Morgunblaðið - 31.08.2007, Side 22
daglegtlíf
Veitingastaðurinn Le Rendez-vous er
franskur fram í fingurgóma, segir
Steingrímur Sigurgeirsson. » 27
veitingastaðir
Berjatínsla er eitt af því sem gerir síð-
sumarið heillandi og Friðrik V. Karlsson
lumar á fjölda góðra uppskrifta. » 26
matur
PÚÐLUHUNDURINN Ginger stillir sér upp hjá flíkum frá Fifi and Romeo,
fyrirtæki í Los Angeles sem sérhæfir sig í hundaklæðum fyrir þá ríku og
frægu, en sýning á flíkunum var haldin í Tókýó í Japan á dögunum. Fleiri
hundar eru nú í Japan en börn yngri en tíu ára, þeir voru 13,1 milljón árið
2006, og er markaðurinn fyrir hundaklæði og leikföng því í miklum vexti.
Klæði fyrir ferfætlinga
Reuters
Þessa dagana er starfsfólk Kaffitárs íNjarðvík að æfa sig í uppáhellingu ánýrri kaffivél. Það væri svo sem ekkií frásögur færandi nema fyrir þær
sakir að með kaffivélinni bætist nú við ný teg-
und af uppáhellingu.
„Það voru tveir Bandaríkjamenn sem hönn-
uðu kaffivélina Clover fyrir þremur árum,“
segir Aðalheiður Héðinsdóttir, eigandi Kaffi-
társ, þegar forvitnast er um gripinn sem er
svipaður á stærð og espressóvél en kostar um
800.000 krónur. „Markmiðið hjá hönnuðunum
var að hanna vél sem gæti hellt upp á einn
bolla í einu á skömmum tíma og með lítilli fyr-
irhöfn en næði betur fram bragðgæðum baun-
arinnar en aðrar vélar hafa náð að gera.
Það tekur 20 sekúndur að hella upp á
espresso en það töldu þeir að væri of stuttur
tími til að bragðeiginleikar kaffibaunarinnar
kæmu fram til fullnustu. Clover-vélin sam-
einar tækni tveggja þekkta aðferða við uppá-
hellingu, en það er pressukönnuaðferðin og
svo lofttæming. Báðar þessar aðferðir við
uppáhellingu eru hundrað ára gamlar og tekur
um fimm mínútur að hella uppá. Með Clover
tekur það hinsvegar um eina mínútu. Vélin
hefur hlotið lof hjá fagfólki og fyrir okkur sem
erum að selja og framleiða kaffi þá skiptir máli
að hafa tækni þar sem bragðgæði kaffisins
koma sem best fram.“
Kynna vélina á Ljósanótt
–Fannstu mikinn mun þegar þú fékkst
fyrsta bollan af kaffi úr Clover-vélinni?
„Kaffið var mitt á milli þess að vera
espresso og filterkaffi. Það er tært eins og fil-
terkaffi en með meiri fyllingu. Það er heldur
enginn salli í bollanum.“
– Verður kaffibollinn ekki rándýr?
„Nei, hann verður eitthvað dýrari en venju-
lega uppáhellt kaffi en ekki dýrari en vínglas.“
Aðalheiður segir að á hátíðinni Ljósanótt
sem stendur yfir í Reykjanesbæ um helgina
verði vélin kynnt. Ingibjörg Jóna, sem er Ís-
landsmeistari kaffibarþjóna, ætlar að gefa
fólki að bragða á kaffinu og það verður kaffið
Cup of excellence sem notað verður í vélina.
„Kaffið hefur hlotið að minnsta kosti 84 stig í
gæðaprófunum sem kaffismakkarar víðsvegar
um heim hafa gefið því í einkunn.“
– Spáir þú þessari vél vinsældum? „Ég held
hún nái aldrei vinsældum espressó en hún
verður vinsæl hjá kaffinördunum. Það er
nefnilega stór hópur fólks sem hefur af-
skaplega gaman af því að spá í blæbrigðin í
kaffinu og með þessari nýju vél erum við að
koma til móts við þann hóp.“
Heimsækir bændurna
Aðalheiður segist aðspurð ekki drekka sjálf
nema 3-4 bolla af kaffi á dag. „Mér finnst gam-
an að smakka gott kaffi. Ég bragðaði til dæmis
mjög sérstakt kaffi frá Kólumbíu í vikunni sem
ég fékk hjá bónda sem ég heimsótti í vor. Það
var heil sinfónía af bragði og slíkt er ótrúlega
skemmtilegt.“
Aðalheiður fer á vorin og veturna að heim-
sækja bændurna sem hún á í viðskiptum við.
„Á þessu ári hef ég farið til Kólumbíu, Ník-
aragva og Gvatemala og hitt bændur. Ég reyni
að ganga úr skugga um að við séum að fá
fyrsta flokks vöru og að fólkið sem vinnur við
ræktunina fái sanngjörn laun. Bændur sem
eru með gott kaffi fá gott verð.“
– Áttu uppáhaldskaffiræktunarland?
