Tíminn - 28.10.1988, Qupperneq 9
Föstudagur 28. október 1988
Tíminn 9
llllll BÓKMENNTIR .. ■ ... ■ ' ... .in!;;1' ■ ■ .111. " .. ... Ikll. ..
Kjögxarnir aftur á kreiki
Þórarinn Eldjárn:
Skuggabox,
Gullbringa, Rv. 1988.
Fjölskyldan Kjögx kom fram á
sjónarsviðið í bókinni Margsaga sem
Þórarinn Eldjárn sendi frá sér fyrir
þremur árum. Þar kynntumst við
m.a. þeim feðgum Braga Kjögx
skáldi og sonum hans Þórhalli Kjögx
dyraverði og Kort Kjögx öryrkja,
auk annarra af sömu ætt.
í Skuggaboxi er það hinn sxðast
nefndi sem er orðinn aðalpersónan.
Faðir hans er enn inni í sögunni hér
sem skáldið B. Kjögx, en Þórhallur
horfinn. Eða svo gott sem. Kort er
aftur á móti orðinn fertugur málat-
ferlisfræðingur. Hann hefur dvalið
tuttugu ár erlendis og hefur um
árabil ýtt á undan sér að Ijúka
lokaritgerð sinni við háskóla úti í
Svíþjóð. Hún á að fjalla um gamalt
málfræðirit eftir Jón Ólafsson frá
Grunnavík, Contractismus, sem í
raunveruleikanum liggur víst í hand-
riti úti í Árnasafni og þykir afspyrnu-
vont að sögn þeirra sem lesið hafa.
Kort er kvæntur sænskri stúlku og
eiga þau kóreskan kjörson. Konan
er þó hlaupin frá honum með barnið
vegna þess að hann er á kafi í
uppfinningum sínum og tekur þær
fram yfir að ljúka ritgerðinni.
Vissulega er það laundrjúg yfir-
borðsfyndni sem setur mestan svip á
þessa sögu. Svona svipað og það sem
tryggir lesendur og aðdáendur Þór-
arins Eldjárns þekkja vel úr fyrri
bókum hans. Þannig er erfitt annað
en að líta á Kjögxana hans sem
hverja aðra skoplega furðufugla,
sérvitra og vel til þess fallna að hlæja
að þeim. Og ofan í kaupið kemur
hér önnur álíka fjölskylda til sögunn-
ar, Napparnir. Nánar til tekið hefur
Bragi Kjögx verið kvæntur Rósu
Napp Kjögx, og er Kort því Napp að
móðurkyni.
Napparnir eru með þeim ósköpum
fæddir að þegar þeir reiðast setur að
þeim óstöðvandi hlátur. Þetta er í
sögunni rakið til langalangafa Korts,
Hjörleifs Napp, sem bersýnilega er
sniðinn eftir vel þekktri sögulegri
persónu, Þorleifi Guðmundssyni
Repp, og frægri sögu af magisters-
vörn hans snemma á öldinni sem
leið. Og þennan eiginleika hefur
meðal annars Kort erft, og sömuleið-
is Rósa dóttir hans.
Annars er það móðurafi Korts,
Ögmundur Önundur Napp, sem
þetta ættareinkenni birtist hvað
ákveðnast hjá. Ekki er í bókinni
getið um uppruna hans eða ættarinn-
ar Napp yfirleitt. Grunur hlýtur þó
að læðast að manni um að hún sé
íslensk í a.m.k. annan legginn og
hann beri þannig nafn landnáms-
mannsins í Hlíð í Ódal, Önundar
brauðfótar, eða túnfótar, eða flugu-
fótar, en öll þessi nöfn ber hann í
sögunni. Undir lokin er þess svo
getið að þeir Ódælir hafi stundað
það að deyja inn í hlíðina fyrir ofan
bæ sinn í Ódal, og má þar vera
komin skýring jafnt á upphafi sem
lokum verksins. Napp-nafnið má
líka sem best vera komið frá Pól-
landi, svona með hliðsjón af þeim
mikla áhuga sem því landi er sýndur
víða í bókinni.
