Morgunblaðið - 01.03.2007, Síða 35

Morgunblaðið - 01.03.2007, Síða 35
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 1. MARS 2007 35 Meitlað kom hann ævinlega auga á það sem skipti máli og einbeita bar sér að. Skákin átti hug hans. Hann var um áratugi einn af allra sterkustu skák- meisturum landsins, tefldi fyrir Ís- land á erlendri grund og var Íslands- meistari. Síðustu árin átti hann sér í skákinni heiðríkan heim ofar skýjum og fann þar bæði styrk og ánægju. Víða liggja vegamót. Ósjaldan leit- aði ég til Ingvars þegar vegir greind- ust í ólíkar áttir. Aldrei kom ég að tómum kofunum og ævinlega reynd- ust ráð hans vel. Nú er skarð fyrir skildi. En Ingvar Ásmundsson skilur eftir í huga þeirra vina sinna sem enn eiga eftir „ófarið örstutt æviskeið“ minningu um traustan vin. Vafalítið munum við spyrja þegar við tökumst á við margflókin úrlausnarefni þar sem þoka hylur útsýn: Hvar er Ingv- ar? Ef lífsgátan er rétt ráðin á þann veg að líf sé eftir þetta líf eigum við e.t.v. eftir að raða upp á sextíu og fjögurra reita borð í góðu tómi eða sitja saman og ræða stöðuna á sýn- ingarborði einhvers skákmótsins. Þá gefst tími til að fara yfir margt sem fórst fyrir í skyndilátum hversdags- ins. Guðrúnu, börnum Ingvars, ætt- ingjum og vinum sendi ég mínar sam- úðarkveðjur. Guðm. G. Þórarinsson. Fyrstu minningar mínar um Ingv- ar ná röska hálfa öld aftur í tímann er hann hóf að venja komur sínar á Hót- el Skák, en svo nefndist heimili for- eldra minna svo lengi sem mig rekur minni til. Um þessar mundir voru „æfingarbúðir“ Hótels Skákar í sum- arbústað fjölskyldunnar nokkuð vest- an við gamla Grafarholt en þangað sóttu fjölmargir einstaklingar sem flestir ef ekki allir urðu síðan lands- kunnir skákmenn, bæði andlega og líkamlega skákþjálfun sína um margra ára skeið. Ingvar var þá í menntaskóla, hár, grannur með svart burstaklippt hár síbrosandi eða hlæjandi, kvikur í hreyfingum og vaskur við skákborðið sem og í fótboltanum sem jafnan var tekið til við eftir hverjar fjórar til fimm umferðir í skákinni. Þetta var á þeim árum upp úr 1950 þegar aldrei rigndi um helgar, að minnsta kosti ekki í minningunni, teflt var undir berum himni að jafnaði á 10–15 borð- um, dásamlegir og ógleymanlegir tímar. Þótt Ingvar væri sex árum eldri en ég fékk ég að njóta með- fæddrar samræðusnilldar hans ekki síður en þeir sem eldri voru. Næst rekur okkur Ingvar saman svo um munaði þegar hann gerðist kennari minn í stærðfræði við menntaskólann á Laugarvatni frá 1957–61. Þar var hann í hlutverki hins faglega uppalanda og lagði höfuð- áherslu á nákvæmni í vinnubrögðum og að dýpka skilning á sönnun stærð- fræðikenninga. Ingvar var afburða stærðfræðikennari og bar hag nem- enda sinna mjög fyrir brjósti. Hann gerði ekki upp á milli nemenda sinna og gerði strangar kröfur til allra óháð vináttu og ætterni. Eftir að Ingvar hætti kennslu á Laugarvatni hóf hann komur sínar enn á ný á Hótel Skák og tefldi í bak- aríi föður míns ásamt fjölda annarra skákmanna. Þegar heilsu föður míns tók að hraka, heimsótti Ingvar for- eldra mína reglulega ásamt