Fréttablaðið - 24.12.2007, Side 28
28 24. desember 2007 MÁNUDAGUR
E
f Jósef og María kæmu til
Betlehem núna fyrir jól má
búast við að þau ættu erfitt
með að finna gistingu. Öll
hótel eru uppbókuð og
ferðamennirnir streyma til
bæjarins helga sem Ísraelar hafa haldið í
heljargreipum áratugum saman af ótta við
illvirki heimamanna.
Ísraelsk og palestínsk stjórnvöld reikna
með að 60 þúsund ferðamenn leggi leið
sína til Betlehem og annarra helgra staða
í landinu núna í jólamánuðinum. Þetta
verða þrisvar sinnum fleiri ferðamenn en
á síðasta ári.
Ísraelar og Palestínumenn hafa í ár
unnið saman að því að skipuleggja
móttökurnar sem þetta fólk fær. Meðal
annars hafa Ísraelar að nokkru aflétt þeim
ströngu ferðahömlum sem Palestínumenn
hafa búið við undanfarin ár. Auðveldara
hefur verið að fá ferðaleyfi til Betlehem
en þekkst hefur um langa hríð.
Hápunktur ferðarinnar verður tvímæla-
laust heimsókn í Fæðingarkirkjuna sem
stendur við torg sem heitir Jötutorg.
Kirkjan er reist á þeim stað þar sem talið
er að Jesú Kristur hafi fæðst fyrir tvö
þúsund árum. Undir kirkjunni er lítil
hellishvelfing og þar niðri hefur gyllt
stjarna verið lögð í marmaragólfið
nákvæmlega þar sem trúaðir telja vera
fæðingarstað frelsarans.
Kirkja var fyrst reist á þessum stað á
fjórðu öld eftir Krist, en sú sem nú
stendur þar er frá sjöttu öld og er ein af
elstu starfandi kirkjum heims.
Bæði ísraelskir og palestínskir ráða-
menn ætla að taka þátt í helgiathöfnum í
kirkjunni nú um jólin, þeirra á meðal bæði
Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, og
Mahmoud Abbas, forseti Palestínu-
stjórnar.
Kirkjunni sjálfri hefur oftast verið hlíft
við átökum Ísraela og Palestínumanna, en
vorið 2002 flýðu um 200 Palestínumenn
inn í kirkjuna undan ísraelska hernum,
sem hafði ráðist inn í Betlehem til að leita
þar herskárra Palestínumanna. Umsátur
Ísraela um kirkjuna stóð vikum saman og
féllu þar tíu Palestínumenn, þar á meðal
hringjari kirkjunnar.
Ferðamenn hópast til Betlehem
Undanfarin ár hefur verið dauft yfir jólahaldi í Betlehem, litla bænum sunnan við Jerúsalem þar sem sagan segir að frelsari
mannkyns hafi fæðst. Þrúgandi hernámsástand og harðvítug átök hafa fælt ferðamenn frá, en í ár virðast horfurnar betri.
HIÐ ALLRA HELGASTA Í fæðingarkirkjunni bíða menn í röðum eftir
því að fá að krjúpa við hið allra helgasta, litla hellisskútann þar sem
kristnir menn telja að Jesús Kristur hafi fæðst. NORDICPHOTOS/GETTY
JÓLATRÉÐ SKREYTT Palestínumaður skreytir jólatré við fæðingarkirkj-
una í Betlehem. FRÉTTABLAÐIÐ/AP
JÓLASVEINNINN MÆTTUR Jólasveinn þessi, sem er af palestínskum ættum, sýndi heldur betur af sér kæti þegar hann fór framhjá fæðingarkirkj-
unni í Betlehem nú í vikunni. FRÉTTABLAÐIÐ/AP
KVEIKT Á KERTUM Jólahald verður varla nokkurs
staðar hátíðlegra en einmitt í fæðingarkirkjunni
í Betlehem. Þessi tveggja ára snáði, sem heitir
Yakubto, fær þarna aðstoð frá föður sínum við
að kveikja á einu af kertunum í kirkjunni, sem
kristnir menn trúa að hafi verið reist nákvæmlega
á þeim stað þar sem jatan stóð fyrir tvö þúsund
árum. NORDICPHOTOS/GETTY
MÚRINN Í BETLEHEM Aðskilnaðarmúrinn milli
Ísraels og herteknu svæðanna á Vesturbakkan-
um hlykkjast meðfram litla bænum Betlehem.
Hinum megin múrsins búa Ísraelsmenn.
FRÉTTABLAÐIÐ/AUÐUNN ARNÓRSSON