Fréttablaðið - 10.11.2008, Blaðsíða 12

Fréttablaðið - 10.11.2008, Blaðsíða 12
12 10. nóvember 2008 MÁNUDAGUR greinar@frettabladid.is FRÁ DEGI TIL DAGS ÚTGÁFUFÉLAG: 365 RITSTJÓRAR: Jón Kaldal jk@frettabladid.is og Þorsteinn Pálsson thorsteinn@frettabladid.is AÐSTOÐARRITSTJÓRI: Steinunn Stefánsdóttir steinunn@frettabladid.is. Fréttablaðið kemur út í 103.000 eintökum og er dreift ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Einnig er hægt að fá blaðið í völdum verslunum á landsbyggðinni. Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu formi og í gagnabönkum án endurgjalds. Issn 1670-3871 Það að kommúnisminn skyldi bregðast gerir kapítalismann í sjálfu sér ekki gáfulegri. Fall kommúnismans gerir brölt í mönnum ekki sjálfkrafa rétt bara af þeim sökum einum að einhver kunni að græða á því. Við erum alin upp við þetta andstæðupar: kapítalismi/kommún- ismi. Önnur stefnan gerir ráð fyrir sameign framleiðslutækjanna sem stjórnað sé „að bestu manna yfirsýn“, og útkoman verður fljótt alræði fulltrúanna. Hin stefnan gerir ráð fyrir einkaeign fram- leiðslutækjanna þar sem hvatinn sem knýr hagkerfið er hagnaðar- von einstaklinganna – útkoman verður fljótt alræði braskaranna. Og hér á landi alræði verktakanna. Eina samfélagið sem vit er í virðist hið blandaða hagkerfi Norðurlanda. Í öfgamyndum sínum spegla kommúnismi og kapítalismi hvor aðra. Hvor tveggja nauð- hyggja, knúin ást á hugmyndum en skeytingarleysi um líf mannanna og stjórnast af sams konar hugsjónum um stórfenglegar framkvæmdir: belgingi. Í báðum stefnum ríkir oftrú á tæknilausnum og vanmat á viti hugar og handa, oftrú á hagvexti – en hagvöxtur er ekki annað en mæling á hávaðanum í hagkerfinu – en vanmat á gildi daglegs lífs fjarri framleiðslunni; oftrú á rányrkju, eyðileggingu, brölti, bara einhverju brölti. Níðstöngin Krossgötur Hjálmars Sveinssonar á rás 1 höfðu síðastliðinn laugardag að geyma sérlega átakanlegt dæmi um afleiðingar þess óðakapítalisma sem ríkt hefur hér að undanförnu, en þar var rakið hvernig gróið og indælt hverfi rétt utan við miðbæ Reykjavíkur var eyðilagt með fáránlegum framkvæmdum við Höfðatorg, þegar borgarstjórn sjálfstæðismanna og Framsóknar fór í typpakeppni við Kópavog um turnbyggingar í trássi við vilja íbúa og ráð skipulagsyfirvalda. Ömurleg drög að nauðljótum turni standa nú á Höfðatorginu eins og háðung – eins og níðstöng – eins og minnisvarði um takmarka- lausa verktakaþjónkun sjálfstæðis- manna sem víluðu ekki fyrir sér að skrökva blygðunarlaus að íbúum hverfisins. Þetta er ekki eina dæmið um algjört alræði verk- takanna hér á höfuðborgarsvæðinu og glundroða í framkvæmdum: bara uppbyggingin á skrifstofuhús- næði á höfuðborgarsvæðinu virðist hafa gert ráð fyrir því að hingað flyttust senn höfuðstöðvar Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna með allri starfsemi. Turninn í Borgartúni og Smáranum eru vitnisburður um það hversu óskynsamlegur óðakapítalisminn er. En talsmenn hans hafa ekki bara gert tilkall til skynseminnar heldur líka hinnar náttúrulegu niðurskip- unar hlutanna í heiminum. Lengi hafa þeir predikað um gildi óréttlætisins og lögmæti dauða- syndanna. Réttlætið kann að vera gott og blessað, sögðu þeir, en það er bara svo óhagkvæmt. Það er hreinlega hættulegt. Með jöfnuði erum við nefnilega að grípa inn í sjálft gangverk kapítalismans, sem er náttúrulegt og lögmálsbundið. Svona er lífið; réttlætið er