Dúnu sinni og voru þau með fádæmum ræktarsöm við þau fram til hinstu stundar. Mikil vinátta var milli Ingvars og eldri systkina minna, Þórarins og Önnu sem bæði féllu frá langt um ald- ur fram. Þá vorum við Ingvar félagar í stórum skákklúbbi sem var gefið nafnið Bakaríið Enn lágu leiðir okkar saman í stjórn Iðnskólans í Reykjavík um nokkurra ára skeið og bar aldrei skugga á það samstarf. Ingvar tók veikindum sínum af mikilli karlmennsku og barðist við þau með einstakri hjálp Dúnu langt umfram eðlileg þolmörk. Hann var ástríðuskákmaður af hæsta gæða- flokki og hélt ótrúlegum skákstyrk fram undir það síðasta. Ég og fjölskylda vottum Dúnu, sonum þeirra, systkinum og ástvinum dýpstu samúð okkar á þessum erfiðu tímum. Edgar Guðmundsson. Kveðja frá samstarfsmönnum við Iðnskólann í Reykjavík Ingvar Ásmundsson tók við skóla- stjórn Iðnskólans í Reykjavík árið 1980. Hann hafði þá getið sér gott orð sem öflugur og vinsæll stærðfræði- kennari í menntaskólum um árabil og einnig sem millistjórnandi við Menntaskólann við Hamrahlíð og Fjölbrautaskólann í Breiðholti þar sem hann tók virkan þátt í brautryðj- endastarfi beggja skólanna á áttunda áratug síðustu aldar. Reynsla hans sem fjármálastjóri Rafmagnsveitu Reykjavíkur var líka Iðnskólanum dýrmæt og síðast enn ekki síst var Ingvar þjóðkunnur skákmaður sem hafði ásamt félögum sínum af sömu kynslóð gert Ísland að stórveldi í skákheiminum, þar var hann þekktur fyrir hæfileika, útsjón- arsemi og seiglu. Fljótlega kom í ljós að þessa eig- inleika hugðist hann nýta til hins ýtr- asta í þágu skólans og starfsmennt- unar og fór líkt og Arkimedes að leita að viðspyrnu til að koma hlutunum á hreyfingu. Eitt það fyrsta sem hann beitti sér fyrir var að innleiða áfanga- kerfið inn í Iðnskólann og í framhaldi af því í fleiri starfsmenntaskóla en jafnframt því að stjórna Iðnskólanum var hann formaður skólanefndar Vél- skólans. Þessi kerfisbreyting tengdi betur saman bóknámsskólana annars vegar og starfsmenntaskólana hins vegar og auðveldaði nemendum að flytjast milli skóla og fá fyrra nám sitt metið. Í framhaldi varð síðan að hraða tölvuvæðingu skólans þar sem flókin töflugerð og umfangsmikið nemendabókhald krafðist þess. Þar sýndi Ingvar mikla framsýni og íslenskir skólar náðu þar forskoti í tölvuvinnslu og gagnaumsýslu sem þeir búa enn að. Næstu skref voru að innleiða tölvu- nám í allar iðngreinar og koma á fót öflugri tölvubraut við skólann og bæta þar með úr brýnni þörf í ís- lensku athafna- og atvinnulífi á hald- góðri menntun á því sviði. Þetta gerði Ingvar þrátt fyrir harkaleg mótmæli þröngsýnna aðila sem ekki töldu þörf á sérhæfðri tölvumenntun og töldu hana aðför að sérhagsmunum sínum. Um miðjan níunda áratuginn fékk svo Iðnskólinn heimild til að útfæra sérstaka tæknistúdentsbraut sem gerði miklar kröfur til nemenda. Sú braut hefur nú um rúmlega tveggja áratuga skeið auðveldað fjölmörgum iðnaðarmönnum og öðrum sem lokið hafa starfsmenntun að afla sér frek- ari menntunar. Hann lagði alla tíð áherslu á gildi almennra greina, ekki síst raungreina, sem nauðsynlegan þátt