Fréttablaðið - 13.01.2009, Síða 33
ÞRIÐJUDAGUR 13. janúar 2009 21
Í upphafi heimildarmyndarinnar
Sólskinsdrengurinn er áhorfend-
um greint frá því að samkvæmt
rannsóknum sé einn af hverjum
150 einstaklingum með fötlun á
einhverfurófinu, sem þýðir að um
2.000 Íslendingar glíma við þetta
samansafn einkenna sem tengjast
truflun á taugaþroska. Þetta er
sannarlega sláandi há tala í augum
þeirra sem hingað til hafa ekki
verið meðvitaðir um fötlunina,
umfang hennar og helstu einkenni.
Góðu heilli ætti vitneskja um ein-
hverfu og áhugi þeirra sem berja
Sólskinsdrenginn augum að stig-
magnast eftir því sem líður á
myndina, sem megnar að vera í
senn fræðandi (á skiljanlegu
mannamáli), persónuleg og falleg.
Áhorfendur fylgja foreldrunum
Margréti og Þorsteini í leit að
úrræðum fyrir son sinn Kela, sem
haldinn er hæsta stigi einhverfu.
Leiðin liggur um þver og endilöng
Bandaríkin auk Bretlands og Dan-
merkur. Í gegnum samtöl við fær-
ustu sérfræðinga, aðstandendur
annarra einhverfra barna og ein-
staklinga sem brotist hafa frá ein-
kennunum kviknar sú von að frek-
ar sé mögulegt að frelsa Kela
undan fötlun hans (að finna glugg-
ann, eins og höfundur hraðhvata-
meðferðarinnar sem Keli bregst
svo undravel við í myndinni kallar
það) en foreldrunum hafði áður
dottið til hugar. Um leið eru bæði
söguhetjur og áhorfendur upplýst
um stöðu meðferðarúrræða hér á
landi, sem virðast gjalda kunn-
áttu- og peningaleysis þótt ýmis-
legt sé vel gert í þeim efnum.
Í einu af mörgum eftirminnileg-
um atriðum segir Margrét frá
þeirri sorg og gremju sem hún
finnur fyrir þegar hún hugleiðir
hvað hefði getað orðið ef gagnleg
meðferð fyrir Kela hefði uppgötv-
ast fyrr. Með það í huga verður að
teljast líklegt að áhorf á Sólskins-
drenginn verði mörgum aðstand-
endum eldri einhverfra erfitt,
enda sannað að því fyrr á lífsleið-
inni sem gripið er inn í með með-
ferð, þeim mun meiri er vonin um
árangur. Einnig verður ekki kom-
ist hjá því að íhuga hvort efna-
hagskreppan, með fyrirhuguðum
niðurskurði á velferðarkerfinu,
muni koma niður á þeim úrræðum
sem þó eru til staðar hér. Í því
augnamiði að sporna við slíkri
þróun gæti myndin hreinlega
reynst bráðnauðsynleg.
Efnið er í eðli sínu viðkvæmt, en
boðskapurinn kemst í gegn án
þess að gripið sé til tilfinninga-
kláms af nokkru tagi. Vel er í lagt
og greinilegt að fjármagnið hefur
verið skynsamlega nýtt, enda allur
óþarfa íburður og prjál af skorn-
um skammti. Tæknivinnsla er fag-
leg og tónlistin, sem er að mestu í
höndum Sigurrósar, hentar við-
fangsefninu fullkomlega. Sól-
skinsdrengurinn er frábær heim-
ildarmynd sem skiptir máli.
Kjartan Guðmundsson
Gægst inn um gluggann
Breskir gagnrýnendur eru ákaf-
lega hrifnir af plötu íslensku
hljómsveitarinnar Hjaltalín,
Sleepdrunk Seasons. Gagnrýn-
andi Guardian, Michael Hann,
biður hlustendur um að standast
þá freistingu að líkja hljómsveit-
inni við Sigur Rós, tónlist þeirra
eigi fátt ef eitthvað sameiginlegt.
Hann fer síðan fögrum orðum
um plötuna og hrósar söngvaran-
um, Högna Egilssyni. „Hann er
ekki fullkominn söngvari en það
er einmitt þessi ófullkomleiki
sem kemur í veg fyrir að platan
lendi í sætabrauðsflokknum,“
skrifar Hann.
Gagnrýnandi Times, Dan Cairns,
fer ekkert síður lofsamlegum
orðum um plötuna. „Sleepdrunk
Seasons virðist hafa verið gerð af
aðeins einni ástæðu, að hafa gaman
af því að gera tónlist,“ skrifar
Cairns á afþreyingarvef Times.
Hann líkir sveitinni við Sufjan Ste-
vens og Arcade Fire. „Sveitin er
þessi sjaldgæfi hlutur sem brýst
fram á sjónarsviðið, algjörlega
óþekkt og hrífur þig strax með,“
bætir Cairns við. - fgg
Bretar hrifnir af Hjaltalín
HRÍFUR ÞIG STRAX Gagnrýnendur bæði
Time og Guardian eru ákaflega hrifnir af
plötu Hjaltalín, Sleepdrunk Seasons.
Sonur rokkarans The Big Bopp-
er ætlar að selja líkkistu pabba
síns á eBay og nota peninginn
sem fæst af sölunni til að fjár-
magna kvikmynd um ævi rokk-
arans. The Big Bopper, öðru
nafni Jiles Perry Richardson Jr.,
lést í sama flugslysi og Buddy
Holly og Richie Valens árið 1959.
