Lesbók Morgunblaðsins - 14.07.2007, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 14.07.2007, Blaðsíða 6
6 LAUGARDAGUR 14. JÚLÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Birtu Björnsdóttur birta@mbl.is Bandarísk heimildarmynd umhroðalega atburði í borginni Nanjing í Kína var á dögunum frum- sýnd þar í landi. Umræddir at- burðir áttu sér stað árið 1937 þegar fjöldi Kín- verja féll fyrir hendi japanskra hermanna. Ekki er víst hvort myndin verði sýnd í Jap- an þar sem sagn- fræðingar þar í landi segja tölu látinna hafa verið stórlega ýkta. Kínverjar halda því fram að 300 þúsund manns hafi verið myrtar í árásinni á meðan Japanir halda því fram að hinir myrtu hafi talið 20 þúsund. Aðrir sérfræðingar telja tölu látinna vera á bilinu 150 til 200 þúsund. Heimildarmyndin nefnist Nank- ing, sem er enskt heiti borgarinnar Nanjing. Leikstjórarnir eru tveir, þeir Bull Guttentag og Dan Sturman, og er hún sýnd út frá sjónarhorni þeirra bandarísku trúboða sem í samvinnu við þýska viðskiptajöfra hjálpuðu kínverskum flóttamönnum að finna öruggt athvarf. Leikarar á borð við Woody Har- relson og Stephen Dorff lesa í mynd- inni upp dagbókarbrot trúboðanna.    Þar sem er ofurhetja þar eruskúrkar, það er lögmál sem far- ið er eftir við gerð allra kvikmynda um ofurhetjur. Á því verður engin undantekning gerð í nýjustu myndinni um Leðurblöku- manninn. Myndin nefnist The Dark Knight og enn er dvalið við fortíð Leð- urblökumannsins líkt og í Batman Begins. Christian Bale verður líkt og í síðustu mynd sveipaður skikkj- unni góðu en nú hefur verið greint frá því hver einn andstæðinga hans verður. Sá nefnist Gamble og verður leik- inn af Michael Jai White (Spawn). Leikarinn David Banner (Black Snake Moan) lýsti því reyndar yfir á dögunum að hann hefði þreytt áheyrnarpróf fyrir sama hlutverk en nú er ljóst að hann hafði ekki erindi sem erfiði. Gamble þessi er höfuðpaur einnar þeirra glæpaklíka sem reyna að tryggja sér yfirráð í undirheimum Gotham-borgar, en tómarúm mynd- aðist þar þegar Carmine Falcone (Tom Wilkinson) var rutt úr vegi í Batman Begins. En glíma Leðurblökumannsins verður ekki bara háð við Gamble því Sal nokkur Maroni (Eric Roberts) hefur tekið við stjórn Falcon- fjölskyldunnar. Hann er svo í slag- togi við uppivöðslusaman bankaræn- ingja sem kallar sig Jókerinn. Sá síð- astnefndi hljómar kunnuglega í eyrum áhorfenda Blaka en það er Heath Ledger (Brokeback Mount- ain) sem fer með hlutverk Jókersins á sínum yngri árum.    Mikil eftirvænting ríkir hjámörgum kvikmyndaáhuga- manninum vegna frumsýningar fyrstu bíómyndarinnar um Simpson- fjölskylduna. Afar mikil leynd hvílir yfir sögu- þræði mynd- arinnar en tíu mín- útna stikla úr myndinni var sýnd í London á dög- unum. Þar sáu glöggir að talsverð ádeila yrði á trúmál og umhverfisvernd í myndinni, sé eitt- hvað að marka stikluna. KVIKMYNDIR Woody Harrelson Michael Jai White Hómer Simpson Björn Þór Vilhjálmsson vilhjalmsson@wisc.edu Íslensk kvikmyndasaga er hálfgerð forsaga,forsaga sem teygir klærnar inn í nú-tímann og næstum kæfir hann. Kvik-myndasagan er nær því eintóm forsaga, hana má sjá sem vísi að einhverju öðru, sem lof- orð um eitthvað sem kannski kemur. Og þannig hefur forsagan haldið í sér lífinu áratug fram af áratug: þetta hlýtur að batna. Kvikmyndalistin eins og hún var lengi iðkuð hér á