í allri starfsmenntun. En sýn Ingvars á menntun náði til fleiri en þeirra sem eiga auðvelt með nám. Undir stjórn hans var unnið braut- ryðjendastarf við greiningu og náms- aðstoð við lesblinda og aukið og eflt námsframboð fyrir seinfæra nem- endur á sérstökum námsbrautum. Segja má að með þessu starfi sem tekið hefur verið upp víðar í skóla- kerfinu hafi ákveðnum fordómum gagnvart þessum hópum verið eytt og nú vilja allir skólamenn þessa Lilju kveðið hafa. Þegar Rauði krossinn og fleiri að- ilar leituðu eftir samstarfi við Iðn- skólann um að koma á fót sérstöku tölvu- og bókhaldsnámi fyrir mænu- skaddaða fannst Ingvari sjálfsagt að bjóða afnot af tölvubúnaði skólans og kennslustofum enda var það besta að- staðan sem fannst í skólakerfinu. Þetta starf hefur svo vaxið og dafnað og er í dag rekið sem sjálfstæð stofn- un undir nafninu Hringsjá. Á sama hátt tók hann vel á móti forsvars- mönnum Janusar endurhæfingar og veitti þeim góða fyrirgreiðslu og að- stoð en það sjálfstyrkingar- og fræðslustarf er enn rekið í nánum tengslum við Iðnskólann. Hann orðaði sjálfur stefnu sína í skólamálum á einfaldan hátt.: „Sem mesta menntun fyrir sem flesta“. Hann beitti sér mjög fyrir bættu verklagi við stjórnun og skipulagn- ingu og var frumkvöðull í því að inn- leiða hugmyndafræði altækrar gæða- stjórnunar í skólastarf. Einnig lagði Ingvar mikla áherslu á að skólinn væri rekinn á öflugan og hagkvæman hátt og lagði metnað sinn í að fjárhagsleg afkoma hans væri góð sem er svo sannarlega ekki alltaf auðvelt í íslenska framhalds- skólakerfinu. Samhliða annasömu starfi við Iðn- skólann tók Ingvar mjög virkan þátt í samstarfi skólastjórnenda enda gerði hann sér grein fyrir hve miklu máli það skipti fyrir starfsmenntanámið að áhrif stjórnenda þeirra skóla væru mikil í skólasamfélaginu. Hann var um nokkurt árabil for- maður skólameistarafélagsins og efldi mjög áhrif og styrk þess félags, ekki síst sem hagsmunafélags fyrir skólana í stöðugri glímu við fjárveit- ingavald og miðstýringaröfl. Einnig skipti þátttaka hans og stjórn í Sam- bandi iðnmenntaskóla og Iðnskólaút- gáfunni sköpum en starfsemi þessara samþættu aðila jókst mjög á þessu tímabili og Iðnskólaútgáfan varð að öflugu útgáfufyrirtæki. Síðustu árin við Iðnskólann mætti Ingvar nokkrum mótbyr í starfi og á svipuðum tíma veiktist hann alvar- lega og dró það eðlilega úr starfs- þreki hans og baráttuanda. Erfitt er að skilgreina nákvæmlega hvað gerð- ist en stjórnunarstíll hans var stund- um nokkuð umdeildur og í framhaldi af kjarasamningum sem drógu úr miðstýringu og fluttu kjaraágreining í ríkari mæli inn í skólana var hrundið af stað erfiðri atburðarás. E.t.v. má segja að Ingvari hafi látið betur og verið vanari að skapa at- burðarásina en að láta stjórnast af henni. Hann var sjálfum sér samkvæmur, hvikaði hann hvergi heldur strengdi klóna og sigldi upp í hvassan beiti- vind. Eftir nokkuð stormasama sigl- ingu ákvað hann þó að halda í var og einbeita sér að því að takast á við erf- ið veikindi. Hann fór því á eftirlaun sem hann hafði svo sannarlega unnið fyrir árið 