Tíminn - 14.08.1983, Blaðsíða 8
8
SUNNUDAGUR 14. AGUST 1983
Útgefandi: Framsóknarflokkurinn.
Framkvæmdastjóri: Gísli Sigurösson. Auglýsingastjóri: Steingrimur Gíslason.
Skrifstofustjóri: Ragnar Snorri Magnússon. Afgreiðsiustjóri: Sigurður Brynjólfsson.
Ritstjórar: Þórarinn Þórarinsson, Elias Snæland Jónsson. Ritstjórnarfulltrúi: Oddur V.
Ólafsson. Fréttastjóri: Kristinn Hallgrímsson.
Umsjónarmaður Helgar-Timans: Atli Magnússon. Blaðamenn: Agnes Bragadóttir,
Bjarghildur Stefánsdóttir, Friðrik indriðason, Guðmundur Sv. Hermannsson, Guðmundur
Magnússon, Heiður Helgadóttir, Jón Guðni Kristjánsson,
Jón Ólafsson, Kristín Leifsdóttir, Samúel Örn Erlingsson (íþróttir), Skafti Jónsson, Sonja
Jónsdóttir, Þorvaldur Bragason. Útlitsteiknun: Gunnar Trausti Guðbjörnssson.
Ljósmyndir: Guðjón Einarsson, Guðjón Róbert Ágústsson, Árni Sæberg. Myndasafn:
Eygló Stefánsdóttir.
Prófarkir: Kristín Þorbjarnardóttir, María Anna Þorsteinsdóttlr, Sigurður Jónsson.
Ritstjórn skrif stofur og auglýsingar: Síðumúla 15, fleykjavik. Sími: 86300. Auglýsingasimi
18300. Kvöldstmar: 86387 og 86306.
Verð i lausasölu 18.00, en 20.00 um helgar. Áskrift á mánuði kr. 230.00.
Setning og umbrot: Tæknideild Tímans. Prentun: Blaðaprent hf.
Félagshyggja og
mannúðarstefna
■ Þær raddir heyrast stundum að útgjöld vestrænna þjóðfélaga
til velferðarmála almennings sé að sliga þjóðarbúskapinn. Ingvar
Gíslason, alþingismaður, ritaði nýlega athyglisverða grein í
Tímann, þar sem hann vísar slíkum fullyrðingum á bug.
Ingvar bendir á, að velferðarstefnan sé í höfuðatriðum viðtekinn
hugsunarháttur nútímafólks, eins konar pólitísk meginforsenda í
lýðræðisþjóðfélagi nútímans. Velferðarríkið sé þannig sjálfsagður
hlutur í augum Vestur-Evrópumanna án tillits til stjórnmálaskoð-
ana eða stéttaskiptingar. Það sé hins vegar alrangt að velferðar-
stefnan sem slík sé baggi á skattgreiðendum og atvinnuvegum.
Skattgreiðendur fái endurgreitt framlag sitt í sameiginlegan sjóð
þjóðarinnar í formi margs konar lífsgæða og þjónustu, sem þeir
hefðu ekki ráð á ella, og það væri vafasamur greiði við
atvinnuvegina að ætla að umbylta velferðarþjóðfélaginu m.a.
vegna þess, að ef draga ætti úr eða fella niður félagsleg útgjöld
hins opinbera, þá myndi byrðin og ábyrgðin í þeim efnum fljótlega
flytjast yfir á atvinnulífið í mun ríkari mæli en nú er.
í grein sinni fjallar Ingvar einnig um efnahagsvandann í
Vestur-Evrópu, sem hann telur að stafi af ágöllum sem varða
stjórn, skipulag og markmið atvinnufyrirtækjanna sjálfra, og segir
m.a.:
„Alþjóðaauðmagnið, sem ræður atvinnurekstri - iðnaði -
Vestur-Evrópuþjóða, telur sig hafið yfir félagslegar skyldur,
þ.á.m. þá grundvallarskyldu að tryggja næga atvinnu í þessum
löndum. Ef atvinnuleysisbætur eru að sliga þjóðarbúskap Vestur-
Evrópulanda, þá er frumorsökin sú, að atvinnurekendur festa fé
í fyrirtækjum (iðnfyrirtækjum) annars staðar, í öðrum löndum.
Enda fer það ekki milli mála. Alþjóðaauðmagnið hefur stuðlað
að því að iðnfyrirtæki í Evrópu eru lögð niður (þar er of hátt
kaupgjald) og þau sett upp í iáglaunalöndum, allt til þess að
tryggja hávexti og gróða af fjármagni milljónamæringa og
alþjóölegra auðhringa."
