Morgunblaðið - 01.03.2007, Síða 31
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 1. MARS 2007 31
ég fékk að vera hjá ykkur svo vikum
skipti hvert sumar. Sjórinn var stór
hluti af þínu lífi og fékk ég að vera
með þér og deila þeim áhuga í gegn-
um þá báta sem þú áttir meðan þið
bjugguð á Mýrargötunni. Ég fékk
alltaf að vera með, alveg sama hvað
þú varst að gera, og taka þátt í því
sem þú varst að sýsla með. Hvort
sem það var að taka til í bílskúrnum
eða hnýta flugur. Ég var alltaf vel-
kominn. Þú varst svo yndislegur í
alla staði. Brosið þitt, heitu hend-
urnar þínar, ylja mér enn.
Mér þótti svo vænt um að Alex-
andra mín fékk tækifæri til að hitta
þig og þú hana. Og þó að þú værir
rúmliggjandi og kraftlítill þá tókstu
hana inn í hjartað og umvafðir hana
þínum kærleika og brosi og lékst við
hana í rúminu þínu. Merete mín bið-
ur innilega að heilsa þér og ég veit
að hún mun sakna þess að geta ekki
verið lengur í návist þinni. Þú varst
svo yndislegur og hlýr við hana og
mat hún það mikils.
Ég veit þú ert kominn á góðan
stað og að þér líður vel. Það gerir
missinn minni, því ég veit að þú ert
ávallt hjá mér og fylgist með. Farðu
í friði, afi minn.
Þinn ávallt elskandi,
Ólafur Örn.
Elsku besti Móses afi. Þú gerir
þér enga grein fyrir því hversu
heppinn ég tel mig vera að hafa átt
þig sem afa. A síðustu mánuðum ævi
þinnar skorti mig orð til þess að lýsa
djúpu og einlægu þakklæti sem ég
ber til þín, þú gafst svo mikið af þér
án þess að vilja fá neitt til baka. I
æsku voru það heimsóknirnar á
Mýragötuna, þar var útsýni yfir
höfnina og þú gast fylgst með skipa-
komum í gegnum kíkinn. Þá fékk
maður að vita hvenær þetta eða hitt
skipið kom í höfn eða að við fórum
niðri á höfn í bíltúr að skoða bátana.
Þú fræddir okkur barnabörnin um
fiskana í sjónum, bátana og skipin
og þar kom maður ekki að tómum
kofunum, svo var maður oft leystur
út með smávasapening og pipar-
mintudropum. Sumarbústaðaferð-
irnar, þegar ég fékk að gista viku og
viku hjá þér og ömmu, eru mjög
dýrmætar minningar. Þú kenndir
mér vönduð og öguð vinnubrögð
með því að leyfa mér að smíða og
mála með þér. Þú kenndir mér að
veiða og að það skipti ekki alltaf
máli hversu mikið maður veiddi að-
almálið var að vera úti í náttúrunni.
Þú varst bakland mitt í lífinu, afi
minn, alltaf gat maður komið og
rætt málin við þig og ömmu.
Skemmtilegt var þó þegar við vor-
um tveir saman nafnarnir, þá varstu
í essinu þínu. Ég vonast til þess að
geta fetað í fótspor þín þegar ég
verð afi því betri afa er ekki hægt að
hugsa sér. Ég er stoltur af því að
bera nafn þitt. Guð veri með þér.
Móses Helgi Halldórsson.
Hann Mói frændi er dáinn, sadd-
ur lífdaga. Hugur okkar leitar til
baka. Minningarnar hrannast upp
og við finnum fyrir ró, friðsemd og
þeirri birtu sem alltaf fylgdi Móa.
Hann ólst upp í fátækt hjá for-
eldrum sínum vestur við Dýrafjörð
ásamt pabba okkar og öðrum systk-
inum sínum, en alls urðu þau tíu
talsins. Þau hjálpuðu eftir mætti að
afla til heimilisins strax og þau
höfðu getu til. Sjórinn varð fljótlega
vettvangur strákanna og seinna
ævistarf. Mói var áratugi til sjós og
lærði til stýrimanns. Hjá okkur í
Melshúsum var hann ávallt aufúsu-
gestur. Hann og Jenni, tvíburabróð-
ir hans, eru sterkir í minningu hjá
okkur systkinunum í bernsku. Þeg-
ar faðir okkar fór á sjó frá mömmu
og okkur ungum voru Mói og hún
Lóa hans, sem þá var komin í spilið,
okkur betri en engin. Mói og Lóa
sýndu okkur vináttu, hlýju og hjálp-
semi sem aldrei gleymist.
