Morgunblaðið - 01.03.2007, Blaðsíða 37

Morgunblaðið - 01.03.2007, Blaðsíða 37
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 1. MARS 2007 37 Bróðir Steinars var Haukur, læknir á Reykjalundi, en hann lést 4. október 2006. Mjög gott samband var á milli þeirra bræðra alla tíð. Heilsu Steinars hrakaði fyrir all- mörgum árum síðan. Hann vistaðist á Reykjalundi og síðar á Eir þar sem hann lést. Alltaf var gott að koma til Stein- ars. Hlutverk okkar snerist við ef svo má segja. Nú fékk ég að lesa fyrir hann og biðja með honum. Sunnudaginn síðasta í lífi hans las ég fyrir hann 100. sálm Davíðs sem fjallar um að þjóna Drottni með gleði og vegsama nafn hans. Ég vissi ekki þá að kall Drottins til Steinars væri svo nærri. Steinar þjónaði sannarlega í og með lífi sínu Drottni sínum og frelsara með gleði. Hann vegsamaði Drottin í öllu sem hann gerði mörgum til blessunar. Við sem eftir stöndum, félagar í KFUM, þökkum Drottni fyrir Steinar og allt það sem hann gaf af sjálfum sér úr þeim dýrmæta sjóði sem Guð gaf honum. Hugheilar samúðarkveðjur og þakklæti fyrir kærleiksríka um- hyggju fyrir Steinari til margra ára sendi ég Maríu mágkonu hans, dótt- ur hennar og börnum Hauks heit- ins. Blessuð sé minning Steinars Þórðarsonar. Ásgeir Markús Jónsson. Kallið var kærkomið. Síðustu misserin voru Steinari Þórðarsyni erfið. Langvarandi veikindi drógu úr honum allan mátt, en honum var vel hjúkrað og um hann hugsað af frábæru starfsfólki hjúkrunarheim- ilisins Eirar. Og nú er hann kominn til Herra síns. Það var stutt á milli fráfalls bræðranna á Bergþórugötu 15, Hauks og Steinars. Það var ekki heldur langt á milli fæðinga þeirra, árið 1928 og 1927. Það var einkum tvennt sem ein- kenndi æviár Steinars: 1) kristin trú og kristilegt æskulýðsstarf og 2) bókaáhugi og bókaverslun. Ég kynntist Steinari innan vé- banda KFUM, en þar var hann virk- ur félagi alla ævi. Drengja- og ung- lingastarfið í KFUM í Reykjavík var honum brennandi áhugamál. Sjálfboðastörfin taldi hann ekki eft- ir sér. Var ætíð reiðubúinn til góðra starfa, knýttist drengjunum vin- áttuböndum, lét sér annt um þá. Þeir fengu gott veganesti út í lífið. Áreiðanlega eru þeir margir, full- orðnir menn í dag, sem þakka leið- sögn Steinars og er ég einn þeirra. Sumarstarfið í Vatnaskógi var Steinari mikils virði. Skógarmenn KFUM með allri sinni starfsemi; Útivera, náttúruskoðun, fjöllin, vatnið og skógurinn allt um kring. Glens og gaman, íþróttir, leikir og kvöldvökur í skálanum við arineld- inn, söngurinn hljómaði, skaparinn var lofaður, hann tilbeðinn og hon- um falið allt ráð. Jesús sjálfur var nálægur! Í hópi vinanna var Steinar. Minnisstæðar eru heimsókn sænskra KFUM-skáta og danskra FDF-drengja sumarið 1948 og ut- anför stórs hóps Skógarmanna til Kaupmannahafnar og Stokkhólms 1950. Steinar var einn foringjanna í utanlandsferðinni. Margs er að minnast úr þeirri ferð. Fundi að- aldeildar KFUM í Reykjavík sótti Steinar eins lengi og kraftar leyfðu. Alltaf var gott að vita af honum meðal okkar. Á fleiri sviðum innan KFUM var hann virkur, eins og í skíðaklúbbnum Éljagangi, í Gideon- félaginu, í Biblíufélaginu og ekki lét hann sig vanta við guðsþjónustur í sóknarkirkjunni sinni, Hallgríms- kirkju. Til margra ára voru verslunar- störf Steinars samofin lífi miðborg- ar Reykjavíkur. Hann var andlit bókaverslunar Sigfúsar Eymunds- sonar í Austurstræti út á við og hjarta verslunarinnar