Morgunblaðið - 11.06.2007, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 11.06.2007, Blaðsíða 12
12 MÁNUDAGUR 11. JÚNÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ ÚR VERINU FISKVEIÐISTJÓRN og fiskirannsóknir eru ofarlega á baugi um þessar mundir. Meðal annars er rætt um það að annmarkar kvóta- kerfisins leiði til þess að miklu af fiski sé svindlað í land, miklu af fiski sé kastað á glæ og að ísprufur og slægingarstuðull séu mis- notuð til að fá meira út úr kvótanum. Það eru ekki annmarkar kvótakerfisins að mönn- um takist að svindla á því. Það eru ann- markar eftirlitsins. Það má þó segja að það séu annmarkar stjórnkerfisins að leyfa „göt“ eins og ísprufur og slægingarstuðul. Mikið er talað um að ísprufurnar séu misnotaðar í stórum stíl. Sagt er að menn segi hlutfall íss í fiskikörum miklu meira en það er í raun. Þannig drýgja þeir kvótann. Sé miðað við 400 kíló í kari með ísuðum þorski og sagt að hlut- fall íss sé 20%, ættu að vera 320 kíló af þorski í karinu, sem ættu að reiknast til kvóta. Segjum svo að enginn ís hafi verið í karinu. Þá græðir viðkomandi 80 kíló af þorski. Það er enginn vandi að koma í veg fyrir þetta. Hægt er að setja fasta íspró- sentu, en ennþá betra er að skilja ísinn frá fiskinum fyrir viktun. Vilji menn fá rétta út- komu er það eina leiðin. Sama á við slægingarstuðulinn. Segjum að hann sé 15%. Það þýðir að þegar fiski er landað óslægðum dragast 15% frá þyngd hans, þegar hann er reiknaður til kvóta. Nú er mjög mismunandi hve mikið slóg er í fisk- inum. Það getur verið mun meira en 15% og mun minna, allt eftir árstímum. Þegar sem minnst er af slógi í fiskinum borgar sig að landa honum óslægðum, því alltaf dragast 15% frá þótt slógið sé kannski ekki nema 8%, jafnvel minna ef fiskurinn er mjög horaður. Ef slógið er meira en 15% eins og á hrygn- ingartíma, borgar sig að landa fiskinum slægðum, því annars dregst minna frá þyngd hans en nemur raunverulegu slógi. Þannig geta menn nýtt sér fastan slægingarstuðul. Guðmundur Halldórsson, fyrrum skipstjóri í Bolungarvík, lýsir þessu vel í viðtali í Morg- unblaðinu 8. maí síðastliðinn. Hann segir að það merkasta sem fram kom á fundi í Bolungarvík hafi verið sú yf- irlýsing sjávarútvegsráðherra að svonefndum slægingarstuðli þorsks verði ekki breytt. Þetta sé afar þýðingarmikið fyrir báta sem róa daglega og landa óslægðum þorski. „Þetta þýðir í peningum fyrir okkur um 800 milljónir,“ segir Guðmundur. Hann bendir á að á síðasta fiskveiðiári hafi landaður þorsk- afli í Bolungarvík verið 6.716 tonn. Ef slæg- ingarstuðlinum yrði breytt myndi það, miðað við þennan þorskafla, þýða 400 tonna kvóta- skerðingu fyrir Bolvíkinga, sem jafngilti 800 milljónum kr. í varanlegum heimildum, að sögn Guðmundar. Getur þetta nokkuð verið skýrara? Bolvík- ingar eru að fá 400 tonna ábót á kvótann með slægingarstuðlinum. Þetta á að sjálfsögðu ekki aðeins við Bolungarvík, heldur alla staði þar sem þorski er landað óslægðum. Vilji menn hafa hlutina rétta á að vigta fiskinn slægðan, þegar hann er reiknaður til kvóta. Svo er bara spurningin hvað menn vilja. Það kemur meira á land en skráð er. Af hverju er þessum götum haldið opnum? Götin í kerfinu » Vilji menn hafa hlutinarétta á að vigta fiskinn slægðan, þegar hann er reiknaður til kvóta BYRGGJUSPJALL Hjörtur Gíslason hjgi@mbl.is Eftir Hjört Gíslason hjgi@mbl.is JÓNAS Bjarnason, efnaverkfræð- ingur, telur að taka þurfi miklu meira tillit til erfðabreytinga þorsks af völdum veiða en nú er gert við stofn- stærðarmat og fiskveiðiráðgjöf