Lesbók Morgunblaðsins - 18.11.2006, Blaðsíða 24
24 LAUGARDAGUR 18. NÓVEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók
Bláu húsin við Faxafen
Suðurlandsbraut 50
108 Reykjavík
Sími: 568 1800
Fax: 568 2668
gleraugad@simnet.is
www.gleraugad.is
Sjóntækjafræðingur með
réttindi til sjónmælinga og
linsumælinga
Greiðslukjör
í allt að 36
mánuði
(visa/euro) Engin útborgun
Eftir Tryggva Gíslason
tryggvi.gislason@simnet.is
H
allgrímur Þorsteinsson, faðir
Jónasar Hallgrímssonar,
drukknaði í Hraunsvatni í
ágúst árið 1816 og er þannig
sagt frá dauða hans í ann-
álum:
[Hinn] 4. ágúst, sem var sunnudagur, messaði
Hallgrímur Þorsteinsson, aðstoðarprestur að
Bakka í Öxnadal. Eftir messu rjeðst hann um við
Jónas bónda á Hrauni að f[a]ra með sonum hans,
Jóni og Ólafi, er báðir voru nálægt tvítugsaldri,
til silungsveiðar í Hraunsvatni. Vatn það er þar
uppi í fjalli. Fór prestur þá frá Bakka að Hrauni
með Jónasi og þaðan með þeim bræðrum upp að
vatninu. Net var við vatnið og bátkæna. Prestur
fór í bátinn og ætlaði að leggja út netið. Jón stóð
eftir og hjelt í landtogið, en Ólafur reri fram kæn-
unni og varð hún of örskreið. En er netið þraut
stóð prestur upp og hvolfdi við það kænunni og
fjellu þeir báðir, prestur og Ólafur, í vatnið.
Prestur sökk en Ólafur flaut. Jón stóð á landi og
sá slysið, óð hann þá út í vatnið fram með netinu
upp í axlir og gat náð í bróður sinn og dregið
hann á land. Síðan dró hann upp netið og kom
prestur þá upp með djúptoginu, er flækst hafði
um hann. Virtist þeim bræðrum hann vera dáinn
og lögðu hann til, án þess að hafa tilraunir nokkr-
ar honum til endurlífgunar, því að þá skorti ráð-
deild og kunnáttu til þess. Fóru þeir síðan heim
og sögðu tíðindin. Líkið var tafarlaust sótt, flutt
að Hrauni og þaðan búið til greftrunar.
2
Séra Hallgrímur Þorsteinsson fæddist í Garði í
Aðaldal 17. mars 1776 og var því liðlega fertugur
er hann drukknaði. Faðir hans var Þorsteinn
Hallgrímsson, prestur í Stærra-Árskógi, og móð-
ir Jórunn Lárusdóttir Scheving, föðursystir Hall-
gríms Schevings, kennara á Bessastöðum. Hall-
grímur Þorsteinsson gekk í Hólaskóla og lauk
prófi á fjórum árum vorið 1799 með vitnisburð-
inum „betra en í meðallagi“ og er jafnframt tekið
fram að hann hafi haldið ágæta prófræðu. Hall-
grímur var sagður ásjálegur maður, vel gefinn og
söngmaður ágætur. Eftir próflok á Hólum bjó
Hallgrímur fjögur ár í Hvassafelli í Eyjafirði, en
þaðan var kona hans, Rannveig Jónasdóttir fædd
7. janúar 1777, en hún dó í hárri elli 7. september
1866. Hallgrímur vígðist 6. mars 1803 aðstoð-
arprestur séra Jóns Þorlákssonar skálds á Bæg-
isá og bjó á Hrauni í Öxnadal til vors 1808 er
hann fluttist að Steinsstöðum þar sem hann bjó
til æviloka.
3
Jónas Hallgrímsson yrkir um dauða föður síns í
upphafi Saknaðarljóða sem birtust í Fjölni 1837:
Þá var eg ungur
er unnir luku
föðuraugum
fyrir mér saman.
Man eg þó missi
minn í heimi
fyrstan og sárstan
er mér faðir hvarf.
Kvæðið er harmljóð um sviplegan dauða fimm
Íslendinga sem allir létust langt um aldur fram.
Auk þess að yrkja um dauða föður síns yrkir Jón-
as um fjóra Hafnarstúdenta sem voru honum
samtíða í Kaupmannahöfn, þrír þeirra raunar
einnig á Bessastöðum. Fjórmenningarnir voru
Lárus Sigurðsson frá Geitareyjum á Breiðafirði,
sem dó úr berklum 1832 tæplega 24 ára gamall,
Baldvin Einarsson, sem lést af brunasárum í
Kaupmannahöfn 1833 á 32. aldursári, Torfi Egg-
ertsson, en hann dó úr berklum í Kaupmanna-
höfn 1836 27 ára gamall, og Skafti Tímóteus
Stefánsson, er drukknaði í Holmens kanal í
Kaupmannahöfn 9. apríl 1836 tæpra 28 ára að
aldri, en þeir Jónas Hallgrímsson voru bræðra-
synir.
