Morgunblaðið - 31.12.2006, Qupperneq 8
8 SUNNUDAGUR 31. DESEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
T
rúarjátningin hin nýja hljóðar svo,
stolin af dönsku veggspjaldi: Ég fer
í tyrkneskt bað. Ég dansa afró.
Kaffið mitt er brasilískt. Bíllinn
minn er japanskur. Vindlarnir mín-
ir eru frá Kúbu. Ég fer í sumarleyfi til Grikk-
lands. Uppáhaldshljómsveitin mín er ensk.
Talnakerfið mitt er arabískt. Brauðið mitt er
ítalskt. En nágranni minn er ú-t-l-e-n-d-i-n-g-
u-r.
Já, það vill svo óheppilega til að nágranni
minn er útlendingur. Og nágranni þinn. Stat-
istík leiðir í ljós að 30 þúsund landsmanna eru
fædd í öðru landi – sjálft hugtakið útlendingur
er túlkunaratriði – hér eru hundruð tvítyngdra
barna og erlent vinnuafl var undir lok ársins
9%. Og skráð trúfélög eru 28 talsins. Það eru
hins vegar ekki „erlend trúfélög“, því trú er í
eðli sínu landamæralaus. Svona getur tölfræðin
verið merkileg. Hún segir margt, en þó ekki allt.
Hvað er í tísku á Kárahnjúkum?
Það er ýmislegt sem við hugsum sjaldan út í.
Muna til dæmis allir, svona dags daglega, að
uppi á Kárahnjúkum hafa að undanförnu verið
búsettar um 1.500 manneskjur? Það jafnast á
við heilan Siglufjörð. Vita menn hversu stórt
mötuneyti fæðir fólk í þeirri fjallabyggð, hvað er
rætt á barnum eða í sjoppunni? Kárahnjúkar
Metropolis. Kannski er hægt að tala um ein-
angrað ríki í ríkinu, ekki beint Vatíkan, meira
kannski San Marínó, því þótt Kárahnjúkar séu
á Íslandi starfar þar t.a.m. fólk sem veit ekki
hvort vinstri eða hægri stjórn er við lýði í land-
inu. Þetta er enginn tilbúningur, þetta er fólk
sem á helst samskipti við aðra erlenda starfs-
menn og fylgist ekki með íslenskum fjölmiðlum.
En þar starfar líka fólk sem hefur tekið ástfóstri
við jarðböðin í Mývatnssveit og notar lausar
stundir til þess að horfa á Kastljós. Fólk sem
ætlar alltaf að búa hérna, þótt stíflan sé risin.
Þannig eru afmörkuðu svæðin alveg eins og ein
þjóð; alls konar fólk með ólík áhugamál, metnað
og skoðanir.
Nágranni minn er útlendingur. Þetta marg-
þvælda þema ársins tók leikhópurinn Rauði
þráðurinn upp með frísklegum hætti í Iðnó á
árinu, með sýningunni Best í heimi. Þar var
brugðið upp margvíslegum sögum, því útlend-
ingar hugsa ekki allir eins, og Íslendingar
sleppa líka stundum út úr klisjunum.
Átakanlegasta sena sýningarinnar er þegar
taílensk fyrrverandi eiginkona Íslendings og
fyrrverandi tengdamóðir hennar takast á í
gegnum dyrasímann um forræði yfir barninu
Ara, sem á stórfjölskyldu í Taílandi, en föð-
uramman vill ala upp á Íslandi. Þar skiptir þjóð-
erni ekki meginmáli, heldur eðlilegar tilfinn-
ingar, því barn er barn beggja foreldra, föður og
móður.
Lögskilnaðir á Íslandi eru 11 á 1.000 hjón, og
hafa tvöfaldast á fjörutíu árum. Svona er nú
gagnlegt að fara yfir árið í tölum. Fjölskyldur í
dag eru eins og bútasaumsteppi – þetta er ekki
kaldhæðni heldur heimilislegur sannleikur – og
erfitt að reikna út stærð vísitölufjölskyldunnar.
Einu sinni var hún hjón með 1,59 börn, hvað
sem það nú þýddi, tveir þriðju úr barni hljómaði
alltaf hálfgrunsamlega. Nú er hún meðaltal
fjölda fóstursystkina og fyrri maka. Og til
kjarnafjölskyldunnar þarf nú væntanlega líka
að telja bílana tvo, hundinn, plasmasjónvarpið,
öryggisvörðinn frá Securitas sem vaktar slotið
og þöglu konuna sem kemur og skúrar.
