Morgunblaðið - 01.11.2007, Page 18
18 FIMMTUDAGUR 1. NÓVEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ
MENNING
EINHVER hljómmesta og falleg-
asta íslenzka bassarödd síðustu ára-
tuga mun óefað tilheyra Viðari
Gunnarssyni, sem starfað hefur um
árabil við þýzk óperuhús. Sann-
kölluð basso profondo, a.m.k. að fyll-
ingu og mikilfengleika, og undirrit-
uðum enn minnisstæð fyrir líklega
síðustu undangengnu framkomu
söngvarans hér sem Don Basilio í
rómaðri uppfærslu ÍÓ á Rakaranum
í Sevilla 2002.
Ef rétt er talið voru þannig liðin
heil fimm ár frá því er Viðar lét síð-
ast upp raust sína á okkar fjörum
þegar þeir Jónas Ingimundarson
kvöddu sér hljóðs í Salnum 23. októ-
ber, og því ekki nema að vonum að
mikil eftirvænting lægi í lofti meðal
hinna fjölmörgu áheyrenda. Og ekki
sveik heldur Viðar þá eftirvæntingu
í níu lögum fyrri hlutans eftir ís-
lenzka gullaldarhöfunda með Árna
Thorsteinsson í upphafi og Herhvöt
Þórs og Stríð eftir Sveinbjörn Svein-
björnsson við ljóð Longfellows og P.
Macgillivrays í þýðingum Páls Berg-
þorssonar síðast fyrir hlé. Því þótt
undirritaður þættist í fyrstu kenna
ofurlítinn þreytuvott í fyrstu lög-
unum, virtist upphitunin skila sér
með kraftmiklum glæsibrag í öllum
síðari atriðum.
Þó skal viðurkennt að þegar á leið
fór maður aðeins að sakna dýna-
mískrar fjölbreytni í textatúlkun, og
ágerðist það í Wagneraríunum eftir
hlé, þ.e. Mein Herr und Gott (Lo-
hengrin), Hier sitz ich zur Wacht
(Götterdämmerung) og Noch bleibe
denn unausgesprochen (Tann-
häuser). En aldrei óraði mann fyrir
að heldur einstrengingslegur kraft-
urinn skyldi hefna sín jafn-
grimmilega og í Mögst du, mein
Kind úr Hollendingnum fljúgandi,
þegar raddbönd söngvarans
sprungu það óafturkallanlega að
hætta varð við ekki aðeins viðkom-
andi atriði heldur einnig aríurnar
þrjár eftir ofangetin rússnesk tón-
skáld.
Nú er mannsröddin flóknasta og
viðkvæmasta hljóðfæri allra og því
vonlaust að fullyrða neitt um hvort
hugsanlega hefði mátt afstýra vand-
ræðum með því að fara ögn gæti-
legar. Hitt var augljóst að hver ein-
asti áheyrandi fann sárt til með
söngvaranum ástsæla, og fylgdu
honum að skilnaði innilegar óskir
allra nærstaddra um bráðan bata
með dynjandi lófataki.
Þegar röddin sveik viljann
TÓNLIST
Salurinn
Íslenzk sönglög og óperuaríur eftir Wag-
ner, Tsjækovskíj, Glinka og Mússors-
gskíj. Viðar Gunnarsson bassi, Jónas
Ingimundarson píanó. Þriðjudaginn 23.
október kl. 20.
Einsöngstónleikar
Ríkarður Ö. Pálsson
Í TILEFNI af kínverskri menning-
arhátíð í Kópavogi getur nú að líta
vatnslitamyndir eftir kínverska
listamanninnYu Xi á neðri hæð
Listasafns Kópavogs, Gerðarsafns.
Af myndunum af dæma hefur Yu Xi
orðið fyrir talsverðum áhrifum af ís-
lenskri náttúru en sýningin ber yf-
irskriftina „Austræn heimspeki og
íslensk norðurljós“.
Verkin eru litsterk og búa yfir
mikilli hreyfingu og tjáningarkrafti.