2000. Það reyndist vera rétt ákvörðun því að hann náði sér að nokkru og gat aftur sinnt ýmsum hugðarefnum svo sem skákinni en þar náði hann frá- bærum árangri og tefldi víða um heim og sannaði óumdeilanlega eins og þeir Kortsnoj, Nadorf og fleiri skákmeistarar hafa gert að tafl- mennskan er ekki bara íþrótt hinna ungu. En krabbameinið er erfiður and- stæðingur og það tók sig upp aftur á óvæginn hátt. Síðustu vikurnar dvaldi Ingvar á líknardeild Landspítalans og þegar nokkrir vinir hans úr Iðnskólanum hittu hann þar nokkrum dögum fyrir andlát hans var auðsætt að hverju stefndi. Það var líka ljóst að þessi mikli keppnismaður var búinn að gera sér fulla grein fyrir því að lífsins skák var töpuð. En æðruleysi hans og hugarró benti líka til þess að Ingvar sæi eins og svo oft áður lengra fram í tímann og undirbúningur fyrir næstu skák væri hafinn. Þar verður eins og jafnan hjá honum, teflt til sigurs. Við samstarfsmenn Ingvars og vin- ir þökkum fyrir samvinnuna og leið- togastarfið og sendum eftirlifandi konu hans, sonum þeirra og fjöl- skyldu hans allri okkar innilegustu samúðarkveðjur. Í dag verður jarðsunginn Ingvar Ásmundsson, félagi minn og vinur til margra ára. Kynni okkar Ingvars hófust fyrir nokkrum áratugum í heimi skáklist- arinnar. Hann öflugur skákmaður og ég áhugamaður um félagsmál tengd Skáksambandi Íslands. Við vorum ekki alltaf samstiga í málefnum skák- hreyfingarinnar en brennandi áhugi hans og beinskeytt tilsvör hrifu okkur marga mjög fljótt. Síðar lágu leiðir okkar saman í Skólameistarafélagi Íslands og mál- efnum tengdum framhaldsskólastig- inu. Ingvar varð snemma öflugasti talsmaður áfangakerfisins og missti aldrei sjónar á þeirri hugmyndafræði sem Guðmundur heitinn Arnlaugs- son, rektor MH, hafði fært okkur með nýju kerfi – áfangakerfinu. Við Ingvar störfuðum lengi saman í Félagi áfangaskóla og hann var æv- inlega trúr þeirri hugsjón sinni að skólakerfið ætti að þjóna eins breið- um hópi ungmenna og unnt væri. Þannig væri skólakerfið uppbyggi- legt afl fyrir líf sem flestra einstak- linga og því þáttur í að skapa gott samfélag. Síðastliðið vor bað ég Ingvar að halda ræðu á 25 ára afmælishátíð Skólameistarafélags Íslands. Ég hafði dálitlar áhyggjur af því að það yrði honum erfitt sakir langvarandi veikinda hans. Það reyndist óþarfi. Ræðan, sem Ingvar flutti um hlut- verk okkar í heilbrigðu skólakerfi, var snjöll. Brennandi áhugi hans var ótvíræður og mér varð hugsað til þess að sú skýra sýn, sem Ingvar hafði, er það sem gerir menn að leiðtogum. Ingvar var helsti leiðtogi okkar í hug- myndafræði áfangakerfisins. Við erum mörg sem kunnum Ingv- ari þakkir fyrir hugsjón hans og framtak. Ingvar var fyrsti formaður Skólameistarafélags Íslands og stýrði félaginu af röggsemi fyrstu tíu árin. Hann var gerður að heiðurs- félaga og síðar sæmdur gullmerki fé- lagsins. Ég votta Guðrúnu eiginkonu Ingv- ars, börnum og öðrum ættingjum hans samúð mína. Blessuð sé minning um félaga og góðan dreng. Þorsteinn Þorsteinsson. Ingvar var áfangastjóri við Fjöl- brautaskólann í Breiðholti 1978 en þá kenndi ég við