Fréttablaðið - 19.10.2008, Blaðsíða 10

Fréttablaðið - 19.10.2008, Blaðsíða 10
10 19. október 2008 SUNNUDAGUR G uðrún Eva Mínervudóttir ætlaði aldrei að verða rithöf- undur. Kannski sálfræðingur eða heimspekingur. Hún útskýrir þetta fyrir mér þar sem hún stendur við eldavél- ina heima hjá sér og sýður kaffi. Fíngerð, dökkhærð, í hámóðins lakkstígvélum með himinháum hæl og mínipilsi og hellir kaff- inu í stórar skálar að frönskum sið. Hvort sem það er sökum suðræns yfirbragðs henn- ar eða ilmandi kaffisins misminnir mig að hún hljóti að hafa búið lengi í París. En nei, það voru vist bara tveir mánuðir. „Ég var hamingjusamt barn,“ segir hún aðspurð, sest við borðstofuborðið og kveikir í sígarettu. „Ég bjó fyrstu árin í Vesturbænum, svo flutt- um við upp í Mosfellssveit, þaðan til Kirkju- bæjarklausturs og svo í Garð í Gerðahreppi. Ég átti hund, lék mér, fór í skóla.“ Móðir hennar, Mínerva, er nefnd eftir stríðs- og skáldagyðju Rómverja. Guðrúnu Evu þótti eðlilegra að kenna sig við hana, „Vegna þess að ég er alin upp hjá henni. Enda er Mínerva svo fallegt nafn og mikill kraftur í því. En ég á samt mjög gott samband við föður minn,“ bætir hún við. Frá Garði flutti Guðrún Eva aftur til Reykjavíkur. „Mér tókst að fullorðn- ast í Garði og fluttist sautján ára að heiman. Fór í MH og settist að í miðbænum. Ég fór að vinna á bar, á gömlu Kaffi List á Klappar- stígnum og líf mitt snerist aðallega um vinnu og um skólann. Ég var ótrúlega dugleg og svaf lítið á þessum árum. Þá skrifaði ég líka fyrstu skáldsöguna mína sem ég gaf út sjálf í tíu eintökum, svona upp á djókið.“ Hugmyndin að fyrsta skáldverkinu réðst á hana fyrirvaralaust. „Ég var alls ekki ein þeirra sem skrifuðu ljóð öll námsárin. Ég hafði lítið sem ekkert skrifað áður. Ég settist niður með penna og svo tölvuskrifli og byrj- aði að skrifa, og ári síðar var skáldsagan Sóley sólufegri tilbúin. En það rann eigin- lega strax upp fyrir mér að þessi bók, þrátt fyrir að vera yndisleg, var bara ekki hæf til útgáfu. Í hana vantaði allan strúktúr.“ Smá- sagnasafnið Á meðan hann horfir á þig ertu María mey vakti fyrst athygli almennings árið 1998 og í kjölfar þess komu út nokkrar skáldsögur. Það var svo skáldsagan Yosoy: af líkamslistum og hugarvíli í hryllingsleik- húsinu við Álafoss sem skipaði Guðrúnu Evu öruggan sess á stjörnuhimni bókmenntanna árið 2005. Yosoy fékk menningarverðlaun DV, var þýdd á ítölsku og fékk glimrandi dóma þar í landi. „Mér fannst frábært að koma fyrst út á Ítalíu þar sem ég ber mikla virðingu fyrir ítölskum bókmenntum.“ Kvik- myndarétturinn að Yosoy var svo seldur ekki fyrir alls löngu síðan til Pegasus og ber vonandi fyrir augu kvikmyndagesta innan fárra ára. „ Myndin verður allt öðruvísi en bókin. Ég ætla að fá að vera passívur ráð- gjafi en ber fullt traust til handritshöfund- ar.“ Fyrsta smásagnasafn Guðrúnar kom út í Frakklandi nýlega og bókin er tilnefnd til þarlendra verðlauna sem kennd eru við Jean Monnet. „Hann var bjargvættur ýmissa gjaldmiðla snemma á síðustu öld og hug- myndasmiður Evrópusambandsins. Um þessar mundir er mikið rætt um að það vanti Jean Monnet þessarar aldar. Skemmtileg til- viljun vegna þessa ástands sem nú ríkir.“ Einmanaleikinn eins og hann gerist verstur Nýjasta smíð Guðrúnar Evu, Skaparinn, kemur út innan skamms og hún jánkar því að hún rói að vissu að leyti á svipuð mið og Yosoy. „Þessar tvær bækur eru hálfgerðar systur þrátt fyrir að vera ólíkar, og mér finnst ég líka vera að snúa aftur til fyrstu bókarinnar, „Á meðan hann horfir á þig...“. Allar fjalla þær um hluti sem gætu gerst í raun og veru en jaðra við að vera absúrd. Bækurnar eru ekki fantasíubókmenntir en ég fer út að mörkum þess mögulega. Ég er með svona fágaðan hrylling mig langar að fá hárin til að rísa á hnakka lesandans en jafn- framt að varpa ljósi á fegurðina sem býr í þessum jaðri.