Morgunblaðið - 19.05.2008, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 19.05.2008, Blaðsíða 30
30 MÁNUDAGUR 19. MAÍ 2008 MORGUNBLAÐIÐ ✝ Nora SueKornblueh fæddist í Hunt- ington í New York- ríki í Bandaríkj- unum 18. júlí 1951. Hún lést í Reykja- vík 2. maí síðastlið- inn. Foreldrar hennar eru Eleanor Kornblueh, fædd 25.10. 1921, og Fre- derick Kornblueh, fæddur 23.1. 1920. Systkini hennar eru Jean Patiky, fædd 1946, Nancy Case, fædd 1949, og Paul Bandaríkjunum. Hún fluttist til Íslands 1980 og starfaði um ára- bil sem sellóleikari í Sinfón- íuhljómsveit Íslands, Íslensku óp- erunni og í Þjóðleikhúsinu og lék á fjölmörgum kammertónleikum bæði hér heima og erlendis. Mörg íslensk tónskáld skrifuðu verk sérstaklega fyrir Noru, þar á meðal Hjálmar H. Ragnarsson og Snorri Sigfús Birgisson. Nora var einnig sellókennari í Tónlist- arskólanum í Garðabæ, Tónskóla Sigursveins og í Suzuki- tónlistarskólanum. Síðustu árin einbeitti Nora sér að sérkennslu fyrir börn með dyslexíu og hélt hún fyrirlestra fyrir grunnskóla- kennara og tónlistarskólakennara um kennslufræði. Útför Noru verður gerð frá Fossvogskirkju í dag kl. 15. Kornblueh, fæddur 1957. Eiginmaður Noru er Óskar Ingólfsson klarinettleikari, fæddur 10.12. 1954. Þau giftust 31. ágúst 1981. Börn þeirra eru 1) Mikhael Aar- on, f. 28.2. 1982, og 2) Aron Ingi, f. 19.4. 1988. Nora útskrifaðist frá Boston Univers- ity með BM-gráðu í sellóleik árið 1974. Að námi loknu starfaði hún við kennslu og tónlistarflutning í Enginn getur metið þau smyrsl sem þú barst á hjörtu fólks í kringum þig. Sætu orðin sem þú gafst okkur, alltaf fullkomlega til staðar og tíminn var allt í kringum þig. Fyrir mig persónulega varstu dásamlegur sellókennari og stuðn- ingsmaður, vinkona og félagi í hug- leiðingum um lífið og heiminn. Hjá þér fékk ég fyrsta tebollann, sem ég hef lagað daglega síðan en aldrei tek- ist að gera hann jafn unaðslegan og hann bragðaðist alltaf í eldhúskrókn- um hjá þér. Allt í kringum þig ríkti einstök hlýja, alla leið til Þýskalands lagði hlýjuna frá þér og hugsun þinni. Ég gat tekið upp tólið og hringt ef eitthvað var og þótt ég sæti í Þýskalandi og þú á Íslandi ríkti þetta Nóru/Ólafar– andrúmsloft sem hefur fylgt mér hvert skref í lífinu. Ég á alltaf eftir að eiga þennan kraft, ég finn að hann er til staðar, þú ert til staðar. Takk, elsku Nóra. Ég missti þig og margir aðrir. En nú hugsa ég sérstak- lega til ykkar, elsku Mikael, Aaron og Óskar, ég finn óskaplega til með ykk- ur, samhryggist ykkur frá innstu hjartarótum. Þið fáið allan minn kraft. Dægrin sem hringstefjur kölluðust á milli fjarlægra skóga sem úthöf skildu Dægur sem kallast á stefjum um þig Dægur sem kallast á dægrum þínum Öll þessi ár Öll þessi ár (Stefán Hörður Grímsson) Ólöf Sigursveinsdóttir. Í einu vetfangi hverfur frá móðir kærs bernskuvinar sonar míns, óþreytandi og uppbyggjandi selló- kennari dóttur minnar, stoltur eig- andi sellós nr. 2 eftir manninn minn – en síðast en ekki síst kær vinkona okkar allra. Saga þess vinskapar hófst árið 1987 þegar Nora pantaði sellóið fyrr- greinda. Hún átti þá von á yngri syni sínum og ég á mínum. Sellóið var í smíðum á meðan við biðum barnanna og það stóð heima að öll litu þessi und- ur dagsins ljós á mánaðartímabili vor- ið 1988. Vegna þessa upphafs varð allt í okkar samskiptum svolítið sérstakt – mikið í kortunum og óráðin fram- tíðin eins og bláminn í vorloftinu. Það voru þessi sameiginlegu áhugamál; tónlistin og fjölskyldan, sem styrktu vináttuböndin á milli mín og minnar fjölskyldu og Noru og hennar. Hún og maðurinn minn áttu sameiginlegan bakgrunn frá Long Island í