Fréttablaðið - 22.10.2008, Blaðsíða 12

Fréttablaðið - 22.10.2008, Blaðsíða 12
12 22. október 2008 MIÐVIKUDAGUR greinar@frettabladid.is FRÁ DEGI TIL DAGS FRÉTTABLAÐIÐ Skaftahlíð 24, 105 Reykjavík SÍMI: 512 5000, ritstjorn@frettabladid.is FRÉTTASTJÓRAR: Arndís Þorgeirsdóttir arndis@frettabladid.is, Kristján Hjálmarsson, kristjan@frettabladid.is Trausti Hafliðason trausti@frettabladid.is og Höskuldur Daði Magnússon (dægurmál) hdm@frettabladid.is MENNING: Páll Baldvin Baldvinsson fulltrúi ritstjóra pbb@frettabladid.is VIÐSKIPTARITSTJÓRAR: Björn Ingi Hrafnsson bih@markadurinn.is og Óli Kr. Ármannsson olikr@markadurinn.is HELGAREFNI: Anna Margrét Björnsson amb@frettabladid.is og Sigríður Björg Tómasdóttir sigridur@frettabladid.is ALLT OG SÉRBLÖÐ: Emilía Örlygsdóttir emilia@frettabladid.is og Roald Eyvindsson roald@frettabladid.is ÍÞRÓTTIR: Henry Birgir Gunnarsson henry@frettabladid.is LJÓSMYNDIR: Pjetur Sigurðsson pjetur@frettabladid.is FRAMLEIÐSLUSTJÓRI: Kolbrún Ingibergsdóttir kolbrun@frettabladid.is ÚTGÁFUFÉLAG: 365 RITSTJÓRAR: Jón Kaldal jk@frettabladid.is og Þorsteinn Pálsson thorsteinn@frettabladid.is AÐSTOÐARRITSTJÓRI: Steinunn Stefánsdóttir steinunn@frettabladid.is. Fréttablaðið kemur út í 103.000 eintökum og er dreift ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Einnig er hægt að fá blaðið í völdum verslunum á landsbyggðinni. Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu formi og í gagnabönkum án endurgjalds. Issn 1670-3871 UMRÆÐAN Ólafur F. Magnússon skrifar um borgarmál Ránfuglar/ Valur er á veiðum,/ vargur í fuglahjörð,/ veifar vængjum breiðum,/ vofir yfir jörð. Þessi orð skáldsins, Jónasar Hallgrímsson- ar, í ljóðinu „Óhræsið“, koma mér í hug þessa dagana, þegar höfundar einkavinavæðingar ríkisbankanna, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknar- flokkur, bera víurnar í þær eignir almennings, sem þeir hafa ekki enn náð að sölsa undir sjálfa sig og einkavinina. Flestir vita að orðið ránfugl þýðir fugl, sem veiðir önnur dýr sér til matar. Færri vita hins vegar að ránfugl er líka maður, sem sætir lagi til að komast yfir eigur annarra. Þar virðist næsta bráð hjá ránfuglum mannlífsins vera orkulindir, orkufyrir- tæki, virkjanir og drykkjarvatnið líka! Ýmsir forystumenn þessara flokka og einkavinir þeirra hafa á undanförnum árum baðað sig ljóma auðmagnsins í stað þess að sæta ábyrgð fyrir að komast yfir eigur almennings fyrir lítið eða ekki neitt. En þeir þurfa lítið að óttast, því umræðunni er stjórnað af fjölmiðlum í eigu auðmanna og ríkisfjölmiðlinum, sem ásamt öflum í Sjálfstæðisflokknum, sjá um að jarða mannorð þeirra, sem með verkum sínum berjast gegn flottræfilshætti, einkavinavæð- ingu og spillingu. Það þekkir undirritaður af eigin reynslu, því komið hefur verið á kreik upplognum sögum og hreinum öfugmælavís- um um meinta áfengismisnotkun hans og pólitíska spillingu. Það var hins vegar ný reynsla fyrir undirritaðan, þegar arftaki hans í borgarstjórastólnum skoraði á hann að segja af sér vegna gróusagna um persónu hans. Það hefði verið þægilegt fyrir hina nýju borgarstýru, sem fyrirvaralaust og án málefnalegrar ástæðu ákvað að hennar tími væri kominn. Ekkert virðist títtnefndum ránfuglum mannlífsins heilagt í ásókn þeirra eftir veraldlegum verðmætum og völdum. Skiptir þá engu hvort um er að ræða eigur, störf, öryggiskennd eða mannorð