Það er með öðrum orðum fyndni
af því tagi, sem hér hefur verið lýst,
sem er mest áberandi í bókinni. Hún
er á yfirborðinu skopsaga, en þó
leynist þar sitthvað fleira ef grannt
er skoðað. Það er til dæmis alls ekki
fullljóst hvort Kort er í rauninni ein
persóna eða tvær. Austur í Svíþjóð
ber hann nefnilega nafnið Kurt
Person, og eftir að sagan hefur
borist til íslands er af og til á flækingi
í henni sænskur málatferlisfræðing-
ur, sem m.a. gerir viðamikla könnun
á svo kölluðu málatferli gesta í
Sundlaug Vesturbæjar. Verður úr
því rækileg ritgerð um efnið, hinn
hroðalegasti lestur.
í sögunni gerist það einnig að
Kort fær um það boð frá afabróður
st'num, Njáli Kjögx, vel að merkja í
desember 1988, að hann hyggist
arfleiða hann að húsi sínu í Reykja-
vík og ættarsetri Kjögxanna. Kort
fær samtímis boð um að Njáll sé
látinn. Hann heldur hið snarasta til
íslands til að heimta arf sinn.
Kennara sinn úti kveður hann
með svipuðum hætti og Sæmundur
fróði kvaddi Kölska í Svartaskóla
forðum, og skilur frakka sinn eftir í
höndum hans en hleypur undan |
sjálfur. Síðan ríður einnig hann á sel
yfir Atlantsála, en í stað Saltarans
notar hann harða diskinn úrtölvunni
sinni til að slá selinn í háusinn með
í fjörunni heima. Að því er þó að
gæta að samkvæmt dagsetningu
bréfsins frá Njáli Kjögx gerist sagan
ekki fyrr en á bak jólum nú í ár. Með
öðrum orðum þá kemur bókin út
núna í október en gerist ekki fyrr en
um eða eftir næstkomandi áramót.
Þegar til Reykjavíkur kemur fara
hins vegar öll skil á milli raunveru-
leika og draumaheims að verða
óljósari en þau voru þó úti í Svíþjóð.
Og vaknar þar í rauninni talsvert
ákveðinn grunur um það að Kort sé
í rauninni ósköp einfaldlega dauður
og hrærist þarna um svona rétt eins
og hver önnur afturganga eða draug-
ur. Undir þann grun ýtir líka upplif-
un Jóns nokkurs Árnasonar læknis,
sem þarna kemur við söguna og
lendir í því að vera viðstaddur
einhvers konar draugaveislu í sam-
komuhúsinu Víðavangi. Sem og
ýmsir atburðir sem verða í gamla
Kjögxhúsinu, þar sem m.a. afinn,
Ögmundur Ónundur Napp, birtist
allt í einu og er alls óljóst hvort
heldur hann sé í rauninni dauður
eða lifandi.
Þegar þarna er komið má líka
meir en vera að naskur lesandi fari
að sjá hilla undir samhengi við
upphafskafla bókarinnar. Þar segir
frá raunum hjónanna í Hlíð í Ódal.
Á þeim bæ hefur sama ættin búið allt
frá landnámsöld, en til vandræða
horfir því að núverandi ábúendur,
Þórarinn Eldjárn rithöfundur.
Önundur og Rósa, hafa ekki eignast
börn. Með yfirnáttúrulegum hætti
tekst þeim það þó, að því er sýnast
má fyrir tilverknað sjálfs Önundar
landnámsmanns, og sonur þeirra er
dreginn alskapaður út úr bakarofni
móður sinnar. Hér er þannig ósvikið
ævintýraminni á ferðinni, en aftur á
móti má sakna þess að áminnstur
Önundarsonur skuli hvergi koma
fram aftur í bókinni. Má þó vænta
þess að hann sé orðinn rúmlega
tvítugur á sögutímanum, því að
fæðing hans á sér stað 1966.
