Fréttablaðið - 11.03.2006, Page 68
Iggy Pop stofnaði The Stooges í Detroit árið 1967, fyrir tæpum fjörutíu árum síðan, eftir að
hann hafði farið á tónleika með
The Doors og orðið yfir sig hrif-
inn. Iggy, sem heitir réttu nafni
James Osterberg, fékk bræðurna
Scott og Ron Asheton, sem spilar á
gítar, til liðs við sig og einnig
bassaleikarann Dave Alexander
og úr varð hljómsveitin The
Stooges.
Ein fyrsta pönksveit sögunnar
Sveitin vakti fljótt athygli fyrir líf-
lega sviðsframkomu, sérstaklega
Iggy Pop. Hann kom alltaf fram
ber að ofan og makaði jafnan steik-
um eða hnetusmjöri á líkama sinn,
skar sjálfan sig með gleri og tók
dýfu ofan í áhorfendaskarann.
The Stooges gerði plötusamn-
ing við stórfyrirtækið Elektra árið
1968 og gaf út samnefnda plötu ári
síðar. Platan fékk dræmar viðtök-
ur þrátt fyrir að hafa að geyma lög
á borð við 1969, I Wanna Be Your
Dog og No Fun sem eru öll orðin
vel kunn í dag. Næsta plata á eftir,
Funhouse, sem kom út 1970, fékk
engu betri móttökur. Smám saman
töpuðu meðlimir sveitarinnar sér í
fíkniefnaneyslu, sér í lagi Iggy, og
The Stooges lagði nánast upp laup-
ana.
David Bowie kom sveitinni á
kortið á ný þegar hann tók upp
þriðju plötuna, Raw Power, árið
1973, en aftur tókst henni ekki að
slá í gegn. Fljótlega eftir það hætti
The Stooges endanlega og Iggy
Pop hóf sólóferil með aðstoð
Bowies.
Var það ekki fyrr en um miðjan
níunda áratuginn sem The Stooges
var hampað fyrir að hafa haft
gríðarleg áhrif á þróun pönktón-
listar í heiminum og var hún sögð
ein fyrsta pönksveit sögunnar.
Teljast nú plötur sveitarinnar til
merkra rokkplatna í tónlistarsög-
unni og í gegnum árin hafa hljóm-
sveitir á borð við Nirvana, Queens
of the Stone Age, The White
Stripes, Green Day og Nick Cave
nefnt The Stooges sem mikinn
áhrifavald í tónlistarsköpun sinni.
Árið 2003 kom Iggy Pop, sem
hafði áður slegið í gegn með lögum
á borð við Lust for Life og The
Passenger, öllum að óvörum og
boðaði endurkomu The Stooges
eftir um það bil þrjátíu ára hlé.
Fékk hann bræðurna Ron og Scott
aftur til liðs við sig en í þetta sinn
hljóp Mike Watt í skarðið í staðinn
fyrir Dave Alexander. Sveitin fór í
tónleikaferð og er enn að, síst lak-
ari en í gamla daga.
Ný plata á leiðinni
The Stooges var nýkomin frá Ástr-
alíu þar sem hún spilaði á tónleika-
hátíðinni Big Day Out þegar
Fréttablaðið náði tali af trommar-
anum Scott Asheton. Hljómaði
hann nokkuð þreytulegur í síman-
um en samt afar vingjarnlegur.
Hann hlakkar mikið til að koma til
Íslands. „Við höfum aldrei spilað á
Íslandi og ég held að Íslendingar
hafi ekki séð okkur spila þannig að
þetta verður vonandi tvöföld
ánægja,“ segir Scott og bætir því
við að tónleikarnir í Ástralíu hafi
gengið vel. „Franz Ferdinand og
The White Stripes voru að spila
þarna. Þetta gekk vel og við
skemmtum okkur vel en þetta er
bara svo langt í burtu, því miður,“
segir hann en ferðalagið stóð yfir í
heilar nítján klukkustundir.
Að sögn Scotts hafa hlutirnir
gengið vel hjá The Stooges síðan
sveitin kom saman á ný. „Okkur
hefur tekist að þétta hljóminn hjá
okkur á tónleikum og síðan erum
við að vinna að nýjum lögum og
ætlum að búa til nýja plötu. Við
ætlum að reyna að koma henni út
á þessu ári,“ segir hann.
Scott segist lítið vita um Ísland
fyrir utan það að eiginmaður syst-
ur sinnar sé þaðan, Ragnar Kvar-
an, sem hefur starfrækt hljóm-
sveitina Ragnar Kvaran Group í
fjöldamörg ár.
Iggy í fínu formi
The Stooges hefur spilað á stórum
tónleikastöðum síðan sveitin kom
saman á ný og hefur líklega aldrei
verið vinsælli. „Við höfum verið
að spila fyrir þrjátíu til fimmtíu
þúsund manns í hvert skipti og
fólk hefur verið með hendur á lofti
og klappað mikið. Við spilum lögin
hratt, hvert á fætur öðru, og því
má fólk vera viðbúið hröðum,
rokkuðum og háværum tónleikum
hjá okkur.“ Bætir hann því við að
hverjir tónleikar séu um það bil
ein klukkustund og fimmtán mín-
útur og játar einnig að Iggy Pop sé
ennþá í fullu fjöri á sviðinu. „Hann
er við góða heilsu og í fínu formi
og leggur mjög hart að sér.“
Meðlimir The Stooges hafa
verið kallaðir guðfeður pönksins.