á botnfiskstofnunum. Hann bendir á að þorskstofninn við Kanada hafi hrunið og virðist ekki ná sér á strik á ný vegna slíkra breytinga. Slík hætta vofi í raun og veru yfir okkur. „Ég hef nokkrar athugasemdir við ýmislegt sem fram hefur komið að undanförnu varðandi fiskveiðistjórn- un og rannsóknir,“ segir Jónas. „Það er einkum þrennt. Fyrst um rann- sóknir Hafrannsóknastofnunarinnar. Rannsóknir á nytjastofnum við Ís- land eru yfirleitt alveg skelfilega litl- ar. Þetta eru bara nokkur mannár, sem varið er til þeirra. Þekkingin á helztu nytjastofnum okkar, einkum botnfiski, er alltof lítil og það er al- varlegt mál, að því sé ekki gerð grein fyrir af Hafró.“ Öfgar í stærðfræði- legri fiskifræði „Þegar menn eru að tala um ástandið á þorskinum, eins og til dæmis Jóhann Sigurjónsson, for- stjóri Hafró, gerir, og byggja á þess- ari stærðfræðilegu fiskifræði, eru menn komnir út í algjörar öfgar, smáfikt til og frá. Ef menn ætla að halda áfram á þeirri braut, sem menn eru nú, það er byggja allt á tölfræði með einhverjum smá frávikum, verða menn að hafa allar breyturnar með í dæminu. Ég heyrði það að Jóhann Sigur- jónsson sniðgekk eiginlega alveg kynþroskaaldur þorsksins á Útvarpi Sögu og þau atriði, sem út úr honum má lesa. Til dæmis aldur við kyn- þroska og stærð í afla á hrygning- artíma. Það er hvergi minnzt á þetta í ástandsskýrslunni sem þó er 6,4 megabæt. Mér finnst þetta alveg skelfilegt. Það má lesa í öðrum gögn- um Hafró, að þorskur fyrir Suður- landi verði nú kynþroska 3-5 ára, en hann varð það áður fyrr 7-8 ára, það er allt annar fiskur.“ Erfðabreytingarnar mikilvægar Hefur kynþroskinn og erfðabreyt- ingar ekki verið töluvert til umræðu ytra? „Það liggja fyrir upplýsingar í út- löndum um þessi atriði og ég hef fylgzt með þeim í langan tíma. Ég tel mig vita meira um þau mál en for- stjóri Hafrannsóknastofnunar og starfsmenn hans. Menn verða að taka allar breytur inn í dæmið ef byggja á á stærðfræðilegri fiski- fræði. Þar eru erfðabreytingarnar nú mikilvægastar. Það er ekki bara ég og einhverjir fáir sem hafa af þeim áhyggjur. Þetta er orðinn mikilvæg- ur þáttur í öllum markverðum plögg- um, sem fjalla um fiskveiðistjórnun vestan hafs og austan nú síðustu árin. Þar er tekið tillit til erfðabreyting- anna og erfðaþróunarinnar. Þróunin verður þannig, að með því að veiða stóra fiskinn mest, með nánast öllum netveiðarfærum, úrkynjast fiskurinn smám saman. Það er ekki bara að menn fái minna og minna af þorski eða bara smáþorsk, sem reyndar er stórmál. Þessi fiskur er orðinn mjög eðlisbreyttur. Hann hefur lifað af margfalda sigtun, þar sem rjóminn er tekinn ofan af en undanrennan skilin eftir. Og hún er orðin fúl. Þetta er í raun öfug Darwinþróun; þeir óhæfustu lifa af. Þær upplýsingar sem við fáum núna frá útlöndum eru þess eðlis og það víðtækar, að það eru tugir hæfra vísindamanna, sem standa að baki þeim. Það er ekki og á ekki að vera hægt hér á Íslandi að sigla framhjá þeim. Ef menn ætla að halda sig við heimabruggaða stærðfræðilega fiski- fræði, verða menn að taka þróunar- breytingarnar inn í dæmið. Þær eru mjög alvarlegar. Það virðist sem svo, að þegar fisk- ur er orðinn 8 til 9 ára hætti hann að stækka, þyngjast eða lengjast. Það geta að sjálfsögðu verið margar ástæður fyrir því. En þetta var ekki svona áður. Þá var 12 ára þorskur miklu þyngri en hann er í dag. Og al- veg frá 8 til 9 ára aldri og upp úr eru þorskar að meðaltali nú mjög slæmir. Þeir hafa enga þyngd miðað við aldur og virðast hættir að vaxa. Þetta eru að mínu mati meðal annars afleiðing- ar af erfðabreytingunum. Það þarf miklu meiri grunnupplýsingar til að byggja hina stærðfræðilegu fiski- fræði á, eigi hún að virka.