Morgunblaðið - 27.02.2007, Page 22
Olíumálverk „Aðalatriðið er að myndin líkist tiltekinni skepnu, þetta sé
ekki bara hundur heldur akkúrat réttur karakter,“ segir Svala Sóleyg.
Eftir Þuríði Magnúsínu Björnsdóttur
thuridur@mbl.is
Það ætti ekki að fara framhjáneinum sem sækir SvöluSóleyg Jónsdóttur mynd-listarmann heim að dýr,
englar og blóm eru henni hugstæð.
Myndir af þessum viðfangsefnum
prýða heimili hennar en hún tekur að
sér að mála olíumálverk af dýrum.
„Ég hef ekki málað mörg slík verk
en það eru um 3–4 ár síðan ég byrjaði
að mála verk til að selja en hef málað
ýmislegt í gegnum tíðina og haldið
þrjár einkasýningar.
Þetta byrjaði þannig að ég málaði
fyrir vin okkar hjóna og svo spurðist
þetta út. Ég hef aðallega málað
hunda en líka ketti. Ég málaði t.d.
uppáhaldsköttinn hennar Sigríðar
Heiðberg í Kattholti, Emil í Katt-
holti. Mest hef ég málað fyrir þá sem
þekki, t.d. fyrir fólk sem hefur misst
hundinn sinn og vill eiga mynd til
minningar um hann en eins af lifandi
dýrum.
Ég mála eftir góðri ljósmynd en
það er svolítið erfitt að eiga við þetta
því ég þarf yfirleitt að stækka mynd-
irnar upp og passa upp á að hafa
hlutföllin rétt, aðalatriðið er að
myndin líkist tiltekinni skepnu, þetta
sé ekki bara hundur heldur akkúrat
réttur karakter. Ég hef í sumum til-
fellum séð þessi dýr og þekki þau en
myndirnar tala náttúrlega sínu
máli.“
Hingað til hefur hún ekki málað
annað en hunda og ketti en segist þó
hafa málað fugla eftir myndum fyrir
sjálfa sig.
Myndir Svölu Sóleygar eru áhuga-
verðar og má segja í takt við áhug-
ann sem kviknar við óvenjulegt milli-
nafn hennar sem fyrirfinnst í
Færeyjum en engin önnur kona ber
nafnið hér á landi. „Halldór Laxness
skrifaði um það að blómið sóley hefði
áður verið sóleyg, auga sólarinnar.“
Grettir og Högni
hrekkvísi voru uppáhaldið
Svala Sóleyg vann í 27 ár við að
þýða myndasögur Morgunblaðsins,
til ársins 2000, og skrifaði sjálf inn á
belgina með svörtum tússpenna. Það
kemur varla á óvart að einar af uppá-
haldsteiknimyndapersónum hennar
voru Grettir og Högni hrekkvísi.
Hún segir myndlistina hafa verið
áhugamál sitt í gegnum tíðina.
„Ég hef málað og teiknað frá því
ég man eftir mér og haft gaman af
því, svo komu dýramyndirnar eigin-
lega óvart til. Mér finnst mjög gam-
an að mála dýr. Ég hef alltaf haft
gaman af að teikna fólk en þó ekki
gert portrett. Það getur vel verið að
ég fari út í það seinna.“
Eins og til að kvitta undir frásögn
eiganda síns birtist þrílita læðan Dá-
fríð inni í eldhúsi og ber nafn með
rentu.
