Lesbók Morgunblaðsins - 18.11.2006, Blaðsíða 7
hefði hugmyndin um vopnaða upp-
reisn sem Einar Olgeirsson segir að
ákveðnir félagar hafi rætt ekki kom-
ið upp. Ég verð að viðurkenna að
þessi röksemdafærsla Þórs minnir
mig á sannanir fyrir tilvist Guðs:
Sumir heimspekingar fyrri alda
reyndu að færa rök að því að hug-
myndin um Guð væri þess eðlis að
hún gæti ekki hafa orðið til nema
fyrir guðlegan tilverknað. Gildir
sama um vopnabúrið? Mér virðist
augljóst að nokkrir æstir ungkomm-
únistar geta hæglega talað um vopn-
aða uppreisn án þess að það merki
að þeir hljóti að hafa haft vopn undir
höndum. Ég nefni ekki vopnasöfn-
unina sem Þór talar um í Þjóð-
málagrein sinni vegna þess að ég sé
ekki að hann hafi merkilegri heim-
ildir um hana en sögusagnir og ögr-
andi yfirlýsingar.
Var ofbeldi mikið eða lítið?
Staðreyndin er sú að í þeim rann-
sóknum sem ég gerði fyrir nokkrum
árum á samskiptum íslenskra komm-
únista við Komintern og Sovétríkin
fann ég mikið um hugmyndafræði,
pólitíska réttlínu, ráðgjöf, fyrirmæli,
viðskipti og fjárhagslegan stuðning,
en ekkert um vopnaða uppreisn,
kerfisbundið ofbeldi eða fyrirhugaða
byltingu (nema að svo miklu leyti
sem þjóðfélagsbylting var lokamark-
mið kommúnista). Í skrifum sumra
íslenskra kommúnista kemur fram
sú (kannski barnalega) trú að ís-
lenska byltingin geti farið fram án of-
beldis. Þór Whitehead á ákaflega erf-
itt með að sætta sig við þetta og því
reynir hann að láta líta út fyrir að ég
ýmist sniðgangi heimildir eða lendi í
mótsögnum við sjálfan mig. Ég neita
því auðvitað ekki að kommúnistar
sem voru í Moskvu hafi lært að fara
með skotvopn, eða að ungir flokks-
menn hafi gefið digurbarkalegar yf-
irlýsingar og jafnvel beitt ofbeldi. En
það er dálítið annað en skipulagt
kerfisbundið ofbeldi eða uppreisnar-
áform.
Nú er rétt að hafa í huga að ef Ís-
lendingar hefðu fengið sérþjálfun til
hernaðar eða ofbeldisverka í
Moskvu þá væru til um það heim-
ildir. Nemendur frá ýmsum öðrum
löndum fengu slíka þjálfun. Kom-
intern beitti sér mismikið í ólíkum
löndum, því sumsstaðar voru komm-
únistaflokkar ólöglegir, sumsstaðar
stunduðu þeir margvíslega neð-
anjarðarstarfsemi, sumsstaðar áttu
þeir möguleika á að ná völdum. Um
slíka sérþjálfun hafa ýmsar heim-
ildir varðveist auk þess sem um
hana má lesa í endurminningum
sumra þeirra útlendu kommúnista
sem dvöldu í Moskvu á fjórða ára-
tugnum. Þeir Íslendingar sem ég hef
fundið heimildir um í Moskvu fengu
ekki sérþjálfun af þessu tagi og ég
hef ekki séð á skrifum Þórs White-
head að hann hafi fundið heimildir
um slíka þjálfun þeirra heldur.
Í harðvítugum átökum kreppuár-
anna og kaldastríðsins var beitt of-
beldi, vissulega gerðist það að menn
slösuðust og þá skiptir tala slasaðra
ekki máli, tjón hinna slösuðu verður
ekki minna fyrir það. Það breytir þó
ekki því sem ég bendi á grein minni
7. október að hér á Íslandi hafi átök
á milli verkalýðs og yfirvalda verið
minni en víða annars staðar. Þór er
eitthvað hissa á þeirri fullyrðingu.
En um meiriháttar slagsmál al-
mennings og lögreglu eru aðeins tvö
dæmi, Gúttóslagurinn 1932 og átök-
in vegna inngöngu Íslands í Atlants-
hafsbandalagið 1949 og hér á landi
var sem betur fer aldrei neinn drep-
inn í pólitískum átökum.
Ímyndað leyfisbréf?
Öll grein Þórs markast af sömu
skrítnu túlkununum og mistúlk-
ununum á orðum mínum og álykt-
unum um samtök íslenskra komm-
únista og sósíalista. Hann heldur að
hér á Íslandi hafi kommúnistar jafn-
an þarfnast beinna fyrirmæla um að-
gerðir frá Moskvu og virðist því álíta
að allar aðgerðir þessa fólks megi
heimfæra upp á slíkar skipanir. Í
Kæru félögum sýni ég fram á að
þessi tengsl voru flóknari. Vissulega
trúðu kommúnistar á hugmynda-
fræðilega forsjá Kominterns, en á
sama tíma fóru þeir líka sínu fram.
Þetta kann að vera mótsagnakennt,
en það þýðir ekki að það sé útilokað
eins og Þór virðist halda. Stofnun
Sósíalistaflokksins er prýðilegt dæmi
um þetta. Heimildir sem til eru um
hana benda til að Komintern hafi
lagst eindregið gegn því að leggja
niður Kommúnistaflokkinn og stofna
Sameiningarflokk alþýðu – Sósíal-
istaflokkinn, ef stofnun slíks flokks
leiddi til klofnings Alþýðuflokksins.