Mói var ákaflega hæglátur og
ljúfur. Við munum ekki eftir að hann
hafi skipt skapi. Lagði ávallt gott til
málanna og hnjóðaði aldrei nokkurn
mann. Hann brosti með öllu andlit-
inu og hafði svo fallegt hrokkið hár.
Mói og hún Lóa hans voru samhent
og við munum ævinlega vera þakk-
lát fyrir hvað þau sýndu mömmu
mikla ræktarsemi og reyndust henni
vel í einu og öllu. Stórfjölskyldu-
böndin voru sterk og aldrei bar á
þau nokkurn skugga.
En nú er hann Mói allur og eftir
stendur minning um elskulegan og
hjartahreinan frænda.
Elsku Lóa, Lilja, Þórdís og fjöl-
skyldur, við vottum ykkur einlæga
samúð og megi guð styrkja ykkur í
sorginni.
Systkinin frá Melshúsum.
Hörskuld. Seinna meir færir Bryndís
þeim svo þrjú afa- og ömmubörn og
er alveg óhætt að segja að þau hafi
elskað afa sinn því svo var hann stolt-
ur af þeim.
Eyjólfur var yngstur okkar systk-
inanna, hann var fjórtánda barn for-
eldra okkar og naut hann þess svo
sannarlega. Ég get enn séð í hugan-
um mynd af litlum ljóshærðum snáða
hlaupandi um gólf vestur á Ísafirði.
Eða fundið litla fætur strjúkast við
mína fætur þegar við bræðurnir vor-
um að fara að sofa, við sváfum í sama
rúmi inni hjá mömmu og pabba
fyrstu árin. Það er svo óralangt síðan
en þó svo stutt og þó að sorgin og
söknuðurinn sé mjög erfiður og
hreinlega yfirþyrmandi er samt svo
yndislegt að hafa mátt eiga þig sem
bróður og góðan vin.
Kæri bróðir.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
(V. Briem.)
Elsku Sigga mín, Bryndís, Agnar,
Dagbjört, Gunnar, Sóley, Höskuldur
og Katrín. Megi Guð styrkja ykkur í
þeirri miklu sorg sem á ykkur er lögð.
Þess bið ég ykkur til handa, Ykkar
vinur
Sigmundur.
Elsku besti afi minn:
Ávallt svo góður og glaður
göfuglyndur, okkar maður.
Ófá skiptin þú brást á leik
og okkar hjörtu gladdir
með þínum gamanleik.
Baráttuna, langa og stranga, þú háðir.
Hvílík harkan sú er í þér bjó
að aldrei þú hváðir.
Vonina þú aldrei misstir.
En að lokum voru þér vængir ljáðir.
Man ég að eilífu er þú mig síðast kysstir.
Afi minn, ég elska þig.
Veit þú munt mér yfir vaka
er ég fer um eða frá þessum klaka.
Afi minn, þú ert hetjan mín.
Dagbjört.
Elsku afi.
Þér skal ég aldrei gleyma,
heldur láta mig í vöku dreyma
um hann afa Eyja sveima
um Sóleyjarheima.
Elska þig.
Þín
Sóley.
Elskulegur bróðir, vinur og mágur
er horfinn á braut, alltof ungur, ekki
nema 62 ára. Eyjólfur var yngstur
fjórtán systkina og skrítið er það að
ég sem þessar línur rita skuli vera
orðin elst. Við fæddumst 8 stúlkur og
6 drengir, en ein stúlkan dó í bernsku
og heiti ég eftir henni. Við sem lifðum
vorum því þrettán en erum nú sex eft-
ir á lífi, 5 stúlkur og einn bróðir.
Ég vil þakka Sigmundi bróður og
hans elskulegu konu fyrir alla hjálp-
ina. Þau komu frá Ólafsfirði til að
létta undir með Sigríði mákonu og
voru hjá Eyjólfi til hinstu stundar.
Þeir bræðurnir voru mjög nánir eftir
að þeir fullorðnuðust.
Ég ætla ekki að fara yfir lífshlaup
Eyja brósa, en það kallaði ég hann
alltaf. Ég vil bara þakka honum allan
hans kærleik sem hann sýndi okkur
gamla settinu, eins og við grínuðumst
oft með, og allar hringingarnar bæði
hérlendis og erlendis.