Þau eru flest af óhlutbundnum toga
en skírskota til náttúruafla: á sum-
um þeirra virðist himinninn birtast
okkur í allri sinni dýrð, ýmist í stór-
brotnu skýjafari eða eins konar
norðurljósum sem æða eftir himn-
inum. Sum verk minna á öldurót eða
straumharða á, önnur líkjast ólgandi
hraunflóði. Nokkrar myndanna fela í
sér þekkjanleg landslagsform, svo
sem fjallstinda, graslendi og jafnvel
tré.
Vatnslitatæknin leikur í hönd-
unum á listamanninum og hann á
auðvelt með að skapa mismunandi
hughrif og ná fram tærleika í birtu.
Mörg verkanna byggir hann upp
með því að láta stóra litafleti flæða
mjúklega saman, eða með því að
leggja litinn á pappírinn með breið-
um pensli, oft þannig að pensilförin
sjást greinilega. Hann skapar dýpt
með fíngerðari pensilteikningu og
með því að úða vatnslitnum á yf-
irborð verkanna. Í verki nr. 2, sem
minnir í senn á rísandi öldu og
veðraham á himni, nær hann sér-
stökum áhrifum en það er sem snjó-
korn hafi fallið á myndflötinn. Raun-
ar er sterk tilfinning fyrir veðri í
flestum verkanna, ekki síst vatns-
veðri. Verkin á sýningunni hanga
hins vegar mjög þétt og af þeim sök-
um taka þau athygli hvert frá öðru.
Hin austrænu áhrif (sem þó gætir
ekki í öllum verkanna) birtast ekki
síst í pensilskrift listamannsins sem
oft minnir á kínverskt myndletur og
í sumum verkanna eru kínversk
tákn greinileg. Það er þó í sýning-
arskrá, sem gefin hefur verið út af
þessu tilefni, sem stefnumót aust-
rænnar heimspeki og íslenskrar
náttúru er hvað skýrast. Þar má sjá
myndir af öllum 30 verkum sýning-
arinnar, hver mynd við hlið kafla úr
Bókinni um veginn (Tao Te Ching)
sem kínverskri heimspekingurinn
Lao Tse ritaði um 400 f. Kr. Í þessu
samhengi öðlast myndverkin merk-
ingarvídd af heimspekilegum toga,
einkum hvað varðar samband manns
og náttúru.
Sýning Yu Xi lýsir ekki aðeins
persónulegri tjáningu listamannsins
á viðfangsefni sem stendur Íslend-
ingum nærri, heldur felur hún einnig
í sér nýtt sjónarhorn á náttúru
landsins.
Austrænt sjónarhorn
Flott sýning „Vatnslitatæknin leikur í höndunum á listamanninum.“
Myndlist
Listasafn Kópavogs – Gerðarsafn
Til 11. nóvember 2007. Opið þri.-sun. kl.
11-17. Aðgangur 400 kr. Eldri borgarar
og öryrkjar 200 kr. Ókeypis á föstudög-
um.
Austræn heimspeki og íslensk norðurljós
Yu Xi
Anna Jóa
PORTOBELLO Road nefnist
hlykkjótt gata í úthverfinu Notting
Hill í Lundúnum sem þekktast er af
samnefndri kvikmynd. Þangað
sækja kaupglaðir pílagrímar hvað-
anæva úr heiminum til að berja aug-
um útimarkað sem þar er á laug-
ardögum. Ýmislegt er þar vafalaust
spennandi að sjá, forngripi og djásn,
en algengustu sölubásarnir eru þó
skransölur.
Portobellostæti verður brasilíska
höfundinum Paulo Coelho að sögu-
sviði nýjustu skáldsögu sinnar,
Nornarinnar í Portobello, sem þó fer
um víðan völl. Líkt og sumar aðrar
skáldsögur þessa höfundar hefur
hún vakið áhuga og selst vel. Vissu-
lega er Coelho leikinn höfundur og
hugmyndaríkur. Hann nálgast sögu
aðalpersónunnar út frá sjónarhorni
margra þeirra sem umgangast hana
og því er söguþráðurinn rakinn í
fyrstu persónu sögu þeirra. Bókin er
því margrödduð. Hún er sögð af
mikilli sagnalist, persónusköpun er
skörp og fléttuð inn í fágaðan texta
sem hér birtist í góðri og lipurri þýð-
ingu Karls Emils Gunnarssonar.
