Fréttablaðið - 08.12.2007, Blaðsíða 58
Alþjóðahús auglýsir eftir tilnefningum fyrir viðurkenninguna „Vel að verki staðið“ fyrir lofsverða frammistöðu í málefnum innflytjenda á
Íslandi. Viðurkenningin, sem forseti Íslands afhendir, verður veitt í árslok og er þetta í fimmta skipti sem hún er veitt. Viðurkenningin er
tileinkuð Thor Jensen en hann flutti hingað til lands ungur að aldri, vann sig upp úr sárri fátækt og markaði rekstur fyrirtækja hans innreið
tæknialdar í íslenskt atvinnulíf og hafði hann gríðarleg áhrif á íslenskt samfélag á fyrri hluta 20. aldar.
Viðurkenningin þjónar þeim tilgangi að vekja athygli á jákvæðu starfi sem unnið er hér á landi í málefnum innflytjenda. Veittar verða
viðurkenningar fyrir lofsverða frammistöðu í þremur flokkum; til einstaklings af íslensku bergi brotinn sem hefur lagt sitt af mörkum til
innflytjenda á Íslandi, til einstaklings af erlendum uppruna sem hefur lagt sitt af mörkum til samfélagsins og til fyrirtækis, stofnunar eða
félagasamtaka fyrir framlag til málefna innflytjenda og fjölmenningarsamfélagsins.
Vinsamlega sendið tillögur til Einars Skúlasonar, framkvæmdastjóra Alþjóðahúss, á einar@ahus.is
fyrir miðvikudaginn 12. desember. Tillögur skulu innihalda rökstuðning að hámarki
200 orð um hvers vegna viðkomandi skuli fá viðurkenningu.
Alþjóðahús er miðstöð innflytjenda sem veitir upplýsingar, ráðgjöf, fræðslu, túlka- og
þýðingaþjónustu og íslenskukennslu. Alþjóðahús stefnir að því að jafnréttis sé gætt,
mannauður nýttur og veitir aðhald á þessu sviði, til þess að allir geti notið þeirra
kosta sem fjölmenningarlegt samfélag býður upp á. Landsbankinn er bakhjarl viðurkenningarinnar.