Morgunblaðið - 31.12.2006, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 31.12.2006, Blaðsíða 28
28 SUNNUDAGUR 31. DESEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ Svörin skortir ekki þegar Edda Jóns-dóttir, eigandi og stjórnandi gallerís-ins i8 við Klapparstíg, er spurð hvaðborið hafi hæst í íslenskum myndlist- arheimi á árinu sem er að líða. „Fyrst myndi ég nefna stóra og glæsilega yfirlitssýningu á verkum Birgis Andréssonar í Listasafni Íslands, sýningu sem sýndi það og sannaði hversu stórbrotinn listamaður hann er. Eins var sýning Steingríms Eyfjörð á sama stað mjög athyglisverð. Ánægjulegt var að sjá Eggert Pétursson fá Carnegie-verðlaun og Hildi Bjarnadóttur fá Sjónlistarverðlaunin á Akureyri, en Hildur opnaði einmitt sýningu hjá okkur daginn fyrir verðlaunaafhend- inguna. Katrín Sigurðardóttir og Margrét Blöndal hlutu einnig tilnefningar í flokki myndlistar. Sjónlistarverðlaunin eru nýtt inn- legg og frábært framtak, en peningaverðlaun sem þessi skipta listamenn miklu máli. Fen- eyjaverk Gabríelu Friðriks fannst mér koma mjög vel út í Listasafni Reykjavíkur. Það voru nokkrar fínar sýningar á árinu í Safni á Lauga- veginum og í Kling og Bang. Það var líka áhugavert að bera saman ís- lensku sýninguna Pakkhús Postulanna og bandarísku sýninguna Uncertain States of America í Listasafni Reykjavíkur. En klárlega einn af merkisviðburðum ársins á sviði myndlistar er sýning Katrínar Sigurð- ardóttir í PS1, útibúi MoMa í New York.“ Hvað persónulega hápunkta á árinu varðar segir Edda: „Fyrir okkur sem lifum og hrær- umst í myndlistinni eru sýningarnar oft há- punktur og ekki síst listakaupstefnurnar sem við tökum þátt í. Við erum nýkomin frá Miami þar sem mikið gekk á,“ segir hún og á þar við kaupstefnuna Art Basel Miami. „Þar var af- skaplega gaman að sjá gríðarlegan áhuga fólks á mörgum af okkar listamönnum, bæði erlend- um og innlendum, en þó sérstaklega á nýjum verkum Hrafnkels Sigurðssonar.“ Bók um áramótin „Á þessu ári var einnig stór áfangi fyrir mig en ég er búin að vera með gallerí i8 í meira en áratug. Af því tilefni kemur nú um áramótin út bók um þessi 11 ár í galleríinu, full af myndum af verkum listamanna sem sýnt hafa í i8 í gegnum árin ásamt fjórum áhugaverðum greinum eftir listfræðinga og listamenn. Það fer ekki hjá því að maður finni bara fyrir smá- stolti en margir af þeim listamönnum sem sýnt hafa hjá mér eru orðnar skærar stjörnur í listaheiminum,“ segir hún en það er Háskóla- útgáfan sem gefur bókina út í samvinnu við i8. Edda segir bjart framundan í listaheim- inum. „Á síðustu tveimur árum hefur áhugi fólks á myndlist aukist gríðarlega, bæði hér heima og erlendis. Meiri aðsókn er í lista- skólana, fleiri læra listasögu og sýning- arstjórnun, og söfn sem sýna samtímalist hafa aldrei séð annan eins fólksfjölda. Við erum að sjá fleira og fleira nýtt fólk sem vill kynnast og eignast samtímalist. Árið 2007 stefnir í að verða mjög spennandi, við stöndum í ströngu þessa dagana að skoða möguleika á því að opna nýtt gallerí í Berlín. Svo er sonur minn, Börkur Arnarson, að hefja störf hjá galleríinu og stýra því ásamt mér en hann hefur verið meðeigandi minn í i8 í gegn- um árin. Síðast en ekki síst eru listamennirnir okkar með fjöldann allan af spennandi verk- efnum í gangi sem við sjáum á nýja árinu.