Morgunblaðið - 27.02.2007, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 27.02.2007, Blaðsíða 16
16 ÞRIÐJUDAGUR 27. FEBRÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ ERLENT FRÉTTASKÝRING Eftir Ásgeir Sverrisson asv@mbl.is PÓLITÍSK ódæðisverk sem framin hafa verið á Filippseyjum á und- anliðnum sex árum tengjast herafla stjórnvalda. Þessi er niðurstaða tveggja skýrslna sem birtar voru í liðinni viku. Skýrslur þessar eru að sönnu „svartar“ og ekki fallnar til að styrkja Gloríu Macapagal Arr- oyo, forseta Filippseyja, í sessi. Pólitískt framhaldslíf hennar er undir stuðningi hersins komið. Skýrslurnar unnu annars vegar sérlegur sendimaður Sameinuðu þjóðanna og hins vegar óháð rann- sóknarnefnd sem forsetinn skipaði. Niðurstöður þeirra eru um sumt óljósar og erfitt er að fullyrða um fjölda og umfang þeirra illvirkja sem framin hafa verið. Mannrétt- indahópar fullyrða að um 830 manns hafi verið drepnir á síðustu sex árum vegna skoðana sinna og/ eða þátttöku í pólitísku starfi. Hér ræðir yfirleitt um vinstrisinnaða andstæðinga stjórnvalda. Skýrslu Jose Melo, fyrrum hæstaréttardómara sem Arroyo fól að fara fyrir óháðri rannsóknar- nefnd, hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu á Filippseyjum. Hún var gerð á opinber á fimmtudag en daginn áður hafði sendimaður Sam- einuðu þjóðanna, Philip Alston, lagaprófessor við New York-há- skóla, skilað niðurstöðum sínum. Alston telur yfir allan vafa hafið að starfræktar séu „dauðasveitir“ á Filippseyjum. Hann segir á hinn bóginn engan veginn unnt að sanna að vígaflokkar þessir lúti beinlínis stjórn yfirvalda. Prófessorinn er þeirrar hyggju að morðingjarnir séu tengdir stjórnarhernum. Hann sakar yfirmenn hersins um að vera á stigi „afneitunar“ í þessu efni. Herforingjar á Filippseyjum hafa þegar brugðist við skýrslu Philips Alston og segja hana „ósanngjarn- an“ og órökstuddan samsetning. „Mér sýnist að herra Alston eigi sjálfur við alvarlega afneitun að stríða,“ sagði herforinginn Hermog- enes Esperon á fundi með frétta- fólki á miðvikudag. Helsta niðurstaða skýrslu Jose Melo er sú að „aðilar“ innan stjórn- arhersins hafi gerst sekir um lög- brot. Hvatt er til þess að komið verði á fót sérstakri stjórnardeild til að rannsaka framgöngu öryggis- sveita. Kommúnískar hreinsanir? Hátt settir embættismenn sem starfa á vettvangi öryggismála hafa löngum vísað á bug ásökunum þess efnis að stjórnherinn starfræki „dauðasveitir“. Fullyrða viðkom- andi að hér ræði um áróður hópa vinstri sinna sem eigi rætur að rekja til Kommúnistaflokks Filipps- eyja og hernaðararms hans er nefn- ist Nýi alþýðuherinn. Samtök þessi hafa hvor tveggju verið lýst ólögleg á Filippseyjum. Fyrir liggur að ör- yggisráðgjafar Arroyo forseta telja almennt og yfirleitt að ríkinu stafi meiri ógn af flokkum kommúnískra uppreisnarmanna en íslömskum öfgamönnum. Að auki er deilt um umfang voða- verkanna. Mannréttindahópar á borð við Karapatan kveðast búa yfir upplýsingum um meira en 800 póli- tísk morð á undanliðnum sex árum. Hlutleysi hóps þessa draga sumir í efa og halda því fram að talan fái ekki staðist þar eð tugi morða sé að finna í skýrslum hans sem ekki verði sannað að framin hafi verið af pólitískum ástæðum. Prófessor Alston tiltekur ekki fjölda pólitískra morða í skýrslu sinni en segir jafn- framt að fjöldi þeirra sé slíkur að framhjá þeim hryllingi verði ekki horft. Talsmenn lögreglu fullyrða að félagar í Kommúnistaflokki Fil- ippseyja séu sjálfir ábyrgir fyrir fjölda morða á síðustu árum. Þar ræði um „hreinsanir“ sem komm- únistar hafi ákveðið að fram færu á sama tíma og