Fréttablaðið - 19.02.2008, Blaðsíða 16

Fréttablaðið - 19.02.2008, Blaðsíða 16
16 19. febrúar 2008 ÞRIÐJUDAGUR greinar@frettabladid.is FRÁ DEGI TIL DAGS UMRÆÐAN Leikhús Margir eiga góðar minningar frá þeim tíma þegar þeir fóru fyrst í leikhús. Ég var tíu ára þegar ég sá Söngvaseið í Þjóðleikhúsinu, í sömu bæjarferð fór ég í fyrsta sinn í bíó og sá líka alvöru skáta. En líkt og svo margir fleiri sló ég frekari leikhúsferð- um á frest nokkuð lengi, sér í lagi á unglingsárunum og fannst ég upptekin við annað. Það hefur viljað loða við íslenskt leikhús að aldurs samsetning leikhúsgesta er frekar einsleit og erfitt getur reynst að fá ungt fólk til þess að fjölmenna á leiksýningar. Þjóðleikhúsið hefur á undanförnum árum lagt sífellt meiri áherslu á leiksýningar sem höfða til ungs fólks og er liður í því t.d. farandsýningar fyrir framhaldsskólanema og sérstakt svið sem ætlað er sýningum fyrir börn. Nú stendur yfir mánuður unga fólksins í Þjóð- leikhúsinu en markmið hans er að vekja athygli ungmenna á starfi leikhúsanna og er það gert með tvennum hætti. Annars vegar með því að bjóða aldurshópnum 15-25 ára leikhúsmiða á 1.500 kr. í febrúar. Og nú þarf ekki að bóka miðann sam- dægurs heldur getur viðkomandi fengið miða á hvaða sýningu sem er í febrúar á þessu afsláttarverði. Hins vegar nýtum við þetta tækifæri til þess að kynna það sem leikhúsið hefur upp á að bjóða fyrir ungt fólk og vekjum sérstaka athygli á tveimur sýningum sem frumsýndar voru nýverið, leikritinu norway.today eftir Igor Bauersima og nýju íslensku leik- riti, Baðstofunni, eftir Hugleik Dagsson. Leikhús er fyrir alla – ekki bara fyrir ung börn og fullorðna, heldur líka alla þar á milli. Í leikhús- inu kynnumst við sjálfum okkur og öðrum á eftir- minnilegan hátt, við verjum saman tíma sem við búum að alla tíð. Flestir fara mun sjaldnar í leik- hús en þeir kjósa – en eru alltaf á leiðinni. Nú er tækifærið fyrir þá, og alla hina, til þess að njóta, kynnast eða rifja upp sín fyrri kynni af leiklist- inni. Höfundur er kynningarstjóri Þjóðleikhússins. Hvað fær maður fyrir 1.500 kall? KRISTRÚN HEIÐA HAUKSDÓTTIR Á kreppuárunum milli 1930 og 1940 snerust heilabrot æskufólks á Íslandi ekki um hvaða námsbraut það ætti að stefna á heldur hvort það gæti fengið vinnu. Maður sem fæddist árið 1916, og var enn knár og hress árið 2000 þegar við ræddum saman, sagðist hafa verið staðráðinn í að læra og fá réttindi í einhverri iðngrein til að geta séð fyrir sér. Hann hefði byrjaði um fermingu að leita að fyrirtæki sem vildi taka lærling en lengi vel farið bónleiður til búðar. Honum var sama hvort hann yrði rakari, trésmiður, matsveinn eða eitthvað allt annað, en hvergi vantaði vinnuafl. Fimmtán ára komst hann á samning í bifvélavirkjun vegna kunningsskapar náins ættingja og eigandans. Fyrst varð hann að vinna þriggja mánaða reynslu- tíma launalaust til að sjá hvort hann dygði. Hann komst á samning en tveimur piltum sem voru á reynslutíma um leið og hann var vísað frá fyrir smámuni. Höfðu þá unnið til klukkan sjö á kvöldin sex daga vikunnar í tæpa þrjá mánuði án launa. Vitundarspjaldið Ég efast um að menn sjái fyrir sér það sem áður