“ Hugmyndin að Skaparanum kom að hennar sögn úr ótrúlegustu átt. „Ég var úti í París að fletta glanstímariti og þar var grein um dúkkur frá fyrirtæki sem kall- ast „Real Dolls.“ Ég trúði ekki mínum eigin augum, mér fannst svo magnað að þetta væri í alvörunni til. Ég ákvað því að geyma blaðið. Nema hvað að þá hellist úr tebollanum mínum yfir opnuna og ég neyddist til þess að rífa blaðsíðurnar úr og þurrka þær á ofnin- um. Það var því ekki séns að ég myndi gleyma þessu. Það var eins og ég hefði feng- ið tákn að ofan um að ég ætti að fjalla um þetta. Mér fannst líka svo spennandi mögu- leikinn sem þetta efni bar í sér til þess að fjalla um samskipti kynjanna.“ Talið er að Howard Stern hafi fyrst vakið athygli almennings á þessum dúkkum vestanhafs þegar hann sagði að kynlíf með dúkku væri mun betra en með eiginkonunni. „Ég hef enga trú á því að það sé dæmigert viðhorf,“ segir Guðrún Eva og hlær. „Ég held að flest- um karlmönnum jafnt sem kvenmönnum finnist þetta óhugnarlegt.“ Hún kynnti sér heim dúkknanna ítarlega á netinu og gróf upp meðal annars heimildarmynd sem fjall- ar um mennina sem kaupa dúkkurnar sem og mennina sem skapa þær. Dúkkan er líkn- eskja af hinni fullkomnu konu. Sköpuð í mynd „eighties”-klámdrottninga með ítur- vaxinn líkama. Við blasir að mennirnir sem kaupa dúkkurnar eru engir venjulegir menn. „Ég get þó ímyndað mér að dúkkurnar séu mikill gleðigjafi fyrir þá,“ segir hún hugsi. Eða kannski ekki? Sökkva þessir einstakl- ingar ekki enn dýpra í pytt einverunnar ef þeir fara að búa með dúkku? „Þeir eru komn- ir ofan í svo mikla holu hvort eð er,“ svarar hún. Ég spyr hvort þetta sé ekki toppurinn á efnishyggjunni. Karlmenn þurfa ekki lengur að kaupa sér vændiskonu, þeir geta keypt sér dúkku sem er án allra sjúkdóma, getur ekki orðið ólétt og hefur engar tilfinningar. Skyndikynlíf undir algerri stjórn. „Þetta er mannlegur harmleikur,“ útskýrir Guðrún Eva. „Þess vegna finnst mér ég þurfa að fjalla um þetta. Þetta snýr að mun meiru en efnishyggju nútímans og mér finnst það ekki heyra undir klám eða klámvæðingu þrátt fyrir aðþað sé ef til vill það fyrsta sem kemur upp í hugann. Þegar maður skoðar þetta betur þá er mun meiri hryllingur þarna á ferðinni. Einmanaleikinn eins og hann gerist verstur, hræðslan við konur eins og hún ger- ist verst, hræðslan við lífið eins og hún ger- ist verst. Það er ekkert sem mun nokkurn tíma verða eðlilegt við þetta fyrirbæri því það sem er eiginlegast fyrir manninum er að eiga samskipti við annað fólk. Það er frum- þörf hvers barns og frumhvöt hverrar mann- eskju.“ Það er ekki hægt að vantreysta dúkku Skaparinn fjallar hins vegar ekki um menn- ina sem kaupa slíkar dúkkur heldur um ósköp venjulegan mann sem lendir í því starfi fyrir hálfgerða tilviljun að smíða þær. Sagan fjallar svo um samskipti hans við konu sem kemur óvænt inn í líf hans og rænir frá honum einni slíkri dúkku. „Ég er fyrst og fremst að nota söguefnið til að fjalla um samskipti kynjanna og fólks almennt. Þetta verður einhvers konar dæmisaga, nútímamýta um ginnungagapið á milli fólks sem við erum alltaf að reyna að brúa, og hvað gerist þegar fólk gefst upp. Það er nátt- úrulega stórhættulegt. Ég er hvorki að mæla með né á móti slíkum dúkkum í bókinni, heldur nota þær sem útgangspunkt að sög- unni.“ Dúkkurnar verði eins konar spegill á það sem er að gerast í heiminum í dag. „Þær eru tákn um einmanaleikann, firringuna. Þeim fjölgar alltaf sem verða utanveltu úr samfélaginu. Þegar ég hlustaði á viðtöl við þá sem kaupa sér svona dúkku sá ég hvað þetta er mikill jaðarheimur. Þetta gengur mun lengra heldur en klám nokkurn tímann. Dúkkurnar eru orðnar að kærustum, þeim er gerður upp persónuleiki. Eigendurnir sitja við hliðina á þeim í sófanum og halda í hönd þeirra fyrir framan sjónvarpið, þeir taka ljósmyndir af þeim og búa til svona til- búin fjölskyldualbúm. Undir niðri er sjúk- legur ótti við höfnun. Eins og segir í bókinni, „Það er ekki beinlínis hægt að treysta á dúkku en það er ekki heldur hægt að van- treysta henni.