Lesbók Morgunblaðsins - 26.05.2007, Side 16
16 LAUGARDAGUR 26. MAÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók
Eftir Úlfhildi Dagsdóttur
varulfur@centrum.is
Í
lítilli götu, Litla Russell-stræti, nærri
British Museum, við hliðina á hinum
ágæta bar Plógnum, er að finna lítið
safn helgað myndasögum og skop-
myndum, The Cartoon Museum.
Safnið er ekki nema rétt rúmlega
ársgamalt, þótt félagsskapurinn bak við það sé
mun eldri. Á efri hæðinni er að finna eins konar
yfirlit yfir sögu myndasögunnar og er sá hluti
dálítið tæpur, aðallega vegna þess að alþjóðlegi
hlutinn er óþarflega fátæklegur og sýningin
hefði notið sín betur ef hún hefði einfaldlega
verið albresk. Á neðri hæðinni er að finna mun
bitastæðari sýningu, en þar er rakin saga
breskra skopteikninga sem er afar auðug og af-
ar mikilvægur hluti af sögu myndasögunnar al-
mennt. Meðal annars mátti þarna finna teikn-
ingar eftir William Hogarth, en hann er einn af
frumkvöðlum formsins. Það gladdi mig að sjá
Hogarth (sem ég reyndar hef tilhneigingu til að
kalla Hogwarts í seinni tíð) í þessu samhengi
en ég hafði einmitt nýverið skoðað sýningu á
verkum hans í Tate Britain (henni lauk 29. apr-
íl). Á þeirri sýningu var lögð nokkur áhersla á
að sýna fram á nýjar hliðar Hogarths, sem er
þekktastur fyrir grafíkmyndaraðir sínar, sem á
sínum tíma þóttu sérlega nútímalegar, og fjöll-
uðu um samtímaatburði, með pólitískum og
kómískum undirtónum eins og hæfir góðum
skopmyndum. Sýningin skartaði öllum þessum
en auk þess var að finna herbergi með sjálfs-
myndum listamannsins, sögulegum mál-
verkum hans og öðrum verkum þessa þekkta
ádeilulistamanns. Með miðanum (sem var fok-
dýr) var svo afhent sýningarskrá sem við nán-
ari athugun reyndist innihalda nákvæma útlist-
un á grafíkmyndaröðunum góðu og þarna stóð
fólk fyrir framan hinar frægu myndasögur af
Gleðikonunni (The Harlot) og Svallaranum
(The Rake), Nútímahjónabandinu (Marriage
A-la-Mode), Gin-stræti (Gin Lane) og Grimmd
(The Four Stages of Cruelty) og grúfði andlitið
ofan í bæklinginn. Óneitanlega vakti þetta mig
til umhugsunar um stöðu myndasögunnar, sér-
staklega í þessu myndlistarlega samhengi.
Annars vegar pirraði það mig ógurlega að sjá
hvað sýningargestir voru ólæsir á myndasögur
Hogarths, sem í sjálfu sér segja alveg nóg, en
þeim fylgja yfirleitt tvær þrjár setningar sem
ættu einnig að duga. Hins vegar varð ég að við-
urkenna að myndmál Hogarths tilheyrir ann-
arri öld og myndir hans eru stútfullar af ým-
iskonar táknmáli sem er kannski ekki endilega
svo gagnsætt nútímafólki. Þó gat ég ekki annað
en hallast að því að hér væri einnig á ferðinni
vandamál sem varðaði (veika) stöðu myndasög-
unnar, fólk er einfaldlega ekki læst á þetta
form og þegar myndasöguvísar eins og graf-
ískar myndaraðir eru til sýnis sem myndlist þá
finni sýningarstjórar sig knúna til að bjóða
fram ofurnákvæmar útlistanir eins og til að
sanna að hér sé nú eitthvað merkilegt á ferð-
inni. Þannig gat ég ekki annað en velt fyrir mér
hversu andstætt þetta sýningarform væri hlut-
verki grafíkmynda Hogarths, en þær voru á
sínum tíma seldar sem eins konar bæklingar
og/eða prentaðar í dagblöðum, efni sem var til-
tölulega ódýrt og ætlað öllum almenningi jafnt
sem efri stéttum, alveg eins og myndasagan.
