Lesbók Morgunblaðsins - 26.05.2007, Blaðsíða 10
10 LAUGARDAGUR 26. MAÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók
Eftir Svein Ólafsson
sveinn@hi.is
H
venær koma rafbækurnar?
Þessi spurning hefur nú verið
á vörum margra í meira en
áratug og rétt að svara henni.
Þær eru komnar en ekki í
þeirri mynd sem búist var
við. Líklega koma þær aldrei í þeirri mynd sem
flestir sáu fyrir sér og margir gæla enn við, sem
einhvers konar tölvuútgáfa af þeim bókum sem
við þekkjum. Það eru til dæmis skjáir með blað-
síðum sem hægt er að fletta með því að halda
niðri músinni og hreyfa síðan blaðsíðurnar, tvö-
faldir skjáir sem opnast eins og bók og lengi
hefur fólk gælt við hugmyndina um tölvutæka
plastpappírinn, sem væri hægt að nota eins og
endurhlaðanlegt dagblað. Allar þessar myndir
eiga það sameiginlegt að færa eitthvað sem fólk
kannast þegar við, bók eða blað, yfir á nýja staf-
ræna miðilinn. Þannig fara þessar uppfinningar
að líkjast lýsingum í vísindaskáldsögum fyrri
tíðar á þeim hlutum sem við notum í dag. Falleg
tæki og gaman að virða hugmyndirnar fyrir sér
en enginn notar þær. Aragrúi rafbókaforma
hefur komið fram en ekkert þeirra hefur slegið í
gegn. Reyndar er margs kyns útgefið efni kall-
að rafbækur en er alls ekki bækur, heldur raf-
rænt ritmál af alls kyns tagi, sem fólk heldur að
sé söluvænna að kalla rafbækur. Það er meira
að segja sjaldnast sett fram í bókarformi, held-
ur lesið eins og rullur. Innan við eitt prósent af
bóksölu í heiminum er á því. Hvar eru þá raf-
bækurnar? Þær eru prentaðar.
Prentaða bókin ætlar að verða óvenju lífseig-
ur miðill. Það hefur því miður farið fram hjá
mörgum sem nota bækur hversu mikið hefur
breyst við tilurð þeirra á síðustu 30 árum. Sá
sem ber saman bók gefna út árið 1977 og aðra
árið 2007 sér ekki við fyrstu sýn miklar breyt-
ingar. Prentgæði höfðu þegar tekið miklum
framförum þegar eldri bókin var offsetprentuð,
miðað við blýprentun fyrr á 20. öldinni. Bókin
frá 2007 sýnir ekki greinilega framfarirnar, þær
liggja allar á bak við og hafa farið fram hjá
mörgum lesendum. Nýjar bækur eru algerlega
stafrænar þar til kemur að prentun og bandi.
Margir hafa viljað stíga skrefið til fulls og
gefa út rafrænt og reka sig þá á tvennt. Annars
vegar gengur illa að selja rafrænar bækur
vegna þess að fólki hentar illa að lesa langa
texta á skjá. Hins vegar gengur útgefendum illa
að finna form sem verndar útgáfurétt þeirra en
er um leið nógu handhægt fyrir notendur til að
þeir vilji kaupa það og nota. Það hefur ekki far-
ið fram hjá útgefendunum að þetta er síður en
svo auðvelt og að miklu handhægari miðill sé til
staðar sem er prentuð bók. Pappírinn er ein-
faldlega notendavænna viðmót, svo beitt sé
tungutaki tölvutækninnar.
Þannig eru nær öll útgáfuform með þeim
möguleika að prenta út skjöl. Þetta er nærri því
svo sjálfsagt að ekki þurfi að minnast á það. Það
sýnir samt betur en nokkuð annað að rafbókin,
sem stafrænt form til að lesa af skjá, er enn
langt undan og verður kannski aldrei ráðandi.
