Fréttablaðið - 18.04.2008, Síða 18
18 18. apríl 2008 FÖSTUDAGUR
Útgáfufélag Fréttablaðsins, 365, hefur látið hanna og framleiða
sérstaka endurvinnslutösku fyrir dagblöð. Taskan er kölluð
Blaðberinn. Hún er ætluð fyrir heimili landsins og er ókeypis í
anda Fréttablaðins.
Jón Kaldal, ritstjóri Fréttablaðins, segir að hugmyndin að
baki framtakinu sé að efla vitund um umhverfisvernd og
nýtingu verðmæta. „Það er nánast skylda okkar, sem stöndum
að útgáfu Fréttablaðsins, að vera í fararbroddi þeirra sem
hvetja til þess að dagblöð rati í endurvinnslu í stað þess að
vera hent með almennu heimilissorpi. Allt of mikið af pappír
er urðað eins og staðan er núna. Þetta er neikvætt á að minnsta
kosti tvo vegu. Í fyrsta lagi ber þetta ekki vott um góða
umgengni við umhverfið, og í öðru lagi fara mikil verðmæti til
spillis þegar pappír er grafinn í jörðu,“ segir Jón.
Fimm dagblöð eru gefin út hér á landi, þar ef tvö sem eru
borin út á stóran hluta heimila. „Það er mikið magn af dag-
blaðapappír sem kemur inn um lúguna hjá manni í hverri viku
auk alls kyns auglýsingapésa. Á vissan hátt erum við að taka
þennan slag fyrir alla útgefendurna, því Blaðberinn er að
sjálfsögðu ekki aðeins ætlaður til að hjálpa við endurvinnslu á
Fréttablaðinu, heldur líka Morgunblaðinu, DV, 24 stundum og
Viðskiptablaðinu.“
Að sögn Jóns hafa verið framleiddir þrjátíu þúsund Blað-
berar og ef þeir klárast hratt verða umsvifalaust fleiri pantaðir.
Mynstrið vísar í
hringrás náttúrunnar
Blaðberinn kallast poki sem lesendur Fréttablaðsins geta safnað blöðum í og farið með í
endurvinnslu. Tinna Gunnarsdóttir vöruhönnuður hafði hringrás náttúrunnar í huga
við hönnun pokans.
Herferð Fréttablaðsins sem snýr að því að
hvetja landsmenn til endurvinnslu á dag-
blaðapappír hófst formlega í gær. Fréttablað-
ið mun gefa landsmönnum þrjátíu þúsund
eintök af sérhannaðri tösku, Blaðberanum,
eftir Tinnu Gunnarsdóttur hönnuð. Taskan
mun einfalda fólki utanumhald á dagblöðum
og er hentug til að grípa með sér að næsta
endurvinnslugámi.
Herferðinni var formlega ýtt úr vör með því
að gefa fyrstu töskurnar á þekktasta blað-
söluhorni landsins, gatnamótum Austur-
strætis og Pósthússtrætis. Dreifing töskunnar
fer fram í dag klukkan 16.30 til 19 og á
laugar dag frá klukkan 11 til 18 á eftirfar-
andi stöðum: Kringlunni, Smáralind, Bónus
Fiskislóð, Bónus Holtagörðum og Hagkaup-
um Eiðistorgi. Einnig verður hægt að nálgast
töskuna í afgreiðslu 365 miðla í Skaftahlíð 24
sem opin er milli 8 og 17 alla virka daga.
„Það var aðallega tvennt sem ég lagði
upp með; annars vegar að pokinn gæti
staðið sem blaðakarfa á gólfinu og verið
til prýði og hins vegar að auðvelt væri að
bera hann,“ segir vöruhönnuðurinn Tinna
Gunnarsdóttir um leið og hún bendir á
hálffullan Blaðbera á eldhúsgólfinu
heima hjá sér sem er þegar komin í notk-
un.
Tinna hefur getið sér gott orð fyrir
hönnun sína undanfarin ár og var ánægð
þegar hún var beðin um að hanna endur-
vinnslupokann fyrir Fréttablaðið. „Mér
fannst þetta spennandi og skemmtilegt
verkefni enda markmiðið afar jákvætt.
Hugmyndin er auðvitað sú að fólk verði
duglegra að fara með blöðin í endur-
vinnsluna og ég vona svo sannarlega að
svo verði,“ segir Tinna.
Þótt pokinn virðist ósköp einfaldur
þurfti Tinna að hafa ýmislegt í huga við
hönnun hans. Þannig skipti máli að hann
væri ekki of stór og eins að hann gæti
sómt sér vel á sem flestum heimilum.