“ Hrifin af þanþoli raunveruleikans Þegar Guðrún Eva sökkti sér í dúkkufyrir- bærið á netinu rakst hún í fyrsta skipti á hugtakið „Lífræn kona“ eða „organic woman“. „Það eru konur eins og ég og þú,“ útskýrir Guðrún Eva. „Það er ótrúlegt að þetta hugtaksskrípi hafi orðið til, það er auð- vitað ekki til kona sem er ekki lífræn og þessar dúkkur eru ekki konur. Þær eru þó nógu likar konum til að dansa á mörkum sem við viljum ekki að það sé dansað á og þess vegna hryllir flestum við þeim.“ Hryllingur frammi fyrir dúkkum er því sannarlega sammannlegur. „Hryllingur sprettur oft upp úr einhverju sem er hvorki né. Dúkkur handa börnum eru til dæmis sjaldnast nákvæm eftirlíking af litlum börnum og eru oftast stíliseraðar. Einstaka sinnum hef ég séð dúkku sem líkist alvöru barni og þær eru bara eiginlega bara óhugnanlegar. Návist dúkkunnar í bókinni er nóg til þess að vekja hrylling lesandans, þrátt fyrir að hún sé í raun og veru ekki annað en fallegur hlutur. Á meðan ég skrifaði bókina var ég með gínu heima hjá mér sem vakti yfir mér öllum stundum, svona til þess að skapa réttu stemn- inguna. Ég losaði mig við hana um leið og skrifunum lauk.“ Ég spyr hvaðan þessi áhugi á „krípí“ hlut- um spretti? „Ég er hrifin af þessu þanþoli raunveruleikans. Ég tek mjög eftir því í fréttum og í kringum mig að hlutir eiga sér stað næstum á hverjum degi sem erfitt er að trúa. Mér finnst að það eitt af mikilvægum hlutum skáldskaparins að kanna þetta svæði. „Keep it real,“ segir fólk en þá yppi ég öxlum. Af hverju að eigna veruleikanum ein- hvern eiginleika sem er grámyglulegur eða hversdagslegur? “ Skaparinn er sammann- leg bók og líkleg til vinsælda víða um heim. „Ítalska forlagið mitt, Scritturapura, ætlar sér að kaupa þýðingarréttinn á henni og ég hugsa að hún henti ágætlega til landvinn- inga. Mig langar að hún fari sem víðast, mér finnst það spennandi.“ Guðrún Eva situr síður en svo auðum höndum eftir að skrifum á Skaparanum lauk. „Ég er með tvær skáldsögur í undirbún- ingi og er mjög spennt fyrir þeim báðum.“ En þegar ég spyr hvort að hún haldi að lúx- uskynlífsdúkkur séu til á Íslandi segir hún góðar líkur á því. „Þær eru seldar út um allan heim þannig að það getur meira en vel verið. Þær kostuðu um milljón króna síðast þegar ég vissi en kosta þá sennilega tvær núna miðað við gengisþróunina.“ Hún skelli- hlær. „Góðir Íslendingar, þetta er víst ekki góður tími til að kaupa sér dúkku! “ Fágaður hryllingur Nýjasta bók skáldkonunnar Guðrúnar Evu Mínervudóttur fjallar um skapara kynlífsdúkkna af dýrustu gerð, fyrirbæra sem til eru í raun og veru. Skáldkonan unga hefur alltaf hrifist af ótrúlegu hliðum raunveruleikans segir hún Önnu Margréti Björnsson yfir kaffi og sígó. Fyrirtækið Real Dolls er stað- sett í Bandaríkjunum en það sendir dúkkur um heim allan til viðskiptavina sem geta valið sér dúkku eftir pöntun á netinu. Dúkkurnar eru búnar til úr silikoni og hægt er að velja um nokkrar líkamsgerð- ir, háralit og andlitsfall. Einnig er hægt að kaupa fatnað á dúkkurnar og varahluti en þar má nefna augu, tungu, líkamshár og kynfæri. Lítill hluti dúkkumarkaðarins eru svo dúkkur í karlmannslíki en samkvæmt vefsíðunni eru þær næstum einungis keyptar af samkynhneigðum karlmönnum. Eftirlíking af konu MANNLEGUR HARMLEIKUR „Dúkkurnar eru tákn um einmanaleikann eins og hann gerist verstur og hræðsluna við lífið eins og hún gerist verst,“ segir Guðrún Eva Mínervudóttir um viðfangsefni Skaparans.

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.