Lesbók Morgunblaðsins - 18.11.2006, Blaðsíða 18

Lesbók Morgunblaðsins - 18.11.2006, Blaðsíða 18
Morgunblaðið/Kristinn Jökull Valsson „Þetta átti að vera alvöru bók sem fjallaði um alvöru hluti. Saga sem gerist í bláköldum veruleikanum,“ segir Jökull um nýja bók sína. Eftir Hávar Sigurjónsson Havars@simnet.is J ökull Valsson situr í Sví- þjóð og stundar í vetur nám í margmiðlun við Stokkhólmsháskóla. Hann er 25 ára gamall og sendi á dögunum frá sér Skuldadaga, sína aðra skáld- sögu, hin fyrri, Börnin í Húmdöl- um, kom út fyrir tveimur árum og vakti athygli fyrir fantasíukennda frásögn af börnum í stóru fjölbýlis- húsi sem komast á snoðir um ill- skeytta veru er býr í veggjum hússins. „Ég var strax stimplaður hrollvekju-fantasíuhöfundur og vildi með þessari nýju bók hrista af mér þann stimpil með því að skrifa eitthvað allt öðruvísi,“ segir Jökull og bætir því við að tekið sé heldur minna mark á höfundi sem bindur bagga sína hnútum hrollvekjunnar. Hann segir að hann hafi kannski aldrei ætlað sér beinlínis að verða rithöfundur en þó hafi það ekki komið neinum á óvart sem þekkir til hans. „Ég var búinn að skrifa tvær skáldsögur á undan Börn- unum í Húmdölum, sögur sem munu aldrei koma út. Ég held að maður þurfi að skrifa eins og tvær bækur áður en maður nær al- mennilegum tökum á þessu. Ég var tvö ár að skrifa Börnin og Skuldadagar tóku svipaðan tíma.“ Þú settir þér fyrir að skrifa allt öðruvísi bók. Hvernig öðruvísi? „Þetta átti að vera alvöru bók sem fjallaði um alvöru hluti. Saga sem gerist í bláköldum veru- leikanum.“ Skuldadagar er saga Matta, gæfulítils eiturlyfjasala og fíkils í Reykjavík vorra daga, sem er á þönum við að selja dóp upp í stór- ar skuldir sem hann hefur safnað yfir sig og á ekki von á góðu nema honum takist að borga á réttum tíma. Sagan gerist á nokkrum dög- um, frásögnin er hröð og spenn- andi, margar persónur koma við sögu og uppgjörið í lokin er væg- ast sagt krassandi, þótt Matti sjálf- ur gangi engan veginn frá því með pálmann í höndunum; þvert á móti gæti niðurstaðan verið að hann hefur ekkert lært af þeirri reynslu sem sagan ætti að skila honum. Umgjörðin er raunsæ og staðir kunnuglegir en kannski er þetta þó ekkert minni fantasía en fyrri bók- in? „Þetta er auðvitað skáldsaga og fantasía sem slík. Það er ekkert í sögunni sem á sér fyrirmyndir eða stoðir í raunveruleikanum. Og svo er heldur ekkert til sem heitir „undirheimar Reykjavíkur“. Þetta er eitt samfélag sem allir búa í og þar er ekkert „undirsamfélag“ og „yfirsamfélag“. Matti á t.d. ósköp venjulega mömmu og hann dropp- ar inn í fjölskylduboð á meðan hann er á æðisgengnum flótta und- an bæði löggunni, handrukkurum og öðrum dópsölum. Ég vildi skrifa bók sem fjallar um hugarástandið í samfélaginu á Íslandi í dag. Það hugarástand sem verður til í sam- félagi sem hugsar ekki um annað en peninga og efnisleg gæði. Öll samúð er horfin úr samskiptum fólks og allt er verðlagt til peninga. Aðalpersónan Matti er litaður af samfélaginu og samfélagið speglast í honum.