annarra. En þeim vargfugli, sem birtist okkur í líki Sjálfstæðis- flokks og Framsóknarflokks, á sviði landsmála og sveitarstjórnarmála, og vofir yfir eigum þjóðarinn- ar, mun örugglega fatast flugið á næstunni. Réttlæt- iskennd almennings mun sjá til þess. Höfundur er fyrrverandi borgarstjóri. Ránfuglar ÓLAFUR F. MAGNÚSSON Um daginn hringdi ég til vinkonu minnar sem býr í smábæ í Suður-Frakklandi; bóndi hennar er yfirmaður í fyrirtæki sem hefur mikil umsvif í Austur- Evrópu og ræður yfir alls kyns verksmiðjum á víð og dreif frá Hvíta-Rússlandi til Svarta- Hafsins, og var ég orðinn dálítið kvíðinn yfir velferð fjölskyldunn- ar í þeirri kreppu sem virðist ætla að vaða yfir allt. En vinkona mín hló bara og sagðist ekki hafa neinar áhyggjur, allt væri í himnalagi, og til marks um það sagði hún að kvöldið áður hefði maðurinn hennar borðað með öðrum yfirmönnum fyrirtækisins og fleiri í einhvers konar for- stjóra-dinner, og hefði þar á borðum verið kavíar og að auki humar og jarðsveppir. En til upplýsinga fyrir fáfróða Mör- landa má geta þess að „jarðsvepp- ir“ eru ein fágætasta og dýrasta tegund ætisveppa, þeir vaxa neðanjarðar og þarf sveitir af sérþjálfuðum svínum til að þefa þá uppi; því eru þeir yfirleitt ekki á borðum annarra en heldri manna sem lifa í vellystingum praktuglega. Ég gladdist yfir bjartsýni vinkonu minnar, en hún virðist ekki vera einsdæmi á þessum slóðum. Svo er ekki að sjá að kreppan sé á nokkurn hátt farin að snerta franskan almenning í hans daglega lífi, enginn stór franskur banki hefur enn riðað til falls, atvinnuleysi fór að vísu að aukast í ágúst, en ekki meira en gerist og gengur, og flestir láta sér ófarir kauphallarbraskara í léttu rúmi liggja. Menn fylgjast með kreppunni annars staðar í fjölmiðlum, eins og þeir væru að skoða nýja halastjörnu úti í geimnum, og því má skjóta hér inn að franskir fjölmiðlar fjalla nú um ástandið á Íslandi nokkuð ítarlega en af samúð og skilningi líkt og þeir myndu gera ef Hengill væri skyndilega farinn að gjósa, Hveragerði í hættu og mikið öskufall hafið í Reykjavík (á brambolt Englendinga heyri ég sáralítið minnst). Menn sýna þessu ástandi talsverðan áhuga, viður- kenna jafnframt að þeir skilji hvorki upp né niður í ósköpunum, en þrátt fyrir yfirlýsingar sumra um að þeir hafi áhyggjur varðandi framtíðina, er eins og þetta sé allt hálfóraunverulegt í augum almennings. Og engin reiði hefur enn gripið neins staðar um sig, það liggur jafnvel við að einstaka mönnum finnist þetta ástand gott straff á frjálshyggjumenn. Aðeins einn angi af þessu ástandi er stöðugt milli tannanna á fólki. Sú saga gengur nú að þegar einhverjir forstjórar pöntuðu hótelherbergi í Bandaríkjunum á kreppuárunum upp úr 1929 hafi þeir gjarnan verið spurðir: „Er það til að sofa eða til að stökkva?“ Og ef það var til að stökkva var þeim vísað til gistingar einhvers staðar á efri hæðunum. En því er svo bætt við að nú sé það ekki annað en hættulaust sport fyrir forstjóra að hoppa og skoppa að vild, og það sé allt að þakka hinni merku nýjung nútímans „forgylltu fallhlífunum“. Þetta orð, sem mér er nær að halda að sé eitt algeng- asta orð franskrar tungu þessa stundina, er sem sé notað á einu bretti yfir alla þá bónusa, sporslur, aukagreiðslur, biðlaun, eftirlaun og annað sem forstjórar stórfyrir- tækja og samsteypa skammta sjálfum sér þegar þeir hætta