Það er hins vegar gamall bíll
persónunnar Kolla mix sem tengir
þetta allt saman. í ljós kemur að
Kolli hefur á sínum tíma verið
trúlofaður Rósu en misst hana yfir
til Önundar í Hlíð er hún skaust einn
vetur í húsmæðraskóla. í þessum
sama bíl er Kort svo bæði snemma í
sögunni og í lok hennar, ásamt afa
sínum og dóttur. Úr þessum bíl er
það svo sem hann heldur upp í fjallið
ofan við Hlíð. Þar virðist mega telja
að hann sé að safnast á vit feðra
sinna, Ódælinga, og að afi hans hafi
þar farið á undan honum.
Með öðrum orðum þá er þessi bók
á yfirborðinu samansafn af hnyttinni
gamansemi, sem í fljótu bragði skoð-
að er ekki svo auðvelt að sjá neinn
verulegan þráð í. En þegar farið er
að kafa niður í hana kemur þó margs
konar samhengi í ljós og margar
hugleiðingar vakna. Það er ekki nóg
með að hún sé fyndin, heldur er líka
mikið af gátum í henni sem lesanda
er ætlað að reyna að ráða í.
í heildina skoðað hygg ég þó að
ráða megi úr flestum gátum bókar-
innar, a.m.k. með viðeigandi hug-
myndaflugi, og fá þannig hæfilegt
samhengi í verkið. Þó verð ég að
játa að ég hef ekki enn fundið botn
í hvaðeina, svo sem það uppátæki að
láta þau Kort og Rósu dóttur hans
setjast niður til að spila lúdó þegar
þau hittast í fyrsta sinn. Að vísu er
leiklýsingin spennandi á við bestu
fótboltalýsingu, en hvað er skáldið
að fara með þessu? Sama máli
gegnir einnig um Rósur bókarinnar.
Þær eru einar fjórar, húsfreyjan í
Hlíð, fóstra Korts og afasystir, Rósa
Napp, og svo móðir hans og dóttir.
Á nafnið kannski að tákna að hér sé
ein og sama persónan á ferðinni?
Líka verður tæpast séð að hér sé
nokkur umtalsverður boðskapur á
ferðinni. Ádeilur á þjóðfélagið eða
stofnanir þess er erfitt að finna í
nokkrum þeim mæli að sérstaklega
sé um slíkt getandi. Þvert á móti er
það gamansemin sem hér ræður
ferðinni. Sjálfgert er þess vegna að
setja út það að Þórarinn Eldjárn
skuli ekki sjáanlega setja sér mikið
hærra markmið hér en það eitt að
skemmta lesendum sínum og færa
þeim eina saman dægrastyttingu upp
í hendurnar. Þó að segja megi að
slíkt geti svo sem verið eitt af
yfirlýstum markmiðum skáldskapar
þá dregur það tæplega nóg eitt
saman. Yfirleitt þykir betra að skáld-
in hafi líka einhvern umtalsverðan
og marktækan boðskap fram að færa
frá eigin brjósti. -esig
Nýtt Kaupfélagsrit
Ekki hef ég hjá mér upplýsingar
um það hvenær Kaupfélagsritið byrj-
aði að koma út, en á heftinu, sem
var að berast mér í hendur, stendur
að það sé hið 94. í röðinni. Eru því
árin greinilega orðin mörg, og hitt er
víst að í áranna rás er þetta tímarit
búið að flytja Borgfirðingum og
öðrum áhugamönnum um borgfirsk
málefni drjúgan skammt af fróðlegu
lestrarefni. Það er Kaupfélag Borg-
firðinga í Borgarnesi sem gefur út og
Bjami Valtýr Guðjónsson sem rit-
stýrir. Mega báðir aðilar eiga drjúg-
an heiður af þessu íramtaki.
f þessu hefti las ég tvær greinar
mér til óskiptrar ánægju. önnur er
eftir Kristínu Pétursdóttur á Innri-
Skeljabrekku og er ferðasaga austur
í Skaftafellssýslur frá árinu 1971.
Kannski segir þar ekki frá svo ýkja-
stórum atburðum, en frásögnin er
lipur og drjúggóð og skemmtileg
heimild. Hin greinin er eftir Gunnar
Guðbjartsson og er frásögn hans af
ferð sinni með sláturfjárrekstur í
Borgarnes árið 1931. Fyrir okkur
nútímamenn, sem þjótum um sveitir
á ökutækjum okkar, er það þörf
áminning að kynnast því hvemig
það var, fyrir ekki svo ýkja löngu, að
fara fótgangandi í langferðir með
kannski á annað hundrað fjár á
undan sér. Og þetta þurfti að gera í
minni fólks sem enn er á góðum
aldri.
