Lesbók Morgunblaðsins - 15.12.2007, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 15.12.2007, Blaðsíða 16
16 LAUGARDAGUR 15. DESEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Sigtrygg Magnason naiv@internet.is V igdís Grímsdóttir býr í Hlíðunum ekkert allt- of langt frá svæðinu sem Múlakampur reis upp úr jörðinni um miðja síðustu öld og frelsaði fátæka bæjarbúa með því að koma þeim í annars konar helsi, ann- ars konar fátæktarbönd þar sem for- dómar léku stórt hlutverk. Upp úr jarðvegi fátæktarinnar í Reykjavík spratt Bíbí Ólafsdóttir, en Vigdís rit- ar sögu hennar í bókinni Bíbí sem hefur fengið góðar móttökur lesenda og er meðal annars tilnefnd til Ís- lensku bókmenntaverðlaunanna. Þetta er einlæg saga og æðrulaus. Rödd sögumannsins Bíbíar dregur mann með tærleika sínum inn í heim sem er svo fjarri nútímanum en samt svo nærri. Svo nærri. Á tímum sem maður les um grimmdina í Breiðuvík- um þessa lands sér maður í sögu Bíbí- ar Ólafsdóttur grimmdina í daglegu lífi, grimmdina í samfélaginu, grimmdina á heimilunum. Vigdís kynntist Bíbí fyrst þegar hún og Þorleifur Friðriksson gerðu þætti um Sögumenn fyrir Rás 1. Bíbí var einn viðmælendanna. Á þessum tíma var Vigdís að skrifa aðra bók, aðra ævisögu. „Þegar ég talaði við Bíbí fannst mér ég vera stödd í vit- lausri ævisögu, ég yrði að skrifa um líf hennar,“ segir Vigdís þar sem við sitjum í eldhúsinu hennar í Hlíð- unum. Það er kaffi í bollunum, fjallagrasaópal á borðinu. „Hún er sögumaður af guðs náð, hún Bíbí,“ segir sögumaðurinn. „Hún er einstök manneskja. Ég hafði gengið á eftir henni og þegar hún samþykkti þá sagði hún allt og dró ekkert undan. Ég þurfti að kunna að stoppa, láta lesandann um framhaldið.“ Sagan er sögð í fyrstu persónu, það er Bíbí sem talar. Í gegnum frásögn hennar upplifir maður sérstaka sjálfsmynd konu sem fyrirgefur, konu sem hlífir engum af því hún er full af væntumþykju. „Ég held að fáir sem hafa verið misnotaðir geti nokk- urn tíma fyrirgefið það og maður spyr sig hvort það sé á valdi þeirra að fyrirgefa. En Bíbí hefur fyrirgefið, hún er æðrulaus og skemmtileg og getur fyrirgefið heil ósköp og hefur gert það. Í sögunni koma fyrir per- sónur sem gætu orðið reiðar en þetta eru allt vinir hennar. Allt vinir hennar sem leita til hennar enn í dag.“ Myndirnar sem sögumaðurinn dregur upp eru sterkar í einfaldleika sínum. Án þess að dæma er brugðið upp myndum af drápstilraunum, bar- smíðum, grimmd. Án þess að dæma. „Bíbí dæmir ekki. Ef ég hefði verið að skrifa skáldsögu þá hefði þetta orðið melódramatískara,“ segir Vigdís, „Bíbí er ekki manneskja sem fjarg- viðrast um hlutina, hversu alvarlegir sem þeir eru. Færri orð um stór mál eru alltaf áhrifameiri.“ „Bíbí er bara í fyrstu persónu“ Vigdís og Bíbí töluðu saman, Vigdís tók það upp á segulband, settist síðan niður og sló inn hvert einasta orð, eitt þúsund síður af Bíbí Ólafsdóttur. „Það fór dálítill tími í að finna frá- sagnaraðferðina,“ segir Vigdís. „Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að segja söguna í þriðju persónu, en Bíbí er bara í fyrstu persónu. Ég var svo- lítið hrædd um að sagan líktist því sem ég hef skrifað en Bíbí hefur sinn sérstaka tón og vinir hennar sem hafa lesið bókina þekkja Bíbí: þarna er hún lifandi komin, kjafturinn á henni og dillandi lífssýnin.