Morgunblaðið - 27.02.2007, Blaðsíða 35

Morgunblaðið - 27.02.2007, Blaðsíða 35
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 27. FEBRÚAR 2007 35 gleði eru systur og sá sem upplifir gleðina, eins og við höfum fengið að njóta með Óla, upplifir söknuðinn sárari því að við vitum hvers er að sakna. En nú er komið að leiðarlokum og ég þakka Óla samfylgdina. Skaginn hefur tapað úr litrófinu og er lit- lausari núna við brottför Óla. Elsku Júlla, Baldur, Auður, Ell- en, Gaui, Ragnhildur, Biggi og fjöl- skyldur. Ég votta ykkur mína dýpstu samúð og bið algóðan Guð að gefa ykkur styrk. Ég þakka fyrir allar yndislegu minningarnar. Megi þær verða ljós í lífi ykkar og milda söknuðinn. Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama. En orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur. (Úr Hávamálum) Sigrún Ríkharðs. Enn á ný erum við rækilega minnt á hversu hverfult lífið er, hversu stutt er á milli iðandi lífs og dauða, hversu lítið við mannanna börn vitum. Ekkert okkar grunaði að í byrjun þessa mánaðar væri Óli á leiðinni frá okkur. Kátur og hress gekk hann að störfum sínum, mætti sérhverjum viðskiptavini með sína einstöku þjónustulund sem honum var í blóð borin. Góðlátlega glettinn og smástríðinn var hann eins og venjulega, þegar við hittumst dag- inn áður en hann veiktist svo hast- arlega að aldrei var raunhæf von um að bata yrði náð. Tveim vikum síðar kveðjum við hann í hljóðri bæn með óskum um góða ferð þang- að sem okkur öllum er ætlaður stað- ur einhvern tímann. Við fengum að vera með honum og fjölskyldunni hans síðustu dag- ana. Enn og aftur fengum við að sannreyna hvað Júlla hans er sterk og skynsöm. Trúarvissa hennar hjálpaði honum og öllum þeim sem voru nálægt að sætta sig við það sem enginn fær breytt. Við sem höfum notið áralangrar vináttu Óla erum óendanlega þakk- lát fyrir allar góðu minningarnar sem hann skilur eftir. Okkur finnst við hafa verið þiggjendur í öll þessi ár, greiðvikni og velvilja í okkar garð var ávallt viðbrugðið. Það var alveg sama hvað var kvabbað, alltaf tími, ekki nema ánægjan að geta orðið að liði. Aldrei gleymum við þegar Óli og Júlla tóku að sér að passa fjögurra mánaða gamlan son okkar í heila viku meðan við fórum til útlanda. Trúlega hefðum við fáum öðrum treyst fyrir honum og það var eins og annað, ekki nema sjálfsagt. Gestrisnara fólk er vand- fundið, alltaf opið hús fyrir vini og vandamenn. Að eiga trausta vini í blíðu og stríðu er gjöf sem fleytir okkur yfir ótrúlega hjalla, þar sem einlægnin og góðviljinn ræður ríkj- um og ekki þarf að leika einhverja rullu. Maður fær að vera maður sjálfur með kosti sína og galla. Við gátum alltaf treyst því að það sem sagt var heima hjá Óla og Júllu fór ekki lengra. Þar fengum við svo oft kærkomna útrás eftir amstur dags- ins. Óli var ekki maður sem flíkaði sínum tilfinningum eða otaði sér fram. Hann var einstaklega hógvær og lítillátur, næstum feiminn. Í góðra vina hópi gat hann náð sér á flug með frábæru skopskyni. Hann hafði gaman af að láta reyna á trú- girni okkar hinna, við sjáum hann fyrir okkur hlæja innilega eftir að hafa platað okkur svolítið. Óli hafði gaman af tónlist og söng á árum áður meðal annars með Dúmbó. Óli hafði prýðilega söng- rödd. Átti ekki langt að sækja tón- listaráhugann, Theodór Einarsson faðir hans var kunnur á