Morgunblaðið - 01.03.2007, Qupperneq 4
4 FIMMTUDAGUR 1. MARS 2007 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Á UPPBOÐI hjá Bruun Rasmussen í Kaup-
mannahöfn í fyrradag voru seld alls fimmtán
pappírsverk eftir Svavar Guðnason. Er um að
ræða ýmist vatnslitamyndir eða myndir unnar
með pastellitum. Að sögn Tryggva Friðriks-
sonar, annars eiganda Gallerís Foldar, var dýr-
asta myndin slegin á 32 þúsund danskar krónur
eða sem svarar til um 385 þúsund íslenskar
krónur. Segir hann það ansi gott verð fyrir
pappírsmynd eftir Svavar. Aðspurður sagðist
Tryggvi ekki vita hvort kaupendur hefðu verið
íslenskir eða erlendir. Segir hann útlendinga
spennta fyrir verkum Svavars sökum þess að
hann tilheyrði Cobra-hópnum fræga.
Góð olíuverk gætu þrefaldast í verði
Í samtali við Svein Þórhallsson, gallerista í
Turpentine, eru allar líkur til þess að metverðið
sem fékkst fyrir Kjarvalsmyndina á sama upp-
boði muni hafa áhrif á verðlagningu á myndum
Svavars. Segist hann eiga von á því að góðar ol-
íumyndir eftir Svavar muni tvö- eða jafnvel
þrefaldast í verði vegna þessa. Bendir hann á
að Svavar sé einn af þessum stóru nöfnum og
hafi tilheyrt hinum heimsfræga Cobra-hópi.
„Svavar er af sama kalíberi og Kjarval og Þor-
valdur Skúlason. Þetta eru tímalausar myndir
sem eru algjörlega klassískar.“ Þess má að lok-
um geta að næsta listmunauppboð Gallerís
Foldar verður haldið á Hótel Sögu nk. sunnu-
dagskvöld. Að sögn Tryggva er allt útlit fyrir
að uppboðið verði „óvenju gott“, en búast megi
við nokkrum fjölda eldri verka eftir meistara á
borð við Kjarval, Þórarin B. Þorláksson, Jón
Stefánsson, Mugg, Ásgrím Jónsson, Kristínu
Jónsdóttur, Þorvald Skúlason, Gunnlaug Schev-
ing, Louisu Matthíasdóttur, Nínu Tryggvadótt-
ur, Karl Kvaran, Jóhann Briem, Jóhannes Jó-
hannesson og Einar Jónsson. Alls verða boðin
upp um 130 verk. Uppboðið hefst kl. 19, en
verkin verða til sýnis í Galleríi Fold þrjá daga
fyrir uppboðið.
Búast við hækkandi verði
á listaverkum Svavars
Nýmæli þegar pappírsverk Svavars Guðnasonar var slegið á 32 þús. danskar kr.
SVAVAR Guðnason stundaði
listnám í Frakklandi og Dan-
mörku þar sem hann bjó 1935–
51. Hann var brautryðjandi í ís-
lenskri abstraktlist þegar hann
opnaði sína fyrstu sýningu á Ís-
landi í Listamannaskálanum í
ágúst 1945, nýkominn heim eftir
11 ára fjarvist og þátttöku í
framvarðarsveit danskrar myndlistar. Um var
að ræða tímamótasýningu í íslensku listalífi.
Svavar starfaði náið með danska Haustsýning-
arhópnum (Höst) 1944–49 sem síðar gerðist þátt-
takandi í Cobra. Svavar er álitinn í fremstu röð
íslenskra listamanna og varð einn af brautryðj-
endunum í norrænni abstraktlist.