“ Maður trúir því varla að hún sé til, segi ég. „Nei. Nei, ég myndi varla trúa því nema fyrir það að við tölum saman á hverjum degi,“ segir Vigdís Heillandi hlutverk skrásetjarans Bíbí Ólafsdóttir er miðill og það var það sem rak Þorleif og Vigdísi til hennar í sögumannaleitinni 2006. Það var þó ekki sá hluti lífs hennar sem vakti forvitni Vigdísar. „Það var sag- an um mömmu hennar og systkini hennar og mennina hennar sem æpti á mig: lífssaga Bíbíar Ólafsdóttur sem er lituð af sambandi hennar við móður sína sem er alltaf með henni. Mig langar að skrifa margar bæk- ur á þessum nótum, á svipaðan hátt og John Galsworthy gerir í Forsyte Sagas þar sem hann fylgir eftir heilu ættunum, mann fram af manni. Mér finnst gaman að vera skrásetjari; það reynir ekki minna á höfundinn en að búa til, eða þykjast búa til skáldsögur. Ég hefði aldrei getað skrifað sann- anabók þótt ég hefði auðveldlega get- að tínt til karla sem eiga fyriræki og allskonar fólk úr öllum áttum sem hefur leitað til Bíbíar og fengið hjálp. En þetta er ekki þannig bók og átti ekki að vera það. Hún er bók um fólk, gleymt fólk á gleymdum tíma. Við höfum ekki alltaf haft það svona gott. Við erum öll úr Múlakampi og mold- arkofum. Við erum öll sauðaþjófar og ef ég hef einhverjar skyldur sem rit- höfundur þá er það að halda því til haga hver við erum og hvaðan við komum.“ Þér þykir hlutverk skrásetjarans heillandi, segi ég. „Já,“ segir Vigdís, „Það er góður skóli að vera ekki alltaf með eigin rödd, það er góður skóli að setja sig í spor annarra og draga egó- ið sitt litla aðeins til baka, af því að það er ekkert merkilegt. Ég hef alltaf verið rosalega forvitin um fólk og ég held að það hafi drifið mig áfram við að skrifa. Og hversvegna ekki að ganga leiðina á enda og hitta mann- eskjuna og skrifa um það sem hún hefur að segja. Það hlaut að gerast.“ „Þetta er ekki geðklofið líf“ Egóið er voðalegt, segi ég og Vigdís tekur undir: „Það er það voðalegasta. Yfirborðsmennskan eltir allt fólk, mig ekki síður en aðra. Það hlýtur að vera takmark allra að hafa lítið egó af því stór egó eru hættuleg. Þess vegna er það góður skóli fyrir höfunda að skrásetja. Þá þurfa þeir ekki alltaf að koma sínu að. Þetta er góð svipa á egóið.“ Þar sem ég sit þarna við borðið hjá Vigdísi er einkennilegt til þess að hugsa að fyrir nokkrum mánuðum var hún við dauðans dyr. Hún upplifði augnablik sem fáir upplifa og sumir trúa ekki á; hún upplifði það að horfa niður á sjálfa sig liggjandi í sjúkra- rúmi nær dána úr heilahimnubólgu. En Vigdís sneri aftur. „Hafi ég ein- hvern tíma haldið að Bíbí væri platari sannfærðist ég um hið gagnstæða í veikindum mínum,“ segir Vigdís. Kynni hennar af Bíbí og dauða- reynsla breyttu egói Vigdísar Gríms- dóttur. „Já, ég held það,“ segir hún, „ég áttaði mig á að ég er ekki miðja alheimsins, ég er ekki það sem heim- urinn snýst um einsog við höldum svo alltof mörg. Í veikindum mínum átt- aði ég mig á því að lífið er fyrst og síðast fallegt. Það þýðir ekkert að hanga í smáatriðunum og halda að maður skipti sjálfur svo miklu máli. Þetta snýst allt um stóru heildina, ekki bara jörðina heldur himininn líka.“ En hvað verður um höfundinn þeg- ar egóið hans er í hvíld? spyr ég og Vigdís svarar: „Hann nýtur sín til fulls, er í stórgróða, allavega sá höf- undur sem ég þekki.