“ Þarf að taka veiðarfærin inn í myndina „Ráðleggingar Hafró núna um leyfða veiði, heildarafla af þorski, ganga heldur ekki upp, nema veið- arfærin séu tekin inn í myndina. Ef verið er að leyfa svo og svo miklar veiðar á þorski, verðum við að skipta aflanum upp milli veiðarfæra og skipaflokka. Við verðum að veiða meira af fiski með þeim veiðarfærum, sem við vitum að skemma ekki erfða- eiginleika fisksins eins mikið og botn- trollið og dragnótin gera. Við verðum að auka krókaveiðar. Það er næstum því vissa fyrir því, að krókaveiðar séu miklu vistvænni en aðrar veiðar. Botnvarpan er ábyggilega skaðleg- ust lífríkinu af öllum veiðarfærum. Hún er stöðugt að sigta ofan af fiski á ætisslóð og það er alvarlegast. Smærri fiskurinn fer í gegnum möskvana en hinn stærri situr eftir. Þetta veldur þróunarbreytingunum. Auk þess er nú sannað, að botn- vörpuveiðar valda skaða á botni, sem er jafnvel á milli 200-400 metrar á dýpt. Þess vegna verður að minnka veiðar með þeim veiðarfærum, sem við vitum að hafa valdið miklum skaða erlendis. Það eru fyrst og fremst hvers konar veiðar í net. Flestar nágrannaþjóðir okkar viður- kenna nú þennan vanda, en við tölum eins og Palli væri einn í heiminum. Það sem Íslendingar eru að gera er einhvers konar heimabrugg. Við höldum að við getum hagað okkur svona án þess að taka mark á því, sem menn hafa verið að fá út úr rann- sóknum austan hafs og vestan.“ Þorskstofnar hafa hrunið bæði í vestri og austri „Það er skemmst frá því að segja, að þorskstofnar hafa hrunið bæði í vestri og austri. Nýjar tillögur, bæði vestan hafs og austan, gera meira og minna allar ráð fyrir því, að í fisk- veiðistjórnun framtíðarinnar sé tekið tillit til erfðabreytinga. Menn verði að grípa til gagnráðstafana við erfða- valinu í veiðunum, sem hefur eyðilagt fiskistofnana. Þess vegna leyfi ég mér að segja, að sú formúla, sem not- uð er núna, að lækka verði hlutfall veiða úr veiðistofninum úr 0,25 niður í 0,20 eða 0,18 standist ekki ein og sér. Það verður að taka tillit til veið- arfæra og undirstofna við landið. Það verður að draga úr notkun togveið- arfæra og gera eins og Færeyingar, sem vísa slíkum veiðum út fyrir land- grunnið, allar netaveiðar eru bann- aðar á færeyska landgrunninu. Þorskurinn er að vísu alveg í klessu núna við Færeyjar og dagakerfið hefur ekki komið í veg fyrir það. Þessi veiðiformúla, sem menn vilja nota núna, gengur einfaldlega ekki upp. Hún er hvorki vistvæn né sjálf- bær. Þorskstofnar allt í kringum okkur hafa hrunið og ég er ekki viss um að þorskstofninn hér næði sér að strik á ný, jafnvel þótt við hættum að veiða hann nú eða á næstu árum. Við stefnum hraðfara að punktinum, sem heitir á ensku „point to no return“, að það verði ekki aftur snúið. Þegar að þeim punkti er komið er eins og smá- þorskur sé farinn að hrygna og af- kvæmi undan honum farin að taka yf- ir miðin. Miðin eru þá orðin þrúguð af smáfiski, sem er miklu léttari og styttri en var hér áður fyrr og hann stækkar ekki á sama hátt og áður. Við höfum í raun verið að stunda smáfiskaframleiðslu.“ Margir undirstofnar „Þá er það einnig mikilvægt að átta sig á, að við Ísland eru undir- stofnar þorsks margir. Þeir eru að lágmarki 10. Þess vegna er ekki hægt að stjórna fiskveiðum við Ísland nema að fara ofan í þetta og taka fyr- ir stjórn á hverjum stofnanna fyrir sig. Við getum verið að eyðileggja einn og einn undirstofn meðan við teljum að við séum ekkert að veiða of mikið í heild. Þetta er stórhættu- legt.