Samt var flokkurinn stofnaður og
Komintern í Moskvu tilkynnt um
stofnun nýja flokksins. Í grein sinni
heldur Þór því fram að Komintern
hafi leyft stofnun Sósíalistaflokksins.
Mér þætti fróðlegt að sjá leyfisbréfið,
ef Þór skyldi hafa það undir höndum.
Í lok greinar sinnar sakar Þór
Whitehead mig um að gera lítið úr
valdstjórn bolsevíkaflokksins í Sov-
étríkjunum og dregur í efa grein-
armun minn á alræði Stalíns og stjórn
landsins áratuginn á undan. Ef til vill
má skilja sjónarmið Þórs í þessu, því
margir sagnfræðingar af hans kyn-
slóð, ekki síst sumir bandarískir sagn-
fræðingar, lögðu áherslu á það í túlk-
un sinni á Sovétríkjunum að enginn
hugmyndafræðilegur munur hefði
verið á Sovétríkjunum fyrir 1930 ann-
arsvegar og Sovétríkjum Stalíns hins-
vegar. En flestir sagnfræðingar sem
skrifað hafa um sögu Sovétríkjanna
eftir að tilvist þeirra lauk og hafa haft
aðgang að heimildum sem fyrri kyn-
slóð sagnfræðinga gat ekki kynnt sér,
komast ekki hjá því að gera skýran
greinarmun á alræði Stalíns og mild-
ari valdstjórn sem á undan fór hvað
sem allri hugmyndafræði líður. Ógn-
arstjórn Stalíns ásamt samyrkjuvæð-
ingu og iðnvæðingu Sovétríkjanna á
sér einfaldlega enga hliðstæðu.
Niðurstöður og
fyrirframskoðanir
Ýkjutúlkanir Þórs Whitehead auka
ekki skilning á hreyfingu komm-
únista eða stjórnmálasögu 20. ald-
arinnar yfirleitt. Ég tel mikilvægt að
átta sig á hagsmunum einstaklinga
og hreyfinga, markmiðum sem menn
settu sér í samskiptum sínum, og ár-
angri sem menn náðu hvort sem var
við stórveldin, leyniþjónustur þeirra
eða hinn volduga Kommúnistaflokk
Sovétríkjanna. Fyrir nokkrum árum
átti ég skemmtilegt samtal við
norska sagnfræðinginn Geir Lundes-
tad sem hefur m.a. skrifað um kald-
astríðssögu Norðurlandanna. Við töl-
uðum um það sem menn hafa dregið
fram úr sovéskum skjalasöfnum á
síðustu árum og Lundestad varð tíð-
rætt um ályktanagleði sumra sem
duglegastir hafa verið á því sviði.
Hann sagðist sjálfur hafa þá reglu
þegar hann væri að rannsaka efni úr
sögu síðustu áratuga að byrja á því
að setja sér það markmið að sýna
fram á tilgátu sem væri öfug við fyr-
irframskoðanir hans á efninu. Það
væri langbesta leiðin til að verjast
þeirri skiljanlegu og oft ósjálfráðu til-
hneigingu að túlka heimildir í þá átt
að þær staðfestu það sem maður
héldi fyrir. Ég er ekki frá því að þessi
regla Lundestads gæti komið Þór
Whitehead að góðum notum.
Þór nefnir í Lesbókargrein sinni
inngönguskilyrði kommúnistaflokka í
Komintern sem samþykkt voru á 2.
þingi sambandsins 1920. Í inngöngu-
skilyrðunum sem eru 21 talsins, er
gert ráð fyrir að í hverjum flokki, að
minnsta kosti þeim ólöglegu, starfi
leynideild og Þór gefur sér að þess-
vegna hljóti slík deild einnig að hafa
starfað í Kommúnistaflokki Íslands
sem stofnaður var 1930, spurningin
sé bara hver hafi stjórnað henni, hvað
hún hafi gert og svo framvegis. Ég er
á annarri skoðun. Mér virðist allt eins
líklegt að engin raunveruleg leyni-
deild hafi verið innan KFÍ þó hugs-
anlega hafi einhverjir félagar látið sig
dreyma um að stofna slíka deild
(þessa ályktun styður bréf það frá ís-
lenskum kommúnistum í Moskvu
sem áður var getið. Kæru félagar bls.
61–62). Í fyrsta lagi var flokkurinn lít-
ill, í öðru lagi var hann löglegur og í
þriðja lagi höfðu þessi skilyrði ekki
sama vægi árið 1930 og þær höfðu tíu
árum fyrr. Munurinn á aðferðafræði
okkar Þórs Whitehead er í hnotskurn
þessi: Hann telur sig vita sannleikann
og beitir því heimildum til þess eins
að sýna fram á það sem hann er sann-
færður um fyrirfram. Ég hef hins-
vegar lagt uppúr því að gefa mér sem
minnst fyrirfram, fylgja heimildunum
og forðast að hrapa að ályktunum.
(Ítarlegri grein um þetta efni er
væntanleg í næsta hefti Ritsins,
tímarits Hugvísindastofnunar.)
skipulagið
Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
Slagsmál „En um meiriháttar slagsmál almennings og lögreglu eru aðeins tvö dæmi, Gúttóslagurinn 1932 og
átökin vegna inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið 1949 og hér á landi var sem betur fer aldrei neinn drepinn
í pólitískum átökum.“ Lögreglumenn búnir kylfum og svörtum stálhjálmum hrekja andstæðinga aðildarinnar að
Atlantshafsbandalaginu á brott frá Austurvelli 30. mars 1949.
Höfundur er prófessor í heimspeki
við Háskólann á Bifröst.
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 18. NÓVEMBER 2006 7