Morgunblaðið - 03.08.2007, Page 4
4 FÖSTUDAGUR 3. ÁGÚST 2007 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
RÍFANDI veiði hefur verið í Þverá
og Kjarrá síðustu daga. „Eftir
fyrstu tvo dagana var hollið sem er
núna í Þverá búið að fá á annað
hundrað laxa á sjö stangir. Þeir
enduðu svo í 140,“ sagði Andrés
Eyjólfsson leiðsögumaður. Drjúgur
hluti veiðinnar var lúsugur göngu-
lax en stórstreymt var um miðja
vikuna og gekk þá mikið af laxi í
ána. Á sama tíma veiddust um 50
laxar í Kjarrá og höfðu um miðjan
dag í gær veiðst 970 laxar í Þverá-
Kjarrá.
„Vatnið jókst um 10, 20 cm í rign-
ingunni í vikunni, þá dreifðist fisk-
urinn strax betur. Við förum yfir
1.000 laxa í kvöld eða fyrramálið.“
Norðurá hefur verið í sögulegu
lágmarki síðustu daga en ótrúlegar
ljósmyndir hafa verið birtar á veiði-
vefjum af vatnslausum fossum í
ánni. Síðustu daga kom samt smá-
vatnsgusa niður ána og það var ekki
að sökum að spyrja, á miðvikudag
veiddust strax hátt í 40 laxar. Tvö-
faldaðist jafnframt sá fjöldi sem
gengið hefur um teljarann í Glanna,
en menn hafa talið að þar fyrir neð-
an lægju a.m.k. 1.000 laxar.
Sogið eins og í gamla daga
Veiðimenn sem hafa verið í Sogi
síðustu daga segja mikla laxagengd
í ánni og minni það helst á gamla
góða daga, eftir mörg mögur ár. Nú
hafa netin líka verið keypt upp úr
Ölfusá og laxinn á greiðari leið upp í
bergvatnsárnar. Tólf laxar veiddust
á Alviðru á sunnudag og tíu á mánu-
dag, allir á flugu. Sex var þá landað
í Ásgarði, tveimur við Bíldfell og
sex á Tannastaðatanga. Þegar hafa
yfir 200 laxar veiðst í Soginu.
Ofar á vatnasvæðinu hefur einnig
verið afar góð veiði í hinum nýju
laxveiðilendum í Tungufljóti. Um
100 laxar hafa veiðst á fjórar stang-
ir síðustu tvær vikur. Þá hafa um
160 laxar veiðst við Selfoss.
Vatnsleysið hefur verið viðvar-
andi í Húnavatnssýslum en á sum-
um veiðisvæðum er samt þokkaleg
veiði. Um 10 laxar munu veiðast á
dag í Laxá á Ásum á stangirnar
tvær og í Miðfjarðará fréttist af 17
laxa morgunvakt um helgina. Í
Vatnsdalsá hefur eitthvað af laxi
vogað sér gegnum heitt Flóðið og er
farinn að veiðast efst í ánni, en meg-
inveiðin er enn í Hnausastreng.
Hefur áin gefur um 180 laxa.
Hítará er komin yfir 200 laxa en
holl sem lauk þar veiðum á þriðju-
dag fékk hátt í 30. Sögðu þeir mikið
af laxi hafa gengið í ána og tæki
hann vel.
Veiðimenn gangi betur um
Blaðamaður undrast hugarfar
veiðimanna sem henda rusli á bökk-
unum. Í hugann koma gullkorn úr
síðareglum veiðifélagsins Ármanna,
um að veiðimaður skilji ekki annað
eftir en sporin sín.
Ég hef fundið bjórdollur víða,
sem og gosflöskur, girnisspottar
liggja á bílastæðum og við veiði-
staði, og svo eru það sígarettu-
stubbarnir, með filti sem eyðist ekki
í náttúrunni; þeir eru alls staðar.
Það er með ólíkindum að sjá stubba
liggja eins og hráviði á veiðistöðum
upp til fjalla, eins og við Skerið efst
við Stóru-Laxá, og á stuttri göngu
við Þingvallavatn, í þjóðgarðinum,
voru tíndir upp um 30 stubbar. Á
nýmóðins veiðivestum eru ótal vas-
ar, í einn þeirra má setja ónýtt
taumaefni og í öðrum geta reyk-
ingamenn haft box og sett stubbana
þar í. Draslið á ekki að liggja eftir á
vatnsbakkanum.
Yfir hundrað laxar á
tveimur dögum í Þverá
Í HNOTSKURN
» Síðasta þriggja daga holl íÞverá-Kjarrá náði 190 löx-
um, flestum nýrunnum.
» Veiðimenn sem hafa veittí Soginu segja mikið af
fiski á svæðinu.