New York – höfðu búið í sama úthverfinu þar á sínum uppvaxtarár- um. Nora afhjúpaði hliðar á mannin- um mínum sem ég hafði aldrei kynnst – dustaði rykið af amerískum minn- ingum hans með ógleymanlegum hætti þegar þau rifjuðu upp og sungu hlæjandi gamlar sjónvarpsauglýsing- ar. Í samverustundum okkar átti sér fastan samastað Snorri Sigfús Birg- isson, vinur okkar allra, einskonar andlegt foreldri og fyrirmynd barna beggja fjölskyldna. Hann, og hans hlýlega og uppbyggilega nærvera, er í mínum huga órjúfanlegur hluti af fjöl- skyldumyndinni í Skerjafirðinum. Óskar, Mikael Aaron, Aron Ingi og Snorri Sigfús voru og eru allir í mín- um huga „strákarnir hennar“ Noru. En við hittumst líka stundum einar ég og Nora. Og það var eins og við manninn mælt; þá brustu allar flóð- gáttir í djúpstæðu trausti í samtölum okkar um lífið og tilveruna. Ekki þó í léttvægum skilningi dægurhjalsins því ég minnist þess ekki að hafa nokkru sinni rætt við Noru um það sem ekki skipti máli; um það sem ekki var brýnt og knúði lífið og skilning okkar á því áfram. Þrátt fyrir ólíkan bakgrunn vorum við því systur í anda, eins og hún orðaði það eitt sinn. Systur í anda einu sinni þýðir í raun um alla eilífð. Það sem Nora hafði að miðla var nefnilega þess eðlis að það mun ætíð lifa með mér – rétt eins og ég ímynda mér að lífssýn hennar og viðmót lifi með öllum sem kynntust henni. Hún var leiftrandi vel gefin – og það sem meira er um vert; kunni að nota þá greind er felst í slíkri gjöf. Hún var hugrakkari en flestir í þeim skilningi að hún hlýddi eigin hug- myndum um hvað væri einhvers virði í lífinu. Hún virti skoðanir og ákvarð- anir annarra, ekki bara í orði heldur einnig á borði. Hún var bæði siðfáguð og siðmenntuð í besta skilningi beggja orða. Og þar fyrir utan var hún svo undursamlega falleg að unun var á að horfa. Okkur í Ingólfsstrætinu skortir orð til að tjá samúð okkar í garð þeirra „strákanna hennar“ Noru. Eina huggunin í þeirra missi er sú arfleifð er hún lét þeim í té með viðmóti sínu og lífssýn – og ekki síst ótakmarkaðri ást og umhyggju fyrir þeim öllum. Fríða Björk Ingvarsdóttir. Nóra og ég áttum mjög margt sam- eiginlegt. Við vorum báðar útlending- ar á Íslandi, komum báðar frá New York og höfðum svipaðan fjölskyldu- bakgrunn. Tilviljun réð kynnum okk- ar. Systir hennar þekkti náinn vin minn í Bandaríkjunum og hvöttu þau okkur til að hafa uppi á hvor annarri í Reykjavík. Ég þekkti hana í meira en 26 ár. Nóra var ein hlýjasta, glaðlynd- asta og örlátasta manneskja sem ég hef kynnst. Bros hennar líktist sól- argeisla sem varpaði birtu á líf okkar. Hún var næm og skapandi, frábær tónlistarmaður og gefandi kennari, sem var mjög annt um alla nemendur sína. Hún hjálpaði mörgum lesblind- um einstaklingum að sigrast á ævi- langri baráttu og ná árangri. Nóra og ég unnum saman í Fjölmenningarráði að því að bæta hag útlendinga á Ís- landi. Líf Nóru tók miklum breyting- um fyrir tveimur árum þegar hún veiktist af dularfullri röð alvarlegra og hamlandi einkenna sem mjög erfitt var að bera kennsl á. Veikindi hennar voru yfirþyrmandi. Hún þráði svör, þráði fyrra líf, og mest af öllu þráði hún frið og endalok þjáningarinnar. Ég mun alltaf minnast hennar með hlýhug, sem er minning um yndislega manneskju. Hope Knútsson, formaður Siðmenntar. Það eru 20 ár síðan Nóra vinkona mín kom eins og ljósgeisli í líf mitt. Ég segi ljósgeisli því hvar sem hún kom fyllti nærvera hennar allt með birtu, hlýju og gleði. Aldrei hef ég kynnst já- kvæðari og yndislegri mannveru. Þetta var þegar ég var nýbúin að opna litla kaffihúsið Tíu dropa og fjöl- skylda Nóru bjó þar rétt fyrir