skólann. Það var þó ekki fyrr en mörgum árum seinna þegar ég var orðin skólameistari skólans og formaður bókaútgáfunnar Iðnú að ég kynntist honum vel. Ingvar var formaður Sambands iðnmenntaskóla í mörg ár og sat ég alla fundi þess vegna tengsla minna við útgáfuna sem sambandið átti. Hann lagði ríka áherslu á að megin- hlutverk Sambands iðnmenntaskóla væri að standa vörð um iðn- og tækni- menntun í landinu og lét ekkert tæki- færi ónotað til að efla hana. Stofnun bókaútgáfunnar Iðnú var mikið fram- faraspor en hún hefur aðallega lagt áherslu á útgáfu kennslubóka í iðn- og verkgreinum sem aðrar útgáfur hafa ekki sinnt vegna fárra nemenda. Samstarf okkar var alla tíð mjög gott og það var ómetanleg reynsla fyrir mig að starfa með Ingvari. Hann var ákveðinn, fljótur að taka ákvarð- anir og tefldi marga sóknarleiki, eins og hann var svo kunnur fyrir á skák- borðinu, iðnmenntuninni til heilla. Innilegar samúðarkveðjur til eig- inkonu og fjölskyldu Ingvars. Kristín Arnalds. Mörg spekin frá skóladögum fyrri ára koma í hugann, þegar Ingvar Ás- mundsson, lærifaðir og vinur, er genginn yfir landamæri lífs og dauða. Hann var frábær kennari og þegar bókum sleppti virtist Ingvar einnig hafa numið og tileinkað sér siðina og heilræðin, sem gott fólk tamdi sér á fyrri tíð. Mátti því margt af honum læra. Hollt er að minnast fjölda slíkra atriða, s.s. að meta friðsæld þagnar- innar; að forðast hávaðasamar per- sónur; að flýta sér hægt; að hlusta fyrst og tala svo; að taka hverjum degi af æðruleysi og leitast við að njóta hverrar stundar. Þótt Ingvar væri ekki skaplaus maður og hefði mikinn keppnisanda við skákborðið var sjaldan hægt að raska ró hans vegna hins mikla sjálfs- aga og festu, sem hann bjó yfir. Ljúf- lingur var hann í hópi vina sinna og bjó yfir góðri kímnigáfu. Þannig mætti lengi telja kosti þessa einstaka samferðamanns, sem ávallt var gefandi, ráðagóður og djúp- ur í hugsun. Hvað sem bar á góma, s.s. skáldverk, skrif af ýmsum toga eða þessi margslungna tilvera, þá var hann alltaf sá, sem greindi manna best kjarnann frá hisminu og bjó til ljósa mynd af umræðuefninu. Eftir nærri daglegar gönguferðir árum saman í öllum veðrum verður erfitt að stunda útivistina af sama áhuga. Þeirri andlegu viðrun, sem þar átti sér stað, verður ekki komið á aftur með sama hætti. Miðlarinn mikli er horfinn á braut. Það er með þungum trega, sem við hjónin kveðjum góðan vin og þökkum honum og konu hans styrka og sanna vináttu liðinna áratuga. Guðrúnu Jóhönnu og sonum þeirra Ingvars, Áka, Ásmundi og Þórði og fjölskyldum sendum við innilegar samúðarkveðjur. Góður drengur genginn er og við þökkum forsjóninni fyrir hann. Hrafn Pálsson. Kveðja frá Skáksambandi Íslands „Það er hann sem við eigum að vera að hylla!“ sagði danski stór- meistarinn og Íslandsvinurinn Bent Larsen við mig á Hótel Loftleiðum árið 2003 og benti á Ingvar Ásmunds- son. Bent sagðist hafa djúpa aðdáun fyrir þeim brennandi áhuga, þreki og styrk sem Ingvar sýndi á skákborð- inu kominn langt að sjötugu. „Hann teflir meira en við öll til samans!