var kallað kreppa þegar þeir ræða fyrir- bærið í dag. Skortur á tækifærum til menntunar og starfa er ekki vandamál ungs fólks. Miklu frekar hitt, að vita hvað það langar til að læra og starfa við. Algengt er og rökrétt að menn líti til afkomumöguleika við val á menntun eða feti slóð foreldra eða félaga. Menntakerfið er opið og tíðarandinn gerir ráð fyrir að fók geti menntað sig á hvaða aldri sem er, þannig að nú hafa menn tækifæri til að fara yfir í allt annað en lagt var af stað með og bæta við sig í stað þess að byrja upp á nýtt. Öll menntun nýtist. Hitt er dagljóst, að þeir sem fá í vöggugjöf afgerandi hæfileika á einhverju sviði og ástríða þeirra er í sama farvegi, verða naumast í vandræðum með val á framtíðar- starfi. En þó að við lærum eitt og annað gagnlegt er undarlegt hvað við erum takmörkuð þegar kemur að því að þekkja okkur sjálf. Og í því efni eins og svo mörgu öðru vitum við ekki hvað við vitum ekki, og erum því ekkert að leita að því. Lendum kannski fyrir tilviljun í aðstæð- um eða verkefni og uppgötvum að þetta liggur opið fyrir okkur. Eitthvað sem hefði ekki hvarflað að manni að sækjast eftir er allt í einu viðblasandi og spennandi kostur. Það er eins og við séum með einhvers konar vitundarspjald með mörgum lokuðum gluggum sem bíða eftir að vera opnaðir, líkt og jóladagatal. Þarna eru falin viðhorf, hæfileikar og skapandi máttur sem við vitum ekki af fyrr en réttar aðstæður skapast og kannski aldrei. Þegar lífið er ævintýri Vitundarspjaldið er sérstaklega mikilvægt fyrir njótandann í okkur en það er ekki endilega fyrirhafnarlaust að opna þann glugga. Fyrir skömmu var ég að ræða við virtan listamann um njótendur og hann benti mér á að ekki væri lögð nægileg rækt við að fjölga þeim. Íslendingum hefði öldum saman verið kennt að njóta bókmennta og kynnu það þjóða best að eigin mati. Hins vegar færi því fjarri að fólki væri almennt leiðbeint í því að njóta myndlistar og sígildrar tónlistar. Slíkt kæmi hreint ekki fyrir- hafnarlaust til allra. Það þyrfti fordæmi, vinnu og ástríðu til að vekja þessa kennd. Menntaskólinn í Kópavogi mun hafa kennt almenna listasögu sem skyldufag, en hefur nú hætt því. Kona sem var nemandi þar á sínum tíma varð forviða þegar hún komst að þessu. Finnst einboðið að listasaga ætti að vera kennd í öllum framhaldsskólum. Tímarnir í MK hefðu opnuð henni nýjan heim á sínum tíma og gert hana sjálfa að njótanda fyrir lífstíð. Ég held að þetta sé umhugsunar- efni. Maður getur vel verið gestur í leikhúsi, á tónleikum eða myndlistarsýningu og fundist bara skemmtilegt, án þess að vera njótandi. En það er ólíkt skemmtilegra að hverfa á vit nautnarinnar að njóta. Faðir minn var njótandi á mörgum sviðum. Gigli, Jussi Björling og Stefán Íslandi voru hans menn. Hann naut þess líka að dansa og gerði það af list, var sagnamaður og söngvinn eins og öll systkini hans og hafði fína barítonrödd, en fyrst og síðast var hann þó ástríðu ljóðanjótandi. Og hann naut orðanna og hend- inganna af svo mikilli innlifun að ósjálfrátt hafði það áhrif á okkur systurnar og gerði okkur að njótendum. Þó var enginn sláttur á honum. Þetta var bara fallegur og kyrrlátur