Söguþráðurinn er þroskasaga
ungrar konu frá Líbanon, Sherine
Khalil sem er tökubarn af sígauna-
ættum. Líkt og í öðrum bókum Co-
elho er sagan andleg leit í anda ný-
aldarspeki full af sjálflægum
spurningum. Kallast bók hans á við
verk ýmissa höfunda á 20. öld. Mætti
í þessu sambandi nefna höfunda á
borð við Robert Graves, Carl G.
Jung og Mircea Eliade. Í Norninni í
Portobello glittir í erkitýpuhugsun
Jungs og hvíta gyðju Graves en
kannski eru hugmyndir Eliades fyr-
irferðarmestar. Kjarninn í þeirri
hugsun er sú tvíhyggja að veruleiki
mannsins sé annars vegar verald-
legur og hins vegar heilagur. Hið
heilaga birtist í manninum við
ákveðin skilyrði. Í reynd gefi það lífi
mannsins gildi. Því horfi hann jafnan
aftur til tíma goðsagnanna. Coehelo
gengur skrefi lengra og lætur goð-
sögnina birtast í persónum sínum,
gæðir þær tvínefnum, jarðneskum
nöfnum og goðsagnakenndum. Að-
alpersónan ber þannig einnig nafnið
Aþena og kennari hennar einn hið ís-
lenska nafn Edda. Einnig vitrast
Aþena öðrum sem allt að því guðleg
upprunavera í líki hinnar hvítu
gyðju og kallar sjálfa sig Ægisif. Í
kringum hana myndast sér-
trúarhópur sem kallar yfir sig átök
og vandræði.
Gallinn við þessa sögu er að í
löngum köflum hverfist hún um þess
háttar trúarheimspekilega moðsuðu,
persónur hennar þylja langar pre-
dikanir og sagan gerist álíka
óspennandi og rölt um skransölur
Portobellostrætis.
Sumir dá hins vegar dulrænt moð
(kitch) líkt og aðrir hafa yndi af því
að rölta um skransölur. Því hafa ef-
laust ófáir gaman af bókinni. Þetta
dulhyggjudaður er þó í mínum huga
aðalveikleiki sögunnar og lýtir hana
því að hún er að mörgu leyti
skemmtilega sögð.
Hvíta gyðjan í Notting Hill
BÆKUR
Skáldsaga
Karl Emil Gunnarsson þýddi úr ensku.
JPV-útgáfa 2007 – 272 bls.
Nornin í Portobello
eftir Paulo Coelheo
Skafti Þ. Halldórsson
Þulan „Tíu litlir negrastrákar“er eftir bandaríska söng-lagahöfundinn Septimus
Winner. Söngurinn var saminn árið
1868 en titlinum hefur verið breytt
þannig að nú er lagið víðast hvar
ekki skráð undir heitinu „Ten Little
Niggers“ heldur „Ten Little Indi-
ans“ eða „Ten Little Injuns“. Ástæð-
an er sú að orðið „nigger“ er meið-
andi. Það kom þó ekki í veg fyrir að
gefin væri út barnabók undir upp-
runalega heitinu árið 1894 hjá
McLoughlin Brothers í New York
þar sem þulan er skreytt litmynd-
um. Árið 1939 gaf Agatha Christie
út eina þekktustu sakamálasögu
sína nefnda eftir þulunni en þegar
bókin var gefin út í Bandaríkjunum
árið eftir var nafninu breytt í Ten
Little Indians. Fljótlega var heiti
bókarinnar breytt í Then There
Were None en hér á landi er hún
fyrst og fremst þekkt í þýðingu Jóns
Daníelssonar frá 1949 undir heitinu
Tíu litlir negrastrákar. Sú þýðing
kom síðast út hjá Skjaldborg árið
1992. Í Bretlandi kom bók Agöthu
einnig út undir upprunalegum titli
langt fram eftir öldinni, síðast árið
1978. Það var svo árið 1922 sem
barnabókin Tíu litlir negrastrákar
kom út á íslensku í þýðingu Gunnars
Egilson með myndskreytingum eftir
Mugg (Guðmund Thorsteinsson). Sú
bók hefur verið endurútgefin fimm
sinnum, nú síðast hjá Skruddu fyrir
fáum dögum. Bókin er einnig til í
þýðingu Lofts Guðmundssonar en
hún kom fyrst út árið 1948 og síðan í
nokkrum endurútgáfum (síðast
1988). En það er fyrst nú sem ís-
lenskum lesendum þykir eitthvað
athugavert við það að þessi bók
skuli gefin út.