rangt, „fair is foul“. Nú vitum við að þessu er einmitt öfugt farið og tilfinning okkar var allan tímann rétt: að það var alltaf ranglætið sem var rangt en réttlætið rétt. Og sú markvissa og andstyggilega tilraun sem hér var gerð til að stórauka stéttaskipt- ingu, með ofsaríkum í sérhverfum með sérskólum – soldið ríkum á öðrum stað – og svo pakkinu utan við allt – hefur til allrar hamingju mistekist. Lítill stéttamunur og mikill hreyfanleiki milli stétta – upp og niður stigann – hefur alla tíð verið styrkur íslensks samfé- lags, og sambýli stéttanna eins og það var í Vogahverfinu í mínu ungdæmi, þar sem hristust í einn graut krakkar frá fátækum heimilum og ríkum, heimilum háskólaborgara og iðnaðarmanna, sjómanna og listamanna. Ukust að íþrótt og frægð, undu svo glaðir við sitt. Íslandskokkteillinn teygaður Kannski að Íslendingar kunni ekki að vera ríkir. Frá því að kapítalismi fór að láta á sér kræla á Íslandi upp úr aldamótunum 1900 virðist segin saga að ríkir Íslendingar hafi ekkert kunnað með peninga að fara – og því meiri peninga sem þeir fengu, því minna. Sönnunargagn 1: eftir því sem danska blóðið þynntist út í Thors-ættinni minnkaði peningavitið að sama skapi. Lýsingar Halldórs á Íslandsbersa í Guðsgjafaþulu og aðförum hans, dellugangi og fylleríi í útlöndum gætu sem hægast átt við um það fólk sem delerað hefur í útlöndum í nafni okkar hinna undanfarin ár. Því ber að fagna sérstaklega framkominni tillögu VG á Alþingi (Alþingi muniði, húsið þarna við Austurvöll sem þjóðin kaus fulltrúana til) um að lækka laun forseta Íslands og annarra háttsettra embættismanna. Þetta er ekki bara eitthvert ómerkilegt lýðskrum heldur miðuðust þessi fimbullaun við auðmennina sem nú eru horfnir, og því hægt að klípa milljón hér og milljón þar, ekki síst til að endurheimta jöfnuðinn. Landið er fagurt og frítt, auðlindir nógar, fólkið vel menntað og gott, tækifæri um allt. En við verðum að fá að kjósa nýtt þing. Sem starfar. Rétt reyndist rétt GUÐMUNDUR ANDRI THORSSON Í DAG | Efnahagsástandið Bloggað til að gleyma Hangs starfsmanna á netinu er vel þekkt vandamál meðal atvinnurek- enda, og eru nýju ríkisbankarnir þar engin undantekning. Þó hefur heyrst að starfsfólk þar á bæ sé ekki að sóa dýrmætum tíma í að lesa um enska boltann, ógnvekjandi rassinn á Jane Fonda – myndir eða uppfæra status- inn á facebook, heldur eigi vefsíða ein, sem reglulega er uppfærð með krassandi fréttum og upp- lýsingum um persónu- legar deilur þjóðþekktra aðila, hug þeirra allan. Gengur síðan góða undir nafninu „Seðla- bankabloggið“ meðal hörðustu aðdáendanna. Betra of en van Ýmsir vilja meina að lögreglan leggi í vana sinn að vanmeta fjölda þeirra sem láta sjá sig í vikulegum mót- mælafundum á Austurvelli stórlega. Lausnin gæti hæglega verið sú að ráða Pál Óskar Hjálmtýsson í talningar- djobbið, en eins og margir muna sýndi popparinn fádæma færni við að ofmeta mannfjölda á tuttugu ára afmælistónleikum Kaupþings á Laugardalsvellinum í ágúst á síðasta ári. Páll Óskar var kynnir kvöldsins og básúnaði nýjum áhorfendatölum, sem virtust hækka sem nam þúsundum á örfárra mínútna fresti, yfir gáttaða gestina sem rúmt var um á hálf- tómum leikvanginum. Ólíkegt er þó að mótmælendur Íslands kvitti undir það lof sem Páll Óskar hlóð Kaupþing við sama tilefni, og allsendis óvíst hvort diskóboltinn sé sama sinnis í dag. Lokað fyrir Páli Nokkrir athafnariddarar fyrrinætur límdu