stjórnarherinn hefur hert baráttu sína gegn skæruliðum. Tímasetningin sé með öðrum orðum engin tilviljun. Þessu heldur m.a. fram Avelino Razon herforingi sem fer fyrir hópi lögreglumanna er í fyrra var falið að rannsaka ofbeldið. Vinstrimenn á Filippseyjum segja þessa skýringu tilbúning einan og tilraun yfirvalda til að varpa sökinni á aðra. Arroyo forseti lýsti í fyrra yfir stríði gegn herflokkum kommúnista og fullyrða margir talsmenn stjórnarandstöð- unnar að sú mikla harka sem stjórn- völd sýni skapi forsendur fyrir mannréttindabrotum og stjórn- lausri framgöngu hermanna og for- ingja þeirra. Líklegt er að Gloría Arroyo for- seti sæti vaxandi þrýstingi um að bregðast við stöðu mála nú þegar skýrslurnar liggja fyrir. Morðin og meint stjórnleysi hersins móta vit- anlega stjórnmálaástandið á Fil- ippseyjum nú um stundir. Lýðræði í skjóli hervalds En staða forsetans er afar erfið. Gloría Arroyo stendur höllum fæti í embætti. Hún hefur verið vænd um svik í forsetakosningunum 2004 og komst naumlega hjá kæru sem leitt hefði getað til embættissviptingar. Lífseigar eru og ásakanir þess efnis að eiginmaður hennar og sonur hafi þegið mútur og gangi vasklega fram á spillingarsviðinu. Eiginmaður hennar, Jose Miguel, jafnan nefnd- ur „Mike“ þar eystra, flutti úr landi árið 2005 til að létta konu sinni lífið. Mestu skiptir þó að forseti Fil- ippseyja á allt sitt undir stuðningi hersins. Einræðisherranum Ferdin- and Marcos var steypt af stóli í upp- reisn árið 1986. Herinn hafði þá snúist gegn honum. Corazon Aquino varð forseti og á þeim sex árum sem hún ríkti gerði herinn sig líklegan til að taka völdin sex sinn- um, hið minnsta. Fidel Ramos, sem tók við af henni, var sjálfur herfor- ingi og raunar helsti leiðtogi yfir- manna þeirra sem baki sneru við Ferdinand Marcos. Grundvöllur valda hans var af þeim sökum traustur en hann neyddist engu að síður iðulega til að kaupa sér stuðn- ing heraflans. Næstur gegndi embættinu Jos- eph Ejercito Estrada, makalaus stjórnmálamaður sem var einn vin- sælasti kvikmyndaleikari Filipps- eyja áður en hann komst að þeirri niðurstöðu að þjóðin þarfnaðist hans. Estrada, betur þekktur sem „Erap“, þótti slá öll met á sviði hömluleysis og spillingar sem ekki var létt verk og kostaði einbeittan vilja. Eftir að hann hafði verið við völd í tvö og hálft ár (í janúar 2001) fékk herinn nóg og „Erap“ flutti úr forsetahöllinni. Við tók varaforset- inn, Gloría Macapagal Arroyo. Hvað getur forsetinn gert? Sennilega ekki neitt. Sú speki að hefðum og „pólitískri menningu“ verði trauðla breytt telst vart til kjarnorkuvísinda. Arroyo hefur vissulega reynt að bregðast við stöðu mála og bæta ímynd ríkis- stjórnar sinar á heimavelli sem á al- þjóða vettvangi. Og næsta auðvelt er að gera lítið úr viðleitni hennar og heilindum. Viljinn til valda er án nokkurs vafa rúmfrekur í sálarlífi forseta Filippseyja enda hefur hún sýnt mikla seiglu. Arroyo hefur hins vegar líkt og fyrirrennarar hennar neyðst til að kaupa stuðning hersins dýru verði. Í fyrra benti flest til þess að stjórnarherinn hefði uppi áform um að steypa forsetanum af stóli en foringjar henni hliðhollir gripu í taumana. Reikningurinn hljóðaði upp á nokkur ráðherra- embætti fyrrum herforingjum til handa. Herinn er beinn þátttakandi í hinu pólitíska ferli. Að þessu leyti minnir staða mála á þá sem ríkti á Filippseyjum þegar einræðisherr- ann alræmdi, Ferdinand Marcos, var þar við völd. Við slíkar aðstæður tekur verulega að reyna á viðtekin skilgreiningaratriði um lýðræðið. Í maímánuði fara fram þingkosn- ingar á Filippseyjum. Skýrslur um morð