Morgunblaðið - 31.12.2006, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - 31.12.2006, Blaðsíða 15
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 31. DESEMBER 2006 15 GÖNGUFERÐIR um öræfin við Snæfell og svæðið sem nú er óðum að fara undir vatn vegna stíflubygginga við Kárahnjúkavirkjun nutu mikilla vinsælda á árinu sem er að líða. Ósk Vilhjálmsdóttir, leiðsögukona, hefur leitt meira en þúsund manns um svæðið síðustu fjögur sumur en síðasta gönguferðin var far- in 23. september sl. „Við vorum hreinlega í síðasta bíl sem fór yfir brúna yfir Jöklu. Þeg- ar við komum til baka hafði hún verið tekin niður og við þurftum að aka yfir varnargarð stíflunnar,“ segir Ósk og bætir við að Lands- virkjun hafi vitað af hópnum og liðkað fyrir svo hann kæmist til baka. „Þetta var stór- kostlegur dagur. Það bærðist vart hár á höfði og Snæfellið speglaðist í öllum smá- tjörnum.“ Ósk segir fólk yfirleitt hafa verið mjög ánægt með ferðirnar. „Þetta er mikil veð- urparadís enda eitt úrkomuminnsta svæði á landinu. Væta er eiginlega erfiðust á göngu- ferðum en á öðrum svæðum má oft búast við miklum rigningum. Þetta svæði er líka gott yfirferðar enda tiltölulega jafnslétt,“ segir Ósk en bætir við að síðasta sumar hafi verið eilítil undantekning frá veðursældinni fyrri sumur. „Það var stundum dálítið hvasst. Í einni ferðinni okkar lentum við í rigningu sem er mjög sjaldgæft og það var merkilegt fyrir fólk að sjá þessa vökvun jarðar,“ segir Ósk og lýsir því hvernig allt breytti um lit þegar regnið féll. Ósk segir að öræfin við Snæfell hafi verið í alfaraleið á landnámstímanum en nú sé það sem talið er hafa verið Reykjasel Hrafnkels Freysgoða t.d. að fara undir vatn. Svæðið hefur þó lítið verið rannsakað og Ósk og Ásta Arnardóttir, leiðsögukona, voru frum- kvöðlar í að kortleggja það og skipuleggja lengri og styttri gönguferðir. „Fyrir mér var þetta alveg ný upplifun. Þarna sést svo vel til fjalla og Herðubreið, Snæfell, Kverkfjöllin og Vatnajökull umlykja svæðið. Gróðursældin er líka mikil og tjaldstæði þess vegna sér- staklega góð. Eiginlega finnst mér alveg ótrúlegt að ekki hafi verið gerð dýralífsmynd á Kringilsárrana en þar er mjög sérstakt samfélag heiðgæsa og hreindýra,“ segir Ósk. Ósk er nú þegar farin að skipuleggja aðrar gönguferðir fyrir næsta sumar og ætlar m.a. að ganga með Skjálfandafljóti úr Mývatns- sveit í Nýjadal. „Þetta er gömul gönguleið sem hefur ekki verið farin lengi. Við eigum svo mörg svæði sem ekki hafa verið rann- sökuð. Það er frábært en getur líka verið skeinuhætt,“ segir Ósk og bætir við að það sé t.a.m. ekki langt síðan Íslendingar nú- tímans fóru að leggja leið sína um Horn- strandir. „Snæfellið speglaðist í öllum smátjörnum“ Morgunblaðið/ÞÖK Ósk Vilhjálmsdóttir hefur lóðsað meira en þúsund ferðamenn um öræfin við Snæfell. Ósk Vilhjálmsdóttir Eftir Höllu Gunnarsdóttur halla@mbl.is „Þetta var gamalkunn tilfinning,“ segir Val- geir Guðjónsson, tónlistarmaður, aðspurður hvernig það hefði verið að stíga á svið með Stuðmönnum eftir 18 ára hlé. Valgeir segir að einhvers konar keðjuverkun hafi valdið því að hann slóst í hópinn með Stuðmönnum á nýjan leik, hljómsveitin Frummenn hafi komið saman eftir 35 ára hlé og í framhaldi af því hafi verið ákveðið að Valgeir léki með Stuðmönnum í sumar. „Ég gekk bara inn á sviðið og tók upp þráðinn þar sem frá var horfið, hafði engu gleymt og ekkert lært,“ segir Valgeir í hæðnistóni. Að mati Valgeirs var það út af fyrir sig skrýtin tilfinning að koma fram undir merkjum Stuðmanna eftir svo langa fjarveru, en þar sem þau Birgitta Haukdal og Stefán Karl hafi gengið til liðs við Stuð- menn í sumar hafi pressan á honum verið minni. Valgeir er ekki við eina fjölina felldur og segir að þótt árið hafi verið ánægjulegt hvað tónlistina varðar, hafi hans mesta afrek verið endurgerð kennsluforrits sem hann hefur unnið að í félagi við konu sína, Ástu Krist- rúnu Ragnarsdóttur og ber nafnið nemanet. „Við höfum lagt mikla vinnu í þetta og það er stórkostlegt að sjá þetta verða til,“ segir Valgeir en gert er ráð fyrir að forritið líti dagsins ljós í ársbyrjuun. „Það má því segja að þetta ár hafi verið viðburðaríkt og búið sé að leggja grunn að ýmsu sem getur gert næsta ár spennandi og skemmtilegt.“ Valgeir viðurkennir að tónlistin hafi að sumu leyti þurft að lúta í lægra haldi fyrir námsgagnagerðinni en það hafi þó sína kosti. „Það verður þá bara þeim mun ánægjulegra að taka til við tónlistariðkun á nýjan leik, orðinn skemmtilega hungraður,“ segir Val- geir að lokum. „Hafði engu gleymt og ekkert lært“ Valgeir Guðjónsson Morgunblaðið/ÞÖK Valgeir í miklum ham á tónleikum. Með honum á myndinni eru Stefán Karl og Jakob Frímann Eftir Friðrik Ársælsson fridrik@mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.