“ Matti hefur býsna ákveðnar skoðanir á samfélaginu og lætur þær óspart í ljós. Er hann að viðra þínar eigin skoðanir? „Nei, alls ekki. Ég er í rauninni mjög ósammála honum um flest. En eitt af því sem ég var að reyna að gera með þessari persónusköp- un var að gera hinn svokallaða „fíkninefnadjöful“ mannlegan. Sýna persónuna á bak við hugmyndina. Mér hefur fundist umræðan um fíkniefni á Íslandi vera á mjög ein- földum nótum. Ég vil gjarnan að lesandinn fá samkennd með Matta en kannski ekki samúð. Hann er ekki góð manneskja en hann er heldur ekki alslæmur.“ Þú leggur honum langa og sann- færandi ræðu í munn um kosti þess að lögleiða kannabisefni. Heldurðu að lesendur falli fyrir röksemdum hans? „Nei, ég á ekki von á því. Ég held að heildaráhrif sögunnar séu sterkari en áhrifamáttur einstakra kafla hennar. Málflutningur Matta er dæmi um þær leiðir sem glæpa- menn fara til að réttlæta afbrot sín. Og mitt hlutverk sem höfundar er að reyna að koma hugsun hans til lesandans á sem trúverðugastan og einlægastan hátt. Mig langaði hvorki til að skrifa bók sem hæfi fíkniefnaneyslu til skýjanna né bók sem hægt yrði að nota sem tæki við forvarnastarf gegn fíkniefnum. Mig langaði einfaldlega til að lýsa hugarfari einstaklings í samfélagi sem er á kafi í neyslu af öllu tagi.“ Jökull segir að sviðsetning sög- unnar í reykvíska fíkniefnaheim- inum sé nánast aukaatriði. „Það er bara góð staðsetning fyrir skáld- sögu sem fjallar um hugarfarið sem ríkir í samfélaginu.“ Þú byggir söguna mjög mark- visst upp með stígandi og fléttu og miklu lokauppgjöri. Frásögnin er myndræn og stundum minnir hún á kvikmynd; spennumynd með tals- verðum hasar, bílaeltingaleik og of- beldi. Hugsarðu þetta sem kvik- mynd? „Ég get alveg séð fyrir mér að þetta gæti orðið ágætis kvikmynd en ég er ekki að hugsa beinlínis um það þegar ég er að skrifa. En kvikmyndir hafa haft mikil áhrif á mig og sjálfsagt skilar það sér í því hvernig ég skrifa. Ég hef gaman af sögum með stígandi og spennu og vil hafa plott í sögunum mínum. Mér hefur fundist vanta plott í ís- lenskar skáldsögur og er að reyna að hefja það til vegs. Mér finnst jafnvel eins og menn líti niður á plott og séu hafnir yfir slíkt. En mér finnst það mikilvægur hluti af skáldsagnagerð og afþreyingargildi mætti oft vera dálítið meira án þess að það þurfi að koma niður á gæðunum. Samt er ég ekki hrifinn af hefðbundnum glæpasögum sem ganga algjörlega upp í lokin, þar sem allt er leyst og vondi gæinn annaðhvort dauður eða á leiðinni í fangelsi. Það er fantasía. Hrein fantasía og í þeim skilningi eru Skuldadagar mjög raunsæ saga.“ Samfélag á kafi í neyslu Skuldadagar nefnist önnur skáld- saga Jökuls Valssonar en hann hlaut góðar viðtökur fyrir þá fyrstu sem hét Börnin í Húmdöl- um sem kom út 2004. Um Skulda- daga sagði gagnrýnandi Morg- unblaðsins nýlega: „… bráðskemmtileg bók sem held- ur fínu jafnvægi milli tilgerð- arleysis og húmors en gerir samt aldrei lítið úr hrottaskapnum og siðleysinu sem einkennir veruleika fíkniefnaheimsins.“ Skuldadagar fjallar um íslenska eiturlyfjaheim- inn. »Ég vildi skrifa bók sem fjallar um hug- arástandið í samfélag- inu á Íslandi í dag. Það hugarástand sem verð- ur til í samfélagi sem hugsar ekki um annað en peninga og efnisleg gæði. Öll samúð er horf- in úr samskiptum fólks og allt er verðlagt til peninga. 18 LAUGARDAGUR 18. NÓVEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ lesbók bækur

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.