Erlendir straumar, innlend kátína
Útlönd, vel á minnst, þaðan bárust loksins
þær tilkynningar á árinu að anórexískt útlit of-
urfyrirsætna þætti ekki lengur smart, mælt var
með því að ungmeyjar bættu á sig kílóum.
Skömmu síðar kom út á Íslandi hljómplatan
Mæjonesjól – og seldist vel. Kannski tóku allir
tilmælin til sín.
Af snoppufríðum var að öðru leyti það að
frétta að okkar eigin ungfrú heimur hrasaði eft-
irminnilega „beint á trýnið“, eins og skrifað
stóð, þegar hún krýndi arftaka sinn í Varsjá, en
tók skömmu seinna að sér að syngja svölustu
línuna, „Brostu, í gegnum tárin“, í lagi Bagga-
lúts til styrktar Unicef. Það er nauðsynlegt að
hafa húmor fyrir sjáfum sér.
Af stílfræðum innanhúss segir hins vegar
færra í ár en áður, löggild smartheit náðu há-
marki með svarta jólaskrautinu og hnignun hef-
ur verið spáð í kjölfarið. Vala Matt er hætt með
Veggfóður og spegilþátturinn Innlit-Útlit fékk
ekki Edduverðlaunin sem hann var tilnefndur
til. Þetta er búið.
Hundrað ára gamlar sögur
Er nokkur í kórónafötum hér inni? Kannski,
þetta er titill á ljóðabók eftir Einar Má frá árinu
1981, en í ár gaf hann út ljóð undir heitinu Ég
stytti mér leið framhjá dauðanum. Svona eru
sumir með fingurinn á púlsinum, til dæmis
skáldin, nú er nefnilega orðin lenska að lifa
lengur, helst lengst. Elsti Íslendingur samtím-
ans, Sólveig Pálsdóttir úr Öræfasveit, féll frá á
110. aldursári í haust. Í hárri elli stóðu henni
fyrir hugskotssjónum atvik frá því heilum
hundrað árum fyrr. Hún mundi vel þegar hún
var flutt milli sveita á hestbaki, átta ára gömul,
með manni sem farið hafði út yfir sanda til þess
að sækja eldavél. Sagan er sveipuð blæ liðins
tíma, nú eru hvergi kolaeldavélar, en maður
spyr sig samt – á mektartímum blandara í nýj-
ustu sjetteringum – myndi fólk ekki einmitt
helst fallast á að skutla barni á milli sveita, ef
það hefði von um nýtt heimilistæki í leiðinni?
Eða eru börnin í „fyrsta sæti“?
Það sló marga óþægilega þegar sex ára
drengur var skilinn einn eftir í vondu veðri við
Miklubraut af rútubílsstjóra, fyrir misskilning,
fólk hugsaði með sér að svona gerðu menn ein-
faldlega ekki. Er Ísland barnvænt samfélag?
Morgunblaðið sá ástæðu til þess að rannsaka
málið í greinaflokki á haustdögum – það eitt að
ástæða þótti til að spyrja, segir sitt um svarið.
Samkvæmt nýlegum rannsóknum er ekki
ólíklegt að 23% stúlkna og 8% drengja verði fyr-
ir kynferðisofbeldi fyrir 18 ára aldur. 6,6% ís-
lenskra barna teljast búa við fátækt. Íslenskir
stærðfræðinemendur í 10. bekk eru í 10.–14.
sæti þrjátíu OECD-landa. Og 53 íslenskar
barna- og unglingabækur komu út á árinu. Er
hægt að biðja um meira? Minna? Eða réttara
sagt, er hægt að mæla hamingju barna á Íslandi
með tölum? Varla. En höldum samt áfram að
rannsaka og greina því einungis með því að vera
vakandi getum við brugðist við þegar með þarf.
Tvöfaldur hraði í einfeldninni
Nágranni minn er útlendingur. Nágranni
hans er barn. Nágranni þess er stöðumælavörð-
ur. Og stöðumælavörðurinn er vinur minn.