Alltaf þegar við vorum í Keflavík
þá hringdi hann og sagði: Hvernig er
heilsan og hvernig er veðrið hjá ykk-
ur í dag? Það er sól og blíða í firð-
inum, drífið ykkur í heimsókn. Og
alltaf þegar að við komum í Hafnar-
fjörðinn urðum við að þiggja veiting-
ar hjá Siggu minni og þá spurði vin-
urinn hvort að við ættum að fara í
Húsdýragarðinn eða Grasagarðinn,
þannig að alltaf varð úr þessu heil-
mikil upplyfting .
Einu sinni þegar við vorum í kaffi
hjá honum og Siggu þá spurði hann
hvort að við ættum að kíkja á Agga
bróður. Þá var brennt í kirkjugarðinn
í Fossvogi og alltaf var leiðið hans
jafn fallegt, því Eyji og Sigga hugs-
uðu um það. Hann var svo einstak-
lega kærleiksríkur.
Eyji og Sigga komu í heimsókn til
okkar á Spáni. Þau leigðu íbúð rétt
hjá okkur og áttum við yndislegar
stundir með þeim. Mikið keyrt, mikið
skoðað og mikið borðað. Við Garðar
fórum líka með þeim í sumarbústað í
Meðalandi, það átti að reyna að veiða.
Eyji var búinn að fá tvær bleikjur
þegar við komum og þær voru borð-
aðar, Sigga kryddaði og Eyji grillaði.
Okkur er svo mikið í minni allar
góðu stundirnar sem við áttum sam-
an og alla þessa vinsemd og vissu að
það væri alltaf verið að fylgjast með
manni. Eyjólfur var sérstakt snyrti-
menni og alltaf svo smekklega klædd-
ur. Þeim hjónunum þótti sérlega
gaman að dansa og held ég að þau
hafi síðast dansað í brúðkaupi sem við
vorum í hjá frænku okkar síðastliðið
sumar.
Elsku besti bróðir minn, nú þjáist
þú ekki meira og það hefur verið vel
tekið á móti þér.
Við biðjum góðan guð að styrkja og
vaka yfir Siggu, Bryndísi, Agnari,
Dagbjörtu, Gunnari, Sóleyju litlu,
Höskuldi og Katrínu.
Farðu í friði, friður guðs þig blessi.
Hafðu þökk fyrir allt og allt.
Svava og Garðar
Anna Björk Erlingsdóttir
✝ Gylfi Karlssonfæddist í
Reykjavík 4. febr-
úar 1966. Hann
lést á Landspít-
alanum í Fossvogi
hinn 19. febrúar
síðastliðinn. For-
eldrar hans voru
Karl Hólm Helga-
son múrari, f. 7.
mars 1930, d. 21.
nóvember 2001, og
Selma Sigurveig
Gunnarsdóttir, f.
5. júní 1936, d. 30.
nóvember 2006. Systkini Gylfa
eru: 1) Guðný Jóhanna, f. 10.
júlí 1956, maki Eyjólfur Ólafs-
son. 2) Hörður, f. 22. ágúst
1957, d. 12. september sama
ár. 3) Pálmi, f. 24. maí 1959, d.
11. október 2002, eftirlifandi
maki Helga Jóhanna Hrafn-
kelsdóttir. 4) Gígja, f. 21. ágúst
1961, maður hennar Anton Sig-
urðsson. 5) Þórey, f. 16. sept-
ember 1964, d. 28.
apríl 1965. Hálf-
systkini Gylfa eru:
6) Rannveig
Hrönn Harð-
ardóttir, f. 7. jan-
úar 1955, maki
Sævar Björnsson.
7) Hilmar Þór
Karlsson, f. 10.
apríl 1951, maki
Mem Karlsson. 8)
Albert Sölvi Karls-
son, f. 28. maí
1953, d. 17. febr-
úar 1997. Gylfi
lætur eftir sig eina dóttur,
Rakel Ósk, framhalds-
skólanema, búsetta í Dan-
mörku, f. 15. febrúar 1990.
Barnsmóðir Gylfa er Berglind
Levisdóttir.
Gylfi starfaði lengst af sem
sendibílstjóri.
Útför Gylfa verður gerð frá
Fossvogskirkju í dag og hefst
athöfnin klukkan 15.
Elsku besti pabbi minn. „Ég lifi,
og þér munuð lifa,“ stendur skrif-
að, og þó að þú sért nú horfinn
héðan munt þú áfram lifa. Lifa á
nýjum stað með ömmu, afa og
Pálma og áfram munt þú lifa í
mínu hjarta. Þú munt lifa uns við
hittumst á ný.