„Ég var afskaplega hrifin af Gvatemala en
þangað kom ég fyrst í ár. Kaffið er alls staðar
gott, mannlífið skemmtilegt og litirnir svo
stórkostlegir. Ég hef hinsvegar sterkar taugar
til Níkaragva. Þangað hef ég komið nokkrum
sinnum og þekki orðið vel þá bændur sem ég á
í viðskiptum við. Kaffið frá þessum löndum er í
uppáhaldi. Það er ólíkt en með sterk sér-
einkenni.“
Aðalheiður segir að alltaf sé að verða meiri
og meiri áhersla á þá staði sem framleiða í litlu
magni . „Með tilkomu Netsins þá er heimurinn
alltaf að smækka. Nú get ég verið í nánu sam-
bandi við bónda sem býr langt uppi í sveit í
Níkaragva. Ég get fylgst með því hvernig upp-
skeran gengur hjá honum og fæ reglulega
myndir.“
– Ertu að taka inn kaffi frá nýjum stöðum?
„Ekki svo mikið frá nýjum stöðum, frekar
nýjum bændum. Ég er að fá Cup of excellence
kaffi frá Níkaragva, Kosta Ríka og Gvatemala.
Við höfum einnig verið að prófa kaffi frá Rú-
anda í Afríku og vonandi verður áframhald á
þeim viðskiptum. Uppskeran þar stendur yfir
núna og það er ekki nema svona mánuður í að
hægt sé að smakka á framleiðslunni þaðan.“
gudbjorg@mbl.is
Vélin er aðallega fyrir kaffinörda
Ljósmynd/Hilmar Bragi
Kaffibollinn Aðalheiður Héðinsdóttir eigandi Kaffitárs segir að gestir á Ljósanótt muni geta
gætt sér á kaffibolla sem lagaður er í Clover-vélinni nýju.
Það verður ekki amalegt að fá
sér kaffibolla hjá Kaffitári í
Reykjanesbæ á Ljósanótt.
Guðbjörg R. Guðmundsdóttir
forvitnaðist um nýja og rándýra
kaffivél sem dregur víst með
eindæmum fram sérkenni
kaffibaunarinnar.
Öðruvísi Þeir sem leggja
mikið uppúr góðu kaffi
ættu að prófa að fá sér
kaffibolla sem lagaður
er með nýju að-
ferðinni.
Helgarnar: Að fólk noti helgar til að fara á listsýningar og sérstaklega um þessa
helgi sýningunni hans Einars Fals Ingólfssonar sem stendur yfir í Listasafni
Reykjanesbæjar.
Garðvinna: Að undirbúa garðinn fyrir haustið eins og að sjá til þess að enginn arfi sé
í beðunum svo minna sé að reyta næsta vor…
Eftirrétturinn: Góð súkkulaðimús í eftirrétt.
Hreyfingin: Fara í góðan göngutúr um bæinn sinn.
Útiveran: Fara í berjamó og tína bláber eða krækiber.
Hádegismaturinn: Nýtt brauð og nýmalað Nígaragva kaffi.
Aðalheiður mælir með
Árlegt Landsmót hagyrðingaverður haldið í félagsheim-
ilinu á Blönduósi annað kvöld,
laugardagskvöld, undir yfirskrift-
inni: Bragaþing á Blönduósi.
Landsmót hagyrðinga eru kvöld-
samkomur með borðhaldi og
þjóðlegum skemmtiatriðum, sem
að hluta eru skipulögð og und-
irbúin, auk þess efnis sem móts-
gestir hafa fram að færa í
bundnu máli.
Að loknu borðhaldi er svo stig-
inn dans. Landsmótin eru opin
öllu fólki sem ánægju hefur af
góðum vísum, hvort sem það tel-
ur sig til hagyrðinga eða ekki.
Heiðursgestur og ræðumaður
verður séra Hjálmar Jónsson,
Ósk Þorkelsdóttir verður veislu-
stjóri og Ingi Heiðmar Jónsson
söngstjóri. Sá síðastnefndi yrkir:
Verða útbær ýmis stáss,
orðaprjál og stuðlagóss
er hagyrðingar hasla pláss
og hópa sig til Blönduóss.
Þau yrkisefni sem tekin verða
fyrir um kvöldið eru:
Grettir: unglingavandamál?
Löggæsla í Húnaþingi
Hvernig á hann/hún að vera
(draumadísin/draumamaðurinn)?
Nokkur sæti eru laus í hópferð
Kvæðamannafélagsins Iðunnar
norður Kjöl til Blönduóss á
Landsmótið. Farið verður frá
Umferðarmiðstöðinni í fyrramálið
og komið til baka að kvöldi
sunnudags. Gist verður á Blöndu-
ósi í svefnpokaplássum eða á hót-
eli. Kveðið verður fyrir gamla
fólkið á dvalarheimili og sjúkra-
húsi á sunnudagsmorgni, áð í
Borgarvirki, ekið fyrir Vatnsnes,
áð í Hamarsbúð og att kappi við
Vatnsnesinga í kvæðamennsku og
kveðskap. Áhugasamir geta haft
samband við Sigurð Sigurðarson
dýralækni á netfanginu sig-
sig@hi.is.
VÍSNAHORNIÐ
Bragaþing á Blönduósi
pebl@mbl.is
|föstudagur|31. 8. 2007| mbl.is