fyrir glugga Ráðherrabústaðar- ins í Tjarnargötu og strengdu borða við innganginn með áletruninni „Lokað vegna aðgerðaleysis“. Róttækari gárungum hefði líklega þótt við hæfi að breyta orðalagi borðans í „Lokað vegna hugleysis“, meðan ábúendur hússins hefðu vafalítið kosið að vitna í þekktan dægurlagatexta Bjartmars Guðlaugssonar; „Lokað vegna lánleysis“. kjartan@frettabladid.is Skipulagt kaos eða skýr sýn? UMRÆÐAN Hrafnkell Á. Proppé skrifar um skipu- lagsmál Þjóðfélagið stendur nú á tímamótum og almenningur vill í auknum mæli koma að mótun hins nýja Íslands. Skipulag er verk- færi til að móta framtíð samfélaga, ekki ein- göngu að ákvarða staðsetningu gatna og húsa heldur leggja grunn að alhliða uppbyggingu. Í tilefni af nýliðnum alþjóðlegum skipulagsdegi er rétt að skoða hvernig skipulagsmálum er háttað og hvort þar felist ónýtt tækifæri. Skipulagsáætlun á að vera uppbyggingaráætlun hvers sveitarfélags, þar sem mótuð er framtíðarsýn og stefnt á að uppfylla raunhæf markmið. Sú vinna hefur þó verið leyst á nokkuð einsleitan máta þar sem aðaláherslan er lögð á að draga línur á kort en lítið hugað að stefnumótun. Vissulega eru á því undantekn- ingar og fer góðum dæmum fjölgandi. Ástæða þessa er að mínu mati sú að lítil hefð er fyrir faglegri stefnu- mörkun sem unnin er í samráði við hagsmunaaðila. Þessi nálgun við skipulagsvinnu hefur leitt til þess að þröng sjónarmið hafa ráðið ríkjum, sérílagi á þenslusvæðum. Mörg sveitarfélög hafa spil- að djarft til að draga að sem flesta íbúa. Vænt- ingar íbúa og gæði byggðar og umhverfis hafa því vikið fyrir skjótri uppbyggingu. Afleið- ingarnar blasa nú við, mörg sveitarfélög horfa fram á fjárhagslegt tap og hálftóm hverfi. Nú er einstakt tækifæri til að bæta faglega nálgun í skipulagsmálum. Liður í því er að inn- leiða í auknum mæli þá nálgun sem kalla má „samræðuskipulag“. Sú leið felst í ítarlegri greiningu skipulagsráðgjafa og auknu samráði hagsmunaaðila við að móta aðgerðaáætlun sem almenn sátt ríkir um. Slík áætlun er líkleg til að vera hreyfiafl sem leysir úr læðingi nýjar hugmyndir um uppbyggingu og skapar ný tækifæri. Manchester er dæmi um borg sem nýtti aðferðir samræðuskipulags til að snúa við erfiðri stöðu eftir hrun atvinnulífsins. Með markvissri stefnumót- un, sem leiddi saman íbúa, fagaðila og valdhafa, tókst að blása lífi í glæðurnar, skapa nýja atvinnustarfsemi og halda í fólk. Er þörf á slíku á Íslandi? Höfundur er meistaranemi í skipulagsfræðum við Álaborgarháskóla og ráðgjafi hjá Alta ehf. HRAFNKELL Á PROPPÉ FRÉTTABLAÐIÐ Skaftahlíð 24, 105 Reykjavík SÍMI: 512 5000, ritstjorn@frettabladid.is FRÉTTASTJÓRAR: Arndís Þorgeirsdóttir arndis@frettabladid.is, Kristján Hjálmarsson, kristjan@frettabladid.is Trausti Hafliðason trausti@frettabladid.is og Höskuldur Daði Magnússon (dægurmál) hdm@frettabladid.is MENNING: Páll Baldvin Baldvinsson fulltrúi ritstjóra pbb@frettabladid.is VIÐSKIPTARITSTJÓRAR: Björn Ingi Hrafnsson bih@markadurinn.is og Óli Kr. Ármannsson olikr@markadurinn.is HELGAREFNI: Anna Margrét Björnsson amb@frettabladid.is og Sigríður Björg Tómasdóttir sigridur@frettabladid.is ALLT OG SÉRBLÖÐ: Emilía Örlygsdóttir emilia@frettabladid.is og Roald Eyvindsson roald@frettabladid.is ÍÞRÓTTIR: Henry Birgir Gunnarsson henry@frettabladid.is LJÓSMYNDIR: Pjetur Sigurðsson pjetur@frettabladid.is FRAMLEIÐSLUSTJÓRI: Kolbrún Ingibergsdóttir kolbrun@frettabladid.is H ún hefur