aftan. Hún sagðist nota kaffihúsið mitt sem stofuna sína því þau bjuggu þröngt svo hún kom með vini sína og gesti til mín. Við urðum strax eins og ein fjöl- skylda og allar stúlkurnar sem unnu hjá mér elskuðu hana líka. Stundum komu þau öll eða bara hún með litla barnið, hann Aron Inga, sem nú er tvítugur. Nóra átti það líka til að koma með sellóið sitt og spila fyrir gestina mína eitthvert verkið sem hún var að æfa þá stundina. Þetta voru gleðidagar, fullir af von, gleði og framtíð. Við fundum að við áttum margt sameiginlegt, vorum báðar júlíbörn og mennirnir okkar desemberbörn, eins áttu feður okkar sama afmælis- dag og þegar Fred varð sjötugur héldum við sameiginlega upp á af- mælin í Vogaselinu heima hjá mér. Þau Fred og Eleanor foreldrar hennar eru mér ljóslifandi og einu sinni hittum við þau í New York og borðuðum kvöldverð í Twin Towers. Veröldin er fallvölt, nú er hún Nóra okkar horfin eins og þeir. Það var þyngra en tárum taki að horfa á Nóru veikjast og versna og versna og smám saman missa lífs- gleðina úr augunum. Mæta sársauk- anum í svipnum. Við sem erum heil- brigð getum ekki með nokkru móti sett okkur í spor þeirra sem líða þján- ingar ár eftir ár án þess að nokkur lækning sé í sjónmáli. Nóra mín mun alltaf lifa og ljóma í minningunni inni í mér og ég elskaði hana. Elsku Óskar, Mikael og Aron Ingi og Snorri frændi, mikill er missir ykk- ar. Við Bubbi biðjum líka að heilsa Fred og Eleanor Kornblueh, gleði, ást og kærleikur, það var Nóra. Kveðja, Steinunn Bergsteinsdóttir. Nora kenndi á selló í mörg ár í Su- zukitónlistarskólanum í Reykjavík. Hún var alltaf jákvæð og brosandi, bæði í kennslu og í samskiptum við kennara og starfsfólk skólans. Hún vakti yfir velferð nemenda sinna með samblandi af hlýju og ákveðni. Þegar hún sat fyrir framan nemendahóp og spilaði með þeim seiddi hún tóna úr sellóinu sem gott var að hlusta á. Með hljóðfæraleik sínum var hún fyrir- mynd nemenda sinna en líka var fal- legt að horfa á hana þegar hún spilaði því hún var svo aðlaðandi við hljóð- færið og gerði allt að því er virtist áreynslulaust. Það var gott að tala við Noru því hún hafði einlægan áhuga á því hvernig aðrir hefðu það og hverjum þeim er við hana talaði fannst hann eiga athygli hennar óskipta. Við sökn- uðum Noru þegar hún hætti selló- kennslunni við skólann og sneri sér að öðrum störfum en við vissum að hún myndi láta gott af sér leiða á öðrum vettvangi. Við sendum fjölskyldu Noru okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðj- um um styrk þeim til handa á þessum erfiðu tímum. Kennarar og starfsfólk Suzukitón- listarskólans í Reykjavík. Ástríður Haraldsdóttir. Eitt sinn skal hver deyja. Af hverju er svona erfitt að læra þetta? Eins og þetta er öruggt, víst og einfalt. Eitt sinn skal hver deyja. Eitt, tvö, þrjú, fjögur, fimm, sex atkvæði. Þessi setn- ing er hvorki í vals- né siciliano–takti. Hún er meitluð í íslenskt mál. Nora Kornblueh kom úr útlenskri átt og bar með sér framandi þjóðar- arf. Inn í persónuleika hennar var of- in vitneskja um helförina og það hvað lífið sjálft er óendanlega dýrmætt og hverfult. Í henni hljómaði niður ald- anna safaríkur, frjór, fyndinn og hryllilega sorglegur eins og sinfónía eftir Mahler. Þessi margbrotna listakona gafst okkar einslita samfélagi fyrir hart- nær þrjátíu árum og hún auðgaði um- hverfi okkar alla þá tíð með kímni, ást, næmi, góðvild, umburðarlyndi, miklum áhuga á börnum og uppeld- isstörfum og síðast en ekki síst tón- list. Eru þá aðeins taldir fáeinir mannkosta hennar. Viðhorf hennar til hógværðar, friðar og annarra tign- ustu eiginleika mannanna höfðu djúp áhrif