alþýðumaður með blik í auga sem fannst lífið vera ævintýri. Námsval og njótendur Í DAG | JÓNÍNA MICHAELSDÓTTIR Menntun Ég held að þetta sé um- hugsunar efni. Maður getur vel verið gestur í leikhúsi, á tón- leikum eða myndlistarsýningu og fundist bara skemmtilegt, án þess að vera njótandi. Í pólitík er það viðurkennd hernaðarlist að skjóta óþægilega umræðu út af borðinu. Það er líka þekkt aðferð að horfa niður á tærnar en ekki fram á við þegar henta þykir. Í því ljósi er vert umtals og eftirtektar þegar forystumenn í stjórnmálum leggja stór mál í umræðufarveg í þeim tilgangi að takast á við flókin úrlausnarefni og með það að markmiði að leiða umfjöllun um þau til lykta innan afmarkaðs tíma. Formaður utanríkisnefndar Alþingis, Bjarni Benediktsson, kom Evrópuumræðunni í slíkan farveg um liðna helgi bæði í Ríkis- útvarpinu og í fréttaviðtali hér í þessu blaði. Frumkvæði hans markar sannar lega þáttaskil. Því hefur á hinn bóginn ekki verið gefinn sá gaumur í opinberri umræðu sem efni standa til. Boðskapur formannsins er að verkefni dagsins snúist um að koma á betra jafnvægi eftir þá dýfu sem fjármálamarkaðurinn hefur lent í. Jafnframt þurfi að ljúka nauðsynlegum breytingum á stjórnarskrá svo að stjórnskipulegar hindranir standi ekki í vegi þess að taka megi ákvarðanir, af eða á, um framtíðarstöðu Íslands í Evrópu og þar með talið myntsamstarfinu eftir tvö til þrjú ár. Það er rétt mat að umræða á viðskiptaþingi í síðustu viku kaffærði endanlega allar bollaleggingar um að Ísland taki einhliða upp evru eða einhvern annan gjaldmiðil. Spurningin sem þjóðin stendur and- spænis er sú hvort tryggja megi meiri stöðugleika til framtíðar með upptöku evru í kjölfar aðildar að Evrópusambandinu. Það mál þarf þá að ræða í heild sinni. Á því eru margar hliðar sem snúa að fjármálum, viðskiptum og pólitískri stöðu landsins í samfélagi þjóðanna. Í ummælum formanns utanríkisnefndar felst að vísu engin vís- bending um breytta efnislega afstöðu í Evrópumálum. Það sem nýtt er í máli hans er tvennt: Í fyrsta lagi viðurkenning á þeirri staðreynd að staða krónunnar kallar eðlilega á endurmat á hagsmunum Íslands gagnvart Evrópu og myntsamstarfinu. Í annan stað að nauðsynlegt er að fella umfjöllun um það heildarmat í skýran farveg og setja henni raunhæfan tímaramma. Fyrrverandi formaður Framsóknarflokks, Jón Sigurðsson, setti reyndar svipaðar hugmyndir fram, en þær höfðu það yfirbragð að verið væri að skjóta snúinni umræðu á frest. Formaður utanríkis- nefndar verður þar á móti ekki skilinn á annan veg nú en hann sé ekki einasta reiðubúinn að takast á við verkefnið heldur sé það þjóð- hagslega nauðsynlegt ætli menn á annað borð að taka yfirvegaðar ákvarðanir um breiða og víðtæka framtíðarhagsmuni landsins. Þegar farið verður að ræða þetta mikla álitaefni í stærra samhengi en því sem snýr að fjármálum, viðskiptum og stöðu krónunnar kemur í ljós að pólitískar aðstæður í heiminum hafa breyst í verulegum atriðum frá því að Ísland kaus að slíta sig frá hinum Norðurlanda- þjóðunum fyrir meira en áratug og sækja ekki sameiginlega með þeim um aðild að Evrópusambandinu. Ríkisstjórnin tilkynnti fyrir skömmu um