“ Edda Jónsdóttir, gallerístýra i8 Fleiri kynnast og eignast samtímalist Morgunblaðið/Árni Sæberg Haldið var upp á mikilvæga áfangaí réttindabaráttu samkyn-hneigðra á Hinsegin dögum íágúst síðastliðnum. Tugir þús- unda gengu niður Laugaveg og efnt var til viðburða um alla borg. Lög um málefni sam- kynhneigðra tóku gildi hinn 27. júní. Þau heimila m.a. hommum og lesbíum að skrá sig í sambúð og ættleiða börn frumættleið- ingu. „ Í mannárum þýðir það að verða átta ára að fólk fer að hugsa dálítið fullorðinslega; Hinsegin dagar urðu átta ára í ár og fengu það í afmælisgjöf að Alþingi samþykkti viða- miklar breytingar á lögum um réttindi sam- kynhneigðra, sem urðu að veruleika fyrir þverpólitíska samstöðu inni á Alþingi,“ segir Heimir Már Pétursson, framkvæmdastjóri Hinsegin daga. „Almenningur í Reykjavík og um allt land sýndi hátíðinni mikinn stuðning, en það er ljóst að við þurfum að halda áfram að brydda upp á nýjungum á næstu árum til að geta haldið áfram að vera forvitnileg. Eftir að þessum sigrum hefur verið náð má ekki sofna á verðinum, ekki frekar en í annarri mannréttindabaráttu, og þar af leiðandi verður áfram þörf fyrir Hinsegin daga. Við höfum líka í vaxandi mæli tekið þátt í að styðja bræður okkar og systur í öðrum lönd- um. Það birtist til dæmis opið bréf frá okk- ur og Samtökunum 78 í blöðum í Færeyjum í haust, en þá lá fyrir færeyska þinginu frumvarp sem átti að banna mismunun gagnvart samkynhneigðum, sem hafði áður í þrígang verið fellt. Sökum mikils þrýstings, m.a. frá Rannveigu Guðmundsdóttur á þingi Norðurlandaráðs, 30 þúsund undirskrifta á vefnum og frá Hinsegin dögum var frum- varpið loksins samþykkt.“ Heimir Már segir að hlutverk Hinsegin daga í framtíðinni verði að halda áfram að sýna ungu fólki fram á að það sé í lagi að vera samkynhneigður á Íslandi og öruggt. „Með því að halda sýnileikanum á lofti er unnið gegn því að fordómar fái að vaxa upp á ný og fólki gert kleift að vera það sjálft allt frá æskuárum. Einu lagalega baráttumálið sem eftir er, að sögn Heimis Más, er að Alþingi sam- þykki lög um að söfnuðum verði heimilað að gefa út hjúskaparvottorð til samkyn- hneigðra. „Frumvarpið var lagt fram fyrir áramót og vonandi samþykkir Alþingi það á vordögum áður en til kosninga kemur. Það liggur fyrir þverpólitískur stuðningur á þingi hjá öllum stjórnmálaflokkum. En ég árétta að mannréttindi verða ekki tryggð með lagabókstafnum einum. Það hafa verið í gildi lög um jöfnuð kynjanna í áratugi, en engu að síður eru konur með mun lægri laun en karlar. En lögin eru grunnur til að byggja á og vinna æ fleiri hugi og hjörtu landsmanna á band fordómaleysis og skiln- ings.“ Undirbúningur er þegar hafinn að Hins- egin dögum árið 2007. „Undirbúningur hófst í raun daginn eftir að hátíðinni lauk. Við er- um að vonast eftir auknum stuðningi. Ný- lega rann úr gildi 3 ára samningur við borg- ina og vonumst við til að ná góðum samningi, sem og að fyrirtækin sem hafa stutt okkur dyggilega geri það áfram og ný mæti til leiks. Þetta er ólíkt öðrum hátíðum að því leyti að allt er unnið í sjálfboðavinnu og listamenn vinna yfirleitt án endurgjalds. Við vonumst til að á sama hátt og Listahátíð stækkaði úr héraðslistahátíð yfir í listahátíð í heimsmælikvarða, þá nái Hinsegin dagar að verða hinsegin hátíð á heimsmælikvarða. Mannréttindi eru útflutningsvara og fólk sem heyrir af stöðu mála hér, vill heim- sækja þessa þjóð sem ásamt örfáum öðrum hefur náð svo langt. Þá munu Reykjavík og landsmenn allir ekki aðeins njóta þess að hafa tryggt réttindi samkynhneigðra heldur einnig tekna af vaxandi straumi ferða- manna.