störfum, einkum og sér í lagi eftir að hafa komið þessum sömu fyrirtækjum á kaldakol. Og þar sem flestir hlutir í Frakklandi enda með vísnasöng hefur hinn vinsæli söngvari Alain Souchon látið frá sér fara sönglag sem ber heitið „Forgyllta fallhlífin“ og er nú þegar fáanlegt á netinu en mun koma út á geisladisk 1. desember. Söngvarinn byrjar á formála þar sem segir: „Fyrirtækið sekkur, en forstjórinn fær miljónir og aftur miljónir; hann drífur sig suður í hitabeltið, borðar kókoshnetur með toppmódelum og syndir í tæru vatni.“ En svo tekur við einsöngur í orðastað forstjórans sjálfs á baðströndum heitu landanna, undir blíðlegu og exótísku lagi: „Farið heil gjallarhorn, farið heil mótmælaspjöld, farið heilir trúnaðarmenn verklýðsfélaga, nú er það sólskin og kalypsó fyrir mig. Fyrirtækið sökk en ég flýt í sælunni (...). Einn daginn voru hlutabréfin í frjálsu falli og ég í fallhlíf.“ Að sögn blaða tína þúsund manns þetta lag út úr netinu á hverjum einasta klukkutíma, og raula vafalaust margir með. En hvað gerist næst? Fyrir skömmu birtist ritstjórnargrein í hægra blaðinu „Le Figaro“, þar sem sagt var að um leið og ríkisvaldið væri búið að leysa vandamál kreppunn- ar ætti það að draga sig umsvifa- laust út úr efnahags- og fjármála- lífinu. Þetta þýðir á mæltu máli að um leið og almenningur verði búinn að borga brúsann, greiða tjónið sem varð þegar spilaborg- irnar hrundu, eigi fjárglæfra- mennirnir að fá að byrja sama leikinn aftur upp á nýtt. En ef það gerist að almenningur fer fyrir alvöru að finna fyrir afleiðingun- um af kreppunni í sínu daglega lífi, eins og nú eru horfur á, geta víst fáir séð fyrir hvaða lög hann tekur upp á að raula. Kavíar í kvöldmatinn EINAR MÁR JÓNSSON Í DAG | Forgylltar fallhlífar Nöfn á lausu Íslensku bankanna bíður nú mikið endurreisnarstarf. Ljóst er að ætli íslensku bankarnir nokkurn tímann að verða aftur gjaldgengir á alþjóðafjármálamörkuðum hljóta þeir að þurfa að skipta um nafn; engum blöðum er um það að fletta að Glitnir, Landsbanki og Kaupþing eru nú handónýt vörumerki. Hver skyldu nýju nöfnin verða? Nokkur nöfn úr íslenskri bankasögu liggja reyndar á lausu, til dæmis Íslandsbanki, Verslunarbankinn, Alþýðubankinn, Iðnaðar- bankinn, Útvegsbankinn, Samvinnubankinn, Búnaðarbankinn og Fjárfestingarbanki atvinnulífsins. Maðurinn sem vissi of mikið Tryggvi Þór Herbertsson getur víst ekki unnið í banka aftur. Til þess veit hann of mikið eftir mánuðina með Geir. Þessi staðreynd hlýtur að vera öllum öðrum til viðvörunar og eflaust verður það erfitt fyrir stjórnvöld að fá fólk til að sinna tíma- bundnum verkefnum í framtíðinni, þegar það á á hættu að sjá eða heyra svo mikið að það á ekki afturkvæmt í fyrri störf. Veröld ný og góð Það eru ekki bara bankar sem þurfa að huga að endurreisnarstarfi, heldur allt þjóðfélagið í heild. Margir eru á einu máli um að íslenskt samfé- lag standi frammi fyrir róttækum breytingum og kalla það Nýja Ísland. Hvernig það verður á eftir að koma í ljós. En ef lagafrumvarp Sigurðar Kára Kristjánssonar, þing- manns Sjálfstæðisflokksins, nær fram að ganga má að minnsta kosti kaupa vín út í kjörbúð og auglýsa það. Það er hans framlag til Nýja Íslands. bergsteinn@frettabladid.is Munið Kon ukvöldið Fimmtuda gin n 23 .okt í Skútuvogi Á rin fyrir heimskreppuna á fjórða áratugnum deildu menn um grundvallarhugmyndir er lutu að