„Já, hún er dáfríð – og jafngömul
öldinni. Ég hef átt ketti alla tíð, við
áttum Doppu á undan Dáfríð og hún
varð tæplega tvítug. Ég er alin upp á
Fellsströnd í Dölum og var þar til ell-
efu ára aldurs svoleiðis að ég er mik-
ill dýravinur. Mér þótti mjög gaman
að kindunum, þær eru sko ekki allar
eins! Ég vildi ekki hafa misst af því
að alast upp í sveit, það er alveg ynd-
islegt. En ég hef aldrei verið með
hund hérna. Mér fannst einhvern
veginn að hundar ættu bara heima í
sveitinni, það er kannski vitleysa. Ef
börn alast upp með dýrum eins og
hjá okkur held ég að þau vilji alltaf
eiga dýr. Þau sem ekki kynnast þeim
verða hálfhrædd við þau. Mér þykir
dýr og blóm alveg nauðsynleg.“
Horfnir góðhestar hafa oftsinnis
öðlast framhaldslíf í myndlist en
Svala Sóleyg segist þó aldrei hafa
fengið slíkt verkefni en líst vel á við-
fangsefnið: „Já, þá myndi mér þykja
gaman, sérstaklega ef ég málaði
hesta á hreyfingu því þeir eru ein-
hverjar fallegustu skepnur sem mað-
ur sér. Ég myndi gjarna vilja eiga
hesta en það er mikið fyrirtæki. Ég
byrjaði á því að teikna hestana og
hélt mig lengi að mestu við þá.“
Listin er henni í blóð borin, móðir
hennar, Guðbjörg Guðmundsdóttir,
var handavinnukennari og lærði list-
vefnað í Kaupmannahöfn hjá Júlíönu
Sveinsdóttur listakonu og af um-
ræddu heimili að dæma erfist lista-
genið vel.
Morgunblaðið/G. Rúnar
Dýravinur Svala Sóleyg Jónsdóttir með Dáfríð sína í fanginu – og á veggnum – en sú fyrrnefnda málar dýr eftir pöntun.
Málar portrett af gæludýrum
„Ég hef málað og teiknað frá
því ég man eftir mér og haft
gaman af því, svo komu dýra-
myndirnar eiginlega óvart til.“
Svala Sóleyg
Portrett af gæludýrum auk
barna-, engla- og blómamynda
sími: 557 4074, 892 8474
netfang: svalasoleyg@emax.is
Reuters
Tröll og
vorblómin
TRÖLL og ýmsar kynjaverur tóku þátt
í árlegum hátíðahöldum í Búkarest um
síðustu helgi. Hátíðin, sem ber nafnið
Dragobete, er nokkurskonar Valent-
ínusargleði Rúmeníubúa. Hún gengur
út á að ástfangnir karlar og konur fagni
ástinni með því að tína fyrstu vor-
blómin.
daglegt líf
22 ÞRIÐJUDAGUR 27. FEBRÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ
Myntute gegn hárvexti
Morgunblaðið/Arnaldur
Þær konur sem hafa óvenju-lega mikið af líkamshárigætu dregið úr hárvextinum
með því að drekka myntute, segir í
nýlegri rannsókn sem greint var frá
í breska dagblaðinu Daily Tele-
graph í vikunni.
Sumar konur hafa óvenjuhátt
hlutfall karlhormóna sem veldur því
að þær hafa meira af líkamshári en
gengur og gerist hjá konum. Meðal
þeirra aðferða sem hingað til hafa
verið notaðar eru lyfjameðferðir
eða p-pillan sem þá dregur úr fram-
leiðslu hormónsins. „Rannsóknir
sýna hins vegar að plantan
hrokkinmenta getur
reynst ekki síður vel,“
sagði prófessor Meh-
met Numan Tamer við
Demirel-háskólann í
Isparta í Tyrklandi,
þar sem rannsóknin
var unnin, í viðtali við
Daily Telegraph.
Rannsóknin var gerð á
21 hárugri konu vegna fregna
af því að hrokkinmentan drægi úr
kynhvöt karla. Ein skýring þess var
að hún lækkaði hlutfall karlhorm-
óna. Og með því að drekka aðeins
tvo bolla af myntuteinu á dag dró
verulega úr aðalkarlhormóninu hjá
konunum.
„Við þurfum að gera frekari
rannsóknir til að kanna upp að
hvaða marki hrokkinmentan dreg-
ur úr hárvexti kvenna,“ hefur
blaðið eftir prófessor
Tamer.
Tedrykkja Tveir bollar af
myntutei á dag lækka
hlutfall karlhormóna.