Í Bandaríkjunum virðist barna-bókin Ten Little Niggers ekki
hafa verið endurútgefin mjög ný-
lega en eintak af henni er varðveitt
á safninu Jim Crow Museum of Rac-
ist Memorabilia í Ferris State Uni-
versity en það er reist til að minna
fólk á tímabil kynþáttahaturs í
Bandaríkjunum frá lokum Þrælastr-
íðsins 1865 til upphafs réttindabar-
áttu svartra um 1960. Á þetta bend-
ir Gauti B. Eggertsson í harðyrtum
pistli á bloggsíðu sinni (blog.cent-
ral.is/gautieggertsson). Tilefni
skrifa Gauta er endurútgáfa Tíu
litlu negrastrákanna hérlendis en
einnig það að hann segist sjálfur
hafa eignast lítinn negrastrák ný-
lega. Gauti býr í New York og má
skilja á honum að honum finnist um-
ræðan sem sprottið hefur um útgáfu
bókarinnar hér á landi að hluta til
vera í litlu samhengi við það hvern-
ig Bandaríkjamenn skynja og skilja
orðræðu eins og þá sem bókin um
Tíu litlu negrastrákana inniheldur.
Þula Winners er full af rasisma en
hún lýsir í raun viðhorfum hvítra til
svartra á hinu svokallaða Jim Crow-
tímabili í Bandaríkjunum (1865-
1960) „en Jim Crow er nafn tilbúins
karakters, trúðslegs svertingja sem
hafði alla þá eiginleika sem svert-
ingjar á þessum tíma voru sagðir
búa yfir: Hann var latur, hræðslu-
púki, vitlaus, borðaði of mikið ef
hann fékk mat … drakk of mikið
áfengi, átti ægilega mörg börn
(tíu?), því hann hafði auðvitað ekki
stjórn á kynferðiskenndum fremur
en öðrum … hann var ofbeldis-
fullur, alltaf syngjandi, og svo fram-
vegis“, segir Gauti. Og það eru ein-
mitt þessir eiginleikar sem þulan
segir að negrastrákarnir tíu deyi úr.
Ábending Gauta er rétt. Útgáfabókarinnar um Tíu litla neg-
rastráka og umræðan um hana, sem
hefur að hluta snúist um að réttlæta
útgáfu bókarinnar, afhjúpar viðhorf
eða kannski sofandahátt samfélags
sem hefur þar til nýlega verið nán-
ast einsleitt.
Viðhorf einsleitninnar afhjúpað
AF LISTUM
Þröstur Helgason
»En það er fyrst núsem íslenskum les-
endum þykir eitthvað
athugavert við það að
þessi bók skuli gefin út.
Ten Little Niggers Myndin er úr bandarísku barnabókinni Ten Little Nig-
gers (1894). Á myndum Muggs eru negrastrákarnir í lendarskýlum með
„feitar rauðar varir, allsberir í lendarskýlu, dálítið rottulegir á svip, og —
auðvitað — bikasvartir“, eins og Gauti segir í harðyrtum pistli.
trhe@mbl.is