Lesbók Morgunblaðsins - 15.12.2007, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 15.12.2007, Blaðsíða 2
Sextán sortir og ein bók Eftir Sigtrygg Magnason naiv@internet.is E nga stétt manna veit ég baka meira fyrir jólin en rithöf- unda. Það er bókstaflega eins og hver einasti rithöf- undur komi því fyrir milli þess sem þeir eru á þönum milli misgáfulegra upplestra að skella í eins og fjórar, fimm sortir. Þetta eru yfirleitt höfundar sem eru nýlegir í faginu og hafa ekki skapað sér arnaldskt nafn. Ég hef til að mynda aldrei séð neina uppskrift frá Arnaldi. Og þegar ég hugsa um það ekki Einari Má heldur. Þetta er jólabókaflóðið í hnotskurn. Höf- undar eru hrifnir með öldunni og einungis fáir sem ná landi. Auglýsingar eru dýrar og höfundar geta ekki splæst á sig heilsíðum. Fjölmiðlarnir ráða ekki við að sinna öllum með vandaðri umfjöllun og viðtölum og því verður að bíta einhver skáldin af sér með því að fá uppskrift, fylgjast með í jólaund- irbúningnum eða hvernig gengur að komast í kjólinn fyrir jólin eða jakkann fyrir pakk- ann. Í undirfyrirsögnum er síðan algengt að komi fram að höfundurinn hafi einmitt verið að senda frá sér bókina Smáfuglar frá hel- víti eða eitthvað álíka. Í myndartexta er jafnvel minnst á bókina einhvern veginn á þessa leið: Erna lætur ekki jólabókaflóðið skemma fyrir sér heldur bakar eins og vindurinn. Öll athygli er betri en enginn hlýtur Osc- ar Wilde að hafa sagt einhvern tímann. Og það er víst staðreynd að í blóðugu stríðinu sem jólabókaflóðið er þá verður höfund- urinn að ná sér í athygli, hann verður að fá sínar fimmtán mínútur af frægð annars drukknar hann örugglega, hratt og örugg- lega. Það er aldrei mjög smart eða göfugt þeg- ar fólk berst fyrir lífi sínu. Það verður eng- inn sérstaklega sexí af því að gleypa sjó. Það er frekar fyndið að sjá rithöfunda í þessari aðstöðu en þetta er nauðsynlegt fyrir söluna og afkomuna og því verða allir að spila með. En hvernig væri það nú að rithöfundar yrðu örlítið uppátektarsamari. Tækju sér jafnvel Vífil Atlason til fyrirmyndar og gerðu eitthvað yndislega galið. 52.500 sinn- um kemur „Vífill Atlason“ fyrir ef hann er gúglaður. Strákskrattinn er orðinn heims- frægur fyrir að hringja ekki í Bush. Ágúst Borgþór gæti hlaupið nakinn inn á völlinn á leik Arsenal og Chelsea um helgina; Kristín Helga fórnað hænu við styttu Jónasar Hall- grímssonar og Guðni Ágústsson mótmælt harðlega brottfellingu „kristins siðgæðis“ úr grunnskólalögunum og sagt: „nú skal kennsluborðum kristninnar velt“ (nei sko kallinn, bara búinn að því!). En hvernig gengur þetta fyrir sig? Blm: Góðan daginn. Ég heiti Jesper og er blaðamaður á Degi. Halldór Laxness? HKL: Já. Blm: Já, þú varst að gefa út bók, Sjálf- stætt… HKL: Fólk. Já. Sjálfstætt fólk. Blm: Einmitt, sjálfstætt. HKL: Já. Blm: Já. Fín bók. Búinn að sjá hana. HKL: Gott. Hvernig fannst þér? Blm: Fín. Reyndar ekkert búinn að lesa en ég sá hana í auglýsingu. Næs kápa. HKL: Já. Takk. Blm: Mig langar til að spjalla aðeins við þig. HKL: Já. Alveg sjálfsagt. Viltu ekki lesa bókina fyrst? Blm: Nei, nei. HKL: Nú? Blm: Nei, nei. HKL: Er ekki betra að þú lesir bókina ef þú ætlar að tala við mig um hana? Blm: Nei, sko. Ég ætla bara að fá að spjalla við þig um jólin og kannski fá eina uppskrift. Er eitthvað bakað í þessari bók? HKL: Ja. Kannski ekki mikið en rollu er slátrað. Blm: Æi, lambakjöt er eitthvað svo át. HKL: Það er reyndar hreindýr. Blm: Áttu uppskrift að hreindýri? HKL: Nei, eiginlega ekki. Blm: En þú hlýtur að eiga þér einhvern eftirlætisrétt sem er sérstakur? HKL: Ja, það væri ekki nema brauðið dýra. Blm: Fínt. Þú sendir mér þá kannski ímeil með uppskriftinni, ég sendi ljósmynd- ara á þig og hann myndar þig með svunt- una og það væri rosalega gaman ef þú gæt- ir haft eitthvert barn á myndinni … Kannski Laxness 21. aldarinnar hafi sagt okkur frá sortunum sínum fyrir þessi jólin. Hver veit. Við skulum bara vona að upp- skriftirnar hafi verið góðar. Morgunblaðið/Ásdís Brauðið dýra „Kannski Laxness 21. aldarinnar hafi sagt okkur frá sortunum sínum fyrir þessi jólin. Hver veit. “ FJÖLMIÐLAR »En hvernig væri það nú að rithöfundar yrðu örlítið uppátektarsamari. Tækju sér jafnvel Vífil Atlason til fyrirmyndar og gerðu eitthvað yndislega galið. 