“ Hvernig lýsir það sér? „Hafi ég einhvern tíma verið áttavillt sem ég hef örugglega verið einhvern tíma í lífinu þá kom þessi bók og þessi lífs- reynsla mér á staðinn þar sem ég ætla að vera; þangað sem ég mun horfa frá, þaðan sem ég mun hverfa. Ég er í miklum gróða sem höfundur og manneskja og þetta tvennt verður ekki aðskilið. Þetta er ekki geðklofið líf. Engin bók hefur gefið mér jafn mikið og sagan af Bíbí. Ég er þakklát almættinu fyrir að vera á lífi og sitja hérna á móti þér, þakklát fyrir að geta gert það sem mig langar til og þakklát Bíbí fyrir að hafa slysast til að segja já að lokum.“ Þú trúir því að þú sætir ekki hér ef þú hefðir ekki kynnst Bíbí? „Já. Ég trúi því ekki bara, ég veit það.“ Manngildisklisjurnar Ég viðurkenni fyrir Vigdísi að ég sé svolítið upptekinn af þessu með egóið. Hvernig birtist þetta hjá Vigdísi Grímsdóttur, spyr ég hana, þetta með egóið? „Því meira sem maður hugsar um sjálfan sig því minni er maður. Það er svo óþægilegt að halda að heimurinn snúist um hver maður sé eða sé ekki, hver fái þessi verðlaun eða hin. Ég hef stundum haldið það og skammast mín ekki fyrir það. En lífið snýst ekki um mig og mína bók eða mitt fyrirtæki, minn bát, minn fisk. Haldi maður það er samhengið rangt. Við erum svo mörg og svo oft í vit- lausu samhengi. Í gamla daga var allt- af spurt hvort maður væri með stúd- entspróf og við festumst auðveldlega í slíkum manngildisklisjum. Ég var einu sinni með manni sem var smiður, það er dálítið langt síðan, og þá spurði mig kona hvernig ég gæti verið með iðnaðarmanni. Ég skildi hana ekki og spurði hana hvað hún meinti. Hún sagði: Þú sem ert búin að klára þitt kennaranám, hvernig geturðu verið með iðnaðarmanni? Hvílíkar villi- götur; ástin spyr ekki um próf og ekki um stétt og takmarkið hlýtur að vera að við losum allar heftandi viðjar hinnar heimskulegu lífssýnar.“ Litli prinsinn hefur alltaf rétt fyrir sér, segi ég. „Já,“ segir Vigdís og það er orðið dimmt úti. Enginn grátur lengur Vigdís hefur tekið þátt í mörgum bókaflóðum og hún segir að þetta flóð sé öðruvísi fyrir sig. „Ég tek þetta ekki hátíðlega. Það er gott að gengur vel, það er alltaf gott, en þótt það gerði það ekki þá myndi ég aldrei sjá eftir því að hafa skrifað þessa bók. Í gamla daga hugsaði ég stundum um það eftir að bækurnar mínar komu út hvort ég hefði ekki átt að skrifa þessa bókina eða hina; ég var hrædd við upphringingar og skammir, var lítil í mér og fór jafnvel að skæla þegar verst lét. Það er gaman þegar vel gengur en það væri ekki svo mikið at- riði þótt það gerði það ekki. Í eðli sínu gengur alltaf vel. Erindið er að segja frá því sem skiptir máli. Og hvort sem fólk hrósar eða lastar þá er það í sjálfu sér árangur.“ „Lífið er fyrst og síðast fallegt“ Morgunblaðið/Kristinn Vigdís Grímsdóttir „Það hlýtur að vera takmark allra að hafa lítið egó af því stór egó eru hættuleg. Þess vegna er það góður skóli fyrir höfunda að skrá- setja. Þá þurfa þeir ekki alltaf að koma sínu að. Þetta er góð svipa á egóið,“ segir Vigdís. „Hafi ég einhvern tíma haldið að Bíbí væri platari sannfærðist ég um hið gagnstæða í veikindum mín- um,“ segir Vigdís Grímsdóttir. Bók hennar um Bíbí Ólafsdóttur nýtur mikillar athygli þessa dagana en hér er tilurð bókarinnar skoðuð með höfundi. Höfundur er rithöfundur. »Hún er einstök mann- eskja. Ég hafði geng- ið á eftir henni og þegar hún samþykkti þá sagði hún allt og dró ekkert undan. Ég þurfti að kunna að stoppa, láta les- andann um framhaldið. Baráttusaga Margrét J. Benedictsson helgaði líf sitt jafnréttisbáráttu kvenna. Saga hennar má ekki gleymast. holar@simnet.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.