og myrkraverk munu augljós- lega hafa áhrif á kjósendur og líkur eru því á að forsetinn missi meiri- hluta sinn á þingi. Gloría Arroyo mun þurfa á öllu sínu að halda á næstu mánuðum – og, vitanlega, stuðningi hersins. Máttur hers og hefða  Stjórnarherinn á Filippseyjum er bendlaður við pólitísk myrkraverk í tveimur nýjum skýrslum  Gloría Macapagal Arroyo forseti stígur erfiðan línudans Í HNOTSKURN » Gloria Macapagal Arroyofæddist 5. apríl 1947. Hún er 14. forseti Filippseyja og önnur konan sem hefur það embætti með höndum. Faðir hennar, Diosdado Macapagal, var forseti frá 1961 til 1965. » Gloria Arroyo er hagfræð-ingur að mennt. Hún var kjörin til setu í öldungadeild þingsins árið 1992. » Árið 1998 tók hún við emb-ætti varaforseta í stjórn stór- leikarans Joseph Estrada. Hann hraktist frá völdum í janúar- mánuði árið 2001 og tók Arroyo þá við forsetaembættinu. Reuters Bylting Gloria Arroyo kannar heiðursvörð á sunnudag þegar 21 ár var liðið frá því stjórn Marcos var steypt. Reuters Ákall Drengur ber spjald þar sem beðist er liðveislu fulltrúa SÞ. Eftir Baldur Arnarson baldura@mbl.is BRESKA móðirin Nicola McKeown mun komast að því í dag hvort yf- irvöld grípa til þess örþrifaráðs að flytja son hennar á meðferðar- stofnun vegna ofþyngdar hans. Málið hefur vakið töluverða athygli í Bretlandi og vakið deilur um hversu langt stjórnvöld eigi að ganga á réttindi fólks til að binda enda á óæskilega hegðun. McKeown hefur staðfastlega neitað að hætta að gefa átta ára gömlum syni sínum, Connor McCreaddie, svokallað ruslfæði, næringarsnauðan mat sem jafnan er ríkur af kolvetnum. McCreaddie vegur um 90 kíló og á af þeim sökum erfitt með gang. Hann á einnig erfitt með að klæða sig og þvo sér og er oft fjarverandi úr skóla. Læknar telja þyngdina ógn við heilsufar hans en móðirin, sem glímt hefur við þunglyndi, seg- ir yfirvöld í Wallsend ekki hafa neinn rétt til að grípa til svo harka- legra aðgerða, þau hafi ekki boðið henni næga aðstoð. Megrunin dugði skammt Hún segir yfirvöld hafa látið sig hafa lista yfir næringarríkt fæði þegar drengurinn var fimm ára gamall og hafi hún fylgt listanum samviskusamlega í ár. McCreaddie hafi aðeins lést um 6,35 kíló og síð- an hafi engin framhaldsmeðferð tekið við. Fjölskylda McCreaddie kemur á fund barnaverndaryfirvalda í dag, þar sem tvær hjúkrunarkonar með sérþekkingu á offitu munu, ásamt fleiri sérfræðingum, segja álit sitt á heilsufari drengsins og gæti sá úr- skurður fallið að hann yrði tíma- bundið fluttur á stofnun meðan á megrunarátaki stendur. Of þungt barn tekið frá móður? Neitar að hætta að gefa því ruslfæði STEPHEN Harper, forsætisráð- herra Kanada, tilkynnti í gær að Kanada myndi veita Afganistan 200 milljóna kanadískra dollara styrk, um 11,3 milljarða króna, til uppbygg- ingarstarfs í landinu á næstu 10 ár- um. Þetta er til viðbótar við stuðning upp á milljarð dollara, tæplega 57 milljarða króna, sem Kanada hefur skuldbundið sig til að greiða til 2011. Stuðningur Kanada á meðal ann- ars að gera heimamönnum kleift að greiða kennurum, lögreglumönnum og fólki í heilbrigðisþjónustu laun. Hann á einnig að fjármagna vega- framkvæmdir í landinu, efla við- skiptalífið og nýtast í baráttunni við heróínframleiðslu í Afganistan. Þegar Harper greindi frá stuðn- ingnum sagði hann að Afganistan ætti langt í land og málefnin, sem Kanada styddi, snertu allar þjóðir heims. Árangur stuðningsins væri því mikilvægur fyrir alla. Aukinn stuðningur Kanada Reuters Styrkur Stephen Harper greinir frá stuðningnum við Afganistan. ♦♦♦

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.