Aðstæðna vegna hittumst við
ekki oft, en ég þekkti vel þinn
innri mann. Þú varst góður og
skemmtilegur og þú vildir allt fyrir
mig gera. Og þrátt fyrir veikindi
þín og fjarlægðina á milli okkar
gerðir þú kröfur tíl mín, að ég ætti
að standa mig vel í skólanum og í
dansi, já, bara í öllu því sem ég
tæki mér fyrir hendur. Og allra
mikilvægast var, að ég ætti að
forðast vandræði, að lífið væri of
dýrmætt til að spilla því. Það er
rétt, pabbi, lífið er dýrmætt, og ég
mun fara að óskum þínum og aldr-
ei spilla því.
Seinasta sumar þegar ég var á
Íslandi hittumst við og þú sýndir
mér stoltur nýja mótorhjólið þitt,
sagðir að þú ætlaðir að koma á því
til Danmerkur að heimsækja mig
og keyra um landið, en áður en að
því kom dó amma Selma og það
var þér bara of mikið og lífið varð
þér erfitt á ný.
Elsku pabbi, loks hefur þú feng-
ið friðinn og ég kveð þig í bili, því
ég veit að við munum hittast á ný,
en þangað til:
Þú verður þar sem að sólin skín,
þar sem sólin sest, þar sem sólin rís.
Þú verður þar, þú verður alls staðar.
Mín ást til þín er endalaus.
Þín einasta.
Rakel Ósk.
Þá er komið að hinstu kveðju-
stund, og þrátt fyrir að ég vissi að
það kæmi að þessum degi, þá kom
mér þetta á óvart, en nú eftir að
hafa skoðað líf þitt seinustu ár, þá
skil ég þig svo vel. Þú hefðir viljað
gera hlutina öðruvísi en þú gerðir,
en það er ekki alltaf auðvelt að
rata réttu leiðina.
Það sem þú getur verið stoltur
af, er dóttir okkar, Rakel Ósk, sem
er svo lík þér í lundu. Hún mun
halda nafni þínu á lofti og hún mun
virða lífið að verðleikum, því það
sem að þú kenndir henni er það
dýrmætasta sem hún hefur með í
sínu farteski í dag – að lífið er dýr-
mætt og okkur ber að fara vel með
það.
Ég veit að nú ert þú í faðmi
þeirra persóna sem þú elskaðir
mest og nú færð þú þann frið sem
þú hefur þráð svo mikið og svo
lengi.
Elsku Guðný, Hrönn, Gígja og
aðrir ástvinir, ykkar missir er mik-
ill og ég votta ykkur mína dýpstu
samúð.
Berglind Levisdóttir.
Elsku Gylfi minn. Litli bróðir,
mikið er erfitt að þurfa að kveðja
þig svona ungan, rétt orðinn 41
árs.
Þú varst hvers manns hugljúfi,
brosmildur, skapgóður og með al-
veg einstakan húmor, enda afskap-
lega vinmargur. Á sífelldu spani á
skellinöðrunni, að bera út Morg-
unblaðið á hestinum þínum í Blesu-
grófinni eða skipuleggja einhver
prakkarastrik. Þú varst alveg ótrú-
lega mikill fiktari og uppátækja-
samur en handlaginn með eindæm-
um þó að það gengi nú ekki alltaf
upp hjá þér að koma hlutunum
saman aftur, sem þú varst búinn
að taka í sundur, til að sjá hvernig
þetta væri allt saman að innan,
hvort sem það voru nýju jólagjaf-
irnar okkar systkinanna eða eitt-
hvað annað, við lítinn fögnuð okk-
ar. Það voru nú nokkuð margar
dúkkurnar sem fundust undir rúmi
eða inni í skáp, alveg sköllóttar eða
með grænt hár, sem þú hafðir ekki
hugmynd um af hverju voru svona.
Þú hoppaðir um sem lítill pjakkur,
með annan fótinn í spelku upp að
nára en það aftraði þér ekki frá
einu eða neinu, enda þrjóskastur
allra.
Það voru ófá kvöldin sem þú og
Pálmi bróðir eydduð hálfir ofan í
húddinu á einhverjum amerískum
kagganum. Þið voruð ótrúlega góð-
ir saman. Með bíladellu þar sem
bílar voru ykkar helsta áhugamál.