landi, svo mað- ur sé nú nægilega háfleygur, var vissulega lif- andi, hún sýndi að minnsta kosti ummerki um líf. En kannski var það ekki miklu meira. Mætti ekki halda því fram að búktalarinn í kvikmynd Ágústs Guðmundssonar, Með allt á hreinu, sé ágætis táknmynd fyrir íslenska kvikmyndagerð eins og hún var í langa áratugi? Sjarmerandi og oft full af krafti, gerð með litlu fjármagni en all- nokkru hugviti og útsjónarsemi, en þegar upp er staðið dálítið viðvaningsleg og stundum hrein- lega vandræðaleg? Tilbúningur án nægilegs und- irbúnings. En hlutirnir breytast. Kvikmyndamiðstöðin, líkt og lóan, lofar betri tíð. Og hvert sem við lít- um er umhverfið að taka umskiptum. Íslenskir bankar hafa umbreyst í alþjóðleg stórfyrirtæki, fyrrum nýlendan kaupir danska minnisvarða, og svo fram eftir götunum samkvæmt útrásartalinu frá því fyrir nokkrum árum. En getur verið að útrásin í viðskiptalífinu eigi sér hliðstæðu í kvik- myndageiranum? Að hluta til spyrjum við þess- arar spurningar vegna þess að um síðustu helgi hlaut kvikmynd Baltasars Kormáks, Mýrin, Kristalshnöttinn, aðalverðlaunin á Karlovy Vary- kvikmyndahátíðinni í Tékklandi. Ef hægt er að tala um útrás á sviði kvik- mynda þá myndi maður segja að hún hafi hafist mun fyrr. Fyrir margt löngu var íslensk kvik- mynd tilnefnd til Óskarsverðlauna. Á þeim tíma var slíkt algjört einsdæmi og þótti vitanlega afar fréttnæmt. Þarna gekk víkingurinn Friðrik Þór sprelllifandi inn í Valhöll alþjóðlegar velgengni, hann djammaði með goðsögulegum verum, guð- um og drottningum sem hvergi eru til nema á sjónvarpsskjánum, en heiður þessi, náðin sem Börn náttúrunnar hlaut fyrir augum akademí- unnar, var upphrópunarmerkið sem beðið var eftir, tilnefningin hljómaði um landið þvert og endilegt líkt og skothvellur sem markar upphaf byltingar. Eða svo væri gaman að halda fram. Sjálfur er ég ekki viss um að svo hástemmd lýs- ing passi við raunveruleikann en ákveðinn kraft- ur kemur inn í íslenska kvikmyndagerð á þessu tímabili, því verður ekki neitað. Regnskýin hröktust burt, eitt af öðru, vorið sem í raun var vetur var loks liðið og eitthvað í líkingu við kvik- myndasumar rann upp. Nú gera íslenskar kvikmyndir vart við sig á stórum kvikmyndahátíðum jafnt sem minni og geta jafnvel (ef heppnin er með) fengið einhverja dálitla bíódreifingu á alþjóðavísu. Íslenskar kvik- myndir ganga líka vel í heimalandinu, þó ekki kannski jafn vel og í upphafi. Frekar ætti kannski að segja að ekki sé lengur „tryggt“ að íslenskar myndir gangi vel á Íslandi, en lengi vel gekk sú saga fjöllum hærra að Íslendingar væru svo sólgnir í innlenda framleiðslu að mesta furða væri að einhverjum hefði ekki dottið í hug að talsetja innfluttar myndir. Þannig hefðu þessum myndum verið tryggðar vinsældir. Sú hefur vit- anlega aldrei verið raunin – áhætturnar sem frumkvöðlar íslenskrar kvikmyndagerðar neydd- ust til að taka eru þekktar, en því verður þó ekki neitað að fréttnæmi íslenskra mynda, fyrir það eitt að vera íslenskar, hefur farið minnkandi. Núna eru þær fréttnæmar ef þær eru góðar, að- sókn er mikil eða, líkt og er með Mýrina þessa stundina, verkið vinnur sigra á alþjóðlegum vett- vangi. Blússandi ferð SJÓNARHORN »En getur verið að útrásin í viðskiptalífinu eigi sér hliðstæðu í kvikmyndageiranum? Að hluta til spyrjum við þessarar spurningar vegna þess að