sinni tíð á tónlistarsviðinu. Óli vann nánast alla sína starfs- ævi við ýmiss konar verslunarstörf. Hann var eftirsóttur starfsmaður. Það er óhætt að fullyrða að hann hafi verið gæfumaður. Gæfa hans var hans létta lund, jákvætt viðhorf til samferðamannanna en mesta gæfa hans var hans góða kona, börnin hans og barnabörnin, sem hann var svo innilega stoltur af. Við söknum góðs vinar og biðjum fólk- inu hans öllu allrar blessunar um ókomna tíð. Far í friði, góði vinur, hafðu þökk fyrir alla tryggðina. Ingibjörg og Haraldur. Enginn ræður sínum næturstað. Á þetta voru fjölskylda og vinir Ólafs harkalega minnt, er hann veiktist skyndilega og var dáinn tveimur vikum seinna. Hann hét Ólafur Theodórsson, en í daglegu tali kallaður Óli Tedda. Óli var einn af þeim sönnu Skagamönnum sem settu sterkan svip á bæinn sinn. Fæddur og uppalinn á Skaganum og þar fann hann Júllu lífsförunaut sinn, og þar fæddust börnin þeirra þrjú. Yndisleg börn sem bera for- eldrum sínum fagurt vitni. Og á Akranesi bjuggu þau hjónin alla tíð. Ævistarf Óla var við verslun og þjónustu, enda fæddur í það hlut- verk því hann var ríkur af þjón- ustulund og ekki síður var hann mikill húmanisti sem kom sér vel í samskiptum við viðskiptavinina og löðuðust þeir að honum. Óli var sannur vinur vina sinna, alltaf léttur og kátur og engum leiddist í návist hans, alltaf skemmtilegur. Á sínum táningsár- um söng hann með hljómsveitinni Dúmbó. Þar söng hann Anglíu, text- inn eftir föður hans. Þetta gerði hann ógleymanlega vel og okkur vinkonunum finnst enginn geta sungið þetta eins vel og hann gerði. Á síðasta ári réðust Óli, systur hans og fjölskyldur þeirra í að gefa út geisladisk með þekktustu lögum og textum Theodórs Einarssonar sem var þekkt gamanvísna-, dæg- urlaga- og revíuskáld. Þetta gerðu þau í minningu föður síns og ber að þakka fyrir þessa perlu sem þessi diskur er. Nú er komið að kveðjustund, við hjónin áttum yndislega stund með Óla og Júllu á aðfangadagsmorgun sl. Þá var dauðinn víðs fjarri og okkur óraði ekki fyrir að þetta væri í síðasta skiptið sem við hittum Óla. Um leið og við vottum elsku Júllu okkar, börnum, tengdabörnum, barnabörnum, systrum og Sillu frænku hans okkar innilegustu samúð þökkum við honum fyrir ára- tuga vináttu og tryggð og biðjum honum blessunar í nýjum heim- kynnum. Góður guð blessi minningu Óla Tedda. Elsa og Jóhann. Okkar kæri vinur Óli Tedda er látinn. Okkur finnst það ótrúlegt, þótt satt sé. Hann sem var í fullu fjöri, alltaf hress og kátur, svo allt í einu allt búið. Við vinir hans sem haldið höfum hópinn allt frá æskuárum, allt frá þeim tíma þegar hann og æskuvin- kona okkar Júlla felldu hugi saman, kveðjum hann í dag með söknuði. Óli var glaðvær og gleðigjafi mik- ill, hafði yndi af söng, enda söngvari og hljómsveitargæi á Skaganum á sínum yngri árum. Þessir eiginleik- ar hans nutu sín vel í okkar hópi, á ferðum okkar innanlands og utan, sem og öðrum ógleymanlegum sam- verustundum. Hann var ævinlega hrókur alls fagnaðar, orðheppinn og fyndinn. Við kveðjum kæran vin með söknuði og þökkum honum sam- fylgdina um leið og við sendum Júllu og fjölskyldunni innilegustu samúðarkveðjur. Þau ljós sem skærast lýsa, þau ljós sem skína glaðast þau bera mesta birtu en brenna líka hraðast og fyrr en okkur uggir fer um þau harður bylur er dauðans dómur fellur