Scott segist ekki líta þannig á
sjálfan sig. „Kannski gerir Iggy
það en ég geri það ekki. Það vill
bara svo til að við vorum að spila á
þeim tíma þegar fáir voru að gera
það sama og við. Mér finnst að
allar hljómsveitir eigi að reyna að
gera eitthvað sem enginn annar er
að gera. Við vorum bara að gera
okkar hluti og þeir settu pönk-
stimpilinn á það. Þetta er í raun
eitthvað sem aðrir segja og við
spáum lítið í.“
Spurður hvað sé svona sérstakt
við pönktónlist segir Scott að hún
sé á skjön við viðteknar venjur og
hugmyndir. „Við vorum í uppreisn
þegar við vorum ungir, en allar
hljómsveitir og unglingar eru ein-
hvern tímann í uppreisn. Við vild-
um spila öðruvísi rokk og ról og
gerðum það. Blaðamenn eða aðdá-
endur okkar kölluðu tónlistina
síðan það sem þeir vildu en við
kölluðum hana rokk og ról.“
Misstu tengslin
Fíkniefnaneysla setti svip sinn á
feril The Stooges á sínum tíma,
þar á meðal Scott. Þurfti hann m.a.
að hætta í sveitinni árið 1974 til að
koma lífi sínu á beinu brautina á
nýjan leik.
Scott játar að frekar erfitt hafi
verið að höndla frægðina þegar
sveitin kom fyrst fram á sjónar-
sviðið.
„Eftir ákveðinn tíma þarf maður
að gera svo mikið fyrir annað fólk
að maður missir sjónar á því sem
er í gangi hjá manni sjálfum. Þetta
er erfitt fyrir ungt fólk og það þarf
að passa vel upp á sig og missa ekki
tengslin við sjálft sig,“ segir hann.
„Á endanum ertu hættur að vera
þú sjálfur. Þú ert að vinna fyrir
plötufyrirtæki, ferð í tónleikaferð-
ir og þarft að gera hitt og þetta og
missir tengslin við veruleikann.
Margt ungt fólk fór í dópið til að
komast í gegnum þetta og þú þarft
að vera mjög varkár til að láta það
ekki gerast.“
Elvin Jones í uppáhaldi
Scott Asheton hefur haft mikil
áhrif á þekkta trommara á borð
við Paul Cood úr Sex Pistols og
Tommy Ramone úr The Ramones
í gegnum tíðina. Sjálfur segist
hann hafa orðið fyrir mestum
áhrifum frá djassaranum Elvin
Jones, sem trommaði lengi vel
fyrir John Coltrane. „Ég hlustaði
á alla þessa þekktustu á borð við
Keith Moon, Charlie Watts, Mitch
Mitchell og Dino Dinelli en ef ég
ætti að nefna einn væri það Elvin
Jones,“ segir hann. Hvað varðar
eigin stíl hefur hann þetta að
segja: „Allir trommarar vilja
meina að þeir séu öðruvísi en
aðrir trommarar. Núna spila ég
hratt og einfalt rokk og ról, með
engum skreytingum eða ein-
hverju slíku heldur kem ég mér
bara beint að kjarnanum.“
Morrison drakk mikinn bjór
Hljómsveitin MC5, sem The
Stooges hitaði upp fyrir á sínum
upphafsárum, er sú eftirminnileg-
asta sem Scott man eftir úr brans-
anum en hann man einnig vel eftir
sjálfum Jim Morrison úr The
Doors, sem átti óbeinan þátt í
stofnun The Stooges eins og áður
kom fram. „Þegar við vorum að
taka upp aðra plötuna okkar, Fun-
house, hékk hann oft í hljóðverinu
hjá okkur en hann var líka á samn-
ingi hjá Elektra-útgáfunni. Hann
drakk mikinn bjór og var mjög
skemmtilegur,“ segir Scott um
þetta látna goð. „Hann var mjög
klár og mikill listamaður og gott
ljóðskáld. Við vorum allir undir
áhrifum frá honum.“ ■
11. mars 2006 LAUGARDAGUR36
IGGY POP Sviðsframkoma Iggy Pop þykir með eindæmum góð. Hér sést hann ber að ofan
og í hörkustuði á tónleikum í Englandi. NORDICPHOTOS/GETTYIMAGES
Tvöföld ánægja á Íslandi
THE STOOGES Hljómsveitin fornfræga er á leiðinni hingað til lands í maí. Frá vinstri: Ron
Asheton, Scott Asheton og Iggy Pop. NORDICPHOTOS/GETTYIMAGES
Iggy Pop og félagar í The Stooges halda tónleika í Laugardalshöll þann 3.
maí næstkomandi sem margir rokkunnendur bíða spenntir eftir. Freyr
Bjarnason rakti sögu sveitarinnar og ræddi við einn af stofnmeðlimum
sveitarinnar, trommarann Scott Asheton.