Buddy var frægastur þremenn-
inganna en Richie öðlaðist sein-
búna frægð eftir kvikmyndina
La Bamba. Nú vill sonur The Big
Bopper, Jay Perry, reyna að
koma pabba gamla í sama flokk
með kvikmyndinni.
Kistan var grafin upp árið
2007 því fjölskyldan vildi koma
hinum látna fyrir á betri stað.
Kistan var opnuð og þá sá Jay
pabba sinn í fyrsta skipti því
hann fæddist þremur mánuðum
eftir flugslysið. Líkamsleifar
rokkarans voru í góðu ástandi og
meðal annars hafði rokkara-
greiðslan haldið sér að mestu.
Rokkarinn var grafinn aftur í
nýrri kistu og fylgir því ekki
með í kaupunum.
Sonurinn kallar sig The Big
Bopper Jr. Hann er nú að verða
fimmtugur og hefur tileinkað líf
sitt gamla rokkinu. Hann heldur
úti netsíðu um pabba sinn og
spilar með bandi sem spilar gam-
aldags vagg og veltu.
Selur líkkistu
pabba síns á eBay
THE BIG BOPPER Lést 28 ára en líkkista
hans fer bráðlega á eBay.
Hljómsveitin Lifun vakti athygli
síðasta sumar með laginu „Hörku
djöfuls fanta ást“ eftir Björgvin
Ívar Baldursson við texta Bjart-
mars Guðlaugssonar. Björgvin er
sonarsonur Rúnars Júlíussonar.
Lifun, sem skírð er eftir þekkt-
ustu plötu Trúbrots, vinnur nú að
sinni fyrstu breiðskífu sem á að
koma út næsta sumar. Rúnar lagði
til við sonarsoninn að hann útsetti
lagið „Fögur fyrirheit“ og tæki það
upp. Það lag er nú komið í spilun í
útvarpi. Rúnar samdi lagið á sínum
tíma fyrir safnplötuna Innrás: korn-
flex og kanaúlpur. Hann hafði
nýlega heyrt hljómsveitina spila
lagið á æfingu og lagt blessun sína
yfir það þegar hann kvaddi jarð-
vistina svo óvænt.
Nýtt lag frá Lifun
LIFUN Nýtt lag á leiðinni.
Leikfélag Menntaskól-
ans við Sund frumsýnir
á næstunni rokksöngleik
um galdrastrákinn Harry
Potter. Albert Hauksson fer
með aðalhlutverkið en hann
þykir ekkert sérstaklega
líkur Harry Potter úr kvik-
myndunum.
„Ég skrifaði leikgerð upp úr
fjórðu, fimmtu og sjöttu bókinni.
Fjórða og fimmta bókin hafa verið
kvikmyndaðar svo fólk þekkir
þær, en sú sjötta kemur ekki fyrr
en næsta sumar svo við erum svo-
lítið að fara að frumsýna það efni,“
segir Kolbrún Björt Sigfúsdóttir
um hinn íslenska Harry Potter
rokksöngleik sem leikfélag
Menntaskólans við Sund er að
setja upp um þessar mundir. Kol-
brún skrifaði leikgerðina upp úr
sögunum um galdrastrákinn,
íslenskaði texta við nokkur vel
valin erlend lög og leikstýrir söng-
leiknum ásamt eiginmanni sínum
Erlingi Grétari Einarssyni.
Albert Hauksson fer með hlut-
verk Harry Potter í uppfærslunni
og aðspurð segir Kolbrún hann
hafa selt þeim Erlingi hugmynd-
ina í prufunum. „Albert er með
gleraugu en ekki dökkhærður. Það
hjálpar okkur svolítið að gera
þetta ólíkt kvikmyndunum því við
viljum ekki apa eftir þeim. Við
leggjum til dæmis meiri áherslu á
hluta Voldemorts og ástarsöguna í
þessu með sambandi Hermione og
Rons,“ segir Kolbrún.
Söngleikurinn verður frum-
sýndur 17. febrúar í Loftkastalan-
um, sem mun á sama tíma opna
eftir eigendaskipti undir rekstrar-
stjórn Bjarna Hauks Þórssonar.
„Við ætlum að vera svolítið grand
á því á frumsýningunni. Það var
mikill heiður að fá inni í Loftkast-
alanum því fleiri sóttust eftir að
sýna á þessum tíma, svo við erum
mjög ánægð,“ segir Kolbrún.
alma@frettabladid.is
Hinn íslenski Harry Potter
AÐALLEIKARINN Albert Hauksson fer með hlutverk Harry Potter í uppfærslu Mennta-
skólans við Sund, en hann útsetur einnig alla tónlistina í sýningunni.
FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
KVIKMYNDIR
Sólskinsdrengurinn
Leikstjóri: Friðrik Þór Friðriksson
★★★★★
Persónuleg og upplýsandi heimildar- Kennsla hefst 19. janúar
Frístundakor t
Skemmtilegt tónlistarnám sem hentar fólki á öllum
aldri, jafnt byrjendum sem lengra komnum.
Frábært tækifæri. Guðmundur Jónsson og Friðrik
Sturluson úr Sálinni hafa bæst í hóp einvalaliðs
kennara hjá Tónheimaum
Bassagítar Friðrik Sturluson
Lagasmíðar / Gítar Guðmundur Jónsson
Harmónikka
Raf- og Kassagítar
Píanó
Nánari upplýsingar og skráning á
www.tonheimar.is og í síma 846 8888
NÝTT
NÝTT