og dóm þann enginn skilur. En skinið logaskæra sem skamma stund oss gladdi það kveikti ást og yndi með öllum sem það kvaddi. Þótt burt úr heimi hörðum nú hverfi ljósið bjarta þá situr eftir ylur í okkar mædda hjarta. (Friðrik Guðni Þórleifsson) Dröfn, Elías, Júlíana, Jón Trausti, Kristín, Högni, Guðmunda, Þröstur, Frið- gerður, Vilhjálmur. Í dag er til moldar borinn allt of snemma og allt of fljótt Ólafur Theódórsson verslunarmaður á Akranesi. Við Óli kynntumst fyrst sem strákaponnar í fótbolta. Síðan lá leið okkar í spilamennsku í hljóm- sveit sem Dúmbó hét þar sem Óli söng og var þá aðallega leikið í fé- lagsheimilinu Rein, og ég held að Óli og Júlía Baldursdóttir hafi fyrst kynnst þar sem leiddi til þess síðar að þau urðu hjón, það var sennilega hans mesta gæfuspor. Seinna lágu leiðir okkar saman þegar við unnum báðir hjá Slát- urfélagi Suðurlands hér á Akranesi um tíma. Nú síðustu árin höfum við svo unnið saman hjá Olíuverslun Ís- lands hf. hér á Akranesi þar sem hann starfaði sem verslunarstjóri. Þar naut hann mikilla vinsælda, bæði hjá samstarfsmönnum og við- skiptavinum. Það er leitun að manni eins og Óla, svo þjónustulipur og vildi allt fyrir alla gera. Það er ekki ætlun mín að rekja lífsferil Óla, það gera aðrir sem bet- ur þekkja til, en í mínum huga var Óli frábær félagi, skemmtilegur maður með góðan húmor og fæddur verslunarmaður. Hann var mikill Skagamaður í sér, hafði mikinn metnað fyrir okkar bæjarfélag. Óli lék knattspyrnu í öllum flokk- um ÍA, þar með talið í meistara- flokki, og átti auk þess sæti í knatt- spyrnuráði ÍA um tíma. Þá var Óli líka mikill áhugamaður um golf og talaði oft um að hætta að vinna 65 ára og snúa sér þá að fullu að golf- inu. Það er mikill missir fyrir okkur hjá Olís á Suðurgötunni að missa Óla en missirinn er mestur hjá Júllu og fjölskyldu hennar. Við Sigga biðjum góðan Guð að blessa minningu Ólafs um leið og við vottum Júllu og fjölskyldu dýpstu samúð okkar. Gunnar Sigurðsson. Í dag kveðjum við kæran vin sem hrifinn var á brott mjög snögglega, langt um aldur fram. Margs er að minnast er við sitjum hér nokkur saman sem unnum með Óla í Skaga- veri sem hann rak ásamt tengda- föður sínum, Baldri Guðjónssyni, og Karli Sigurðssyni sem báðir eru látnir. Óli var manna hugljúfastur, alltaf hress og kátur og skipti aldrei skapi. „Nei“ við kúnnann var ekki til í hans orðaforða. Hann var einn- ig mjög bóngóður. Margar sögur er hægt að segja um Óla. Ein er sú að hann var að af- greiða í Skagaveri og þurfti að fara fram í kæli þegar kokkurinn og sendillinn þurftu að skreppa niður á bryggju. Óli ákveður að fara með en á leiðinni mundi hann eftir því að hann var í miðri afgreiðslu. Snúið var við í skyndi og Óli kláraði að af- greiða með bros á vör. Ávallt var gaman að skemmta sér með Óla og Júllu, mikið sungið og trallað. Við viljum þakka fyrir góðar samverustundir sem aldrei bar skugga á. Við sendum Júllu, Baldri, Ellen, Ragnhildi og öðrum aðstand- endum okkar innilegustu samúðar- kveðjur. Guð veri með ykkur. Samstarfsfólk Skagaveri. Góður vinur okkar og vinnufélagi er fallinn frá, svo snöggt að við höf- um ekki enn áttað okkur á því og eiginlega eigum við alltaf von á því að hann Óli labbi inn um dyrnar og segi: „Eitthvað nýtt?