göngu
Jafnaðarmanna er nú lokið.
Alþýðuflokkurinn lagði niður
pólitískan gunnfána sinn þegar sá
dagur kom að Jafnaðarmenn báru
gæfu til þess að ganga fylktu liði
undir merki Samfylkingarinnar.
Alþýðuflokkurinn lagði þung lóð á
þær vogarskálar og þar göngum
við í fylkingarbrjósti með félög-
um okkar úr Alþýðubandalagi,
Samtökum um Kvennalista og öllu
því góða og dugmikla fólki sem
gengið hefur til liðs við Samfylk-
inguna frá stofnun hennar. Umbúð-
irnar hafa breyst en innihaldið er
það sama. Samfélagið hefur breyst
en verkefnin eru þau sömu. Frjáls-
lyndur alþjóðahyggjuflokkur sem
sér stöðu Íslands og Íslendinga í
samhengi við síbreytilegan veru-
leika allra jarðarbúa og skipar sér
í fylkingarbrjóst þeirra stjórn-
málaafla sem trúa á og vinna að
réttlátu samfélagi. Samfélagi sem
byggt er á frelsi sem allir menn
eru réttbornir til, jöfnun rétti allra
til að njóta þess frelsis og samfé-
lagslegri ábyrgð þegar í hlut eiga
þeir bræður okkar og systur sem
ekki geta notið þess frelsis og
þeirra tækifæra sem okkur hinum
gefast. Við fögnum því af heilum
hug 90 ára afmæli Jafnaðarstefn-
unnar á Íslandi. ■
11. mars 2006 LAUGARDAGUR32
Að vinna að réttlátu samfélagi
Alþýðusamband Ísland og Alþýðuflokkurinn eiga níutíu ára afmæli á morgun. Magnús M. Norðdahl,
lögfræðingur ASÍ og formaður framkvæmdastjórnar Alþýðuflokksins, stiklar á stóru í sögu flokksins.