Eru prentaðar bækur svona slæmar?
Reglulega heyrast fréttir af tækniframförum
sem muni ryðja burtu prentuðum bókum. Þær
virðast allar vera rétt handan við hornið og hafa
verið þar í meira en áratug. Hvers vegna vill
fólk sjá skjábókina leysa pappírinn af hólmi?
Hluti af skýringunni gæti legið í misskilningi á
umhverfisvá á 9. áratugnum. Þá gerði fólk sér
grein fyrir að eyðing skóga hafði gífurleg áhrif
á koltvíildisbúskap heimsins, sem aftur tengist
hitastigi á jörðinni. Um þær mundir var sú eyð-
ing mikil í regnskógabeltinu. Fólk tengdi þetta
því miður við pappírsframleiðslu og hvatti til að
dregið yrði úr henni. Regnskógatré eru ekki
notuð til pappírsframleiðslu, heldur var þar rutt
skógi til að hefja nautgriparækt eða sojarækt.
Íslendingar kaupa sinn pappír frá fyrirtækjum
í Svíþjóð og Finnlandi sem planta út meiri skógi
en þau fella. Meðal þeirra eru elstu fyrirtæki
heimsins sem hefðu varla borið sitt barr, í orðs-
ins fyllstu merkingu, ef þau hefðu ekki fyrir
löngu gert sér grein fyrir þessum einföldu bú-
skaparstaðreyndum. Fólk taldi að pappírslausa
skrifstofan væri eitthvað sem stefna ætti að og
yrði líklega orðin að veruleika um aldamótin.
Pappírslausa skrifstofan er þversögn eins og
rafbókin og aldrei hefur verið notað meira af
pappír. Pappírsnotkun er ekki mesta umhverf-
isváin en verður að sjálfsögðu að lúta sömu lög-
málum um sjálfbærni og annað sem við fáumst
við.
Fjöldi fólks prentar þannig út prentskjöl, rit-
vinnsluskjöl og önnur skjöl daglega. Það er
nærri í sömu sporum statt og bókagerðarfólkið.
Bókagerð krefst þó að jafnaði stórtækari véla-
kosts, öflugri umbrotsforrita, myndgerðar og
annars umbúnaðar en fólk notar við daglega rit-
vinnslu. Gömul lögmál um gerð bóka hafa ekki
fallið úr gildi, reynslulögmál sem bókagerð-
arfólkið þekkir. Handbragðið er komið í um-
brotsvinnuna í tölvunni og prentarinn þarf líka
að beita sinni tækni í stafrænum prentvélum.
Eini hluti bókagerðarinnar sem hefur haldist
lítið breyttur er bókbandið. Með stafrænu
tækninni er miklu auðveldara en áður að prenta
í litlum upplögum. Þessi útprentun er komin á
hærra stig en margir gera sér grein fyrir.
Þannig eru bækur sem keyptar eru í bók-
sölukeðjum, sérstaklega hjá þeim sem sérhæfa
sig í þjónustu við háskóla- og rannsókna-
samfélagið, oft prentaðar í litlum einingum hjá
bóksalanum eða prentsmiðjum með samningi
við útgefanda. Þetta er kallað að prenta eftir
þörfum (print on demand) og margar bækur
sem fólk hefur keypt frá Amazon, Barnes-
&Noble, Blackwell, Waterstones og fleiri bók-
sölum eru búnar til á þennan hátt. Upplagið í
þessum einingum er missmátt og getur verið
allt niður í eina bók sem er þó fremur dýrt.