Svona er Ísland lítið. Allir skyldir í sjöunda lið
hámark, allir heita sömu þrjátíu vinsælustu
nöfnunum. Allir í sömu 66°N-úlpunum með loð-
kraganum. Samt svo ótrúlega ólíkir. Sumir í
röðinni hjá mæðrastyrksnefnd. Aðrir með
heimakokk og þjón. Hvað eru Íslendingar aftur
orðnir margir? 307.261, skv. Hagstofu. Hvaða
tala skiptir samt mestu máli? 4.280, fjöldi fæð-
inga í fyrra. Er það tala sem lesin er með úr-
valsvísitölunni í kvöldfréttunum? Nei. Samt er
hún mikilvægasta talan því lífsstíll okkar mun
senn móta 4.280 manneskjur til viðbótar. Þess
vegna er jafngott að við vöndum okkur.
Hvað var annars í tísku árið 2006? Hvert var
vinsælasta leikfangið, bíltegundin, þvottaefnið?
Ekki hugmynd, en vinsælasta bókin var
Draumalandið og segir kannski sitt um leit að
jafnvægi, a.m.k. öðrum gildum en einum saman
peningunum beinhörðum og stífum.
Og upphæðir eru líka afstæðar, eins og
stjórnmálamennirnir vita, þeir sýsla með millj-
ónir í skólakerfi og spítala en þá kemur allt í
einu á stórum kagga Baugur Group með veltu
sem tekur fjárlögum ríkisins fram, og flautar
þegar hann fer fram úr.
Já, já, kannski er lífsstíllinn kappakstur á
þessu strjálbýla og kostulega landi, og eins gott
að tvöfalda sem flesta vegi svo allir komist leið-
ar sinnar áður en stundataflan fer úr skorðum.
En því miður komast ekki allir á leiðarenda, það
setti sorgarsvip á árið að 30 manns biðu bana í
umferðarslysum. Það eru alltof margir. Og ekki
bætti úr skák að ýmsir vegfarendur töldu tafir
vegna slysa óásættanlegar, skömmuðu lögreglu
eða óku yfir slysstaði. Einu sinni hélst fólk í
hendur, í þessu landi, þegar tjón urðu og slys.
Það er enn tími til að rifja upp þá góðu venju.
Hissa, meira hissa, mest hissa
Þetta var annars, í hnotskurn, árið þegar við
hættum að vita hvaðan á okkur stóð veðrið.
Menn sem höfðu mætt í ræktina í bláum
treyjum með nafninu Gudjohnsen á baki, þurftu
að snarast út í búð og festa kaup á nýrri, vín-
rauðri, blárri og gylltri. Eiður skipti um félag.
Og eins og það væri ekki nóg, skipti Gallup um
nafn. Og Dagsbrún, aftur. Og SÍF. Og þeir sem
lögðu inn hjá Íslandsbanka gátu ómögulega tek-
ið út þaðan aftur; þurftu nú að eiga við Glitni.
Og sá sem skipti við Air Atlanta, þ.e. Avion Gro-
up, var nú boðinn velkominn af Eimskipafélagi
Íslands, þótt hann ætlaði alls ekki að sigla. Að
skipta um nafn var flensa ársins. Maður beið
bara eftir að fólkið færi að herma, til að tolla í
tískunni, og þá stormaði fram listamaðurinn
Birgir Örn Thoroddsen og auglýsti á heilsíðum
að hér eftir héti hann Curver Thoroddsen.
Já. Maður veit ekki lengur hvaðan á sig
stendur veðrið. Maltið komið í nýjar flöskur,
Hringbrautin orðin breiðari en flugbrautirnar í
Vatnsmýrinni … Eða hvort er furðulegra, að
forstjóri í Reykjavík láti smíða sér útihurð fyrir
tvær milljónir króna, eða að 500 Kínverjar lifi
og starfi hér uppi á reginfjöllum? Einmitt. Þetta
er árið þegar við hættum að geta spáð fyrir um
næstu furðufrétt.
Fáir urðu jafn hissa þegar herinn fór og her-
stöðvarandstæðingar – eftir linnulausar Kefla-
víkurgöngur. Þegar Bandaríkjamenn tóku upp
hjá sjálfum sér að pakka varð engin sigurvíma,
ekkert kikk, því göngumenn gátu ekki beint
þakkað sér verkið. Vefur Baggalúts fór á kost-
um og sagði herstöðvarandstæðinga æfa: „Gróf-
lega áætlað munu um 70 atvinnumótmælendur
missa vinnuna [...] auk þess sem ríflega tugur
stöðugilda við skiltagerð, samlokusmurningu og
slagorðasmíð er í uppnámi.“
Neðst var smáauglýsing: Kanamellur. Ár-
íðandi fundur um stöðu okkar í kvöld.