Brautryðjandi
í abstraktlist
Bæjarstjórn
Mosfellsbæjar
samþykkti í gær
einróma að aftur-
kalla deiliskipu-
lag fyrir 500
metra kafla tengi-
brautar á milli
Vesturlandsveg-
ar og Helgafells-
vegar við Álafoss-
kvos. Fyrir
bæjarstjórnarfundinn höfðu Helga-
fellsbyggingar ehf., sem stýra sölu
lóða og uppbyggingu Helgafells-
hverfis, skilað inn framkvæmdaleyfi
fyrir umræddan kafla tengibrautar-
innar. „Við erum ekki að hverfa frá
neinu, svo það sé alveg ljóst. Og
þetta þýðir alls ekki að Mosfellsbær
sé að leggja til að tengibrautin verði
ekki á þessu svæði,“ segir Ragnheið-
ur Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri Mos-
fellsbæjar. Hún segir að afturköll-
unina sé að rekja til bráðabirgða-
úrskurðar úrskurðarnefndar
skipulags- og byggingamála. „Í úr-
skurðinum eru settar fram ábend-
ingar um ýmsa þætti sem betur
mega fara og þar sem við viljum
standa eins vel að þessu og hugsast
getur drögum við deiliskipulagið
sem við staðfestum í bæjarstjórn 13.
desember til baka,“ segir hún.
Vinna í sátt við hagsmunaaðila
Með bráðabirgðaúrskurði nefnd-
arinnar er birtur var 15. febrúar
voru framkvæmdir við tengibrautina
stöðvaðar. Í úrskurðinum kemur
fram að taka þurfi til skoðunar hvort
deiliskipulagstillagan frá því í des-
ember hafi fallið undir lög um um-
hverfismat áætlana og þar með
hvort vinna hefði þurft umhverfis-
skýrslu vegna hennar skv. ákvæðum
laganna. Álitamál sé hvort ekki hefði
verið þörf á að gera grein fyrir ráð-
stöfunum vegna hugsanlegrar
mengunar ofanvatns og til verndun-
ar vistkerfis Varmár.
Ragnheiður segir að næsta skref í
málinu sé að senda úrskurðarnefnd
skipulags- og byggingarmála bréf
þess efnis að framkvæmdarleyfinu
hafi verið skilað og deiliskipulag fyr-
ir umræddan kafla tengibrautarinn-
ar hafi verið afturkallað í bili. Að því
loknu muni bæjarstjórn leggjast yfir
þau gögn og skýrslur sem til eru um
málið og athuga vandlega hvað betur
megi fara varðandi framkvæmdina í
því augnmiði að vinna verkið í sem
mestri sátt við hagsmunaaðila. Býst
Ragnheiður við því að sú vinna hefj-
ist á allra næstu dögum.
Deiliskipu-
lagið aftur-
kallað
Ragnheiður
Ríkharðsdóttir
TEKJUR Actavis Group námu
1.379 milljónum evra á síðasta ári,
um 121 milljarði króna, sem er tvö-
földun milli ára. Hagnaður sam-
stæðunnar nam 103 milljónum evra,
eða um níu milljörðum króna.
Ef aðeins er tekinn fjórði árs-
fjórðungur ársins 2006 jukust tekj-
urnar milli ára um 80%, námu 350
milljónum evra eða um 30 milljörð-
um króna. Actavis sendi frá sér af-
komutilkynningu í gærkvöldi og þar
segir að mestur vöxtur hjá fyrirtæk-
inu hafi verið í Austur-Evrópu og
Bandaríkjunum. Þannig jókst sala á
lyfjum á þessum markaðssvæðum
Actavis um 12–18% á árinu. Alls
voru markaðssett 376 samheitalyf á
síðasta ári, þar af 113 á fjórða árs-
fjórðungi. Haft er eftir Róbert
Wessman, forstjóra Actavis, að ár-
angur ársins sé ánægjulegur. Metn-
aðarfull rekstrarmarkmið um fram-
legð og hagnað hafi náðst.
Samkeppnisstaðan hafi að auki
styrkst með kaupum á fjórum nýj-
um félögum á árinu.
Actavis
tvöfaldaði
tekjurnar
Hagnaður síðasta árs
nam níu milljörðum
MARTIN Ingi Sigurðsson, læknanemi á fjórða ári,
hlaut nýsköpunarverðlaun forseta Íslands, sem afhent
voru á Bessastöðum í gær.Verkefni Martins ber heitið
„Áhrif aldurs á utangenamerki mannsins“ og var það
valið úr hópi þeirra fimm verkefna sem tilnefnd voru
að þessu sinni. Með rannsóknum sínum sýndi Martin
fram á að svokölluð utangenamerki breytast með aldr-
inum og sú staðreynd getur útskýrt af hverju tíðni svo
margra sjúkdóma breytist með aldrinum.