Burtséð frá þessu er kannski
ástæða til að setja út á það að hér er
verulega stór hluti heftisins lagður
undir fundargerðir. Þar fer fyrst
fundargerð aðalfundar kaupfélags-
ins frá því í maí í vor. Þá kemur
fundargerð Mjólkursamlags Borg-
firðinga frá því í apríl. Loks er svo
þarna fundargerð haustfundar kaup-
félagsins sem haldinn var nú í byrjun
september.
Ekki skal hér dregið í efa að þetta
efni eigi erindi til héraðsbúa í Borg-
arfirði, enda um fyrirtæki að ræða
sem afkoma býsna margra þeirra
stendur og fellur með. Og þarna er
margur fróðleikur um reksturinn
sem fullt erindi á út á prent. En hitt
er annað mál að það er dálítið seint
að vera að senda út slíkar fundar-
gerðir í október, frá fundum sem
vom í apríl og maí. Væri ekki hægt
að dreifa til dæmis fundargerðum
mjólkursamlags og kaupfélags í sér-
stöku hefti strax að fundum loknum?
Jafnvel mætti hugsa sér að þeim væri
dreift sérstaklega til félagsmanna og
Kaupfélagsritið léti duga að birta úr
þeim stutta útdrætti. Tímaritið mætti
svo að öðru leyti helga þeim héraðs-
fróðleik sem ég efa ekki að nóg
leynist af í Borgarfirði og kannski
hefur verið útgefendum til hvað
mests sóma að forða frá gleymsku og
koma á framfæri.
En hitt skal hér ekki undan dregið
að Kaupfélagsritið er myndarlegt
tímarit og ánægjulegt aflestrar. Von-
andi á það eftir að verða lesendum
sínum til ánægjuauka um langa hríð
enn. -esig
Hjá Örlaginu í Revkjavík er ný-
lega komin út bókin I skolti Levíat-
ans. Er hér um að ræða þýðingar á
ljóðum margra virtustu skálda Evr-
ópu, Suður-Ameríku og Tyrklands.
Þýðandi ljóðanna er Jóhann Hjálm-
arsson og er í skolti Levíatans fjórða
þýðingarbók hans. Fengur er í þess-
ari nýju bók Jóhanns því tólf ár eru
nú frá því síðustu þýðingar hans
komu út í bókinni Þrep á sjóndeild-
arhring.
Jóhann hefur á þeim 28 árum sem
liðin eru frá útkomu fyrstu þvðinga
hans, verið ötull við að kynna Islend-
ingum ljóðagerð fjölda skálda sem
markað hafa spor sín í sögu heims-
bókmenntanna. Má þar nefna César
Vallejo, Federico Carcía Lorca, Sal-
vatore Quasimodo, Gunnar Ekelöf
og Gottfried Benn.
Levíatinn sem fyrir kemur í nafni
bókarinnar er skaðræðisskepna
nokkur úr Biblíunni og sver sig mjög
í ætt Miðgarðsorms sem betur er
þekktur hér á norðurslóðum. Titill-
inn er sóttur í eitt af ljóðum pólska
skáldsins Czeslaws Milosz. Athygl-
isverður er hlutur tyrkneskra skálda
í bókinni en Jóhann Hjálmarsson er
að líkindum sá íslendingur sem mest
hefur látið sig varða ljóðlist Tyrkja.
í skolti Levíatans er 111 síður að
stærð, prentuð og bundin í Prent-
stofu G. Benediktssonar. Kápu-
mynd er eftir flæmska málarann
Hieronymus Bosch, ljósmynd á
bakhlið tók Páll Stefánsson. Útgáfa
bókarinnar er styrkt af Norræna
þýðingarsjóðnum og Þýðingarsjóði
Islands. Örlagið hefur áður gefið út
bækurnar Dagbók Lasarusar og
Frostmark, báðar eftir Kjartan
Árnason.