“ sagði Bent fullur ákafa. Það eru fáir sem munu leika þetta eftir Ingvari Ásmundssyni. Hann tefldi af meiri þrótti, gleði og krafti eftir því sem árin færðust yfir og hann lét sig aldrei vanta á öflug skák- mót. Hann var í sókn fram á síðustu stund. Það kom enda á daginn á Heimsmeistaramóti öldunga að Ingv- ar Ásmundsson var hársbreidd frá því að ná stórmeistaratign í skák árið 2003, þá 69 ára að aldri. Það eitt segir meira en mörg orð. Ingvar komst í fremstu röð ís- lenskra skákmeistara um tvítugsald- ur og hann hélt sér í fremstu röð sleitulaust allt til dánardags. Ingvar varð Hraðskákmeistari Íslands árið 1960 og 1975, Skákmeistari Íslands árið 1979 og hann tefldi fyrir Íslands hönd á Ólympíuskákmótum árið 1968, 1974 og 1978. Glæst framganga hans á alþjóðlegum mótum vakti jafn- an athygli í gegnum árin, svo sem á World Open í Fíladelfíu árið 1978 og á Evrópumóti taflfélaga með Helli árið 2001. Ingvar samdi ásamt Friðriki Ólafssyni bókina Lærið að tefla, skrifaði fastan skákdálk í Alþýðu- blaðið árin 1957–1966 og flutti um árabil reglulegan skákþátt í Ríkisút- varpinu. Hann sat í stjórn Taflfélags Reykjavíkur 1951–52 og Skáksam- bands Íslands 1968–69. Ingvar varð einna fyrstur Íslendinga til að nýta sér tæknina til hins ýtrasta og tefla reglulega á netinu. Hann tefldi um 40.000 skákir á netinu einu saman og komast fáir með tærnar þar sem hann hafði hælana í þeim efnum. Ingvar miðlaði til yngri kynslóðar- innar ábendingum sínum, þekkingu og reynslu, enda skólastjóri í eðli sínu. Ungu guttarnir, sem fannst hann stundum heldur hrjúfur á yf- irborðinu, lærðu með árunum að þekkja og meta mann sem var í senn mikill húmoristi og lærimeistari full- ur fróðleiks. Ingvar var skákmeistari sem gaf aldrei neitt eftir og þeir eru fáir sem hægt er að kynnast á lífsleið- inni sem höfðu jafn brennandi og óþrjótandi áhuga á skák. Hans verð- ur sárt saknað í íslensku skáklífi. Skáksamband Íslands sendir eftir- lifandi eiginkonu Ingvars, sonum og aðstandendum öllum hugheilar sam- úðarkveðjur. Minning um góðan dreng og framúrskarandi skákmeist- ara lifir með okkur öllum sem honum kynntust. F.h. Skáksambands Íslands, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir. Með Ingvari Ásmundssyni er fall- inn einn af merkari skákmeisturum þjóðarinnar og er óhætt að segja að íslensk skákhreyfing standi í mikilli þakkarskuld við hann. Þegar ég var að vaxa úr grasi í Taflfélagi Reykja- víkur upp úr 1970 komst ég fljótlega yfir bókina Lærið að tefla sem Ingvar var meðhöfundur að. Sú bók varð mér og mörgum ungum skákmanninum leiðarljós eins og margt annað á skák- ferli Ingvars. Eiginleikar Ingvars til að miðla af kunnáttu sinni og þekk- ingu komu skýrt fram á skáksviðinu sem og á menntasviðinu sem hann gerði að ævistarfi sínu. Segja má að Ingvar hafi með skák- skýringum sínum í blöðum og ljós- vakamiðlum markað djúp spor hjá mörgum kynslóðum íslenskra skák- manna. Þetta átti ekki síst við um þá sem urðu þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Ingvari persónulega. Ég var SJÁ SÍÐU 36

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.