„Ég vildi hafa hann frekar hlutlausan og
þess vegna varð grái liturinn fyrir
valinu,“ útskýrir Tinna og
bætir við að efnið sem
pokinn er gerður úr sé
afar slitsterkt og bæði
umhverfisvænt og
endur vinnanlegt. Pok-
inn er nettur og fyrir-
ferðarlítill og dagblöðin
smellpassa ofan í hann.
„Það sem skipti síðan
hvað mestu máli var að pok-
inn væri meðfærilegur. Ég kaus
að setja á hann langar ólar svo þægi-
legt væri að bera hann á öxlinni. Helst
ætti fólk að geta rölt í næsta endur-
vinnslugám með pokann,“ segir Tinna,
sem lagðist sjálf í hálfgerða endurvinnslu
í hönnunarferlinu.
„Það má eiginlega segja að ég sé að
endurvinna hugmyndir því munstrið á
blaðberanum er ekki alveg nýtt,“ útskýrir
hún og bendir á línurnar á pokanum, sem
virðast í fyrstu óreglulegar. Munstrið er
tekið úr verkefni sem Tinna kallar Haust-
blóm en þar vinnur hún með rotnandi
blóm.
„Mér þótti tilvalið að
vinna áfram með þessar
hugmyndir enda hentuðu
þær vel fyrir verkefnið.
Á haustin þegar lauf-
blöðin falla og blómin
sölna er hringrás náttúr-
unnar svo áberandi og
með því að hvetja fólk til að
endurvinna dagblöðin erum
við líka að fjalla um ákveðna
hringrás,“ segir Tinna en
mynstrið á blaðberanum sýnir útlínur
fölnaðrar sírenu.
„Ég ákvað að vinna bara með útlínurn-
ar í þetta sinn og prenta þær aftur og
aftur hvað ofan í annað svo úr yrði
óreglulegt munstur, svipað og þegar lauf-
blöðin liggja í hrúgum á haustin og maður
getur ekki greint hvar eitt laufblað endar
og það næsta byrjar,“ segir Tinna, sem er
ánægð með útkomuna. „Mér finnst þetta
bara þrælsmart taska og sé jafnvel fyrir
mér að í henni megi bera ýmislegt. En
auðvitað vona ég að hún verði alltaf til-
búin undir blöðin,“ segir hún og hlær. - þo
HÖNNUN Tinna Gunnarsdóttir á heiðurinn af hönnun Blaðberans. Við hönnunina hafði hún hringrás náttúrunnar í huga og valdi efni sem er slitsterkt
og umhverfisvænt. FRÉTTABLAÐIÐ/ARNÞÓR
VISSIR ÞÚ
að endurvinnsla
á einu tonni af
pappír sparar 900
kíló af koltvíoxíði?
BLAÐBERINN: Endurvinnslutaska Fréttablaðsins
HVATT TIL ENDURVINNSLU
Umhverfisvernd og nýting verðmæta
ÞRJÁTÍU ÞÚSUND BLAÐBERAR Jón Kaldal innan um stæður af Blaðberum.
FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
SKILAR ÞÚ DAGBLÖÐUM
Í ENDURVINNSLU?
BÖRKUR EIRÍKSSON,
Á EFTIRLAUNUM Já, alltaf
hreint. Mér finnst hryllilegt að
fara með þennan haug niður
í tunnu en ekkert mál að fara
með þetta í Sorpu.
TANJA DÖGG GUÐJÓNS-
DÓTTIR, HÓTELSTARFSMAÐUR
Nei, ekki ég sjálf. Ég bý heima
hjá mömmu og pabba í Vest-
mannaeyjum og gæti trúað að
blöð séu flokkuð á heimilinu,
en ég er ekki viss.
GUÐRÚN GUÐMUNDSDÓTTIR,
KENNARI Já, það geri ég og
finnst það sjálfsagt mál út frá
umhverfisþættinum.
EMIL HJARTARSON, FYRRVER-
ANDI KENNARI Já, ég skila
dagblöðum í endurvinnslu
daglega. Það er hægt að nota
þessi blöð í ýmislegt annað,
ekki satt?
JÓN GUNNAR ÞÓRHALLSSON,
STARFSMAÐUR HINS OPIN-
BERA Nei, ég fæ engin dag-
blöð þar sem ég bý, en ef svo
væri myndi ég hugsanlega
endurvinna þau. Maður reynir
að vera meðvitaður um um-
hverfið.