Náttúrufræðingurinn - 1954, Page 11
MÓBERGSMYNDUN 1 LANDBROTI
121
ar myndanir og þær, sem einkenna hina svokölluðu móbergsmynd-
un. Eitt og sama hraunflóð virðist því geta myndað venjulegl basalt,
kúlubasalt og móberg.
Mér dettur auðvitað ekki í hug að halda því fram, að öll móbergs-
myndunin sé á þennan hátt til orðin. Hitt tei ég ekki ólíklegt, að
nokkur hluti hennar fái sína eðlilegustu skýringu með því, að gengið
sé út frá sams konar myndun og hér hefur verið reynt að lýsa.
Eins og kunnugt er, ná Landbrotshólarnir yfir allstórt svæði. Sé
það rétt, að gjallið verði að móbergi, sýnir það, að vel getur verið,
að allmikið móberg hafi myndazt án sambands við jökla og einnig
án þess, að um þurfi að vera að ræða hraun af sérstakri gerð.
Víða er mikið af venjulegu basalti innan um móbergið, og hefur
sumt af því verið talið sem yngri innskot í það. Ekki þykir mér ótrú-
legt, að eitthvað af því, sem þannig hefur verið skýrt, sé af svipuðum
uppruna og basaltið innan um gjallið í Landbroti. Með smásjár-
rannsóknum ætti að vera hægt að skera úr því.
Eftir að Landbrotshraunið rann, hafa ár og lækir kvíslast um
það og borið í það sand og leir. Þannig hafa lautir og dalir víða
fyllzt af framburði vatna. Mikið er einnig af foksandi í hrauninu,
einkum austan og suðaustan til. Jafnframt hefur hraunið sjálft veðr-
azt að mun, sérstaklega þar sem það er gjallkennt. Þarna ægir því
öllu saman, en eins og allir vita, er slíkt ekkert óvenjulegt innan
móbergsmyndunarinnar.
Allstór á hefur runnið suður hraunið og fallið úr því í Tröllshyl,
skammt frá Seglbúðum. Sennilega eru t. d. Ófærugil og Hestlækjar-
gil mynduð af kvíslum úr sömu á. Sama er að segja um farveginn
milli Þykkvabæjar og Seglbúða og einnig um farveginn rétt fyrir
austan Hólm, þar sem Ármannskvísl nú rennur. Stór farvegur sést
rétt austan við Dalbæjarstapa, og hverfur hann þar undið hraunið
frá 1783. Farvegir sjást víða í Landbroti, bæði eftir vatn, sem runn-
ið hefur ofan á hrauninu, og eins eftir læki, sem fallið hafa undan því.
örnefni benda einnig til þess, að lækir hafi fyrrum verið á fleiri
stöðum en nú er. Hvenær áin, sem Tröllshylur er myndaður ali
hefur hætt að renna, verður ekki með vissu sagt. Þess má þó geta,
að öskulagið frá Öræfajökulsgosinu 1362 er að því er virðist óhreyft
i farveginum rétt sunnan við hylinn. Fossinn, sem féll í Tröllshyl,
hefur því að líkindum verið þagnaður alllöngu áður.