4
Konráð Gíslason og Jónas voru með Skafta
Tímóteusi kvöldið sem hann drukknaði. Hafði
dauði Skafta mikil áhrif á Jónas, en þeir frænd-
ur voru afar samrýndir; þeir „áttu oft tal saman,
bæði á Bessastöðum og í Kaupmannahöfn svo
eg heyrði, og var það oftast skemmtilegt; þeir
voru vinir, og þó í kappræður færi, var það ætíð
í góðu; þeir töluðu um alla hluti og lögðu sína
dóma á það allt,“ segir Páll Melsteð í æviminn-
ingum sínum. Líklegt má telja að tilefni þess að
Jónas yrkir Saknaðarljóð hafi verið sviplegur
dauði Skafta Tímóteusar, enda má segja að
mannlýsing hans sé „þungamiðja kvæðisins“.
Við dauða Skafta Tímóteusar hefur dauði föð-
urins enn einu sinni sótt að Jónasi, en föð-
urmissirinn hafði mikil áhrif á hann sem barn
og fylgdi honum alla ævi eins og fram kemur
víða í ljóðum hans. Einnig má færa fyrir því
nokkur rök að dauði föðurins hafi haft áhrif á
allt lífshlaup Jónasar, enda segir Hannes Haf-
stein, að þrennt hafi einkum haft áhrif á Jónas
þegar í æsku: „náttúran í kringum hann, skáld-
skapur Bjarna amtmanns, og lát föður hans.“
5
Ekkert verður um það sagt með vissu, hvert
lífshlaup Jónasar hefði orðið, ef föður hans hefði
notið lengur við. Líklegt má telja að faðir hans
hefði búið hann undir skólanám og Jónas í fyll-
ingu tímans gerst prestur og fetað í fótspor föð-
ur síns og þriggja föðurbræðra, afa, langafa og
langalangafa, Eldjárns Jónssonar, prests í
Mörðuvallaklaustursprestakalli, sem sagður
var gáfumaður og skáldmæltur, en af honum
eru komnar miklar prestaættir. En Jónas varð
ekki prestur, þótt hann sækti um prestaköll síð-
ar á ævinni.
Við fráfall séra Hallgríms Þorsteinssonar
stóð Rannveig Jónasdóttir ein uppi með fjögur
börn sín. Elstur var Þorsteinn, fæddur alda-
mótaárið 1800, Rannveig var tveimur árum
yngri, en bæði voru þau fædd á Hvassafelli í
Eyjafirði. Jónas var þriðji í röðinni, fæddur á
Hrauni í Öxnadal 16. nóvember 1807. Yngst var
Anna Margrét, fædd á Steinsstöðum 27. desem-
ber 1815, veturinn áður en faðir hennar drukkn-
aði. Rannveig Jónasdóttir bjó áfram á allri jörð-
inni að Steinsstöðum, en eftir að Rannveig,
dóttir hennar, giftist fyrri manni sínum, Tómasi
Ásmundssyni 1822, bjó hún á hálfri jörðinni á
móti þeim hjónum til 1825. Guðrún Jónasdóttir í
Hvassafelli, systir hennar, bauðst hins vegar til
að taka Jónas litla Hallgrímsson í fóstur til að
létta af heimilinu um stund.
Haft er eftir Hallgrími Tómassyni, syst-
ursyni Jónasar, að Guðrún í Hvassafelli hafi
lagt við Jónas ástfóstur og sett hann til mennta
hjá séra Einari Thorlaciusi, en þeir Hallgrímur,
faðir Jónasar, og Einar voru systkinasynir. Ein-
ar Thorlacius bjó frá 1819 til 1823 í Goðdölum í
Skagafirði og uppfræddi hann Jónas frænda
sinn og bjó undir skólanám. Dvaldist Jónas hjá
honum á vetrum en á Hvassafelli eða á Steins-
stöðum á sumrum.
6
Einar Thorlacius nam fyrst bókleg fræði hjá
séra Jóni Jónssyni lærða í Möðrufelli í Eyja-
firði. Jón lærði skrifaði margt um náttúrufræði
og reikningslist og var sagður vel að sér um
trúarbrögð og hagfræði. Þá þýddi hann bók um
náttúrufræði eftir danska sagnfræðinginn P. F.
Suhm sem nefnd var Sá guðlega þenkjandi
náttúruskoðari og gefin var út í Leirárgörðum
1798. Einnig nam Einar Thorlacius hjá Páli
Hjálmarssyni, skólameistara á Hólum, og
brautskráðist úr heimaskóla hans 1808.
