Tíminn - 03.01.1989, Blaðsíða 9

Tíminn - 03.01.1989, Blaðsíða 9
Þriðjudagur 3. janúar 1989 Tíminn 9 Áramótaávarp forseta íslands Góðir landsmenn allir, gleðilegt nýtt ár. Á þessu nýja ári vil ég fyrst þakka löndum mínum vinarhug og það mikla traust sem mér var sýnt á árinu sem nú er liðið. Sem einatt fyrr við áramót hugsum við til þeirra sem ekki eru lengur meðal okkar. Sameinuð stöndum við ávallt í samhryggð okkar með þeim sem verða að horfast í augu við það sent orðið er og enginn fær breytt. En við sameinumst einnig í þeirri huggun sem líf og starf góðra manna hefur verið okkur, þeim styrk sem þeir skilja okkur eftir eins og Ólafur Jóhann Sigurðsson sagði í kveðju- ljóði sínu. Af flestu því hef ég fátt eitt gert sem fólki hér þykir mest um vert, en ef til vill sáð í einhvern barm orði sem mildar kvöl og harm. Um síðustu áramót veltum við um stund fyrir okkur bjartsýni og mikilvægi hennar í hugarfari þjóðar. Ekki þeirri bjartsýni sem fæst fyrir lítið á sölutorgum, heldur þeirri sem byggir á heilbrigðu sjálfstrausti, vilja til að finna það sem hjálpar manneskjunni af stað og er okkur nauðsynlegur orkugjafi. Nú verður ekki betur séð en að um þessi áramót sé enn og aftur þörf á því að við tökum okkur bjartsýnistak. Því nú um skeið hefur vofa verið á sveimi meðal okkar og breitt úr sér freklega - og er kölluð kreppa. í fréttum er á því klifað að hún glotti framan í okkur í hverri gátt. Því er vitanlega ekki að neita að við eigum við nokkra örðugleika að stríða, samdrátt á ýmsum sviðum, rekstrarvanda af einu og öðru tagi. Sumir segja að þjóðartekjur muni minnka nokkuð. En er það samt ekki vanþakklæti að kalla þessa örðugleika kreppu? Við búum sem fyrr við einhverjar hæstu þjóðartekjur á nef eða samkvæmt áætlun fyrir 1988 rétt innan við milljón krónur á mann - og er þá talið með sérhvert mannsbarn í landinu. Á árunum 1986 og 1987 unnu íslendingar í happdrætti ef svo mætti að orði kveða. Verð á aðalútflutningsvöru okkar, sjávarafurðum, var hátt, olíuverð var lágt og ýmislegt fleira var okkur í hag. Það er kannske von, að eftir þennan stóra happdrættisvinning verði mönnum ekki um sel, þegar þeir þurfa að horfast í augu við hversdagsleikann. En hversdagsleikinn er ekki kreppa (- og allra síst þegar litið er til þess að áðurnefndar þjóðartekj- ur hafa stóraukist frá því sem þær voru árið 1983 - og að þjóðin kaupir 15 af hundraði meira með tekjum sínum en hún gerði fyrir 5 árum). Þessu hættir okkur til að gleyma. Og enginn verður meiri af að leggjast í bölhyggju og bölrækt. Við höfum illa ráð á því að eyða orku okkar sjálfra, sem er orka þjóðarinnar, í krepputal og kvíða. Nær væri að skoða vandkvæðin algáðum augum og snúa bökum saman til að vinna okkur út úr þeim því „hvað má höndin ein og ein“ eins og Matthías kvað í íslendingaljóðum sínum. Nær væri að hugsa um það sem má styrkja okkur sjálf til verka, í stað þess að berast ráðvillt með því kapphlaupi sem mikið er stundað í fjölmiðlum og ég vil kalia að við séum þar að vega að okkur sjálfum með bölsýni. Síst vil ég kasta rýrð á góða fréttaþjónustu við landsmenn við að skýra þeim skjótt frá því sem er að gerast í landinu og í heiminum öllum, fréttaþyrstri þjóð. En má það ekki vera augljóst að erfitt er á stundum að öðlast heildarsýn yfir málefni lands og lýðs þegar setið er hverja stund um þá stjórnmálamenn sem þjóðin hefur kjörið og þeir fulltrúar eru krafðir sagna um hugsanir sínar frá andartaki til andartaks. Er svo komið að mörgum ofbýður atgangurinn í harðri samkeppni um tíðindi sem helst þurfa að vera æsifréttir. Gæti ekki svo farið að við hættum að taka mark á þó hrópað væri: „Úlfur, úlfur...