“ Staðan mjög slæm við Færeyjar Jónas hefur einnig athugasemdir við málflutning Jóns Kristjánssonar, fiskifræðings, um fiskidagakerfið í Færeyjum. „Jón Kristjánsson, fiskifræðingur, sagði í Morgunblaðinu að fiskidaga- kerfið brygðist strax við sveiflum í fiskistofnum. Það er ekkert eitt fiski- dagakerfi til, þau geta verið á ýmsan hátt. Það má vel vera að Jón Krist- jánsson eigi hlut í fiskidagakerfi Færeyinga. En staðreynd er sú, að staðan er nú mjög slæm við Færeyj- ar. Þorskurinn stendur mjög illa, en ýsa og ufsi eru í þokkalegu ástandi. Ef notað er fiskidagakerfi við stjórn- un fiskveiða, er það rétt að það bregzt við þessum sveiflum og getur því nýtt stofnstærðartoppa. Margt af því sem Jón segir er mjög snjallt, en sumt hjá honum er alveg ábyrgðar- laust. Hann segir að það sé engin ástæða til að veiða ekki horaðan fisk. Menn eigi að veiða horaðan fisk. Þetta er aðeins rétt ef hann segir í leiðinni hvernig fara eigi að því að sigta horaða fiskinn frá þeim feita og stóra, sem við viljum fá sem hrygn- ingarfisk. Þetta getur kannski átt við Færeyjar, þar sem Færeyjagrunn er einn pottur meira eða minna. Þar er bara einn þorskstofn. Færeyjabanki er annar pottur og í þessum pottum er Jón að hræra. Þess vegna getur það, sem Jón segir, átt við Færeyjar, en miklu síður við Ísland þar sem eru margir stofnar. Ef hann er að tala um horaðan fisk við Ísland og það eigi að veiða hann, gengur það ekki upp. Það eru svo margir undirstofnar við Ís- land, að það er ekki hægt að alhæfa um þá alla í einu. Er hann að tala um stofninn fyrir Suðvesturlandi eða einhvern stofninn fyrir Norðurlandi? Kenningin getur gengið upp ef hægt er að þyrma betri fiskinum, fiskinum, sem við viljum fá í hrygningu. Svo minnist Jón aldrei á veiðarfæri og mismunandi eiginleika þeirra.“ Kerfið sér á báti „Ef horaður fiskur er kynþroska á að veiða hann umyrðalaust, því hann er þá úrkynjaður og það sem kemur undan honum er meira eða minna ónýtt og það er sóun að láta ónýtan fisk fylla út í fæðuholur eða vistholur. Þess vegna felst ég á, að sóknar- markskerfi sé miklu heppilegra en aflamarkskerfi, en auðvitað er það erfitt í útfærslu. Kvótakerfið á Ís- landi er alveg sér á báti. Það er hvergi til svona kerfi annars staðar í heiminum nema á Nýja-Sjálandi og þar stefnir flest í rúst fyrir helstu stofnunum í efnahagslögsögu þeirra. Þar eru nánast allir helztu nytja- stofnar í fallhættu eða eru hrundir. Þorskstofninn við Kanada hrundi og nær engin veiði hefur verið leyfð síðan 1992. Þorskurinn þar er kom- inn í erfðafræðilega gildru. Þar er bara úrkynjaður fiskur á miðunum, en hann ræður miðunum og betri fiskur nær sér ekki á strik ennþá. Verði ekki gripið í taumana bíða sömu örlög okkar,“ segir Jónas Bjarnason. Taka þarf tillit til erfðabreytinga Jónas Bjarnason hefur nokkrar athugasemdir við ýmislegt varðandi fiskveiðistjórnun og rannsóknir Fiskveiðar Jónas Bjarnason telur að stærðfræðileg fiskifræði Hafrann- sóknastofnunar gangi ekki upp, það þurfi að taka fleira inn í dæmið. Í HNOTSKURN »Þróunin verður þannig, aðmeð því að veiða stóra fiskinn mest, með nánast öll- um netveiðarfærum, úrkynj- ast fiskurinn smám saman. »Við Kanada er bara úr-kynjaður fiskur á mið- unum, en hann ræður mið- unum og betri fiskur nær sér ekki á strik ennþá. »Það eru svo margir und-irstofnar við Ísland, að það er ekki hægt að alhæfa um þá alla í einu.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.