52.500 sinnum kemur „Vífill Atlason“ fyrir ef hann er gúglaður. 2 LAUGARDAGUR 15. DESEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Rúnar Helga Vignisson rhv@simnet.is ! Þær eru sterkar myndirnar sem birtust af Mugison í tímaritinu Monitor í október síðastliðnum. Þar stendur hann við verbúðina Ósvör í Bolungarvík klæddur eins og formaður á leið í róður. Skeggjaður og þrekvaxinn birtist hann okkur sem sönn vestfirsk hvunndagshetja, maður sem er tilbúinn að takast á við hráslagaleg náttúruöflin. Myndirnar birtust í tilefni af nýjum hljómdiski sem kappinn hefur unnið að mestu í Álftafirði, á nútímalegasta hátt, og selur m.a. í gegnum heimasíðu sína. Miðað við hástemmda dómana hefur formann- inum hvergi fipast í háskalegum róðrinum og komið að landi með verðmætan feng sem landsmenn allir fá að njóta og jafnvel fleiri. Blaðamenn hafa flykkst vestur til þess að taka hús á formanninum og í kjölfarið tjá þeir sig gjarnan um hina tignarlegu vest- firsku náttúru sem Mugison virðist vera partur af. Oftar en ekki fá þeir líka ramm- íslenska kjötsúpu hjá Mugipabba, ásamt fyrirlestri Mugisons sjálfs um dásemdir lífsins vestra. Á sama tíma og Mugison sækir sér styrk í kraftmikla og ómengaða vestfirska nátt- úru róa nokkrir sveitarstjórnarmenn í fjórðungnum að því öllum árum að koma upp olíuhreinsunarstöð í vestfirskum firði, bæði til þess að fjölga störfum og eins til þess að fá betri vegi og þjónustu. Iðulega er þessi viðleitni tengd kvótakerfinu og þeirri ósvinnu að Vestfirðingar skuli ekki fá að fiska að vild eins og formaðurinn Mugison. Meðan þessu fer fram gefast Vestfirðing- arnir smátt og smátt upp á fiskvinnslu- störfum og Pólverjar koma í staðinn, segja mér þeir sem til þekkja. Ætli Vestfirðing- arnir sem finna sig ekki í slorinu lengur séu að búa sig undir að vinna í olíunni í staðinn? Á dögunum sá ég olíuhreinsunarstöð í Kanada og hún var þvílík skelfing að ég hraðaði mér í burtu eins og flestir aðrir. Slíkt fyrirtæki telja sumir að muni leysa höfuð Vestfirðinga og frelsa þá frá illu. Þeir vilja jafnvel setja hryggðarmynd af þessu tagi niður í einum alfegursta firði landsins, Arnarfirði, og það gegnt fæðingarstað helstu frelsishetju þjóðarinnar. Yrði það minnisvarði við hæfi á 200 ára fæðing- arafmæli Jóns forseta eftir rúm þrjú ár? Nýverið sigldi olíuskip utan í brúarstólpa við San Francisco í þéttri þoku svo gífurleg olíumengun hlaust af. Í vor varð mikil sprenging í olíuhreinsunarstöð í Noregi. Flugslys verða líka þótt flugmenn séu í stöðugri þjálfun og hafi tékklistann fyrir framan sig. Bílar skella saman á beinum og breiðum vegi um hábjartan dag þótt bíl- stjórar séu ódrukknir. Og einu sinni sigldi sjálf Guggan beint upp í Óshlíðina undir stjórn þrautþjálfaðra heimamanna. Halda menn að fjörurnar við Hrafnseyri yrðu lengi ómengaðar eins og vestfirsku veðrin geta verið? Sumir segja að olíuhreinsunarstöð á suð- urfjörðunum mundi ekki spilla ímynd allra Vestfjarða. Hornstrandir yrðu enn á sínum stað óspjallaðar. Þó gildir enn að eitt skemmt epli geti skemmt öll hin. Mugison tengir ímynd sína ósvikinni vestfirskri kynngi og dásamar vestfirskt mannlíf. Hann hefur látið taka af sér mynd- ir í fjöruborðinu íklæddur fortíðinni. Hann geislar af vistvænni orku og skilar frá sér tónlist sem vekur athygli víða. Hann er ekki formaður á olíuskipi heldur stýrir hann dýr- um knerri af stakri snilld inn í nútímann. Það er freistandi að kalla hann Björk Vest- fjarða en þó á það ekki alveg við vegna þess að hann er fyrst og fremst hann sjálfur, Mugison eða Örn Elías Guðmundsson. Stöldrum aðeins við það. Mugison eða olíu- hreinsun- arstöð? Lesbók Morgunblaðsins Hádegismóum 2, 110 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Ritstjórnarfulltrúi Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýs- ingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.