Sjómannablaðið Víkingur - 01.02.1957, Blaðsíða 19
Furðulegar deilur um m.s. Hamrafell
Þann 9. des. sl. kom hingað til Islands stærsta
skip flotans m/s Hamrafell um 17.000 smál. að
stærð. Við venjulegar aðstæður getur skipið flutt
um 15.500 smál. af olíu. Skipið var byggt hjá
Deutsche Werft í Hamborg 1952. En á síðastliðnu
vori keypti Samb. ísl. samvinnufélaga og Olíu-
félagið h/f skipið í sameiningu, en það fékkst
ekki afhent fyrr en 21. sept. sl.
Méð komu þessa skips til landsins í eigu inn-
lendra aðila er tvímælalaust stigið eitt stærsta
spor í siglingamálum þjóðarinnar.
Allt frá því að Eimskipafélag Islands eignaðist
sitt fyrsta skip, e/s Gullfoss, sem á þeim tíma
styrkti Islendinga í trú þeirra á sjálfræði og
efnahagslegt sjálfstæði, hefur vakað sá draumur
í vitund fólksins, að Islendingar þyrftu að verða
sjálfum sér nógir um farkost til þess að flytja
nauðsynjar að iandi og afurðir á erlenda markaði.
Þessu takmarki er að vísu ekki náð ennþá, við
þurfum að hafa leiguskip í förum við inn- og út-
flutning, þó við höfum eignast allmyndarlegan
farskipakost, sem veitir þjóðinni stórkostlegt ör-
yggi fyrir því að innilokast ekki og verða hung-
urmorða þó eitthvað bjátaði á með siglingar ann-
ara þjóða til landsins eins og átti sér stað fyrr
á tímum.
Forustumenn Sambands ísl. samvinnufélaga og
Olíufélagsins h/f hafa með þessum skipakaupum
leyst stórt hlutverk, sem öll þjóðin mætti virða
að verðugu. Og íslenzk sjómannastétt hefur ekki
látið sitt eftir liggja. Það hefur ávallt verið talið
að til þess að starfrækja svo stór olíuskip þyrfti
sérmenntaða sjómenn, og fleiri mánaða þjálfun.
En íslenzka skipshöfnin, sesi tók við Hamrafell-
inu náði því á örskömmum tíma að starfrækja
skipið, og myndi sóma sér hvar sem væri í heim-
inum á siglingaferðum slíkra skipa.
Það munu vera um þrjú ár síðan fyrst var farið
að vinna að því af alvöru hér á landi að kaupa
olíuflutningaskip, en ekki komist í framkvæmd
fyrr en þetta af ýmsum ástæðum, sem hér verður
ekki reynt að sundurgreina.
Hins vegar hefur það komið fram í sambandi
við kaupin á Hamrafelli, að skipið muni hafa
kostað um 46 millj. króna og ef kaupin hefðu
tekizt einu eða tveimur árum fyrr, hefði slíkt
skip kostað um 20 millj. krónum minna. En það
samsvarar því, að ef strax hefði verið hægt að
tryg'gja kaup á olíuskipi, þegar áformin hófust,
hefði mátt fá tvö skip fyrir sama verð og eitt
nú. Og þá hefðum við staðið nærri því nú að eiga
skipakost til þess að flytja nærfellt alla olíu til
landsins á eigin skipum, og það hefði sennilega
sparað okkur aðrar 20 millj. krónur, sem við höf-
um á þessum tíma greitt útlendingum í farm-
gjöld fyrir olíu og sjáum aldrei eyrir af aftur,
en hefði verið hægt að nota til stuðnings við kaup
á þriðja olíuskipinu ef íslenzkir aðilar hefðu
fengið að njóta sömu aðstöðu.
Það má að vísu segja, að það er auðvelt að
reikna slíkt út eftir á, með þeim viðhorfum sem
nú hafa skipast í heiminum, en ekki voru fyrir-
sjáanleg á þeim tíma sem liðinn er. Og mætti
því ætia, að menn reyndu að bæta nú fyrir mis-
tökin með því að leggjast á það með öllum kröft-
um, að þjóðin gæti sem allra fyrst eignast fleiri
slík skip sem Hamrafell, þó svo að eitthvað þyrfti
á sig að leggja fyrir það.
En svo undarlega bregður við, að þetta 'glæsi-
lega afrek í siglingamálum íslendinga er að hverfa
þjóðinni á fyrstu vikunum eftir komu skipsins
til iandsins í moldviðri pólitískra gjörninga. Fann-
gjöld skipsins, sem eru lægri en skipanna sem
sigla á sömu leiðum með sams konar farm, en
lægri tilkostnað heita „okur“ og dugur forustu-
mannanna „glæpur“.
íslenzka þjóðin hagnast um 10 millj. króna á
farmgjöldum m/s Hamrafells fyrstu mánuðina,
en verður að greiða útlendingunum sem sigla
samhliða Hamrafellinu orðalaust tvöfalda þá upp-
hæð á sama tíma.
Islenzka ríkið fær milljóna tekjur af því að
Hamrafell er íslenzk eign. íslenzkir eigendur olíu-
skipsins hafa fært og færa þjóðinni tugmilljóna
verðmæti inn í landið ef mölur úlfúðarinnar fær
ekki grandað þessu dýrmæta djásni í höndum
þeirra.
Það yrði því Islendingum dýr prentsverta, ef
það tækist með pólitískum bragðaleikjum og
ábyrgðarleysi að myrkva fólki svo sýn, að þjóðin
færi í alvöru að trúa að hún væri að tapa á því,
að Hamrafell er íslenzk eign.
H. J.
19