á þá sem nutu þeirra forréttinda að kynnast þeim. Nora Kornblueh las fólk, ekki síst ungviði, af mikilli skarp- skyggni og fylltist óendanlegri virð- ingu þegar hún skynjaði guðlega eig- inleika í náunganum. Í því fólst lotning, hugrekki og viska eins og ég hef hvergi annars staðar fyrir hitt. Einstök kona er fallin frá og ber að þakka af öllu hjarta fyrir þau auðæfi sem henni var svo eðlilegt að strá eins og drottning í kringum sig í formi uppörvunar, augnatillita, brosa og samkenndar. Víst er að með slíkan lífsferil að baki fer hún nú í friði. Óskar hefur misst óviðjafnanlegan lífsförunaut og Mikael og Aron móður sem átti engan sinn líka. Megi mild vorgolan strjúka vanga þeirra og sumardagarnir framundan veita þeim líkn. Guðrún Sigríður Birgisdóttir. Nora Kornblueh kom fyrst hingað til lands haustið 1980. Hún hafði selló- ið sitt meðferðis og ætlaði að leika á einum tónleikum á vegum Kammer- músíkklúbbsins. Síðan ætlaði hún heim aftur til Bandaríkjanna, en það fór á annan veg. Hún kynntist ungum manni hér í borginni sem nýkominn var heim frá námi og það var eins og við manninn mælt, Óskar og Nora felldu hugi saman. Í stað þess að fara aftur til Bandaríkjanna ílentist Nora á Íslandi. Nú tók við hjónaband, tónleika- hald, sellókennsla, ferðalög, veislu- höld og allt það sem gerir lífið að æv- intýri. Nora kunni að njóta lífsins betur en aðrir sem ég hef kynnst. Mesta ævintýrið var þegar þeim hjón- um fæddust tveir synir, fyrst Mikhael Aaron og sex árum síðar Aron Ingi. Hamingjan blasti við. Fyrir nokkrum árum sneri Nora við blaði, lagði sellóið á hilluna að mestu og hóf störf sem kennari barna með námserfiðleika. Hún hafði ótrú- lega hæfileika sem leiðbeinandi en að auki naut hún þjálfunar hjá færustu sérfræðingum í því sem hún vildi stunda. Það var því ekki að undra þótt hún yrði vinsæll kennari og ætti auð- velt með að hjálpa börnum og reynd- ar fullorðnum líka. Nýlega sagði hún mér að hún hefði hitt móður eins af nemendum sínum. Sá nemandi hafði átt í miklum erfiðleikum en blómstr- aði nú sem aldrei fyrr. Þetta gerðist reyndar oft og gladdi Noru í veikind- unum, – hún þráði að geta byrjað aft- ur að vinna. Nora kenndi sér meins fyrir tveimur árum. Hún leitaði sér lækninga og barðist hetjulegri bar- áttu. Nú er þeirri baráttu lokið og Nora hefur fundið sinn frið. Það er svo ótal margt sem ég minn- ist þegar ég hugsa um Noru. Eitt af því sem einkenndi hana var hversu eðlilegt það var henni að samgleðjast vinum sínum á góðri stundu. Ef fyrir kom að hljóp á snærið hjá mér í ein- hverju eða ef eitthvað gladdi mig var heillaráð að hringja í Noru því hún hafði lag á að margfalda gleðina. Hún var hvetjandi og gefandi og hafði góð- an og jákvæðan vilja sem smitaði út frá sér. Viðmótið einkenndist af bros- mildi og hlýju og var ómótstæðilegt. Nemendur hennar og aðrir sem þekktu hana nutu þessara eiginleika í ríkum mæli. Ég á henni ótal margt að þakka fyrir utan það hvað hún lagði mikla alúð í að æfa og flytja tónverk sem ég samdi handa henni. Hugur hennar var opinn og það var fátt sem fór framhjá henni. Þegar hún upp- götvaði eitthvað nýtt var henni nauð- syn að kynna það öðrum og við vorum mörg sem nutum góðs af því. – Og hún leyfði mér annað slagið að halda í hendurnar á strákunum sínum meðan þeir voru litlir. Ég get aldrei fullþakk- að þá gæfu að hafa kynnst Noru. Ég bið þess að almættið gefi fjöl- skyldu Noru styrk til að takast á við sáran missi. Blessuð sé minning Noru Kornblueh. Snorri Sigfús Birgisson. Elsku Óskar, Mikhael, Aron. Áðan byrjaði ég að skrifa um hverf- ulleikann og lífið, mannleg tengsl og eitthvað sem er handan