nefnd sem ætlað er að fylgjast með framvindu Evrópuumræðunnar og eftir atvikum, að því best verður skilið, að fella hana í skynsamlegan farveg. Í forystu fyrir þeirri nefnd eru Illugi Gunnarsson, varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, og Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar. Vel má vera að þessir ungu áhrifamenn í stjórnarflokkunum hafi í raun fengið pólitískt stærra viðfangsefni til að glíma við en sjá mátti fyrir við myndun ríkisstjórnarinnar. Alltént hvílir mikil ábyrgð á þeirra herðum með því að hér er ekki verið að fjalla um tittlinga- skít gærdagsins í pólitík heldur framtíðarsýn og langtímahagsmuni þjóðarinnar. Evrópuumræðan: Nýr tímaás ÞORSTEINN PÁLSSON SKRIFAR Hægri verndarvængurinn Össur Skarphéðinsson iðnaðarráð- herra var afskaplega hamingjusamur í Mannamáli Sigmundar Ernis á sunnudagskvöld. Össur segir sér líða vel því Samfylkingin beri nafn með rentu þessa dagana og það sé svo gott að vinna með Geir Haarde. Össur segist nefnilega stundum leita ráða hjá Geir þegar hann þurfi að kljást við vandamál í iðnaðarráðu- neytinu en „reynir að bögga hann ekki of mikið“. Össur hafði heldur ekki neitt upp á Davíð að klaga þegar þeir voru saman í ríkisstjórn. Þá var Össur „junior ráðherra“ og lenti oft í vanda með umhverfismálin, sem voru ekki elskuð af öllum, en „fékk skjól hjá Davíð“. Bíddu, er Össur í réttum flokki? Útópía Bjarna Bjarni Harðarson, þingmaður Fram- sóknar, skrifaði grein um gjaldeyris- og Evrópumál í Mogga á dögunum. Bjarni telur það „útópískan“ kost að Ísland gangi í ESB því „að innganga í ESB mun taka að minnsta kosti fjög- ur ár frá því þjóðin samþykkir aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef tekið er mið af reynslu Norðmanna og fleiri þjóða er ljóst að frá því þjóðþing samþykkir aðild til þess að þjóð gerir það í allsherjar- atkvæðagreiðslu líða að minnsta kosti 5 og jafnvel allt að 15 ár.“ Fjögurra ára áætlanir Bjarni bendir á að að þeim tíma liðnum gætu hafa orðið breytingar í pólitísku landslagi og Íslendingar fjær aðild en nokkru sinni. Hann bætir við: „Þegar rætt er um leiðir í hag- fræðilegum vandamálum eru atburð- ir sem kannski geta átt sér stað eftir 10 ár ekki umræðuefni og í raun og veru í fáum fræðigreinum nema þá helst jarðfræði.“ Með öðrum orðum getur Ísland ekki tileinkað sér nýjungar ef það tekur lengri tíma en eitt kjörtímabil. Annars gæti eitthvað breyst í millitíðinni. Það er naumast framsýnin – ef framsýni má kalla. bergsteinn@frettabladid.is ÚTGÁFUFÉLAG: 365 RITSTJÓRAR: Jón Kaldal og Þorsteinn Pálsson AÐSTOÐARRITSTJÓRI: Steinunn Stefánsdóttir FRÉTTASTJÓRAR: Arndís Þorgeirsdóttir, Kristján Hjálmarsson, Trausti Hafliðason og Höskuldur Daði Magnússon (dægurmál). FULLTRÚI RITSTJÓRA: Páll Baldvin Baldvinsson. Fréttablaðið kemur út í 103.000 eintökum og er dreift ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og þéttbýlissvæðum á suðvesturhorninu. Einnig er hægt að fá blaðið í völdum verslunum á landsbyggðinni. Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu formi og í gagnabönkum án endurgjalds. issn 1670-3871

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.