Ég var nú orðin nokkuð góð í að
þekkja bílategundir og vita um vél-
arstærðir, þar sem ég hafði oft set-
ið í félagsskap ykkar á meðan rætt
var um mögulegar og yfirstand-
andi viðgerðir eða „tjúningar“.
Já, það var mikið glens og gam-
an í kringum þig, Gylfi minn.
Yngstur okkar systkinanna og
augasteinninn hennar mömmu.
Þegar þú fórst út sagðir þú oftast:
„Mamma, þú verður svo heima
þegar ég kem,“ og þótt þú hafir
verið frekur á athygli mömmu var
engin spurning um ástina sem þú
hafðir á henni og hún á þér.
Uppeldið á okkur systkinunum í
Blesugrófinni var nú oft á tíðum
ansi frjálslegt ef svo mætti segja,
flestir gerðu nú bara það sem þeir
vildu og mamma mátti hafa sig alla
við til að hafa einhverja smástjórn
á mannskapnum, og oft varst það
þú, Gylfi minn, sem gekkst þar
fremstur í flokki til að fá þínu
framgengt. Ég man þó um árið
þegar mamma og pabbi fóru til
Danmerkur að ég og Eyjólfur
pössuðum þig, Pálma, og Gígju. Þá
verð ég að segja að Eyjólfur hafi
eftir að hafa séð ykkur í gír, búist
við miklu fjöri og jafnvel meira en
það. Sú varð þó ekki raunin því
eins og hann sagði þá voruð þið
eins og hugur manns og ekki síst
þú, Gylfi minn. Þú sem varst prúð-
mennskan og kurteisin uppmáluð.
Svo stilltur og góður. Þetta var
vegna þess að þrátt fyrir öll þín
uppátæki var ekki til neitt slæmt í
þér. Þú reyndist þeim sem á þurftu
að halda vel. Varst duglegur til
vinnu og ósérhlífinn. Þú hafðir
ástríðu fyrir bílum og mótorfákum
og keyptir ótal mörg slík farartæki
um ævina sem þú að jafnaði áttir
eitthvað við, lagaðir og betrum-
bættir.
Þetta er sá bróðir sem þú varst
fyrir mér. Seinni hluta ævinnar
gekkst þú í gegnum erfiða tíma og
varst ólíkur sjálfum þér. Að lokum
náði sjúkdómur þinn yfirhöndinni
og líf þitt endaði skyndilega. Þrátt
fyrir allt sem á gekk sit ég eftir
full þakklætis yfir að hafa kynnst
þér og átt þig sem bróður. Þú skil-
ur eftir þig fallega stelpu, Rakel
Ósk, sem mun halda minningu
þinn lifandi. Að endingu, Gylfi
minn, vona ég svo sannarlega að
pabbi, mamma og Pálmi bróðir
taki vel á móti þér og þið bræð-
urnir haldið áfram að tala um mót-
orhjól og fornbíla.
Elsku Rakel Ósk, ég votta þér
og öðrum ættingjum mína dýpstu
samúð.
Þín systir
Guðný.
Gylfi mágur minn er látinn, allt
of ungur. Þegar ég kynntist honum
var hann
11 ára gutti sem var litli bróðir
hans Pálma, glaðlyndur og örlaði
oft á prakkarasvip sem sýndi að
hann var tilbúinn í ævintýri og
hafði þor. Gylfi og fjölskylda
bjuggu þá í Blesugróf og fannst
mér þetta vera lítil draumasveit
inni í miðri Reykjavík. Gylfi undi
sér vel þar, aðstæður buðu upp á
mikið frjálsræði og gat hann verið
að stússast í hinu og þessu og
meira að segja var hann farinn að
gera upp gamlan bíl þó að hann
ætti langt í land með að fá bílpróf.
Ófáar voru heimsóknir hans til
okkar Pálma og símtölin mörg hjá
bræðrunum og voru umræðuefnin
mest um hugarefni þeirra beggja,
bíla og mótorhjól. Gylfi átti það til
að láta ímyndunaraflið fara á flug
og urðu sögurnar eða það sem
hann ætlaði að taka sér fyrir hend-
ur hálfýkt, þá hló minn maður
manna mest en stóri bróðir hristi
brosandi hausinn því Pálmi var
meira á jörðinni eins og sagt er.
Ég votta Rakel Ósk, systkinum og
öðrum aðstandendum mína dýpstu
samúð.
Hvíldu í friði.
Þín mágkona,
Jóhanna.
Gylfi Karlsson