við mannleg- an skilning. En öll þessi orð verða máttlaus og yfirborðskennd þegar ég hugsa um Noru og ég fer bara að gráta. Líklega er ekkert hægt annað en lifa sínu eigin lífi til fulls í virðing- arskyni, eins og Roshi sagði. Síðast sá ég ykkur saman í bílnum þegar ég hjólaði yfir Hringbrautina um daginn. Þetta einlæga og hlýja bros sem allir fengu að njóta í návist hennar. Og það er einmitt það sem stendur eftir. Hugur minn er hjá ykkur sem aldr- ei fyrr. Vinur ykkar og dharma-bróðir, Árni Björn. Ég var gersamlega sleginn þegar ég fékk þau tíðindi að þú værir látin, Nora. Ég get ekki skrifað þetta öðru- vísi en að ávarpa þig beint, elsku Nora, þú gafst mér svo mikið, en þó fyrst og fremst yngri syni mínum. Það var svo mikil gæfa að finna þig þegar við hjón- in vorum að reyna að hjálpa drengnum okkar í gegnum námið sitt. Þú varst eins og himnasending. Hjarta þitt var svo stórt, þú gafst svo mikið, við vorum öll heilluð af hlýju þinni, kærleika, fjöri og skilningi á þessum vanda sem svo mörg börn ganga í gegnum í skóla- kerfinu. Þú gafst honum þann styrk, en þó fyrst og fremst það sjálftraust sem ávallt þarf til að takast á við verk- efni. En þú kenndir mér einnig svo margt. Þú kynntir mér Ron Davis löngu áður en kenningar hans urðu þekktar hér á landi. Ég las bókina, sem þú lánaðir mér, um The Gift of Dyslexia, sem var mér opinberun. Loksins var einhver sem skildi hvernig við, sem erum lesblind, hugsuðum og hvernig heili okkar starfar. En þú hafðir þennan skilning þegar. Á þeim tíma viss ég ekki og eflaust ekki þú heldur, að við ættum eftir að vinna og nema saman. Nærvera þín var svo góð, þú varst alltaf jákvæð og dróst ávallt fjöður yfir það sem mislægt var. Tónlistin gerði þig eflaust að enn betri manneskju. Hún gerði þér kannski kleift að laða ávallt fram það best í öllu. Ekki bara það heldur skilaðir þú því svo rakleitt til nemenda þinna að þeir blómstruðu eftir að vera hjá þér. Já- kvæðni þín og hvatningarorð gerðu hvern mann að meistara og það varst þú alveg örugglega sjálf. Meðan ég skrifa þetta fyllist ég miklum söknuði og sektarkennd að hafa ekki haft meira samband við þig í veikindum þínum. Við áttum svo góðar stundir saman í Davis-náminu í Mos- fellsbænum og ekki síður þegar við vorum með leirtímana á Hringbraut- inni. Það gaf mér mikið og styrkti mig og vonandi ekki síður nemendur okk- ar. Ég hef sjaldan kynnst eins hjarta- hlýrri manneskju og þér. Það var svo gaman að umgangast þig, greindin og skarpleg hugsunin var ávallt ofan á, og við áttum okkur drauma um framgang Davis á Íslandi. Þú gafst mér oft svo góð ráð. Þú varst einnig ein af þeim manneskjum sem vildu starfa sjálf- stætt og þér tókst það svo vel – þú varst lífsfílósófer, alveg örugglega. Fallega brosið þitt bræddi hvert hjarta og ég sakna þess svo innilega. Að lokum langar mig að þakka þér að- setursval þitt og að leyfa okkur Ís- lendingum að njóta krafta þinna og samveru. Þú varst frábær sellisti og tókst þátt í flutningi margra verka, m.a. með Sinfóníuhljómsveit Ísland, en fyrst og fremst hjálpaðir þú svo mörgum börnum að berjast í gegnum námsvanda sinn og sjálfsmynd. Ég verð þér ævinlega þakklátur fyrir að gæða líf mitt, og þá sérstak- lega sonar míns miklum styrk og gleði, og að trúa því að dyslexía er náðargjöf en ekki fötlun. Megi Guð geyma þig, sem hann örugglega gerir, snilling eins og þú ert. Þakka þér fyrir að hafa verið til. Ég, Jóhanna og Benni vottum Óskari, Mikhael Aaron og Aroni Inga okkar dýpstu samúðar- kveðjur. Guð geymi ykkur vel. Þór Elís Pálsson. Nora Sue Kornblueh MINNINGAR

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.