Þessar hugleiðingar áttu svo aftur vel viðá þriðju sýningunni í The Cartoon Mu-seum, en þar héngu síður úr spánnýrri
myndasögu Brians Talbots, sem er sæmilega
þekktur breskur myndasöguhöfundur. Sagan
nefnist Alice in Sunderland og er afskaplega
metnaðarfullt verk sem fjallar um tilurð Lísu í
Undralandi og höfund hennar, sem Talbot vill
meina að hafi dvalist í smábænum Sunderland
á Englandi og tengir sögu bæjarins við ýmis at-
riði í Lísu-bókunum. Þannig er saga bæjarins
rakin (og þar með Bretlands að hluta) og inn í
þá sögu þáttar Talbots síðan sögu myndasög-
unnar, jafnt í frásögninni og með myndrænum
tilvísunum, meðal annars með umfjöllun um
Hogarth.
Á sýningunni mátti sjá síðurnar án texta-
ramma sem var í sjálfu sér áhugavert, en þó
gat ég ekki annað en efast um þetta form, að
sýna eina myndasögu svona sem myndlist-
arsýningu, eftir að hafa gluggað í nokkrar síður
missti ég þolinmæðina og fór einfaldlega og
keypti bókina. (Ég finn mig knúna til að nefna
hér að ég álít öðru máli gegna um yfirlitssýn-
ingar á myndasögum / skopmyndum, slíkar
geta vel virkað.) Þótt sýningin hafi ekki gert
mikið fyrir mig, þá gerði bókin það sannarlega
og vakti bæði gleði og umhugsun.
Lísa í Sunderlandi er afskaplega metn-
aðarfullt verk, sem vissulega ofmetnast á
stundum. Þannig minnti sagan mig á önnur
stórvirki myndasögunnar, Búr (Cages) Dave
McKeans (1998) og Í skugga engra turna (In
the Shadow of No Towers) eftir Art Spiegelm-
an (2004), sem þrátt fyrir flotta spretti ná ekki
fyllilega takmarki sínu.
Gallar bókar Talbots koma þó ekki í vegfyrir að Lísa í Sunderlandi er af-skaplega heillandi verk og fyllilega
þess virði að leggjast yfir það. Bókin er, jafnvel
af myndasögu að vera, sérlega ofhlaðin mynd-
máli. Stíllinn er sjaldnast hefðbundinn stíll
myndasagna, þar sem hver ramminn rekur
annan í (mis)reglulegri röð, heldur nýtir Talbot
sér tölvuforrit til hins ýtrasta til að búa til sam-
suðu klippimynda, sem sýna persónur, staði,
myndlistarverk og einfaldlega allan fjandann
sem hann dregur inn í verkið. Þessi stíll, sem
minnir dálítið á stíl Bjarna Hinrikssonar, getur
virkað fráhrindandi til að byrja með, en Talbot
fer það vel með hann að það tekur lesanda ekki
langan tíma að sogast inn í verkið. Þar skiptir
rammafrásögnin miklu máli, en sagan hefst í
leikhúsi (sem kallast skemmtilega á við kenn-
ingar um að myndasagan sé skyld leikverki, en
verk Hugleiks Dagssonar styðja þá hugmynd
einnig), þar sem einn leikari stendur á sviðinu
og segir einum (syfjulegum og misáhugasöm-
um) áhorfanda söguna. Þannig birtist okkur
leikarinn sem leiðsögumaður (í ýmsum gervum
eftir tímabilum) og áhorfandinn sem eins konar
kómísk hvíld. Hvað varðar stílinn þá fléttar
Talbot ansi fimlega saman klippi-myndefni í lit
og svarthvítum hefðbundnari myndasögustíl
svo úr verður ríkuleg samþætting ólíkra stíla
ljósmynda, málverka og teikninga, auk sjálfs
myndasögustílsins.