peningamálastjórn landsins. Ríkisstjórnir þeirrar tíðar fundu hins vegar ekki réttan tíma til að taka ákvarðanir til lengri fram- tíðar. Eftir að kreppan skall á voru menn uppteknir við skamm- tímaviðbrögð. Lag til að ákveða langtímastefnu í peningamálum kom aldrei. Niðurstaðan var sú að þjóðin sat uppi með hafta- og millifærslukerfi með fjölgengi í þrjá áratugi. Undanfarin tvö til þrjú ár hefur verið ljóst að tilraunin sem ákveðin var með Seðlabankalögunum frá 2001 gengi ekki upp. Vegna mikilvægis bráðaráðstafana við aðsteðjandi vanda hefur ekki verið talið að réttur tími væri til að móta nýja framtíðarstefnu í peningamálum. Nú er hrunið gengið yfir. Neyðarlög hafa verið sett. Fyrstu bráðabirgðalausnir hafa verið ákveðnar. Samvinna við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn blasir við. Hún verður ekki þrautalaus fremur en annað. Næst er síðan að ákveða stefnuna um framtíð peningamálanna. Vandinn er sá að ríkisstjórnarflokkarnir hafa aðhyllst ósamrým- anlegar leiðir í því efni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur viljað varð- veita krónuna. Hann hefur þó haft fyrirvara um endurmat þjóðar- hagsmuna á hverjum tíma. Samfylkingin hefur haft upptöku evru á stefnuskrá sinni með aðild að Evrópusambandinu. Annar hvor flokkanna verður nú að breyta mati sínu á stöðunni. Skýr fram- tíðarstefna í peningamálum er forsenda endurvakins trausts. Ný pólitísk staða kemur hins vegar upp fari svo að hvorugur stjórnar- flokkanna breyti hagsmunamati sínu. Miðað við ríkjandi valdahlutföll á Alþingi sýnist Samfylkingin ekki eiga málefnalegan kost á þátttöku í annars konar stjórn. Þó svo að hún væri tilbúin að fórna Evrópustefnunni til að ná saman með VG er eins líklegt að meirihluti þingmanna Framsóknar- flokksins sé ekki reiðubúinn til stjórnaraðildar án evrulausnar. Að þessu leyti hefur Sjálfstæðisflokkurinn í meira svigrúm. Hann gæti trúlega myndað stjórn með VG um viðhald krónunnar. Slíkt samstarf yrði hins vegar keypt dýru verði. Það myndi kosta meiri einangrun, stóraukin ríkisumsvif í fjármála- og atvinnulífi og vaxandi skattbyrði sem hlýst af vörn krónunnar. Þar til viðbót- ar yrðu settar verulegar takmarkanir á hagnýtingu orku til nýrrar verðmætasköpunar. Nái stjórnarflokkarnir ekki saman um framtíðarstefnu í pen- ingamálum fær þjóðin tvo afar skýra kosti í næstu þingkosningum. Einu gildir hvort þær verða haldnar fyrr eða síðar. Annars vegar verða þar Sjálfstæðisflokkurinn og VG með tilboð um áframhald- andi varðstöðu um krónuna. Hins vegar munu Samfylkingin og meirihluti Framsóknarflokksins koma með tilboð um evru og aðild að Evrópusambandinu. Enginn sér úrslit í slíkum kosningum fyrir eins og sakir standa. Afleiðingin yrði hins vegar að öllum líkum klofin þjóð. Miklu far- sælla væri að stjórnarflokkarnir kæmu framtíðarskipan peninga- málanna sem fyrst í skýran farveg með eins víðtæku samstarfi og kostur er á, innan þings sem utan. Þjóðin tæki síðan afstöðu til þess í kosningum eða eftir atvikum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Kjarni málsins snýst um framtíðargjaldmiðil sem nýtur gagn- kvæms trausts í viðskiptum og er grundvöllur stöðugleika. Úti- deyfa er ekki leið að því takmarki heldur skýr framtíðarsýn. Áhrif bankahrunsins á pólitíkina: Skýrir kostir ÞORSTEINN PÁLSSON SKRIFAR

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.