Síðan víkur Ingvar Gíslason að fslandi og segir þá m.a.:
„fslendingar hafa verið svo lánsamir að láta ekki ánetjast að
fullu erlendum auðmagnsáhrifum eða hugsunarhætti stórkapita-
lista til þessa. Hefur sú meginstefna orðið ofan á hjá íslenskum
stjórnmálaflokkum í reynd - að opna landið ekki upp á gátt fyrir
erlendum atvinnurekstri, heldur hitt að setja lagaskorður við
eignarhaldi útlendinga á atvinnufyrirtækjum hér á landi. Hér er
að vísu mjótt á munum, þar sem er álbræðslan í Straumsvík -
umsvifamikið fyrirtæki í eigu útlendinga - og þær yfirlýsingar sem
stundum má heyra af vörum Sjálfstæðismanna og nú síðast
iðnaðarráðherra úr þeim hópi, að íslendingar eigi ekki að sækjast
eftir eign á stóriðjuverum, ef reist yrðu í landinu. Ef þetta er
almenn skoðun Sjálfstæðismanna og (væntanlegt) stefnuskráratr-
iði Sjálfstæðisflokksins, þá efast ég um að uppbygging orkufreks
iðnaðar geti átt sér stað í samstarfi við Framsóknarflokkinn, þegar
til kastanna kemur.
Ástæða er til að vara fólk við lítt hugsuðum áfellisdómum um
velferðarþjóðfélagið, eða röddum sem boða einhvers konar
afturhvarf varðandi vestræna félagshyggju og mannúðarstefnu.
Hafa menn hugleitt hvað við tæki, ef félagshyggju og vestrænum
mannúðarskilningi yrði kastað fyrir róða sem ráðandi afli í
stjórnmálum Evrópulanda, þ.á.m. Islands? Tal um „afsósíalíser-
ingu“ er af hinu vonda.
Hitt er annað mál, að í því háþróaða velferðarkerfi, sem orðið
er, kann að þróast andfélagsleg starfsemi eða hugsun, jafnvel
spilling, ef notað er sterkt orð. Sú hætta er m.a. fyrir hendi að
kerfið sjálft taki völdin og láti sjálft sig vaxa umfram þarfir eða
eðlileg markmið. Sú hætta vofir ahtaf yfir að metnaður einstakra
stofnana eða fyrirtækja ráði meiru en góðu hófi gegnir hvað varðar
viðfangsefni þeirra, umsvif og útþenslu. Þetta hefur vafalaust gerst
innan velferðarkerfisins eins og það hefur gerst á ýmsum öðrum
sviðum opinberrar starfsemi. Mönnum hlýtur m.a. að blöskra
kostnaður við heilbrigðisþjónustu, þ.á.m. launakostnaður jafnvel
verkaskipting heilbrigðisstéttanna og margt í uppbyggingu heilsu-
gæslunnar og þau viðhorf sem þar ríkja oft og einatt varðandi
skipulag, tækjakaup og nýtingu fjármagns, bendir til nauðsynjar
á aðhaldi á þessu sviði.
Það er hlutverk stjórnmálamanna að koma í veg fyrir ofvöxt
opinberrar starfsemi og stöðva misnotkun velferðarkerfisins, ef á
slíkt reynir, en ekki að fyllast andúð gegn félagshyggju almennt
og pólitískri mannúðarhugsjón, þótt einhverjir verði til þess að
misnota kerfið í eigingjörnum tilgangi. Misnotkun velferðarkerfis-
ins er sem betur fer undantekning og þar á almenningur engan
hlut að máli,“ segir Ingvar Gíslason alþingismaður.
- ESJ
skuggsjá
■KVIKMYNDIN UMINDVERSKA ÞJÓÐARLEIÐTOG-
AN MAHATMA GANDHIVAR FRUMSÝND í REYKJA-
VÍK Á MIÐVIKUDAGINN VAR. Það gilti um hana eins og
fáeinar aðrar „stórmyndir", að frægð hennar hafði borist
hingað til lands á undan myndinni. Framleiðendurnir sjálfir
auglýsa ófeimnir að kvikmyndin sé „A World Event“ eða
„heimsatburður“. Kvikmyndagerðarfólk í Bandaríkjunum
hefur hlaðið á hana fleiri Óskarsverðlaunum - eftirsóttustu
kvikmyndaverðlaunum heimsins - en títt er um einstakar
kvikmyndir. Myndin um Gandhi var þannig útnefnd til tíu
Óskarsverðlauna og hlaut átta þeirra, þar á meðal ýmis þau
veigamestu. Þeir, sem atkvæði greiddu um Óskarinn, töldu
„Gandhi“ ekki aðeins bestu mynd ársins, heldur veittu þeir
myndinni einnig Óskar fyrir leikstjórn, (Richard Attenbor-
ough), leik í aðalhlutverkinu (Ben Kingsley), frumsamið
handrit (John Briley), kvikmyndatöku (Billy Williams og
Ronnie Taylor), klippingu (John Bloom), búninga (John
Mollo og Bhanu Athaiya) og leikmynd (Stuart Craig og Bob
Laing). Þá hefur mikið verið um kvikmyndina skrifað og
lýsingarorð á hástigi ekki spöruð.