Páll Hjálmarsson var með lærðustu mönnum
á sínum tíma. Hann brautskráðist úr Hólaskóla
1777 og var skrifari Ólafs amtmanns Stef-
ánssonar og heimiliskennari á hinu mikla menn-
ingarheimili hans í Sviðholti og að Innra-Hólmi.
Árið 1782 fór Páll Hjálmarsson til náms við há-
skólann í Kaupmannahöfn, þá þrítugur að aldri,
og lauk fornámi, examen philologicum og ex-
amen philosophicum, við Hafnarháskóla 1784.
Lokaprófi í málfræði lauk hann 1786 og prófi í
guðfræði 1789, allt með mjög góðum vitn-
isburði. Það ár tók hann við starfi skólameistara
á Hólum og gegndi því síðastur manna til vors
1802 að skólinn var lagður niður samkvæmt
konungsbréfi frá 2. október 1801. Páll Hjálm-
arsson bjó á Hólum til 1814 en vígðist þá prest-
ur að Stað á Reykjanesi en fékk lausn 1829 og
lést árið eftir, 78 ára að aldri. Er saga hans öll
mjög merkileg, þótt ekki verði hún sögð hér.
Kennarar Einars Thorlaciusar voru því báðir
hinir lærðustu menn, enda var hann sjálfur tal-
inn mjög vel að sér, kennimaður ágætur og
áhugasamur um þjóðmál. Hjá séra Einari nam
Jónas Hallgrímsson þar til hann settist í Bessa-
staðaskóla 1823. Á Bessastöðum lagði Jónas
mikla rækt við stærðfræði, náttúrufræði og
málfræði og er ekki ósennilegt að lærdómshefð
frá Páli Hjálmarssyni og Jóni lærða hafi búið
með Jónasi, þótt ágætir kennarar hans á Bessa-
stöðum hafi að sjálfsögðu einnig lagt þar sitt af
mörkum.
7
Þegar til Hafnar kom 1832 innritaðist Jónas
Hallgrímsson í lögfræði. Fyrrahlutaprófi forn-
áms, examen philologicum, lauk hann í apríl
1833 og hinu síðara prófi fornáms, examen po-
hilosophicum, í nóvember sama ár með mjög
góðum vitnisburði. „Meðal þess sem hann tekur
próf í um vorið er náttúrusaga og í iðnisvottorði
tveggja prófessora árið 1835 […] segja þeir að
Jónas Hallgrímsson hafi allt frá því hann byrj-
aði í Hafnarháskóla sýnt sérstakan áhuga og
þekkingu á náttúrufræðum. Þeir mæla eindreg-
ið með því að hann fái styrk til námsins og segj-
ast sannfærðir um að hann verði „rosværdig
undtagelse fra antallet af de islændere, der ved
misbrug af det anførte stipendium for-
anledigede dets ophævelse.“ Í styrkumsókninni
segist Jónas hafa fengist við náttúruvísindi alla
háskólatíð sína með það fyrir augum að námið
gæti gagnast honum við rannsóknir á Íslandi,
enda segir hann á einum stað að náttúrufræðin
sé allra vísinda indælust.
Allt ber því að sama brunni. Sviplegur dauði
séra Hallgríms Þorsteinssonar 1816 setti mark
á allt líf Jónasar, sonar hans, og má ætla að
vegna dauða föðurins hafi Jónas kynnst lær-
dómshefð sem leiddi hann til náms í nátt-
úrufræðum við Hafnarháskóla og auðgaði líf
hans með næmni og viðkvæmni sem gerði hann
að því skáldi sem hann er, skáld íslenskrar nátt-
úru og næmra tilfinninga, þótt sjálfur væri
hann innhverfur og dulur. Dauðinn í Hrauns-
vatni 1816 hefur því haft mikil áhrif á líf skálds-
ins og náttúrufræðingsins Jónasar Hallgríms-
sonar – orðið til þess að hann varð það sem
hann var.
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Hraun í Öxnadal Hér fæddist Jónas 1807 en Hallgrímur Þorsteinsson, faðir hans, drukknaði í Hraunsvatni í ágúst árið 1816.
Dauðinn í Hraunsvatni
Sviplegur dauði séra Hallgríms Þorsteins-
sonar 1816 setti mark á allt líf Jónasar, sonar
hans, og má ætla að vegna dauða föðurins
hafi Jónas kynnst lærdómshefð sem leiddi
hann til náms í náttúrufræðum við Hafnarhá-
skóla og auðgaði líf hans með næmni og við-
kvæmni sem gerði hann að því skáldi sem
hann er
Og áhrif hans á lífshlaup
Jónasar Hallgrímssonar
Höfundur í magister í íslensku.