verið löng, biðin eftir upplýsingum um hvert eigi að stefna og hvernig staðan er. „Nú er botninum náð og viðspyrnan getur hafist,“ hefur ómað, en ekkert breyttist samt. Á meðan ríkisstjórnin er enn í áfalla- stjórnun hafa háskólasamfélagið og almenningur gef- ist upp á biðinni og sýnt hvað í þeim býr. Þar er boðið upp á lausnir í stað vandamála. Á síðustu dögum hefur það komið í ljós hvernig hátt menntunarstig Íslendinga verður lausnin í því að byggja upp nýtt samfélag eftir hrunið. Það verður þó að viðurkennast að það hefur valdið vonbrigðum hvað stjórnvöld eru föst í áfallastjórnuninni í stað þess að leiða landið til framtíðar. Það hvílir mikið á ríkisstjórninni, örfáir ráð- herrar snúast í erlendum lántökum og milliríkjadeilum. Aðrir ráðherrar og þingmenn væntanlega einnig uppteknir við að endur- skrifa fjárlög fyrir komandi ár. En er virkilega enginn sem hefur tíma til að ráðgast við þá sem hugmyndir hafa um hvernig Ísland getur byggst upp aftur og miðla því til almennings? Meðal þess sem hefur komið fram eru hugmyndir Háskólans í Reykjavík og Listaháskólans um hugmyndahús, þar sem fólk í nýsköpunarstellingum hefði aðstöðu til að nýta hugmyndir og þekkingu til að skapa nýjan auð. Meðal þeirra sem eru nú, eða eru að verða, atvinnulausir er vel menntað fólk sem hefur hugmynda- auðgina til að skapa ný tækifæri. Það sem vantar til að sprotafyr- irtækin verði að veruleika er aðstaða og fjármagn. Auð þessa fólks þarf að nýta áður en það flyst af landi brott og tækifærin glatast. Hvað ætlar ríkið að gera til að halda í þetta fólk? Þegar sagan dæmir þetta mikla áfall sem við upplifum nú, mun krónan verða úttalaður sökudólgur. Deilumálið mun snúast um hvoru megin er horft á krónupeninginn. Átti fjármálakerfið að sníða sér stakk eftir vexti og starfa með stærð krónunnar í huga eða átti að bregðast við og taka upp gjaldmiðil sem hæfði fjármálakerfinu. Hvort sem verður er niðurstaðan nú að krónan hefur reynst okkur dýr. Nú um helgina birtist áhugaverð grein um það hvernig hægt væri að taka upp aðra mynt og spara þannig milljarða dala lántöku. Um þessa hugmynd þarf að ræða, því stjórnvöld hafa einblínt á lántöku frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að styrkja gjaldmiðil sem meira að segja Íslendingar hafa enga trú á lengur. Hvernig eiga þá erlendir aðilar að hafa trú á endurreistri krónu? Hvort sem ákvörð- un verður tekin um að skipta um gjaldmiðil nú eða síðar þarf línan að koma frá stjórnvöldum. Hvert skal stefnt í peningamálum? Hve lengi á að halda í krónuna? Almenningur sjálfur, þjóðin öll, er farin að skilgreina hver við erum og hvers konar þjóð við viljum vera. Það keppast allir við að sverja af sér flatskjáina og annað það sem einkennt hefur neyslu- hyggju undanfarinna ára. Auðvitað höfum við öll notið góðæranna, en þegar litið er til baka hefðum við viljað hafa notið þeirra á annan hátt. Þegar farið er að ræða um ráðdeild Norðmanna með virðingu, í stað þess að skopast að henni, hefur breyting orðið á skilningi þjóðarinnar á æskilegum dyggðum. Aftur eru stjórnvöld hvergi til að vísa veginn og því gerum við það sjálf. Kannski er það það sem skiptir máli þegar upp er staðið, að þjóð- in ákveði sjálf hvert skuli stefnt. Ríkisvaldið getur svo fylgt í kjöl- farið ef það vill. Framtíð hins endurreista Íslands: Hugmyndaauðgin SVANBORG SIGMARSDÓTTIR SKRIFAR

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.