Og hvernig er svo myndin sjálf? Á allt þetta lof rétt á sér?
Svarið við því hlýtur að verða persónubundið eins og
gengur. Að því er mig varðar uppfyllti þetta afreksverk
Richard Attenboroughs flestar þær væntingar, sem orðsporið
hafði vakið, en þó ekki allar.
ÞAÐ ER VISSULEGA í MIKIÐ LAGT AD GERA
KÝIKMYND UM GANDHI, ÞVÍ MARGIR EIGA
ERFITT MEÐ AÐ LÍTA Á HANN SEM MANN. Meðal
verulegs hluta þjóðar sinnar var hann talinn heilagur maður,
dýrlingur, ogsú skoðun var ríkjandi víðar-ekki síst á síðustu
árum ævi hans. Það er forvitnilegt, til þess að átta sig betur á
þessari afstöðu manna til Gandhis, að vitna í ummæli, sem
birtust í Tímanum 2. febrúar 1948, þ.e. rétt eftir lát hans, en
sú grein hófst með þessum orðum:
„Síðan styrjöldinni lauk hefur enginn atburður vakið meiri
athygli en morðið á Mahatma Gandhi, er var framið
síðastliðinn föstudag. Það var ekki aðeins í Indlandi, heldur
hvarvetna í veröldinni, að menn urðu sem þrumulostnir, er
■ Ben Kingsley í hlutverki Mahatma Gandhis í kvikmynd
Richard Attcnboroughs, sem nú er sýnd í Stjörnubíó í
Reykjavík.
Kvikmyndin um leið-
togann og manninn
Mahatma Gandhi
þeir heyrðu þessa fregn. í ýmsum blöðum var þessum atburði
jafnað til þess, er Kristur var krossfestur. Hvað sem um þá
samlíkingu má segja, verður hinu ekki neitað, að fáir menn
hafa meira líkst Kristi í ýmsum athöfnum en Gandhi og
sennilega hefur engum manni tekist síðan Kristur leið að
verða slíkur leiðtogi með andlegum vopnum einum og Gandhi
var“
I kvikmynd Richard Attenboroughs er reynt að sýna
manninn Gandhi - „að finna leið að hjarta mannsins“ eins og
hann orðar það. Kannski hefði verið nær að segja að finna leið
að hjarta þjóðarleiðtogans, því hér er fyrst og fremst lögð
áhersla á að sýna Gandhi sem hinn mikla leiðtoga þjóðar
sinnar - manninn sem var eitt með þjóð sinni og leiddi hana
til sjálfstæðis, þótt það yrði að vísu með öðrum hætti en hann
hafði vonast til. Hér er nefinlega lögð megináhersla á að
tengja saman epíska frásögn af baráttu þjóðar gegn erlendri
nýlendukúgun og persónulegan þátt Gandhis í þeirri baráttu.
Hinir sögulegu atburðir eru þó tengdir frásögninni af ævi
Gandhis með nánari hætti en stundum verður í kvikmyndum
af þessu tagi, þar sem miklir atburðir eru oft aðeins sem
baksvið persónufrásagnar (nýjasta dæmið um slíka kvikmynd
er „Reds“ eftir Warren Beatty).
í þessu efni er auðvitað stiklað á stóru, því Gandhi hóf þegar
að taka nokkurn þátt í frelsisbaráttu Indverja þegar á fyrstu
áratugum aldarinnar, jafnvel áður en hann snéri aftur til
heimalands síns frá Suður-Afríku árið 1915 -en þangað hafði
hann haldið sem lögfræðingur árið 1893 eftir að hafa
misheppnast að koma undir sig fótum sem slíkur í Indlandi.
Kvikmyndin hefst reyndar þegar Gandhi er nýkominn til
Suður-Afríku, og mun ég ekki vera einn um að harma það,
að þroskaskeiði hans séu engin skil gerð í þessari mynd. En
fyrsti hluti myndarinnar fjallar sem sagt um reynslu Gandhis
í Suður-Afríku. Hún varð honum mikilvæg, þar sem hann
lagði þar grundvöllinn að kenningu sinni um baráttu án
ofbeldis.