“ Hvenær sem við lítum í kringum okkur og skoðum þau efnislegu kjör sem þjóðum eru búin, þá hljótum við að sjá að við erum vel sett með þau lífsgæði sem starf okkar og forfeðra okkar hefur fært okkur. Við vorum fyrrum úrræðalítil og bjargarlaus þjóð. - Nýlega var gefin út myndabók breska listmálarans og íslandsvinarins Collingwood með yndislegum og ómetanlegum vatnslitamyndum frá Islandi af þeim stöðum sem frægastir eru í forníslenskum bókmenntum - og nefnd „Fegurð íslands“. Collingwood var hér á ferð fyrir tæpri öld og lýsir þá landsmönnum og höfuðstaðnum á þennan veg. „Allir eru fátæklega til fara og staðurinn sjálfur nakinn, aumur og eyðilegur. Undirokun og sinnuleysi þeirra, sem ættu að geta stuðlað að bærilegri og uppörvandi tilveru og vaxandi velmegun þjóðarinnar, voru augljós, eða svo fannst mér að minnsta kosti. Hvarvetna er skítur og óreiða og allt virðist hálfkarað..." Nú er myndin önnur. Djörfung og hugur hafa reist íslendinga úr öskustó. Hvarvetna blasir við glæsilegur húsakostur velmenntaðrar og framtaks- samrar þjóðar sem, ef á það mætti minna, sigraði t.d. skelfilegan smitsjúkdóm eins og berkla á skemmri tíma en aðrar þjóðir af því að hún lærði svo vel að varast sýkilinn meðal annars með miklu líkamlegu hreinlæti, sem íslendingar hafa haft í hávegum æ síðan. En maðurinn lifir ekki á einu saman brauði. Þegar kreppa er nefnd verður mér það ofar í huga að við erum reyndar stödd í eins konar þjóðernis- legri kreppu. Og við erum ekki ein um það. Hliðstæður vandi steðjar að mörgum öðrum þjóðum, smærri og stærri. Hún birtist í mörgum myndum - í eflingu stórra viðskiptaheilda eins og Evrópubandalagsins, í hliðstæðri þróun í Norður- Ameríku og Austurblokkinni. Hún kemur fram í því að mat á því hvað telst eftirsóknarvert færist undir alþjóðlegan staðal. Hún sést í því að öll tækni er meira eða minna af alþjóðlegum toga, að ekki sé minnst á afdrifaríkt áhrifavald þeirrar fjölmiðlunar sem háþróuð tækni breiðir yfir heiminn á enskri tungu. Lífsgæðakapphlaupið svonefnda ræður ríkj- um í vestri og austri - þótt sitt sýnist hverjum um leiðir til að öðlast efnisleg gæði. Og ekki verður betur séð en þessi eftirsókn eftir tæknitryggðri velferð leiði til jjess að tilfinningin fyrir þeim gildum sem tengjast þjóðerni og þjóðmenningu sé á undanhaldi. Framfarir reistar á tækni og vísindum virðast eftirlæti stjórnmálaskörunga, en svo er sem menn ætli öðrum hliðum menningar að fylgja sjálfkrafa á eftir. Hugsunin snýst um tæknilegar og hagrænar framfarir meðan þrengist um þann grund- völl sem tilvera okkar sem sérstakrar þjóðar er reist á, þrengist um „land, þjóð og tungu“, þá þrenningu sanna og eina sem Snorri skáld Hjartarson hefur um kveðið fyrir okkur. Skáld eiga sín fögru svör við því hvað þjóð er. Orðabók Menningarsjóðs gefur okkur líka ágæta skýringu. Þjóð, stendur þar, er „stór hópur fólks sem á sér að jafnaði sameiginlegt tungumál og menningu, stundar sameiginlega sögulega arfleifð og minningar og býr oftast á samfelldu landsvæði við gagnkvæm innri viðskiptatengsl". Eins og að líkum lætur leggur skilgreiningin þungar áherslur á það sem er sameiginlegt því fólki sem kallar sig þjóð: þjóð er samstaða um hvaðeina - um tungu, um minningar, um siði og atvinnuhætti. Því er það