Talbot fer fram og til baka í tíma og lýsirglæsilega lýstum handritum og innrásvíkinga, niðurrifi gamalla sögufrægra
húsa við aðalgötu bæjarins, frægum gestum
hans, útilistaverkum, verkalýðsbaráttu, fátækt
og plágum, en þó er fókusinn alltaf á Lewis
Carroll, ævi hans og þekktasta sköpunarverki,
Lísu í Undralandi. Talbot heldur því fram að
sagan hafi markað tímamót í barnabók-
menntum sem anarkískt verk sem hafði það
einungis að markmiði að skemmta, öfugt við
barnasögur þess tíma sem voru yfirfullar af
siðaboðskap. Hann ítrekar áhrif sögunnar á
ólíka höfunda og listastefnur, og nefnir Virg-
iniu Woolf, Franz Kafka, kvikmyndina The
Matrix, súrrealista og Monthy Python-hópinn.
Hann leggur mikla áherslu á mikilvægi teikn-
inganna og ræðir meðal annars samskipti Car-
rolls við teiknarann, John Tenniel. Hann gagn-
rýnir hefðbundna sýn á Carroll sem feiminn og
barnalegan og vitnar í ævisögur sem sýna hann
sem húmorista og heimsmann. Hann tekur á
hinu umdeilda máli um samskipti Carrolls við
börn og hafnar því að hann hafi haft til þeirra
vafasamar kenndir og vill frekar meina að Car-
roll hafi verið barnasálfræðingur á undan sín-
um tíma. Hann ræðir sérstaklega samband
Carrolls við Alice Pleasance Liddell (hina
frægu fyrirmynd Lísu) og leyndardóminn sem
hvílir yfir því hvernig samskiptum þeirra lauk.
Inn á milli skýtur hann köflum sem eru eins
konar myndasögur inni í myndasögunni, eins
og þegar bullljóð Carrolls, „Jabberwocky“,
birtist í formi myndasögu og saga af frægum
kastaladraug er færð í kunnuglegt form EC-
hryllings-myndasagna frá fimmta og sjötta
áratugnum.
Báðar þessar sögur eru síðan dæmi um það
hvernig Talbot er ekki aðeins að vinna með
form myndasögunnar í klippimyndaleik sínum
og frásögn heldur það hvernig hann fléttar
ýmsar vísanir til sögu myndasögunnar mark-
visst inn í sína sögu. Meðal annars er að finna
síður og ramma sem eru í stíl Jacks Kirbys, en
sá er frægastur fyrir að móta stíl bandarísku
ofurhetjunnar frá og með sjötta áratugnum, og
síður og ramma sem eru í stíl Hergés, skapara
Tinna, en teikningar hans og þá sérstaklega
beiting hinnar svokölluðu hreinu línu skiptu að
sama skapi sköpum fyrir stíl evrópskra mynda-
sagna.
Með tilliti til alls þessa, hinnar miklurannsóknarvinnu sem liggur á bakvið verkið og hinna ólíku þátta þess,
get ég ekki annað en velt vöngum yfir tilgangi
þess. Því á einhvern hátt virkar sagan sem eins
konar rökfærsla, retórísk greining – en á
hverju? Og hvers vegna? „Er … is that everyt-
hing?“ spyr leiðsögumaðurinn undir lokin og
ég gat ekki annað en tekið undir með honum.
Og að sjálfsögðu er ég með tilgátu. Þegar saga
myndasögunnar er skoðuð rísa yfir henni tveir
risar, bandaríska ofurhetjan (yfirleitt í líki Súper-
manns) og Tinni. Þessar fígúrur þekkja flestir og
kenna myndasögur við þær. En Bretar, með sína
frægu listamenn og myndasögufrumkvöðla eins
og Hogarth og sína ríku hefð skopmynda, þeir
eiga enga álíka fræga myndasögufígúru og því
skín stjarna þeirra ekki sérlega skært á mynda-
söguhimninum. Í umfjölluninni um myndir Ten-
niels í bókum Carrolls leggur Talbot mikla
áherslu á það hvernig þær bæta við textann á
þann hátt sem tíðkast í myndasögum, myndirnar
eru því meira en myndskreytingar. Ég get því
ekki betur séð en að Talbot sé að bæta úr skorti
Breta á frægri myndasögufígúru með því að
reyna að stilla Lísu í Undralandi upp sem eins
konar myndasögu.
Lísa í myndasögulandi
Höfundur er bókmenntafræðingur.
Hetjur Nær Lísa litla Carrollsdóttir sama sessi og Tinni og amerísku súpermennin í undralöndum teiknimyndasagnanna?
Hogarth og Talbot og breska myndasagan