Þegar Gandhi snéri heim aftur til Indlands árið 1915 var
hann þegar þekktur fyrir baráttu sína í Suður-Afríku og fyrir
skrif sín uni sjálfstæðismál Indlands, en, eins og hann sagði
sjálfur, þá var hið raunverulega Indland honum sem fjarlægt
land. Og hann lagði því land undir fót og ferðaðist næstu árin
vítt og breitt um landið og kynntist fólkinu, hinum fátæka
fjölda, sem hann sá brátt að var í engum tengslum við þá
forréttindastétt, sem starfaði í þeim samtökum, sem börðust
fyrir sjálfstæði Indlands - Kongressflokknum. Gandhi tók
skrefið til fulls, gerðist einn hinna fátæku, þar sem hann kvaðst
ekki geta veitt fólkinu forystu nema hann lifði eins og það. Sú
hugsun, að foringjar eigi að deila kjörum með því fólki sem
þeir leiða, er víst ekki það eina í kenningum Gandhis, sem
engum félagsmála- eða stjórnmálaforingja dettur í hug í dag
að fara eftir sjálfur.
í kvikmyndinni er því vel lýst hvernig Gandhi tengdist
fátækum löndum sínum sífellt nánari böndum og öðlaðist ást
þeirra og virðingu - og hlýðni. Hann lagði áherslu á að
Indverjar leystu sig undan viðjum efnahagslegrar ánauðar og
óréttlátra laga. Þannig fékk hann landa sína til þess að hætta
að kaupa bresk klæði en vefa sjálfir í staðinn. Spunarokkurinn
varð tákn þessarar baráttu, sem hitti breskan iðnað illilega.
Annar hápunktur baráttu Gandhis var gangan mikla til að
mótmæla einokun brékku nýlendustjórnarinnar á saltsölu, og
tollum sem á saltið voru lagðir. Báðum þessum þáttum í baráttu
hans, og þó sérstaklega saltgöngunni, er frábærlega lýst í
myndinni og sýnir baráttumanninn Gandhi í skýrustu ljósi.
GANDHI BARÐIST FYRIR SJÁLFSTÆÐU INDLANDI
ÞAR SEM ALLIR TRÚARFLOKKAR, HINDÚAR
JAFNT SEM MÚHAMMEÐSTRÚARMENN, GÆTU
LIFAÐ SAMAN í SÁTT OG SAMLYNDI. Það voru því
mestu vonbrigði lífs hans, að hatrið á milli þessara tveggja stóru
trúarhópa skyldi leiða til skiptingar landsins í tvennt -
Indlands og Pakistans -, gífurlegra búferlaflutninga á milli
þessara landsvæða, harðra átaka og mikilla hörmunga. Hann
gat ekki Komið í veg fyrir þessa skiptingu í tvö ríki, en með
því að beita sterkasta vopni sínu - föstunni og áhrifum hennar
á landsmenn - tókst honum þó að stöðva óeirðirnar og koma
á friði. Þar komu enn einu sinni í Ijós þau ótrúlegu áhrif, sem
Gandhi gat haft á landa sína til að eyða hatri þeirra.
Það fer ekki á milli mála, að í mörgum hinna epísku
fjöldaatriða myndarinnar rís hún hæst. Þar sýnir Attenbor-
ough snilli sína sem leikstjóri. Frammistaða Ben Kingsleys í
hlutverki Gandhis er einnig svo frábær, sem af hefur verið
látið, og erfitt að hugsa sér annan mann í því hlutverki. Allir
aðrir leikarar og sögupersónur hverfa þar í skuggann - kannski
um of, því vafalaust hefur hlutverk sumra, svo sem Nehrús,
verið áhrifameira í sjálfstæðisbaráttu Indverja en gefið er í
skyn í myndinni. Breska nýlendustjórnin í Indlandi er sýnd í
mjög slæmu Ijósi, stundum þannig að nálgast skopmynd af
nýlenduherrum, sem vart hefur verið ætlunin. Og bandarískur
ljósmyndari fær miklu stærra hlutverk í myndinni en nokkurt
tilefni er til, og er það hálf vandræðalegt.
Hér er ekki ætlunin að fjalla frekar um sagnfræði myndar-
innar, enda mun erfitt að gera kvikmynd af þessu tagi, sem er
algjörlega hlutlæg í dómum um sögulega atburði. Það er
heldur ekki meginmálið, því þetta er jú kvikmynd um Gandhi
fyrst og fremst, manninn og þjóðarleiðtogann og söguna aðeins
að því leyti sem hún tengist æfi hans og baráttu. Ogsá Gandhi,
sem hér birtist, er vissulega maður, en mjög óvenjulegur -
ekki aðeins vegna þeirra kenninga, sem hann boðaði, heldur
einnig vegna þess, að hann lifði í samræmi við þær kenningar.
Það tvennt sameinaðist um að gera hann að Mahatma, hinum
mikla anda, sem Einstein sagði réttilega um, að komandi
kynslóðir myndu eiga erfitt með að gera sér grein fyrir, að
slíkur maður hefði virkilega lifað á þessari jörð. Sá mikli andi
birtist okkur á breiðtjaldinu í Stjörnubíó í mætti sínum og
einfaldleika.
- ESJ.