Venjulega er prentað sem svarar til notkunar í
einu námskeiði í háskóla eða svo, frá 20 og upp í
200 eintök. Bóksalarnir nota þessar einingar til
að mæta eftirspurninni á þessum markaði sem
kallar oft eftir smáu upplagi á einn stað með
litlum fyrirvara. Þau lágmarka kostnað af
geymslu og dreifingu en á móti kemur kostn-
aður af smáu upplagi í hvert sinn. Slíkar bækur
eru þegar til í bókasöfnum. Það þýðir þó varla
að spyrja bókaverðina um hvar þær eru, það er
svo lítill munur á þeim og bókum sem eru
prentaðar á hefðbundnari hátt. Þannig hafa
tæknibreytingar gert bækur ódýrari og auð-
veldara að framleiða til að svara þörfum mark-
aðarins og fest þær enn í sessi.
Nýjar leiðir í útgáfu
Þessar breytingar hafa einnig sett mark sitt á
útgáfu. Það er auðveldara en nokkru sinni fyrr
að brjóta um bók og setja hana í prentform fyrir
lítinn tilkostnað. Þetta gagnast vel fyrir litlar
útgáfur, höfunda að byrja feril sinn og aðra sem
vilja geta byrjað með lítið upplag. Í stað upp-
hafskostnaðar sem samsvarar nokkur hundruð
þúsund krónum og að byrja með nokkur hundr-
uð prentuð eintök er hægt að velja einfalda leið.
Þá sendir höfundur ritvinnsluskjal til net-
bókasala eins og Lulusem breytir skjalinu í um-
brotna bók og selur fyrsta eintak á sama verði
og hvert eintak eftir það. Það er enginn upp-
hafskostnaður, engin lágmarkspöntun, höf-
undur heldur öllum útgáfurétti, ræður verði og
kaupendur geta fengið bókina senda beint með
pöntun á Netinu. Fleiri slíkar bóksölur eru til
og margs kyns form útgáfu sem höfundar geta
valið sér, en þessi er nefnd sem dæmi hér.
Það hefur komið í ljós að tímarit fylgja öðrum
lögmálum en bækur í rafrænni útgáfu. Þar er
mikið safn stuttra texta sem krefst yfirgrips-
mikilla leita. Þar hefur rafræn útgáfa orðið ráð-
andi form á undanförnum árum. Stafræn útgáfa
fellur líka vel að handbókum sem áður voru
gefnar út í mörgum bindum, eins og al-
fræðibækur eða orðabækur. Stafræna formið
hefur yfirburði þegar kemur að mynd og hljóði,
við miðlun alls kyns styttri texta eða þegar
kemur að því að fletta upp í og tengja miðlana
saman.
Niðurstaðan er að rafbækurnar eru komnar
og að þær eru prentaðar. Aðeins örlítill hluti
bókaútgáfu er rafrænn allt til enda. Meðan
pappírsformið hefur yfirburði varðandi þægindi
og kostnað mun það enn ráða þannig að engin
teikn eru að prentsmiðjurnar eða bóksölurnar
hverfi. Breytingar sem hafa orðið í stafrænni
gerð hafa breytt bókagerðinni sjálfri og eru að
breyta framleiðslu og sölu á bókum. Það er þó
fremur á þann hátt að treysta pappírsformið en
að vega að því.
Rafbækurnar komnar
» Það er auðveldara en
nokkru sinni fyrr að brjóta
um bók og setja hana í prent-
form fyrir lítinn tilkostnað.
Þetta gagnast vel fyrir litlar
útgáfur, höfunda að byrja feril
sinn og aðra sem vilja geta
byrjað með lítið upplag.
Höfundur er bókasafns- og upplýsingafræðingur
og starfar sem umsjónarmaður landsaðgangs að
gagnasöfnum og rafrænum tímaritum, hvar.is.
Bækur eru langt frá því að hverfa. Stafræn
bókagerð hefur styrkt prentmiðla í sessi, til
dæmis með því að ódýrara er að gefa út í
smáum upplögum en áður.
Sólblóm Rafrænu miðlarnir henta vel fyrir mynd, hljóð og stutta texta. Dæmið hér að ofan er úr gagnasafninu Grove Art sem er aðgengilegt hvar sem er á landinu gegnum hvar.is.