um síðustu helgi hlaut kvikmynd Baltasars Kormáks, Mýrin, Kristalshnöttinn, aðalverðlaunin á Karlovy Vary-kvikmyndahátíðinni. Eftir Heiðu Jóhannsdóttur heida@mbl.is Í nýlegri og einkar áhugaverðri heimild- armynd sem nefnist This Film is Not Yet Rated (Aldurstakmark enn óákveðið) er fjallað um kvikmyndaeftirlitskerfi Bandaríkjanna. Umrætt kvikmyndaeft- irlit fer fram undir hatti Bandaríska kvikmyndasambandsins (MPAA) en þeir sem skipa nefndina njóta algerrar nafnleyndar og álit þeirra er hvorki byggt á skýrum vinnureglum né skriflega rökstutt. Í heimildarmyndinni er rætt við fjölda kvikmyndagerðarmanna sem eru ósáttir við starfsaðferðir nefndarinnar en hún er að mati margra þeirra ekkert annað en óeðlilega valdamik- ið ritskoðunarafl sem þröngvar ákveðnu hug- myndaforræði upp á bandaríska kvikmyndagerð, ekki síst hvað siðgæðisviðhorf varðar. Myndin hef- ur vakið talsverð viðbrögð og leiddi m.a. til smá- vægilegra breytinga á vinnuaðferðum kvikmynda- eftirlitsins. Ofbeldi, orðbragð, nekt og kynlíf Kvikmyndaeftirlitið metur kvikmyndir m.a. út frá því hvort þar er að finna ofbeldisfull atriði, „ljótt“ orðbragð, nekt eða kynlífstengd atriði. Kvikmynd- ir sem eru lausar við allt slíkt fá stimpilinn G (öllum leyfð), en þeim mun ljótara sem orðbragðið er eða opinskárri kynlífsumfjöllun hækkar þröskuldurinn og tilgreint er við hvaða aldursbil börn þurfa að vera í fylgd með fullorðnum. Vilji kvikmyndir eiga von um víðtæka dreifingu og kynningu er keppi- kefli aðstandenda þeirra að fá ekki strangari stimpil en aldurstakmarkið R, sem þýðir að börn undir 17 ára geta séð myndina í fylgd með full- orðnum. Fari aldurstakmarkið upp í NC-17, sem bannar börnum undir 17 ára alfarið aðgang að myndinni, hefur ákveðin táknræn bannfæring átt sér stað, nokkuð sem flestir kvikmyndagerð- armenn sjá sig tilneydda til þess að breyta með því að klippa atriði úr myndum, og leggja þær aftur fyrir nefndina í von um að fá mildara aldurs- takmark. Þannig láta flestir kvikmyndagerð- armenn að meira eða minna leyti undan þrýstingi kvikmyndaeftirlitsins og undirgangast þannig ákveðna tegund af ritskoðun. Í myndinni segir leik- stjórinn Matt Stone að á síðustu árum hafi ritskoð- unin sífellt orðið nákvæmari en áður var matið gef- ið út án nákvæmra athugsemda við einstök atriði. Þegar Stone leikstýrði kvikmyndinni South Park fékk hann hins vegar í símtali við fulltrúa nefnd- arinnar nákvæma útlistum á þeim orðum, setn- ingum, gríni og atriðum sem þurftu að hverfa til þess að myndin slyppi með R-aldurstakmark. Sú ritskoðun sem á sér stað í gegnum störf kvik- myndaeftirlitsins er tekin til umfjöllunar í heimild- armyndinni, en þar er sýnt fram á hversu ófagleg, ógagnsæ og hlutdræg störf nefndarinnar eru. Bent er á náin tengsl nefndarinnar við stóru kvikmynda- fyrirtækin (kennd við Hollywood) sem standa fyrir um 95% af kvikmyndaframleiðslu og -dreifingu í Bandaríkjunum og þá staðreynd að formaður kvik- myndaeftirlitsins til þrjátíu ára er fyrrum innan- búðarmaður í Hvíta húsinu og vel tengdur inn í Washington. Engu að síður lúta störf eftirlitsins engum skýrum stjórnsýslulögum og starfa í algerri leynd, þrátt fyrir að um opinber og áhrifamikil störf í þágu „almannahagsmuna“ sé að ræða. Í heimildarmyndinni bregður leikstjórinn því á það ráð að ráða einkaspæjara að komast að því hverjir sitji