“ og gantist svo við okkur eins og hans var vani. Það var aðalsmerki Óla hve léttur, ljúfur og skemmtilegur hann var og tók vel á móti öllum sem komu, mikill mannvinur. Oft var líflegt hjá okkur í vinnunni og margir sem litu inn til að spjalla og oftar en ekki var rætt um golf sem var mikið áhugamál Óla og fengum við að fylgjast vel með öllu sem tengdist því. Allt feng- um við að vita, um nýju kylfurnar hans og hve hann hlakkaði til að geta farið að spila golf með félögun- um og njóta þess að vera úti í nátt- úrunni. Óli gerði góðan dag betri með nærveru sinni Elsku Óli, það er svo sárt að horfa á eftir þér, manni á besta aldri og í blóma lífsins. Þú lifðir svo glaðlega og gafst mikið af þér. Mik- ið væri nú heimurinn betri ef við hefðum fleiri Óla! Allt frá því við kynntumst hefur þú verið okkar besti vinur og félagi og allt sem þú gerðir og sagðir er geymt á meðal allra þeirra sem þú þekktir eða hitt- ir og allir urðu vinir þínir frá fyrstu kynnum. Við sem fengum að kynn- ast þér eigum góðar minningar um góðan mann, sem miðlaði gæsku sinni og gleði til annarra. Okkur finnst við betri manneskjur eftir að hafa kynnst þér. Lífsgleði þín, manngæska og þægilegt viðmót með glettnu ívafi gerðu það að verk- um að öllum leið vel í návist þinni, og aldrei fórst þú í manngreinarálit. Fyrir þér voru allir jafnir. Þú vildir öllum vel og gerðir öllum gott. Þannig varst þú, Óli. Við sendum fjölskyldu þinni, Júllu og börnunum, samúðarkveðj- ur á þessum erfiðu tímum. Þú lifir áfram í minningum okkar, við söknum þín mikið, kæri vinur. Kveðjur. Þínar langbestu vinkonur, Hildur og Ingibjörg. ✝ Þökkum af hlýhug auðsýnda samúð vegna andláts og útfarar KOLBEINS ÞORGEIRSSONAR múrara, Höfn, Hornafirði. Sérstakar þakkir fær starfsfólk hjúkrunarheimilisins Skjólgarðs fyrir alúðlega umönnun. Fyrir hönd annarra aðstandenda, Jóhanna D. Magnúsdóttir. ✝ Eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, INGVAR ÁSMUNDSSON, lést miðvikudaginn 21. febrúar. Útför hans fer fram frá Hallgrímskirkju fimmtu- daginn 1. mars kl. 15.00. Guðrún Jóhanna Þórðardóttir, Áki Ingvarsson, Ásmundur Ingvarsson, Þórður Ingvarsson og fjölskyldur. ✝ Innilegar þakkir til allra sem sýndu okkur samúð, hlýhug og ómetanlegan stuðning við fráfall og útför okkar ástkæra eiginmanns, föður, tengdaföður, afa og langafa, ARNÓRS FRIÐBJÖRNSSONAR, Fossvöllum 24, Húsavík. Sérstakar þakkir til allra þeirra sem önnuðust hann af mikilli alúð í veikindum hans. Megi Guð blessa ykkur öll. Guðrún Alfreðsdóttir, Sigmar Arnórsson, Hafdís Kristjánsdóttir, Sigrún Arnórsdóttir, Vorsveinn Þórgrímsson, Árni Arnórsson, Sigríður Sif Grímsdóttir, Aðalbjörg Katrín Arnórsdóttir, Svavar Aðalsteinsson, Ragna Karlsdóttir, Guðmundur Alfreð Aðalsteinsson, Sigríður Jónsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Elskuleg móðir mín, tengdamóðir og amma, ARNDÍS KRISTJÁNSDÓTTIR, lést á Landspítalanum miðvikudaginn 7. febrúar. Útförin hefur farið fram í kyrrþey. Sérstakar þakkir fyrir umhyggju og alúð við andlát hennar og útför. Örn Sævar Rósinkransson, Helga Gunnarsdóttir, Huginn Arnarson, Hugrún Lind Arnardóttir. ✝ Ástkær eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir, afi og langafi, ÁSBJÖRN JÓNSSON, Stigahlíð 30, lést á hjúkrunarheimilinu Eir laugardaginn 24. febrúar. Margrét Einarsdóttir, Einar Ásbjörnsson og fjölskylda.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.