inn á við. Fyrstur var hann kominn til starfa á morgnana og síðastur fór hann heim á kvöldin. Hann þekkti allar bækur og væru þær ekki til hjá Eymunds- son útvegaði hann þær fljótt og vel. Þegar nemendur hópuðust í versl- unina við skólabyrjun á haustin, leysti Steinar allan vandann. Þægi- legur, lipur, skilningsríkur og kurt- eis og viðmótið sérstaklega hlýlegt og ljúft. Auk bóksölu fékkst Steinar einnig um skeið við bókaútgáfu í frí- stundum ásamt góðum félögum. Þeir stofnuðu bókagerðina Lilju og gáfu út sígildar, kristilegar bækur og góðar barnabækur. Kristilegt æskulýðsstarf var hans stóra áhugamál og bóksala lífsstarfið. Kristin trú mótaði alla veru Stein- ars. Samfélagið við Drottin Jesú var jafnmikilvægt og andardrátturinn. Þegar veikindin herjuðu á var bænalífið auðugt. Nú ertu kominn til himinssala. Þar er ljúft að búa. Við Eiríka þökkum alla umhyggju og samfylgd. Biðjum þínum nánustu Guðs blessunar. Ásgeir B. Ellertsson. Kveðja frá KFUM og KFUK KFUM og KFUK kveður í dag ötulan liðsmann og tryggan fé- lagsmann, Steinar Þórðarson. Steinar helgaði líf sitt á margan hátt félagsstörfum KFUM. Þeim kynnt- ist hann þegar hann ungur tók þátt í yngri deild KFUM á Amtmannsstíg 2b og síðar eldri deildum félagsins en þau kynni entust út lífið. Steinar tók fljótt virkan þátt í starfinu og í marga áratugi var hann leiðtogi í unglingadeild fyrir stráka í KFUM- húsinu á Amtmannsstíg. Strákarnir í unglingadeildinni gerðu margt spennandi og nýstárlegt saman, sem bar vitni hugmyndaauðgi og natni leiðtoganna í deildinni. Það var ekki laust við að stelpurnar í unglingadeild KFUK horfðu öfund- araugum á það sem þeir tóku upp á. Í unglingastarfinu kynntist Stein- ar mörgum og sýndi þeim mikla um- hyggju og ræktarsemi. Hann var ákaflega mannglöggur og minnugur á nöfn. Margir muna hvernig hann heilsaði hlýlega með handabandi og nefndi nafn viðkomandi um leið. Hann var ávallt glettinn og gat gert að gamni sínu. Fleiri trúnaðarstörfum gegndi Steinar fyrir KFUM en unglinga- deildarstarfinu. Hann sat í stjórn Skógarmanna KFUM á árunum 1945–1959 og gegndi lengi starfi rit- ara. Hafði hann meðal annars það hlutverk á Skógarmannafundum sem haldnir voru vikulega yfir vetr- artímann í Reykjavík að telja og skrá drengi sem komu á fundina. Hann var einnig sjálfboðaliði í Vatnaskógi í sumarfríum sínum sem þá var mjög algengt og hjálpaði til við starfið. Steinar starfaði í Eymundsson bókaverslun alla sína starfsævi. Hann var mikill bókamaður og fékk KFUM og KFUK oft að njóta hæfi- leika hans á því sviði til dæmis varð- andi útgáfumál. Eftir að aldurinn færðist yfir og verkefnum í fé- lagsstarfinu fækkaði, fylgdist hann ávallt með starfinu á meðan hann gat og bað fyrir því. Steinar barðist við mikið heilsuleysi síðustu árin og dvaldi á Reykjalundi og síðast á hjúkrunarheimilinu Eiri. Við kveðj- um Steinar í virðingu og þökk fyrir framlag hans til félagsstarfs KFUM og KFUK og sem góðan félaga. Kristnir drengir, áfram allir! Aldrei víkja megið þér, sálu styrkja söngvar snjallir sigur þar til fenginn er. Guði hjá, himnum á, hittumst allir glaðir þá. (Friðrik Friðriksson.) Blessuð sé minning Steinars Þórðarsonar. F.h. stjórnar KFUM og KFUK, Kristín Sverrisdóttir. Vinur okkar og kær Gídeonbróð- ir, Steinar Þórðarson, hefur fengið hvíldina og er genginn inn til fagn- aðar herra síns. Steinar var einn af 17 stofnfélögum Gídeonfélagsins ár- ið 1945 og alla