á bak við byrgða glugga höfuðstöðva Banda- ríska kvikmyndaeftirlitsins og ákveði hvernig kvik- myndalegri tjáningu skuliháttað í landinu. Hugmyndafræðilega hliðin á ritskoðunarvaldi kvikmyndaeftirlitsins er enn meira sláandi en sú verklega. Þannig benda viðmælendur heimild- armyndarinnar, fræðimenn, kvikmyndagagnrýn- endur og leikstjórar, á hversu lítið umburðarlyndi nefndin hefur gagnvart nekt og kynlífi og hversu mikið umburðarlyndi hún sýnir ofbeldisatriðum. Þannig lýsir Kimberly Pierce, leikstjóri Boys Don’t Cry (Strákar gráta ekki) því hvernig nefndin setti ekkert út á ofbeldisatriðin í myndinni, m.a. þar sem persóna er skotin í höfuðið, en taldi ótækt sýna andlit kvenpersónu að fá fullnægingu. Þá er bent á að ofbeldi og skothríð sleppi athugasemdalaust í gegnum kvikmyndaeftirlitið í myndum fyrir börn og unglinga, svo lengi sem hvergi sjáist í blóð, þær sýni því nokkurs konar blóðlausa og firrta mynd af raunverulegum afleiðingum ofbeldis. Hugmyndir kvikmyndaeftirlitsins um hvað geti talist ásættanleg kynhegðun er sömuleiðis mörkuð af fordómum og afneitun á ólíkum birting- armyndum kynlífs sem eðlilegum þætti í lífi fólks. Tekið er strangar á kynlífi samkynhneigðra en kynlífi gagnkynhneigðra og opinská umfjöllun um sjálfsfróun eða kynlífsunað kvenna virðist eitur í beinum kvikmyndaeftirlitsins.Þannig segir leik- stjóri kvikmyndarinnar But I’m a Cheerleader (En ég er klappstýra) sem fjallar um lesbíur sem send- ar eru í sumarbúðir sem veita unglingum „meðferð gegn samkynhneigð“, hlaut NC-17 stimpil, þrátt fyrir að engin nekt eða opinská kynlífsatriði væri að finna í myndinni. Súrrealískt áfrýjunarferli Eftir að hafa varpað ljósi á starfsaðferðir kvik- myndaeftirlitsins í Bandaríkjunum út frá ýmsum sjónarhornum í gegnum frásagnir leikstjóra, kem- ur að því að leikstjóri heimildarmyndarinnar, Kirby Dick, þarf sjálfur að leggja mynd sína í dóm kvikmyndaeftirlitsins. Ekki er von á góðu þar sem í myndinni eru fjölmörg sýnidæmi um kynlífsatriði sem hlotið hafa misstranga áfellisdóma í ritskoðun, og ekki stendur á viðbrögðum – This Film is Not Yet Rated fer beint í NC-17 aldurstakmarkið. Við tekur kostulegt ferli sem leikstjórinn skrásetur vandlega þar sem hann reynir að leita réttar síns og fer í gegnum svokallaða áfrýjun, þar sem sér- stök áfrýjunarnefnd metur umkvartanir leikstjór- ans. Áfrýjunarferlið reynist ekki síður súrrealískt en sjálft matið, þar gildir sama nafnleysisreglan og allar vinnureglur eru ákveðnar af kvikmyndaeft- irlitinu sjálfu. Þegar leikstjórinn reynir að krefja meðlimi áfrýjunarnefndarinnar um nöfn neita þeir að svara en bera aðeins númer í barminum. Nöfnin hafði einkaspæjarinn knái hins vegar grafið upp og reyndist þar fyrst og fremst um að ræða aðila úr kvikmyndadreifingar- og sýningarbransanum ásamt tveimur prestum. Og niðurstaða áfrýj- unarnefndarinnar var afdráttarlaus; áfrýjun hafn- að með 10 atkvæðum gegn 0! Siðgæðisverðir Hollywood Brokeback Mountain Jake Gyllenhaal og Heath Ledger voru stjörnur þessarar Óskarsverðlauna- myndar sem vakti gríðarlega athygli, ekki síst fyrir ástir tveggja karlmanna. Í heimildarmyndinni This Film is Not Yet Rated er tekist á við kvikmyndaeftirlitskerfið í Banda- ríkjunum og bent á þá hugmyndafræðilegu rit- skoðun sem þar viðgengst.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.