með nokkrum hætti aðför að tilveru þjóðar, þegar umræða okkar um lífskjör og efnahagsmál þróast á síðari misserum í þá átt að þjóðinni er skipt í tvo flokka, - dreifbýlisfólk og þéttbýlisfólk. Það er augljóst að dreifbýlisfólki finnst það eiga á brattann að sækja, það sé að nokkru leyti afskipt, það sé t.d. ekki viðurkennt í verki að í dreifbýlinu er rekinn mestur hluti þess sjávarútvegs sem tryggir lífskjör okkar. Dreifbýlismönnum finnst einatt að þjóðar- auður sogist um of til höfuðstaðarins og týnist þar í hringrás viðskiptanna. Á móti koma ýmsar athuga- semdir af höfuðborgarsvæði. Það er ekki nýtt að einhver slík togstreita sé uppi. En það er á okkar valdi hvort við ölum á tortryggni eins og alltof oft er gert, tortryggninni milli höfuðstaðar og dreifbýlis,, sem geta ekki hvort án annars verið eða hvort við neytum allra bragða til að kveða hana niður. Og þá í þeim anda, að það er reyndar eitt lykilatriði í menningu okkar að halda uppi byggð í landinu öllu, - því fari stór byggðalög í eyði er hafinn uppblástur í íslenskri menningu og íslensku þjóðlífi og hann- verður að stöðva alveg eins og uppblástur landsins sjálfs. Við verðum einnig að forðast það, að þjóð okkar skiptist í tvo flokka eftir öðrum mælikvarða - í þá sem búa við örugga atvinnu og þá sem enga eða stopula atvinnu hafa. Við eigum okkur vonandi það markmið sameiginlegt að vilja verja í verki sem í hugsjón það jafnrétti, sem talið er vera eitt helsta einkenni íslensks mannlífs. Við viljum verja þá siðmenningu sem Sigurður Nordal ræðir um í frægum fyrirlestri, þegar hann segir meðal annars. „í vel siðuðu þjóðfélagi á að vera séð fyrir því að enginn sé beittur oflieldi eða rangsleitni fyrir að vera minnimáttar, allir hafi nóg fyrir sig að leggja og að enginn þurfi að kvíða komandi dcgi vegna skorts á brýnustu nauðsynjum." Og þetta felur þá væntanlega í sér að við gerum þá kröfu til okkar sjálfra að við bcitum öllum tiltækum ráðum til að bægja frá auðmýkingu atvinnuleysis. Réttur allra vinnufærra manna til verka er helgur réttur í augum íslendinga og hann hlýtur að halda áfram að vera helgur, eins þótt það geti kostað okkur að draga um skeið úr þeirri miklu neyslu á öllum sviðum sem við höfum leyft okkur um stund. Takist okkur að gera sjálfum okkur grein fyrir því hvað felst í því að vera þjóð, þá hljótum við þvínæst að vilja átta okkur á því, hvert við viljum stefna, hvers konar þjóðfélag við viljum hafa hér í framtíðinni. Við þurfum að snúa okkur að því sem við látum alltof oft sitja á hakanum: að skilgreina markmið okkar. En hvernig sem okkur kann að miða í þeirri viðleitni er jafnan hollt að hafa í huga hvað við eigum, á hverju við getum staðið. Við eigum landið sem við göngum á, þetta land sem „var fengið sál vorri til fylgdar“ eins og Hannes skáld Pétursson kvað: Ó dunandi eyja sem á dögum sköpunarinnar ennþá í smiðju elds, kulda og vatns engan stað á jörðu eigum vér dýrari því þetta land var sál vorri fengið til fylgdar. Og enginn getur tekið þetta land frá okkur nema við sjálf glutrum niður þeim frumburðarrétti sem við eigum til þess. Við eigum land sem að sönnu hefur verið illa leikið í aldanna rás, en við eigum líka þekkingu og sterkan vilja til að stemma stigu við uppblæstri þess. Þetta land er laust við mengun. Við erum ein fárra þjóða sem andar að sér hreinu lofti. Við eigum hreint vatn og hvort tveggja eru Framhald á næstu síöu

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.