tíð trúr og dyggur fé- lagsmaður meðan heilsa entist. Hann var hógvær og lítillátur í anda meistara síns, en iðjusamur og ósérhlífinn til sérhvers góðs verks í þágu málefnis Drottins. Árið 1954 hóf Gídeonfélagið að dreifa Nýja testamentinu til 12 ára skólabarna og árlega heimsækja Gídeonfélagar um 170 grunnskóla landsins og af- henda tíu ára börnum persónulega Nýja testamentið. Fyrsta áratug- inn, eða svo, heimsóttu Gídeonfélag- ar aðeins skóla í þéttbýlinu. Testa- mentum til barna í dreifbýlinu var pakkað inn og þau send í pósti til viðkomandi skóla. Þessu verkefni stjórnaði Steinar og sinnti því af kostgæfni allan þann tíma, sem þessi háttur var hafður á. Alla tíð var starf kristni og kirkju Steinari hugleikið, hann fylgdist ekki bara vel með, heldur var hann virkur þátttakandi í öllu því góða og uppbyggilega starfi sem til bóta horfði og bætti mannlífið. Gilti þá einu hvort Gídeonfélagið átti í hlut, Skógarmenn KFUM, æskulýðsstarf KFUM eða kristni- boðsstarfið. Steinar vann um áratuga skeið hjá bókaverslun Eymundsson í Austurstræti og sinnti sínu verki þar af sömu trúmennskunni og sam- viskuseminni og honum var í blóð borin. Steinar var skarpgreindur, minn- ið ótrúlegt og þekkingin yfirgrips- mikil. Vegna starfa sinna hjá Eymunds- son hafði Steinar yfirburðaþekkingu á öllu því sem við kom bókum, enda var ómælt leitað til hans þess vegna. Hin síðari ár átti Steinar við erf- iðan heilsubrest að stríða, sem hann tók þó af æðruleysi og rósemi. Við í stjórn Gídeonfélagsins þökk- um Guði fyrir Steinar Þórðarson og biðjum minningu hans blessunar Guðs. Stjórn Gídeonfélagsins. Tvær myndir: Á sjöunda áratugnum: Steinar Þórðarson að leita að bókum fyrir móður mína í árlegum jólabókainn- kaupum hennar. Ég skil að þessi þunglamalegi maður viti það sem þarf um bækur. Á eftir njótum við systkinin þess að fara á Hressing- arskálann, borða rjómakökur og drekka súkkulaði á meðan upplýs- ingar Steinars eru meltar og ákvörðun tekin. Á níunda áratugnum: Hann er eins – ég fullorðin. Þetta eru tímar breytinga og við verðum vinnufélag- ar. Það er erfitt fyrir þau sem þekkja bara nútímabókabúðir, þar sem langur afgreiðslutími og kaffi- þjónusta skipta ekki minna máli en bókaúrvalið, að gera sér í hugarlund íslenska bókadeild Bókaverslunar Sigfúsar Eymundssonar í Austur- stræti í tíð Steinars Þórðarsonar. Þetta var heimur út af fyrir sig – ekki bara metsölubækur í hillum. Fyrirspurnir um íslenskar bækur bárust alls staðar að úr heiminum og oft var hægt að svara með því einu að opna skáp. Þetta var bóka- kista, upplýsingaþjónusta, sem hvergi er að finna í dag – á tímum tölvuvæðingar. Hagnaðarsjónarmið höfðu ekki ennþá náð yfirhöndinni en hagræðingin var í uppsiglingu. Steinar var að ljúka sinni vakt þegar samstarf okkar hófst og ljúf handleiðsla hans var mér góður skóli. Það er gott að sitja sitthvor- umegin við skrifborð þegar maður ber virðingu fyrir hinum og finnur að það er borin virðing fyrir manni. Steinar Þórðarson var ljúfur maður. María S. Gunnarsdóttir. Kveðja frá Éljagangsmönnum Það var fyrir um 57 árum að nokkrir ungir menn innan KFUM komu saman og ákváðu að festa kaup á skíðaskála sem þá var í smíð- um á Hellisheiði. Skálann nefndu þeir Éljagang. Einn þessara ungu manna var Steinar Þórðarson, okk- ar góði félagi sem nú hefur kvatt þetta líf. Nafn skálans festist fljótt við eig- endurna og voru þeir ávallt kallaðir Éljagangsmenn. Það