Hagnaðarerindið
Enginn varð þó jafnhissa á árinu og 43 ára
konan sem hafði ekki hugmynd um að hún væri
þunguð fyrr en hún stóð með spánnýtt stúlku-
barn í höndunum á baðgólfinu einn morguninn.
Hún hafði unnið á kassa í Bónus til sjö kvöldið
áður og einskis orðið vör nema eymsla í baki.
Kannski endurspeglast lífsstíll landsmanna í
þessari sögu; að vinna fram á kvöld, fara heim
og ala barn daginn eftir, alveg gáttaður. Maður
veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið, en búð-
irnar eru samt alltaf opnar frameftir.
Þeim sem boðuðu hagnaðarerindið í jólamán-
uðinum gekk vel, raunar betur en nokkru sinni.
Landsmenn versluðu fyrir þrjá milljarða og
voru bara tiltölulega hressir, þótt orkan sem í
innkaupin fór hafi jafnast á við teravöttin í
tveimur jökulsám. Engin erfiðisvinna kemst í
hálfkvisti við að stappa í íslenskri versl-
unarmiðstöð, sér í lagi þegar önnur 80 þúsund
manna hafa fengið nákvæmlega sömu hug-
mynd. En ef nægjanlega hefur ekki verið
spanderað á árinu má alltaf taka hraustlega á
því um áramótin, í sprengjuregninu. Það er jú
„hefð líka um hver áramót“ að hneykslast á
þeirri eyðslu, eins og segir í nýrri skáldsögu
Fríðu Á. Sigurðardóttur.
Og talandi um skáldsögur, þegar menn héldu
að glæpasagan hefði loksins sigrað, kom í ljós að
mest spennandi bókin að margra dómi var frá-
sögn af miðaldra ljóðskáldi á bókmenntahátíð í
Litháen. Höfundur Bragi Ólafsson. Svona vita
menn aldrei hvar þeir hafa aðra menn, þeir vita
ekki lengur hvaðan á þá stendur veðrið.
Tortryggjum náungann
Og af því maður veit aldrei, af því maður veit
ekki lengur hver er glæpamaður og hver er ljóð-
skáld, maður veit ekki hvað útlensku nágrann-
arnir gætu gert manni, og maður veit ekki held-
ur hvaða nafni öryggisfyrirtækið manns heitir á
morgun, er kannski farsælast að fara ekkert út
– nema náttúrlega til að versla – stjákla heldur
um húsið, káma út flatskjáinn og vita hvort ví-
nyl-spilarinn virkar. Ef einhver hringir, passa
að það sé ekki einhver söfnun. Ef einhver dingl-
ar, tékka hvort það sé nokkuð tengdó. Eða
handrukkari. Eða vottur Jehóva. Og ef enginn
kemur, hrósa þá bara happi, því engar fréttir
eru góðar fréttir. Enginn gestur er góður gest-
ur. Maður getur verið ánægður yfir því að búa í
svona strjálbýlu landi og þurfa ekki að hitta
neinn. Þeir gætu verið útlenskir, víðsýnir eða
örir og þá er nú betra að taka enga sjensa.
Halda sig inni við. Tölfræðin sýnir líka að það
borgar sig. Fermetrafjöldi undir þaki á íbúa í
Hong Kong er varla meiri en 7 m². Íbúðar-
húsnæði á Íslandi er gróflega áætlað yfir 15
milljónir fermetra, sem þýðir nærri 50 m² á
íbúa. Það er, í slíku samhengi, kastali á mann.
Í eins manns kastala
Morgunblaðið/Ásdís
Statistík Hvaða tala skiptir mestu máli? 4280, fjöldi fæðinga í fyrra. Er það tala sem lesin er með úrvalsvísitölunni í kvöldfréttunum? Nei.
»Eða hvort er furðulegra, að forstjóri í Reykjavík láti smíðasér útihurð fyrir tvær milljónir króna, eða að 500 Kínverjar
lifi og starfi hér uppi á reginfjöllum?
LÍFSSTÍLL
Sigurbjörg Þrastardóttir | sith@mbl.is