» Í Norðurá er vatnsstaða ísögulegu lágmarki.
» Veiðimenn ganga víða illaum bakkana; sígarettu-
stubbar, girni og tómar dósir
eru of algeng sjón.
Um leið og rigndi í vik-
unni og hækkaði í lax-
veiðiám, samhliða stórum
straumi, glæddist veiðin
talsvert. Í Norðurá
veiddist þannig á fjórða
tug laxa á miðvikudag.
Ljósmynd/Atli Árnason
Fjölskylduveiði Stangveiðin getur verið skemmtileg afþreying fyrir fjölskylduna, eins og hjá þessum veiðimönn-
um sem veiddu átta laxa í Korpu í liðinni viku. Gísli Már Ágústsson, Sóley Birgisdóttir, Rut Ingólfsdóttir, Ingólfur
Matthíasson, Viktor Ingi Gíslason með maríulaxinn og Hekla Sólveig Gísladóttir.
Veiðimenn víða vitni að öflugum laxagöngum í vikunni og veiðin tók kipp
efi@mbl.is
FJÓRIR sóttu um embætti hæsta-
réttardómara sem skipað verður í 1.
september næstkomandi, en um-
sóknarfrestur rann út á þriðjudag.
Umsækjendurnir eru: dr. juris
Páll Sveinn Hreinsson, prófessor og
deildarforseti lagadeildar Háskóla
Íslands, Sigríður Ingvarsdóttir, hér-
aðsdómari við Héraðsdóm Reykja-
víkur, Viðar Már Matthíasson, pró-
fessor við lagadeild Háskóla Íslands
og Þorgeir Örlygsson, dómari við
EFTA-dómstólinn í Lúxemborg.
Hrafn Bragason lætur af störfum í
haust eftir að hafa átt sæti í réttinum
í 21 ár, en hann var skipaður hæsta-
réttardómari 8. september 1987 af
Jóni Sigurðssyni, dóms- og kirkju-
málaráðherra. Fram að því hafði
Hrafn verið borgardómari í Reykja-
vík um 16 ára skeið.
Hrafn verður sjötugur á næsta ári
og óskaði hann eftir lausn frá emb-
ætti hæstaréttardómara sökum ald-
urs í sumar.
Fjöldi dómara breytilegur
Níu dómarar eiga sæti í Hæsta-
rétti og skipar forseti Íslands þá
ótímabundið samkvæmt tillögu
dómsmálaráðherra. Hæstiréttur tók
formlega til starfa 16. febrúar 1920. Í
upphafi skipuðu Hæstarétt dóm-
stjóri og 4 meðdómendur, sem skip-
aðir voru af konungi á ábyrgð ráð-
herra. Fjöldi dómara hefur verið
breytilegur, en síðast var dómurum
fjölgað við Hæstarétt árið 1994.
Fjórir
sóttu um
embætti
dómara
LÖGREGLAN á Suðurnesjum hef-
ur til rannsóknar atvik sem átti sér
stað á áttunda tímanum við Heiðar-
holt í Reykjanesbæ á miðvikudags-
kvöld. Þá var stúlka að taka barn úr
barnabílstól þegar ein rúða bifreið-
arinnar brotnaði. Talið er hugsan-
legt að skotið hafi verið úr loftbyssu
á bifreiðina og lítur lögregla málið al-
varlegum augum. Óskað er eftir
vitnum að atvikinu.
Hugsanlega
skotið á bifreið
Eftir Silju Björk Huldudóttur
silja@mbl.is
„MEÐAN enn er stígandi í hrinunum, eins og
enn virðist vera, eru meiri líkur en minni á eld-
gosi,“ segir Karl Grönvold, jarðfræðingur á
Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, um
skjálftavirknina sem verið hefur í Upptypping-
um, norðan Vatnajökuls, allt frá því í febrúar sl.
Alls hafa mælst 2.300 skjálftar á svæðinu, en
frá því í lok maí hefur verið dagleg virkni á
svæðinu sem náði ákveðnu hámarki aðfaranótt
sl. þriðjudags.
„Það er ekkert sérstakt í augnablikinu sem
bendir til þess að það sé eitthvað að fara að ger-
ast. Ef hrinurnar færu hins vegar að aukast og
skjálftarnir að mælast nær yfirborði jarðar þá
myndi maður fara að horfa á málið með öðrum
augum,“ segir Steinunn Jakobsdóttir jarðfræð-
ingur og deildarstjóri eftirlitsdeildar á Veður-
stofu Íslands, og tekur fram að hún hafi ekki
mikla trú á því að það fari að gjósa á svæðinu.