Nýsköpunarverðlaunin eru veitt árlega þeim náms-
mönnum er þótt hafa skara fram úr við úrlausn verk-
efnis sem styrkt er af Nýsköpunarsjóði námsmanna.
Morgunblaðið/Sverrir
Nýsköpun námsmanna verðlaunuð
Stríðsárin 1914-1918 voru tími mik-
illar grósku og aukinnar róttækni í
listalífi Kaupmannahafnar. Danskir
listamenn voru upptendraðir af ýms-
um framsæknum stefnum samtíma-
listarinnar, svo sem kúbisma, ex-
pressjónisma og fútúrisma.
Kjarval lauk námi við konunglega
listaháskólann í desember 1917.
Laus úr afturhaldssömum viðjum
skólans lét hann hrífast af þeim
framsæknu straumum sem léku um
danska samtímalist. Verk hans frá
þessum tíma bera með sér tilrauna-
kennda leit. Hann virðist róa á sömu
mið og danski listamaðurinn Jais
Nielsen, eins og verkið „Íslenskir
listamenn við skilningstréð“ frá 1919
ber með sér og tileinkar sér kúbísk
vinnubrögð líkt og dönsku lista-
mennirnir Olaf Rude og William
Scharff.
Úr þessum jarðvegi sprettur
verkið „Pinsemorgen“ eða
Hvítasunnumorgunn. Kjarval sýndi
verkið á fyrstu einkasýningu sinni
eftir námslok, en sýningin var opnuð
þann 2. janúar 1919 í „Den Frie Ud-
stillingsbygning“. Þar sýndi Kjarval
alls 121 verk, en Pinsemorgen var
nr. 4 í sýningarskránni og jafnframt
dýrasta verk sýningarinnar, verð-
lagt á kr. 3.000. Nokkur undirbún-
ingur virðist hafa legið að baki verk-
inu, en varðveittar eru tvær skissur
sem eru aðdragandi myndarinnar. Í
bréfi til Einars Jónssonar mynd-
höggvara árið 1917 getur Kjarval
þess að hann hafi málað þrjár
myndir með gyllingu og hafi í
huga að stækka eina þeirra í yfir
einn metra. Síðar sendi hann Einari
eina þessara mynda að gjöf.
Á þessum árum fékkst Kjarval
mikið við að teikna húsa- og götu-
myndir frá Kaupmannahöfn, sem og
hafnarmyndir, gjarnan með rauð-
krít. Út frá forsendum kúbismans
einfaldaði hann formgerð þessara
verka og umskrifaði yfir í stórbrotið
spil forma, flata og lína. Myndefni
Hvítasunnumorguns er einnig borg-
arlandslag og á vissan hátt skylt
þessum húsamyndum. Hér gengur
hann enn lengra í kúbískri umskrift
formanna sem mynda margbrotna,
litskrúðuga heild umlukta gullinni
birtu. Hann leikur sér að formum
sem ýmist virka í tvívídd eða þrí-
vídd, sem flötur eða rými. Þessi leik-
ur skapar margræðni og spennu í
verkinu. Hringlaga gullið form í
miðju verksins sem og sólargeislar í
efsta hluta verksins eru berandi
þættir í byggingu þess og ljá því
upphafinn og hátíðlegan blæ.
Þó svo að myndin sýni turni
prýdda kirkjubyggingu sem stendur
við torg, en að baki hennar breiðir
borgin úr sér, vakir engan veginn
fyrir Kjarval að gefa raunsanna
mynd af borgarlandslagi. Verkið er
fyrst og fremst persónuleg tjáning
eða endurminning um bjarta og há-
tíðlega stemningu að morgni hvíta-
sunnu. Nokkrar litlar mannverur
sem eru á sveimi í kring um kirkjuna
leiða hugann að fjölmörgum álfa-
kirkjumyndum Kjarvals og auka
enn á margræðni verksins.
Endurminning um bjarta
og hátíðlega stemningu
MYNDLIST
Hvítasunnumorgunn (Pinsemorgen),
1917-19.
Olíulitur og gullgrunnur á léreft.
100 x 113 cm.
Jóhannes S. Kjarval
Kristín G. Guðnadóttir, listfræðingur