“ Heimir Már Pétursson framkvæmdastjóri Hinsegin daga Lögin grunnur til að byggja á Morgunblaðið/Kristinn. Árið hefur verið mjög viðburðaríkt áýmsum vígstöðvum. Eitt af því semmér finnst standa upp úr er það semýmsir höfðu sagt, að þótt Íslendingar virtust geta keypt allt sem hreyfðist erlendis, væri ekki endilega víst að þeir næðu árangri í rekstri þessara fyrirtækja, og ótímabærum dauða útrásarinnar spáð. Þess vegna hefur ver- ið ánægjulegt að verða vitni að því hversu mörg þeirra íslensku fyrirtækja sem hafa haslað sér völl erlendis hafa náð að samþætta starfsemina við reksturinn hérna heima og líka að snúa við rekstri fyrirtækja sem þau hafa keypt. Það á við bankana, fyrirtæki eins og Actavis, Bakkavör og fleiri. Við erum ekki lengur bara þekkt fyrir að kaupa og kaupa heldur höfum við sýnt fram á að viðskiptamódelið sem byggt er á gengur upp,“ segir hún. Svafa hefur starfað sem aðstoðarforstjóri Ac- tavis Group í tæp þrjú ár og tekur við starfi rektors Háskólans í Reykjavík 1. febrúar. „Þetta var erfið ákvörðun, því það stóð ekki til að hætta hjá Actavis. Ég hefði svo sannarlega viljað vera þar í nokkur ár í viðbót, enda breyt- ist fyrirtækið og verkefnin á hverjum degi, ef svo má segja. Ég hef alltaf verið með annan fót- inn í akademíunni og hinn í viðskiptalífinu og það gerði útslagið að fá í fyrsta sinn tækifæri til þess að sameina hvort tveggja. Háskólinn í Reykjavík er gríðarlega vel tengdur inn í at- vinnulífið og kúltúrinn í HR er eins og best ger- ist í fyrirtækjum, fjörugur og lifandi og mikið af spennandi verkefnum fram undan. Ég hugsaði með mér: vil ég hafa áhrif á árangur eins fyr- irtækis, hversu skemmtilegt og mikilvægt sem það fyrirtæki er, eða vil ég hafa áhrif til lengri tíma litið og móta næstu kynslóðir stjórnenda og sérfræðinga sem nýtast atvinnulífinu? Þetta var ákvörðun byggð á gildismati. Stöndum fyllilega jafnfætis öðrum Ég hef lært það hjá Actavis að við stöndum fyllilega jafnfætis öðrum, hvar sem er í heim- inum. Viðskiptamódel íslenskra fyrirtækja á rætur að rekja til þess hver við erum sem þjóð, sjálfsbjargarviðleitninnar, vertíðarhugsunar- innar og þessara stuttu boðleiða. Þessi fyr- irtækjamenning, sem er okkur meðfædd, er orðin að markmiði stóru þunglamalegu fyr- irtækjanna á alþjóðavettvangi sem náð hafa góðum árangri til þessa en þurfa nú að laga sig að breyttum heimi og reyna því í örvæntingu að tileinka sér nýjar stjórnunaraðferðir. Þessi sér- staða er eitt stærsta samkeppnisforskot sem Ís- lendingar hafa á alþjóðlegum vettvangi. Hættan er hins vegar sú að við glötum henni ef við gleymum hvaðan við komum og hvað það er sem drífur okkur áfram. Næsta kynslóð mun alast upp við aðrar aðstæður og hugsanlega hætta að fá sína fyrstu reynslu í atvinnulífinu á unglingsaldri og verða vön því að fá hluti upp í hendurnar. Þá gætum við misst bitið að þessu leyti.“ Svafa segir mörg alþjóðleg fyrirtæki eiga erf- itt með að vinda ofan af þunglamalegri stjórnun. „Heimurinn er orðinn svo óútreiknanlegur og breytist svo hratt að arfleifðin frá nýlendutím- anum er hreinlega löngu orðin úrelt. Léttleik- andi alþjóðastjórnun er það sem fyrirtæki þurfa núna og við erum eins og sköpuð fyrir al- þjóðavæðinguna. Það er stutt til austurs og stutt til vesturs frá Íslandi. Oft er talað um að landfræðileg lega Íslands hafi úrelst en það á svo sannarlega ekki við í viðskiptalífinu. Við megum hins vegar ekki gleyma upprunanum og ég sé fram á að geta notað það sem ég hef lært í mínu starfi hingað til og miðlað í Háskólanum í Reykjavík og haft þannig áhrif til framtíðar.“ Svafa Grönfeldt, verðandi rektor Háskólans í Reykjavík Erfið ákvörðun að hætta

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.