Að sögn Steinunnar er skjálftavirknin tengd
kvikuhreyfingum. Segir hún virknina vera á
talsverðu dýpi, þ.e. á 15–20 km dýpi, og því mun
meiri líkur til að kvikan haldi sig neðanjarðar
og nái ekki að brjóta sér leið upp á yfirborðið.
Spurð hvort ferðafólki í Öskju eða Herðubreið-
arlindum myndi stafa einhver hætta af ef til
eldgoss kæmi svarar Steinunn því neitandi og
bendir á að bæði Askja og Herðubreiðarlindir
séu í það mikilli fjarlægð frá Upptyppingum,
eða um 15–20 km. Hins vegar liggi vegurinn í
Kverkfjöll nálægt Upptyppingum.
Aðeins kvikuhreyfing undir yfirborði
Í samtali við Morgunblaðið bendir Steinunn
á að skjálftavirknin sem mælst hafi á svæðinu
að undanförnu sé afar lítil, eða á bilinu -0,5 til
2,2 á Richterskala. Ástæða þess hversu litlir
skjálftar séu að mælast haldist í hendur við
þéttingu skjálftanets Veðurstofunnar í
tengslum við vöktun vegna framkvæmdanna á
Kárahnjúkum, sem geri það að verkum að mun
fleiri og minni skjálftar séu skráðir en áður.
Þannig er mælirinn á Mókollum ein af ystu
mælistöðvunum til vesturs í skjálftanetinu, en
mælirinn er í um 5 km fjarlægð frá Upptypp-
ingum og um 20 km frá Hálslóni.
„Ef þeim mæli hefði ekki verið komið upp og
við værum bara með venjulega kerfið okkar þá
værum við sennilega ekki að mæla nema um
200 skjálfta á fyrrgreindu tímabili í stað um
2.300, vegna þess að við værum bara að mæla
þá stærstu,“ segir Steinunn. Aðspurður hvort
eitthvert samhengi geti verið milli fyllingar
Hálslóns og jarðskjálftahrinunnar í Upptypp-
ingum segir Karl það af og frá. Bendir hann á
að til þess séu skjálftarnir á of miklu dýpi, auk
þess sem þeir séu það langt frá lóninu. Að sögn
Steinunnar og Karls eru Upptyppingar á mjög
virku eldfjallasvæði. „Þetta er inni í miðju eld-
virka belti Íslands þar sem landið er að gliðna.
Þetta er svæði þar sem geta í raun verið eldgos
alls staðar í sjálfu sér. Það er því ekkert óeðli-
legt að fá gos þarna,“ segir Steinunn og bendir
á að um 60% af skorpunni verði til við innskot
kviku undir yfirborði jarðar án þess að til eld-
goss á yfirborði jarðar komi. „Þannig að það er
ekkert óeðlilegt við að hafa kvikuhreyfingu við
botn skorpunnar án þess að það komi eldgos.“
Aðspurður um virkni á svæðinu á umliðnum
áratugum og öldum segir Karl Öskju í Dyngju-
fjöllum og Bárðarbungu undir Vatnajökli vera
þær tvær eldstöðvar sem séu næstar og virk-
astar. Seinast gaus í Öskju árið 1961, en nokkur
fjöldi smágosa varð á árabilinu 1921-29.
Stærsta gosið var hins vegar sprengigosið sem
varð 1875, en í því myndaðist Öskjuvatn og Víti.
Að sögn Karls hefur verið nokkur virkni í Öskju
að undanförnu og mældist þar hrina sem hófst
undir lok síðasta árs og lauk um svipað leyti og
hrinan í Upptyppingum hófst.
Fulltrúar lögregluembættanna á Seyðisfirði
og Húsavík funduðu fyrr í vikunni til að sam-
ræma hugsanleg viðbrögð ef eldgos yrði við
Upptyppinga. Að sögn Óskars Bjartmarz, yfir-
lögregluþjóns hjá lögreglunni á Seyðisfirði,
hafa menn undirbúið hvernig loka eigi vegum
og vegslóðum á svæðinu, koma ábendingum til
skálavarða og gera ferðafólki viðvart. „Við er-
um að vinna því að koma upp skiltum og búnaði
sem hægt er að nota strax til að loka veginum,
ef á þarf að halda, meðan við erum að kanna
ástandið komi til goss,“ segir Óskar og tekur
fram að í undirbúningi sé kynningarefni sem
ætlað verði ferðafólki á svæðinu.
Hefur ekki mikla trú á að gjósi
Fleiri smáskjálftar mælast sökum öflugrar vöktunar í tengslum við framkvæmdir á Kárahnjúkum
Viðbragðsáætlun lögreglu á svæðinu samhæfð Fólki ekki talin stafa hætta af, komi til eldgoss
♦♦♦