fannst mörgum athyglisvert að Steinar skyldi sýna þessu máli áhuga, þar sem ekki var vitað að hann hefði stundað skíði. Reyndin varð sú að hann fór ekki að vetri til upp í skála til að renna sér á skíð- um. Áhugi Steinars var sá að þeir ungu piltar sem hann starfaði á meðal í unglingadeild KFUM við Amtmannsstíg gætu fengið tæki- færi til að fara saman upp til fjalla og njóta útivistar þar ásamt því að heyra fagnaðarerindið um Jesúm. Það var fyrst og fremst á þann hátt sem skálinn var nýttur af Steinari. Sú hefð skapaðist fljótlega að fé- lagarnir hittust mánaðarlega og þá til skiptis á heimilum hver annars eða uppi í skála. Steinar lét sig sjaldnast vanta á þessar samveru- stundir. Steinar var einn af þeim sem alltaf héldu tryggð við hópinn og sýndi hann mikla trúfesti í orði og verki. Ferðum Steinar á samverustund- irnar fækkaði eftir að hann veiktist og fluttist á Reykjalund, þar sem hann naut mikillar umhyggju bróð- ur síns, Hauks, en Haukur var yf- irlæknir stofnunarinnar. Haukur lést á síðasta ári. Þegar hópurinn hittist til að halda upp á 50 ára afmælið gladdi það okkur, sem stóðum að þeirri sam- veru, að Steinar kom til að vera með okkur um kvöldið. Ég held að Stein- ar hafi notið sín vel innan um sína gömlu félaga þrátt fyrir veikindin. Við kveðjum góðan vin og félaga og biðjum honum góðrar heimkomu í faðm Frelsarans sem var undir- staðan í lífi Steinars. Við biðjum aðstandendum hans og vinum blessunar Guðs. Narfi. ✝ Kæru vinir og vandamenn nær og fjær. Okkar innilegustu þakkir til allra þeirra sem veittu okkur hlýju og stuðning við andlát og útför föður okkar, afa, tengdaföður, fyrrverandi eiginmanns og bróður, GÚSTAFS R. ODDSSONAR leigubílstjóra, Við hugsum til ykkar með þakklæti og kærleika. Stella Gústafsdóttir, Ingimar Eydal, Markús Gústafsson, Anna Guðný Guðmundsdóttir, Sonja Stelly Gústafsdóttir, Ute Stelly Oddsson barnabörn og systkini hins látna. ✝ Kæru ættingjar og vinir. Þökkum auðsýnda samúð og hlýhug við andlát og útför föður okkar, stjúpföður, tengdaföður, afa, lang- afa og langalangafa, TEITS KJARTANSSONAR, Vörðum, áður bónda í Flagbjarnarholti, Landsveit. Sérstakar þakkir til starfsfólks dvalarheimilisins Lundar, Hellu. Brynjólfur Teitsson, Guðrún Þorleifsdóttir, Margrét Teitsdóttir, Kristrún Kjartans, Aðalbjörn Þór Kjartansson og fjölskyldur. ✝ Þökkum af hlýhug auðsýnda samúð vegna andláts og útfarar eiginkonu minnar, móður okkar, tengda- móður, ömmu og langömmu, BJARNFRÍÐAR SÍMONARDÓTTUR, Hafsteini, Stokkseyri. Sérstakar þakkir til starfsfólks á dvalar- og hjúkr- unarheimilinu Kumbaravogi fyrir einstaka um- önnun og alúð við hina látnu. Tómas Karlsson, börn, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Okkar bestu þakkir til allra þeirra sem sýndu okkur samúð og hlýju vegna andláts ástkærrar móður okkar, tengdamóður og ömmu, SIGRÍÐAR STEINSDÓTTUR, dvalarheimilinu Höfða, Akranesi. Eysteinn Jónsson, Jóna Þorgeirsdóttir, Unnur Jónsdóttir, Björn Jónsson, Sigríður Ketilsdóttir, Steinn Þór Jónsson, Eva Þorkelsdóttir, Elsa Jónsdóttir, Jón Haukur Bjarnason, Guðmundur Jónsson, Þorbjörg Björnsdóttir, Ólafur Jónsson, Kristín Sigurðardóttir, Sigurjón Jónsson, Erla Sigurðardóttir, Hannes Óli Jóhannsson og ömmubörn. Englasteinar Helluhrauni 10 Sími 565 2566 – www.englasteinar.is 15% afsláttur af öllum legsteinum og fylgihlutum Sendum myndalista

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.